miðvikudagur, 6. maí 2009

Lausn ekki í sjónmáli

Það er harla einkennilegt að horfa upp á að þeir stjórnmálaflokkar, sem hvað harðast hafa gengið fram á undanförnum margumræddum 18 árum í að gagnrýna samskipti fyrri stjórnvalda og embættismanna þeirra við almenning, skuli svo falla á grundvallarprófi samskipta við almenning í landinu þegar þeir loks komast í stjórnvaldsstólanna.

Í 80 daga stjórnartíð sinni er núverandi ríkisstjórn búinn að semja og fá afgreidd á Alþingi margskonar aðgerðir sem eiga að koma til hjálpar heimilum sem eru í vandræðum. En nú er að koma í ljós að það virðist vera svo að fáir viti af þessum aðgerðum og embættismenn sitji á þeim og vísi fólki frá. Eins og t.d. greiðsluaðlögun, sem innifelur m.a. niðurfellingu skulda og fleira sem finna má á island.is.

Eftir langa bið er fólki, sem hefur leitað eftir aðstoð stjórnvalda, að berast svör sem eru t.d. „Lausn er ekki í sjónmáli.“ Mikið ofboðslega er þetta eitthvað embættismannalegt svar.

Var ekki ætlunin og verkefni embættismannsins að finna lausn fyrir viðkomandi? Hvert á sá að leita sem fær svona bréf frá embættismannakerfinu? Það er 10 vikna biðtími og þá kemur svona svar. Er nema von að fólk gefist upp?

Svo mætir kona í fréttirnar í gærkvöldi sem hefur það starf við að vera dagmanna. Hún fær ekki aðstoð af því hún er sjálfstætt starfandi. Bíddu við. Konan var að sækja um aðstoð fyrir heimili sitt ekki atvinnurekstur.

Nú eru á atvinnuleysiskrá nokkur hundruð mjög færra bankamanna. Hvernig væri nú að ráða eins t.d. 50 þeirra og setja þá í það verkefni að ræða við fólk og finna út úr þeim vanda sem fólkið er að glíma við.

Fólk verður að geta gengið inn og rætt við ráðgjafa og gengið þaðan út án þess að þurfa að hlaupa í felur, eða breiða fyrir andlit sín. Vanti skrifstofuaðstöðu þá erum við á Rafiðnaðarsambandinu tilbúin að sjá um þann part fyrir þá sem koma til með að ræða við okkar fólk. Einnig væri góð leið að fela bönkunum hluta af þessum verkefnum og ráðgjafinn geti tekið að sér hlutverk tilsjónarmannsins.

En það eru vextirnir sem eru allt hér að drepa og þeir verða að lækka og það er ekki fyrr en þeir verða komnir niður í 6 – 8% að hægt verður að skuldbreyta og setja upp langtíma plön fyrir heimilin og koma fyrirtækjunum í gang.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er nú einn af þeim fjölmörgu sem hafa rekið fyrirtæki og var í ábyrgð fyrir það. Ég sá fram á að þessi rekstur myndi ekki ganga upp svo að ég hætti starfsemi. Var reyndar búinn að semja við alla mina kröfuhafa nema Kaupþing. Kaupþing sagði NEI og gjaldfelli öll lán sem hvíldu á fyrirtækinu ca 6 milljónir alls ekki stór tala. Svo þegar ég reyndi að fá fasteignaláni hjá sama banka fryst, þá var sagt að það væri ekki hægt vegna vanskila hjá fyrirtæki mínu. Þar sem kona mín er einnig skrá fyrir fasteigninni og skuldinni þá fór hún fram á það sama. Svarið var NEI. Ástæðan sem var gefin að vegna regla bankans þá væri ekki hægt að frysta lán hjá aðilum sem væri í vanskilum!!!Í gær fengu við greiðsluáskorun vegna lánsins upp á vel rúmar 35 millur! Ég verð bara að viðurkenna að ég hef ekki nokkra trú að þessum tilboðum sem er verið að bjóða fólki eða vilja bankana.

kv.
Helgi

Nafnlaus sagði...

Það má segja að það eina sem hefur verið framkvæmt er rán. Þá á ég við að laun hafa lækkað, lán og annað hækkað. Það getur ekki verið meira mál að afnema verðtrygginguna af lánum, heldur enn var að taka hana af launum hér um árið og samningum við bændur nú í byrjun árs. Það stefnir í það að ungt fólk sem er ekki búið að festa sér íbúð eða skuldsetji sig fara úr landi. Eitt er það sem stjórmálamenn verða að hafa í huga að ef fólk hættir að borga af lánum þá er stutt í borgarastyrjöld, það verður engin búsáhaldabylting. Bara miklu verra. Mér finnst vonleysi fólks vera að aukast og á ég þá við almening, enn stjórnmálamenn eru alltaf jafn brattir og segja að þettað fari að lagast. ASÍ og önnur verkalýðsfélög verða að fara vera harðari og krefjast aðgerða stjórnvalda. Ég hef einsog fleirri enga trú á honum Gylfa. Svo þettað sífeld tal um ESB skilar okkur engu, minnir mig á sölumenn sem voru að selja Herbalife, það átti allt að lagast við að taka það inn. Enn auglýsinginn hjá Rafiðnaðar sambandinu var góð sem byrtist 1. Maí . Það er svo ótrúlega stutt síðan vinnuvikan var stytt í 40 stundir. Flestir af þeim sem eru í mestu greiðslu erfiðleikunum voru ekki fæddir þá.
Kveðja
Simmi