föstudagur, 22. maí 2009

Fúlga fjár

Þessa dagana eru að koma fram allmargar fróðlegar greinar um þróun hagkerfanna. Þær eru yfirvegaðri en margt af því sem sagt hefur verið í vetur og um leið minna um klisjukenndar upphrópanir. Það liggur fyrir að sú leið sem þeir sem hafa stjórnað þróun íslensks hagkerfis síðustu tvo áratugi liggur frá norræna módelinu yfir til frjálshyggjunnar.

Nokkrir helstu postular þessar stefnu hafa reynt að sverja það af sér, svo sem ekki einkennilegt því afleiðingar stefnu þeirra blasa við. Mikill auður flæddi í vasa fárra og skuldabagginn liggur eftir hjá heimilum og skattgreiðendum. Þeir sem náðu að raka til sín mestum auð í skjóli aðgerðaleysis frjálshyggjunnar, telja sig jafnframt yfir það hafna að taka þátt í rekstri samfélagsins og hafa komið sínum fjármunum fyrir í skattaskjólum.

Minnistætt er hversu mikið fylgismönnum þessarar stefnu hefur verið í nöp við norrænu stefnuna og þeir gátu aldrei lokið einni ræðu um efnahagsmál öðruvísi en svo að hreyta ónotum í „kratabælin og uppeldisstöðvar letingja“ eins og þeim var tamt að nefna, þá sérstaklega Svíþjóð.

Þrátt fyrir allt liggur fyrir að atvinnuleysi á norðurlöndum hefur verið minna, þar eru að störfum um 2 millj. erlendra farandaverkamanna, framleiðni er meiri en annarsstaðar, meiri friður og öryggi og öryggiskerfi samfélagsins það besta sem þekkist í veröldinni. Norrænu löndin (að Íslandi undanskildu) eru þroskuð og siðmenntuð markaðsþjóðfélög þar sem einkaframtakið og frjáls viðskipti hafa fengið gott svigrúm.

En þetta er ekki eitthvað nýtt því ef litið er tilbaka má finna að þróun þessa kerfis var hafin strax á víkingaöld. Það má m.a. finna í Ómagabálk Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins. Ómagabálkur var einskonar framfærslulöggjöf Þjóðveldisins. Þar segir frá því hvernig framfærsluskylda ættmenna og hreppa var háttað.

Í 1.gr. segir að sinn ómaga á hver maður fram að færa. Móður sína fyrst, en ef hann orkar betur, þá skal hann færa fram föður. Nú má hann betur, þá skal hann börn sín, systkini og aftur í 5 ættlið. Hugtakið að “orka betur” er mælt í fúlgu. Í texta segir: “þá á hann fé til, ef hann á fjögurra missera fúlgu”. Í 2. gr. segir svo “En þá á hann fé og færi til, er hann á betur en fjögurra missera björg sér og konu sinni og sínum ómögum öllum, þeim er hann leggur fyrir á hverju misserum sex álnar vaðmáls”.

Misseri er skv. orðabók dregið af orðinu “semester” og jafngildir 6 mánuðum. Sex álnar vaðmáls er þá ein áln á mánuði og fúlga er því sex álnir vaðmáls. Ein alin vaðmáls er um 49 sm langur og 98 sm breiður vaðmálsbútur.

Samkvæmt þessu þá bar manna skylda til að taka að sér ómaga ef maður átti meira en það sem maður þurfti til að sjá sér og sínum nánustu fyrir framfærslu. Ef bróðir þinn yrði til að mynda öryrki og gæti ekki framfleytt sér ætti þú fyrst að núvirða 2 ára framfærslukostnað foreldra, konu og barna og ef þú ættir þá e-ð eftir bæri þér að sjá um hann. Að öðrum kosti tæki hreppurinn við honum eða aðrir ættingjar þínir sem gætu orkað betur.

