þriðjudagur, 26. júní 2012

Hver á að borga brúsann?

  
Á Íslandi hefur það tíðkast að hafa gjaldmiðil sem stjórnvöld geti handstýrt. Lengst af hefur í þeim efnum verið litið til stöðu sjávarútvegs og ef rekstrarstaðan þar er erfið hefur rekstrarvandinn verið færður yfir á launamenn með því að fella gengið. Óbeinn skattur sem nokkrir auðmenn hafa ætíð sloppið við að greiða.
Nú er staðan sú að við búum við höft, erum innan girðingar sem reist er utan um krónuna. Seðlabankinn skráir eitthvert gengi og menn reikna út stöðuna út frá því. En svo er til annað gengi sem heitir aflandskróna, sé litið til þess gengis virðist skráð gengi krónunnar vera amk 30% of hátt. Útflutningsfyrirtæki búa við þetta gengi, sem skapar þeim gríðarlegan hagnað. Óbeinn skattur sem nokkrir auðmenn sleppa við að greiða.
 

Eins og landsmenn hafa sé undanfarnar vikur þá eru til gríðarlegir fjármunir til þess að verja þessa stöðu, og það eru þingmenn tiltekinna flokka sem berjast fyrir því að staðan verði óbreytt. Þessir hinir sömu berjast fyrir því að stjórnarskránni verði ekki breytt, það mun leiða til þess að núverandi valdajafnvægi verður raskað, þeir vilja ekki breyta kosningakerfinu á sömu forsendum. Sprota og tæknifyrirtæki ná sér ekki á strik í þessu umhverfi og eru að flytja af landi brott. Ekki er landbúnaður og fiskvinnsla að bjóða upp á fleiri störf og þau laun sem íslendingar sætta sig við, þeir leita annað og erlendir launamenn eru hér á landi til þess að sinna þessum störfum.
 

Við okkur blasir að stefna þessara stjórnmálamanna hefur komið okkur í það stöðu að við komumst ekki hjálparlaust út úr henni, við ráðum ekki við að falla niður gjaldeyrishöftin nema með gríðarlegri eignaupptöku hjá millitekjufólki. Að öllu óbreyttu mun sú stétt að öllum líkindum þurrkast út hér á landi, eða flytjast til hinna norðurlandanna. Alla vega er það svo að umræddir stjórnmálamenn hafa ekki komið með neinar haldbærar tillögur um hvernig við eigum að komast úr þeirri stöðu sem við erum í. Þessir þingmann hafa einnig vikið sér undan því að taka á þeirri gríðarlegu mismunum að hluti þjóðarinnar býr við ríkistryggðan lífeyri á meðan örðum er gert að horfast í augu við skerðingará skerðingar ofan vegna þess gjaldmiðils sem okkur er gert að búa við.
 

Sömu aðilar telja að vandi Grikkja sé sá að þeir séu innan ESB og að þýskir skattgreiðendur séu svo ósanngjarnir að hafna því að greiða skuldir Grikkja. Þessir íslensku þingmenn eru samkvæmir sjálfum sér og finnst í lagi að haldið sé uppi ósjálfbæri lífeyriskerfi fyrir hluta Grísku þjóðarinnar og þjóðverjar borgi.
 

Ljóst er að ef Grikkir hverfa frá Evrunni þá mun bresta á mikill flótti fjármagns úr landinu, sem reyndar er þegar farið að bera á. Grikkir eru með sínar skuldir í Evrum, við þeim blasa tveir valkostir. Fara íslensku leiðina með gjaldmiðil sem verður í höftum og nýttur til þess að greiða afleiðingar slakrar stjórnunar tækifærisinnaðra stjórnmálamanna, eða ná samningum við ESB löndin og koma í veg fyrir að landa í fjötrum ónýts gjaldmiðils og óábyrgra stjórnmálamanna.
 

Og nú styttist í kosningar og þingmenn búa sig undir að koma fram með kosningaloforð sem verða fjármögnuð að venju með óbeinni skattlagningu í gegnum gengisfellingar krónunnar.
 

