laugardagur, 27. ágúst 2011

Yellowstone

Undanfarin ár hefur bandarískur tengdasonur minn oft haft það á orði að honum fyndist ekki vera innistæða fyrir fullyrðingum íslendinga um útvist á Íslandi. Við töluðum um að landslag og gönguleiðir væri svo sérstakt að sambærilegt fyndist ekki annars staðar. Hann ólst upp við útivist í fjöllum Idaho og hann lagði til við færum þangað við tækifæri.

Loks fannst tími sem hentaði öllum og lagt var í hann um verzlunarmannahelgina. Eftir um 10 tíma flug með nokkrum millilendingum vorum við komin til Jackson Hole í Wyoming, eina flugvöllinn innan Yellowstone þjóðgarðsins. Þar höfðum við leigt lítinn og lipran sendibíl sem var búið að breyta þannig að í honum var gott rúm auk tveggja sætanna fram í. Undir rúminu voru útilegugræjur og pláss fyrir töskur. Þetta varð okkar heimili næstu 2 vikurnar og fór prýðilega um okkur. Við áttum eftir að aka liðlega 2.000 km og bíllinn eyddi nánast engu og benzínið helmingi ódýrara en heima.


Leið okkar lá frá Jackson í gegnum Teton svæðið sem er einn af 390 þjóðgörðum BNA. Hann liggur fast við Yellowstone þjóðgarðinn. Teton er umfangsmikið svæði með fjöllum allt upp í um 4.000 hæð og mörgum vötnum og vatnsföllum. Allt svæðið skipulagt með nokkrum tjaldsvæðum tengdum saman með miklu gönguslóðakerfi. Á svæðinu eru mikil og vinsæl skíðasvæði. Aðgangseyrir inn í garðinn er 3.000 kr. fyrir okkur bæði 7 daga og gildir fyrir báða þjóðgarðana. Innifalið í því var veiðileyfi í ám og vötnum.

Eftir að hafa eytt fyrsta deginum í að skoða Teton ókum við inn í Yellowstone fórum úr um 1.000 m hæð upp í 2.600 m hæð, sem við áttum eftir að vera í meirihluta tímans. Fyrsta tjaldsvæðið var við eitt af tjaldsvæðunum við Yellowstone vatn, þar lærðum við að allir kynda varðeld við sitt tjald, til að elda og ekki síður til þess að halda flugunni fjarri.

Í Yellowstonegarðinum eru 8 tjaldsvæði, um 60 km á milli flestra þeirra. Þau voru misstór en nokkur tóku um 7.000 gesti. Á öllum voru snyrtingar og verzlun fyrir helstu nauðsynjar. Auk þess er á nokkrum þeirra einnig stórt hótel og veitingastaður. Nokkur munur er á þessum tjaldsvæðum og því sem við venjumst á Ísland, þau eru eins og tjaldsvæði víðast í Evrópu og BNA með afmörkuðum básum sem maður leigir og þarf að panta fyrirfram eða mæta fyrri part dags á annatímum til þess að ná plássi.

Fullkomin ró verður að vera frá kl. 22 – 06, bannað að setja bíl að önnur tæki í gang. Í hverjum bás er markað svæði fyrir bíla og húsvagna og svo gróið svæði fyrir tjöld. Borð með áföstum bekkjum er í hverjum bás og eldstæði fyrir varðeldinn. Það kostar um 3.000 kr. nóttin að leigja bás og í hverjum bás mega gista mest 6 einstaklingar.

Við fórum nokkuð illa út úr mýbitinu fyrstu dagana, en eftir liðlega viku virtist varnarkerfi líkamans búið að samsama sig við eitrið í bitunum og maður hætti smásaman að bera á sig varnareitrið.

Yellowstone svæðið er stórkostlegt með mörgum gríðarlega fallegum háhitasvæðum, mikilfenglegum árgljúfrum og fossum. Útilokað er lýsa náttúrufegurðinni, en óhætt að nota lýsingarorð í efsta stigi, okkar hverasvæði eru lítil miðað við þeirra, en maður þekkir alla litadýrðina og veit hvernig á að umgangast svæðin.

Allur þjóðgarðurinn er vandlega skipulagður með afmörkuðum og uppbyggðum göngustígum á fjölsóttustu svæðunum og svo merktum göngustígum á milli tjaldsvæðanna og upp í fjöllin. Fjölmargir verðir starfa þarna og einnig fer fram gríðarlega mikil náttúrufræðsla og rannsóknir á svæðinu. Mjög víða verður maður var við hið fjölbreytta dýralíf, reyndar sáum við ekki birni og úlfa, en flest önnur dýr sáum við.

