30. júní næstk.
verða forsetakosningar á Íslandi 6 frambjóðendur gefa kost á sér. Núverandi
forseti Ólafur Ragnar Grímsson hefur setið 4 kjörtímabil eða svipað og
fyrrverandi forsetar. Eins og flestir höfðu reiknað með lýsti Ólafur því yfir í
nýársávarpi sínu, að nú væri nóg komið og hann vildi snúa sér að persónulegum
verkefnum. Þvert á þetta fór nánasti samstarfsmaður Ólafs af stað með
undirskriftasöfnun um að hann gæfi áfram kost á sér.
Mikil nettenging
íslendinga gerir mögulegt að safna saman miklum fjölda nafna. En það
fyrirkomulag sem notast er við er meingallað því þar getur hver sem er skráð
inn hvaða nafn sem er, sem veldur því margir sem telja að niðurstaðan sé vart
marktæk. Í undirskriftasöfnuninni um endurkjör forsetans voru liðlega 30 þúsund
nöfn, þar á meðal voru þeir félagar Mikki Mús og Andrés Önd sem skoruðu
eindregið á Ólaf að gefa áfram kost á sér.
Ólafur flutti í
kjölfar þessa ávarp í öllum fréttamiðlum þar sem hann sagðist ekki geta móðgað
þjóðina með því að hunsað vilja hennar og myndi því gefa kost á sér hálft
kjörtímabil, en það væri sá tími sem tæki hann að leiða þjóðina út úr þeim
vanda sem hún glímdi við. Þegar Ólafi var bent á að þetta væri fullkotroskin
fullyrðing, auk þess að það stæðist ekki að bjóða sig fram til hluta
kjörtímabilsins, mætti hann í annað viðtal þar sem hann sór af sér fyrri
yfirlýsingar og sagði þær spuna andstæðinga sinna.
Ólafur Ragnar
Grímsson var kjörinn árið 1996 með 41% atkvæða. Andstæðingar hans skiptust í
tvær nánast jafnstórar fylkingar, hvor um sig með tæplega 30% atkvæða. Ólafur
sem áður hafði verið einn af umdeildustu stjórnmálamönnum landsins fór rólega
af stað og fylgdi þeim víðtæka skilning að forsetinn ætti ekki að vera beinn
þátttakandi í stjórnmálaumræðunni með afstöðu í umdeildum málum, frekar að vera
sameiningartákn sem gæti leitt þjóðina á erfiðum tímum.
Þegar dansinn í
kringum gullkálfinn blindaði fólk upp úr aldamótum og íslenskir athafnamenn
fóru um heiminn í einkaþotum með vasana fulla af lánsfé fengnu með vafasömum
hætti og keyptu upp fyrirtæki, var forsetinn fylgisveinn þeirra og flutti
lofræður fullar af yfirgengilegri þjóðrembu. Frægust er ræða hans í Lundúnum 3.
maí 2005 er bar titilinn „How to Succeed in Modern Business: Lessons from the
Icelandic Voyage“ og lauk með þessum velþekktu orðum : „You ain‘t seen nothing
yet.“
Forsetinn var því
ekki ofarlega á vinsældarlista þjóðarinnar eftir Hrunið og gat þar af leiðandi ekki verið
hið leiðandi sameiningarafl sem þjóðin þurfti nauðsynlega á að halda. Hávær krafa var í
samfélaginu að stofnanir settu sér ákveðnar siðareglur, þessu hafnaði Ólafur
algjörlega og svaraði beiðni Alþingi þar um með miklum þótta.
Í núgildandi
stjórnarskrá er ákvæði um málskotsrétt forseta, það er að hafna staðfestingu
laga og vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu. Ólafur hafði sem
stjórnmálafræðiprófessor lýst því yfir árið 1977, að málskotsrétturinn væri
dauður bókstafur og enginn fyrrverandi forseta hefði því nýtt hann. Öfugt við
þá greiningu lýsti Ólafur þeirri skoðun sinni árið 2010 að við
lýðveldisstofnunina árið 1944 hefði það vald sem áður var hjá Alþingi og
konunginum verið fært til þjóðarinnar. Forseta lýðveldisins væri ætlað að
tryggja þann rétt, vera einskonar öryggisventill.
Á grundvelli þessa
hafnaði Ólafur staðfestingar á óvinsælum samþykktum Alþingis og vísaði þeim til
þjóðarinnar, með því tókst honum að ná til baka vinsældum með því stilla sér
upp sem fulltrúa þjóðarinnar gegn Alþingi, þar sem kjörnir stjórnmálamenn
glímdu við hið erfiða verkefni að koma gjaldþrota þjóðarskútunni á flot eftir
kerfishrun íslenska hagkerfisins.