Hörðu staðreyndirnar  sem við íslendingum blasir eru að ef ESB lendir í mikilli lægð, eins og framangreindir þingmenn virðast vilja helst og hlakkar í þeim. Helsta markmið ESB var að mynda efnahagssvæði til þess að verja störf og um leið þá tilvist sem við þekkjum. Ef það tekst ekki munu enn fleiri störf hverfa úr Evrópu til Asíu. Verksmiðjum í Evrópu verður lokað vegna þess að þær verða ekki samkeppnisfærar við kínverskar vörur. Í lokin má minna á að velgegni ESB er forsenda þess að íslenskt atvinnulíf nái að dafna.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Rétt og raunsætt mat.

Einnig má hafa í huga að hrun krónunnar á Íslandi - er stærsti hluti af hörmungum heimila og fyrirtækja - þar sem lánin stökkbreyttust - hvort sem þau voru í erl. gjaldmiðlum eða isl. krónum.

Þetta gerðist vegna hruns krónunnar sem olli mikilli verðbólgu sem síðan skrúfaði upp öll verðtryggð lán. Og verðtrygginguna verður ekki hægt að afnema á meða Ísland býr við gjaldmiðil sem sveiflast tugi prósenta upp og niður. Gjaldmiðil sem einungis er haldið gangandi í - öndunarvél gjaldeyrishafta.

Krónan hefur því gert - þúsundir heimla eignarlaus - þar sem ævisparnaður í húsum og eignum er brunnin upp - vegna krónunnar.

Enginn slíkur eignabruni og hrun hefur gerst innan evrulanda s.s. Írlands, Finnlands, Grikklands, Spánar eða Ítalíu.

Þessu ástandi vilja margir fulltrúar "Gamla Íslands" viðhalda - m.a. í forsetakosningunum - þar sem fólkinu á ekki einu sinni að leyfast að - kynna sér kosti og galla aðildar að stærra myntbandalagi. Það á að hafa vit fyrir fólkinu - og loka það innan þrælabúða krónunnar.

Svo virðist sem það sé stefna hjá sumum að - viðhald kerfisbundinni eignaupptöku hjá almenningi - með ónýtum gjaldmiðli - á sam hátt og gerst hefur margoft á Íslandi. Það er stefna Gamla Íslands.

Fólk hefur nú tækifæri á að velja sér betri framtíð - með upplýstri umræðu.

Vonandi velur fólk Nýja Ísland - en ekki það gamla - með öllum sínum endurteknu hörmungum - í öllum komandi kosningum.

Nafnlaus sagði...

"Á Íslandi hefur það tíðkast að hafa gjaldmiðil sem stjórnvöld geti handstýrt. Lengst af hefur í þeim efnum verið litið til stöðu sjávarútvegs og ef rekstrarstaðan þar er erfið hefur rekstrarvandinn verið færður yfir á launamenn með því að fella gengið. Óbeinn skattur sem nokkrir auðmenn hafa ætíð sloppið við að greiða."

Rétta skýringin er að verkalýðshreyfingin heimtaði alltaf launahækkanir langt umfram framleiðniaukninu sjávarútvegsins, síðustu árin áður en kvótakerfið var sett á voru líklega þau verstu í þessu tilliti þar sem að offjárfesting sem ótakmörkuð veiði hefur í för með sér stuðlaði að framleiðnisamdrætti og þar af leiðandi kom pressa niður á við á gengið, þar sem því var handstýrt hefur það líklega yfirleitt verið of hátt skráð og raunlaun yfirleitt of há frekar en hitt. Verkalýðshreyfingin á Íslandi tók hins vegar út þroska á 10. áratugnum umfram mörg önnur lönd og fór að skilja samspilið á milli framleiðniaukningar og getu atvinnugreina til að greiða hærri laun. Núna er það reyndar orðið þannig að gengi krónunnar skiptir útgerðir engu máli, starfsfólkið fær greidd laun í samræmi við aflaverðmæti og þess vegna græðir útgerðin ekki á því að gengi krónunnar veikist, allir kostnaðarliðir eru algjörlega háðir erlendum myntum (margir ganga reyndar enn með þá ranghugmynd í höfðinu að útgerðin græði þegar gengi fellur).