Maður hætti fljótt að hugsa um hættu vegna dýra, farðu bara eftir þessari grundvallarreglu var manni kennt. „Haltu þig við göngustígana og vertu ekki að gera tilraunir til þess að nálgast dýrin. Þó þau virðist vera gæf, þá veist þú ekkert hvernig þau bregðast við ef reynt að nálgast þau of mikið. Aldrei fara nær dýrunum en 25 metra og haltu þér í 100 m. fjarlægð frá björnum og úlfum. Aldrei gefa dýrunum mat og geymdu allan mat inn í tjöldum eða í bílunum á nóttunni. Mesta hætta er fólgin í því að lenda á milli birnu og húna hennar. En birnirnir halda sig oftast fjarri þeim stöðum sem von er á mönnum.“





Við vorum 4 daga á Yellowstonesvæðinu og fórum um um alla markverðustu staðina og gengum upp um 4.000 m hæði í lengstu göngutúrunum. Það er óhætt að segja að það er margt sem við eigum langt í land með að koma okkar útivistarsvæðum í lag. Það verður ekki gert nema að stórauka fjárframlög til þjóðgarðanna, það verður ekki gert nema með einhverskonar skattkerfi fyrir útvistarsvæðin. Okkar vinsælustu svæði þola ekki meiri ágang og það verður að beina för vaxandi gestafjölda inn á markaðar gönguleiðir. Í Yellowstone fer fram víðtækt rannsóknarstarf og þar fá margir nemendur fyrsta flokks aðstöðu og kennslu í jarðfræði svæðisins.

Seinni vikuna fluttum við okkur yfir í Sawtooth garðinn. Garðurinn ber nafn eftir tignarlegum fjallgarði sem er hluti af Klettafjöllunum, tindarnir minna á tennur í stórviðarsög. Garðurinn er gríðarlega stór og um hann rennur hin fræga Salmon river (laxá) og vorum á tjaldsvæðum á bökkum hennar. Maður kaupir veiðileyfi þegar farið inn í garðinn og kosta 7 dagar og 6.000 kr. Þú mátt veiða hvar sem er. Mikið er um silung á svæðinu. Um 500 km. langt gönguleiðakerfi er á svæðinu og um 50 tindar yfir 3.500 m háir. Á svæðinu eru stór skíðasvæði.






Þegar lagt er af stað í göngur er öllum skylt að skrá sig og hafa með sér afrit af skráningarmerkinu. Þetta er gert til þess að auðvelda björgunarsveitum að hafa uppi á fólki ef það skilar sér ekki. Víða renna heitir lækir út í ánna og búið að hlaða upp heitum pottum sem var þægilegt að skella sér í að loknum göngum. Hitinn var um 30 – 35 stig á daginn en fór niður í 5 – 8 stig á nóttunni. Við erum í 2.600 m hæð, fyrir ofan lágskýin og oftast algjörlega heiðskýr og við manni blasti stjörnubjartur himininn.

Það alveg sama hvar farið var hvergi sást drasl, ekki sælgætisbréf. Það er 35.000 kr. sekt ef þú ert staðinn að því henda drasli. Þessu er því miður töluvert örðuvísi varið meðfram göngustígum á Íslandi, sem eru varðaðir sælgætisbréfum og plastpokum með hundaskít.





Já ég verð að viðurkenna, það eru víðar mikilfengleg útivistarsvæði en á Íslandi. Þjóðgarðarnir í Klettafjöllunum eru stórfenglegir. Á leiðinni tilbaka fórum við ég gegnum indíánaverndarsæði, þar vori mikil hátíðarhöld. Hver ættflokkur söng sína söngva og sýndi búninga sína. Samfara því var keppt í margskonar hestaíþróttum. Sannarlega eftirminnileg upplifun.

6 ummæli:

halldor sagði...

Takk fyrir skemmtilegan pistil.

Það eru um 500 goshverir i Yellowstone. Hér á landi er í raun bara einn eftir sem er nægilega virkur til að hægt sé að treysta á hann. Nokkrir til viðbótar sem gjósa endrum og sinnum.

En um ruslið....

Ég bjó einusinni í smábæ á austurströnd BNA. Það voru 4 akstursleiðir inn í bæinn. Við þær allar var lítið skilti með dómarahamri og rusli. Undir voru skilaðboð um að þeir sem sæust kasta rusli yrðu sektaðir um rúmlega 100 dollara.

Bærinn var mjög þrifalegur.

Ég hafði þá oft tekið þátt í því að þrífa umhverfi Suðurlandsvegar á Hellisheiðinni. Ruslið sem maður fann þar var með ólíkindum. Ekki bara dót sem hennt var út um glugga, heldur líka húsmunum sem hreinlega var fyrirkomið í vegkanntinum. Þessi þrif voru greidd af skattfé. Ég var að safna fyrir líknarfélag (v/kaupa á spítalagræjum) svo þessar greiðslur voru ekki algjört tap fyrir þjóðfélagið.