Þeir sem hafa stúderað þetta hvað mest hafa samlesið Grágás og náð að tengja sama hugtök. Fúlga er þannig sama og einn lögeyrir þjóðveldisaldar, eða 6 álnir. Einn eyrir gulls var til að mynda 360 álnir eða 60 fúlgur.

Einn eyrir gulls vó ekki nema 27 gr. og ef marka má verð á gulli í dag þá er fúlga ekki mikið mælt út frá verði á gulli. En verðmæti gulls í dag er ekki það sama og það var á þessum tíma. Það sem ég var að vísa til í gær er að sveitarfélög gefa út lágmarks framfærslustuðul á mánuði. Hann er um kr. 115.000 á mánuði og þá ætti fúlga að vera 6*115.000 eða 690.000 kr. ef tekið er mið að framfærslukostnaði.

Ef við svo reynum að meta hvað þarf mörg ærgildi til að búa til eina áln vaðmáls ættum við að vera nokkuð nálægt því hversu verðmætar þessa skepnur voru á þjóðveldisöld. Sá sem missti búpening varð ómagi og hræðslan við ómegð virðist hafa verið mikil, enda mikil kvöð að taka við ómaga og halda honum og hans fólki á framfærslu.

Til að mynda var skv. 37. gr. í lagi að gelda göngumenn, og varðaði það ekki við lög þess tíma þótt sá hinn sami hefði látist við geldinguna. Eitthvað sem yrði að teljast nokkuð harkaleg aðgerð í dag til að draga úr örorku eða atvinnuleysi.

Verðmæti fúlgu er þannig nokkuð breytilegt eftir því við hvað er miðað. En með því að tengja það framfærslukostnaði er fúlga um 700.000 kr. 6 álnir vaðmáls í dag kostar minna, en það gefur þá a.m.k. nokkuð góða mynd af því hvað lögeyrir okkar hefur lækkað mikið á þessum 750 árum sem eru liðin frá því að þessi handrit voru skrifuð, eða um 1250.

Þessi Ómagabálkur er frábær lesning þeim sem vilja kynna sér það umhverfi sem norræna módelið myndar og okkur sem starfa í þessu umhverfi. En einn stærsti viðgangur þess að gríðarlega öflug stéttarfélög á norðurlöndum sé litið m.a. til frjálshyggjulandanna sem gera allt sem í þeirra valdi er að ófrægja og helst koma í veg fyrir samtök launamanna. Þar fer fremst Frú Margaret Hilda Thatcher sem frjálshyggjumenn mæra mest allra.

Þetta eru elstu heimildir sem til eru um velferðakerfi vesturlanda. Ómagabálkur er án efa líkur löggjöf Norðmanna, en það eru mjög mörg séríslensk ákvæði sem gerir þetta að íslenskri velferðarlöggjöf. Það eru sérákvæði um það hver bar ábyrgð á ættlausum mönnum sem komu með skipum til Íslands, ekki ósvipað því sem við erum að velta fyrir okkur í dag.

Ómagabætur voru allt í senn, atvinnuleysisbætur, ellilífeyrir, sjúkradagpeningar og örorkulífeyrir. Barnaómegð var á þessum tíma til 16 ára aldurs sbr. gr. 5 sem er sami aldur og við notum í dag. Hvergi er talað um lögleg efri mörk og foreldrar hafi unnið svo lengi sem þeim entist aldur.

1 ummæli:

Hörður sagði...

Einhvern tíman var verið að tala um ágæti sænska þjóðfélagsins við einn frjálshyggjutalsmanninn í samanburði við Bandaríkinn.Og hvor fyrirmyndin væri betri , þá sagði hann að við færum "Íslensku "leiðina.Við værum betra þjóðfélag en Svíþjóð og Bandaríkin.Það var reyndar 2007.Mín skoðun er að undanfarin ár hafi hvorki frjálshyggja né félagshyggja verið við völd heldur einhver " heimalagaður bastarður"