Hann nefnir sig sem bjargvætt þjóðarinnar þrátt fyrir að fyrir
liggi að málið færi fyrir dómstóla og töluverðar líkur á að tilbaka komi
töluvert hærri reikningur en náðst hafði samkomulag um. Verdens Gang, útbreiddasta blað Noregs,
birtir til dæmis leiðara um málið 7. marz 2010 og kallaði þjóðaatkvæðið á
Íslandi háðung við lýðræðið. Ekki sé hægt bera virðingu fyrir forseta sem með
fáheyrðum hætti tekur völd af löglega kjörnu þingi og efnir til
þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem allir vita fyrirfram hver niðurstaðan verður.
Skuldin sé Íslendinga.
Uffe
Ellemann Jensen, fyrrv. forsætisráðh. Danmerkur og Mogens Lykketoft,
fyrrverandi fjármálaráðherra, voru með vinsælan þátt um stjórnmál líðandi
stundar á TV2 í Danmörku. Lykketoft sagði þar að Ólafur væri að misnota vald
sitt sem forseti. Mikill meirihluti Alþingis hefði samþykkt Icesave-samninginn
en hann síðan hafnað þeim gegn vilja þings. Uffe Ellemann fjallaði einnig um
athafnir Ólafs í Berlingske tidende 7. marz 2010 og kallaði þær Fáránleika
leikhús, vegna þess að nýr og hagstæðari samningur lá á
borðinu þegar Ólafur tók þá ákvörðun að vísa málinu til þjóðarinnar.
Í tillögum
Stjórnlagaráðs að nýrri Stjórnarskrá er stutt við málskotsréttinn en hann
gerður skýrari og færður til þjóðarinnar, þar með er dregið úr völdum
forsetans. Í drögum Stjórnlagaráðs er rauði þráðurinn að þeir sem byggi Ísland
sitji við sama borð. Þeir sem hafa hag af því að engar breytingar verði á
íslensku samfélagi berjast hatrammlega gegn því að ný Stjórnarskrá verði borinn
undir þjóðina.
Ólafur er fastur
gestur í erlendum fréttastofum með yfirlýsingar sem ganga þvert á samþykktir
meirihlutans um utanríkisstefnu Íslands, þar á meðal að Norðurlöndin séu helstu
óvinir Íslands, þau hafi snúið baki við Íslandi í Hruninu, en Kína ásamt
Rússlandi hafi reynst íslendingum vel. Það eru fáir sem skilja þessa
fullyrðingu Ólafs þar sem ekki kom nein aðstoð frá þessum löndum, á hinn bóginn
komu Norðurlöndin íslendingum til bjargar með stórum lánum á afar hagstæðum
kjörum, þegar engin vildi lána íslendingum.
Til skjóli hinnar
óljósu stöðu sem Ólafur hefur komið sér í hafa nýlega stofnuð hagsmunasamtök
hvatt forsetann til þess að leggja fram frumvarp fram hjá Alþingi varðandi
skuldastöðu heimilanna sem myndi kosta ríkissjóð um 400 milljarða króna.
Stjórnmálamenn hafa tekist á um þennan vanda á Alþingi en ætíð rekist á hin
órjúfanlegu lögmál ríkisreikningsins, skattatekjur og útgjöld. Afstaða Ólafs
hefur því hentað vel stjórnarandstöðunni og vitanlega við atkvæðaveiðaveiðar
til endurkjörs. Hingað til hafa sitjandi forsetar verið endurkjörnir án sterkra
mótframboða, en nú hafa komið fram sterk mótframboð og baráttan um sæti forseta
gæti orðið tvísýn.
Ólafur beitti í
upphafi baráttu sinnar vel þekktri aðferð til að færa umræðuna inn á það svið
sem hann vill hafa hana og binda andstæðinga við það verkefni að hafna og reyna
að afsanna fullyrðingum hans. Þessari aðferð hafa klókir stjórnmálamenn beitt
hér á landi með góðum árangri. Alltaf þegar svona aðferðum er beitt er ástæða
til að hafa áhyggjur af lýðræðinu, því það er svo berskjaldað og viðkvæmt.
1 ummæli:
Stórfurðulegar aths. sem hingað hafa borist vegna þessa pistils. Þær eru reyndar uppfullar að persónulegu skítkasti og ekki birtingarhæfar.
Í þessum pistli eru einungis raktar umsagnir nokkurra manna sem birst ghafa í erlendum fjölmiðlum, ekki mínar. Þann sannleik virðast sumir ekki þola og tala um hatur og ég veit ekki hvað.
Skrifa ummæli