Það er skemmtilegur munur á því að sekta sóðana, og að borga líknarfélögum fyrir að þrífa eftir þá. Nær væri að safna sektarfé í sjóð og nota til góðra mála...

Helgi Jóhann sagði...

Takk fyrir þessa skemmtilegu og gróðlegu frásögn.

Bjorn Levi sagði...

Bandaríkin eru gríðarlega stór miðað við Ísland og að sjálfsögðu er að finna þar mjög framandi og fallega staði miðað við litla Ísland. En það er einmitt einn helsti kostur Íslands í ferðamannaiðnaðinum ... þú þarft ekki að ferðast langt til þess að sjá eitthvað nýtt. Í US þarftu að fljúga eða keyra heilu dagana til þess að breyta um umhverfi.

Nafnlaus sagði...

Kann reyndar ágætlega við íslenzka frelsið í stórum dráttum thakka thér fyrir, langar ekki að Valdið skikki mig alltaf til að fara eftir fyrirfram ákv. leiðum(nema t.d. á viðkvæmum stöðum eins og Thingvöllum og Dimmuborgum etc.) thó auðvitað eigi thær að vera til á flestum náttúrustöðum, thað auðveldar alla ferðamennzku. Skil betur að fólki thurfi að vera beint einungis á stíga í USA enda dýralíf thar mun fjölbreyttara og thað tharf sitt 'prívatlíf'. Hér tharf virkilega að taka upp hærri sektir á rusleríi og setja skilti til að segja frá viðurlögum, thað hefur fælimátt. R.vík hefur t.d. gjörbreyzt á ca. 10 árum hefur maður tekið eftir, hér hefur vaxið upp kynslóð sem thykir í lagi að henda rusli úti, náttúran mun gjalda thess eins og borgin. Eitt sinn heyrði maður frá túristum að hér væri svo lítið af rusli, thað heyrist ekki lengurrelsið í stórum dráttum thakka thér fyrir, langar ekki að Valdið skikki mig alltaf til að fara eftir fyrirfram ákv. leiðum(nema t.d. á viðkvæmum stöðum eins og Thingvöllum og Dimmuborgum etc.) thó auðvitað eigi thær að vera til á flestum náttúrustöðum, thað auðveldar alla ferðamennzku. Skil betur að fólki thurfi að vera beint einungis á stíga í USA enda dýralíf thar mun fjölbreyttara og thað tharf sitt 'prívatlíf'. Hér tharf virkilega að taka upp hærri sektir á rusleríi og setja skilti til að segja frá viðurlögum, thað hefur fælimátt. R.vík hefur t.d. gjörbreyzt á ca. 10 árum hefur maður tekið eftir, hér hefur vaxið upp kynslóð sem thykir í lagi að henda rusli úti, náttúran mun gjalda thess eins og borgin. Eitt sinn heyrði maður frá túristum að hér væri svo lítið af rusli, thað heyrist ekki lengur

Nafnlaus sagði...

Sammála þér, Guðmundur.

Þessi meintu einstöku svæði hér á landi, eru bara ekki svo einstök þegar betur er að gáð.

Vil reyndar benda á, að undir stórum hluta Yellowstone-þjóðgarðarins, er risastór tímasprengju í bókstaflegri merkingu orðsins.

Þarna einhvers staðar undir háhitasvæðinu eru nefnilega ofur-eldstöð sem gýs á ca. 600 þús. ára fresti ægilegu sprengigosi.

Það er víst kominn tími á næsta gos, reyndar svolítið fram yfir tímann.

Slíkt ofur-sprengigos mundi leggja stóran hluta N-Ameríku í rúst og valda kólnun á Jörðinni um allt að 2 gráður á Celsíus að meðaltali í nokkur ár, með uppskerubresti og hungursneyð í kjölfarið.

Nafnlaus sagði...

Það sem gerir Ísland sérstakt er að hér er stærsta ósnerta svæði Evrópu. Enn að sjálfsögðu eigum við að rukka fyrir aðganga að svæðum sama er gert á mörgum stöðum t.d. í Kosta Ríka borga ferðamenn hærra gjald enn heimamenn og þykir það sjálfsagt vegna þess að heima menn greiða skatta sem fara líka í viðhald á ferðamannastöðum og þjóðgörðum. Svo með umgengi okkar alveg sér kapituli, var í berjamó á Teykjanesi og þar hafði verið hendt alskonar drasli einsog gömul eldavél. Enn svo er það nú þessi draumur okkar að við eigum svo mikið af orku það er bara draumsýn, Kárahnújakavirkjun er að framleiða 690 MW enn Fukushima kjarnorkuverið var að framleiða 7.456 MW. Þessvegna eigum við að velja vel hverjum við viljum selja orkuna okkar og fá sem besta verðið.
Kveðja
Simmi