Krónan er ekki gáfulegur gjaldmiðill en ein af undirstöðum hennar eru arðsamar útflutningsgreinar. Þess vegna er það algjörlega glæpsamlegt að Gylfi formaður ASÍ skuli neyta að verja hag allra sinna umbjóðenda með því að verja arðsemi útflutningsgreina Íslands. Það væri eðlilegast eftir hegðun Gylfa fyrir samtök starfsfólks í fiskvinnslum að hreinlega ganga úr ASÍ. Það myndi líka gera þeim kleyft að semja við fiskvinnslufyrirtæki án aðkomu ASÍ sem myndi klárlega, a.m.k. núna, gefa þeim betri niðurstöðu en að hanga með Gylfa og Samfylkingargenginu hans.

Innganga í EU og þáttaka í evrunni er líklega eini raunhæfi kosturinn annar en að halda í krónuna. Spánn og fleiri ríki eru reyndar að ganga í gegnum sársaukafullan aðlögunarferil núna sem á eftir að taka nokkur ár í stað örfárra mánaða, þ.e. það ferli að aðlaga laun að getu hagkerfisins til að borga með atvinnuleysi í stað gengisbreytinga. Það er a.m.k. ljóst að í Grikklandi mun taka langan tíma að gera laun opinberra starfsmanna sambærileg við laun opinberra starfsmanna í Þýskalandi, Grikkirnir eru með ca 30% hærri laun fyrir sambærileg störf.

Lúðvík Júlíusson sagði...

Guðmundur, útflutningsfyrirtæki búa ekki við aflandsgengi. - Þeir sem búa við aflandsgengi eru lífeyrissjóðirnir og útvaldir fjárfestar.

Nafnlaus sagði...

og hvert er hið "Nýja Ísland"? Úthverfi í Stór-Evrópu?

Nafnlaus sagði...

Í Evru-löndunum er rekstrarvandinn einfaldlega færður yfir á launafólk, þ.e. ef illa gengur, þar einfaldlega að segja upp fólki til að ná niður kostnaði.

Það sama mun gerast hér á landi, taki Ísland upp Evru sem gjaldmiðil.

Þess vegna er alltaf krónískt ca. 10% atvinnuleysi hjá Evrulöndunum.

Nafnlaus sagði...

Sjálfstæðir fiskverkendur hafa harkalega gagnrýnt tvöfalt kerfi verðmyndunar í íslenskum sjávarútvegi, sem gerir útgerðarvinnslum kleift að selja fisk beint frá útgerð sinni til fiskverkunar á skiptaverði Verðlagsstofu, sem er allt að 40 prósent lægra en markaðsverð sem sjálfstæðir fiskverkendur þurfa að greiða fyrir sitt hráefni.
Þessi tvöfalda verðmyndun veldur ekki aðeins samkeppnismismunun í fiskverkun heldur hlunnfer hún sjómenn, sveitarfélög og ríkissjóð. Þá hefur það verið gagnrýnt að útgerðir, sem halda á öllum hlekkjum virðiskeðjunnar frá því að fiskur er dreginn úr sjó þar til hann fer í hendur fisksala í útlöndum, hafi tækifæri til að stýra því hvar virðisaukinn kemur fram. Hagstætt sé að láta virðisaukann koma fram einhvers staðar annars staðar en við skipshlið þar sem lágt skiptaverð lækkar laun sjómanna, hafnargjöld og fleira og hámarkar því afrakstur sjálfrar útgerðarinnar á kostnað annarra.
Samkvæmt nýju veiðigjaldalögunum á að reikna auðlindarentuna út með því að taka saman afkomu útgerðar og fiskvinnslu hér á landi. Með því er viðurkennt að afkoma útgerðarinnar einnar endurspegli ekki endilega auðlindarentuna þegar um tvöfalda verðmyndun er að ræða í greininni.
Með því að aðskilja íslenskan rekstur – bæði útgerð og vinnslu – frá alþjóðlegum hluta fyrirtækisins segja sumir sem rúsínan hefur heyrt í að Samherji sé mögulega að hylja slóð virðisaukans og tryggja að hann komi alls ekki fram í rekstri fyrirtækisins hér á landi. Þá geti fyrirtækið tekið virðisaukann út erlendis og komist hjá því að sýna hina raunverulegu auðlindarentu hér á landi. Þannig muni útgerðarrisarnir sýna fram á mun lægri auðlindarentu hér á landi en efni standi til. Þessi uppskipting íslenskan og alþjóðlegan rekstur eru í raun ekkert annað en aðgerð til að hylja slóð auðlindarentunnar og koma henni úr landi.