fimmtudagur, 21. maí 2009

Smá von

Það er fagnaðarefni að það sé að komast skriður á viðræður milli allra heildarsamtaka í atvinnulífinu og viðsemjenda þeirra með virkri þátttöku stjórnvalda. Með þessu vaknar smá von um að tekin verði upp ábyrg vinnubrögð allra aðila. Ekki að ég sé sammála því sem SA hefur lagt fram, en sá vilji sem fram kemur á fundunum getur leitt til leiðar úr vandanum.

Þau vandamál sem við blasa eru það umfangsmikil, að borinn von er að þjóðin nái að vinna sig úr þeim nema með sameiginlegu og samstilltu átaki allra. Fyrirtækja og launamanna. Stjórnmálamanna hvar í flokki sem þeir standa, sveitarstjórnarmanna og alþingismanna.

Ef atvinnulífið kemst ekki af stað með vaxandi verðmætasköpun, þá er úti um okkur og við blasir langvinn niðurlæging og nánast öll þjóðin verður í skuldafangelsi, að undanteknum nokkrum einstaklingum sem hafa beitt öllum brögðum til þess að ná til sín fjármunum og flytja þá í skattaskjól. Eftir þá liggja brunarústir gamalgróinna og stöndugra fyrirtækja.

Á hverjum degi eru fluttar fréttir af því hvernig þeir fóru að því að sópa fjármunum úr bönkunum og svikust aftan að fjárfestum eins og t.d. lífeyrissjóðum. Eigendur fjármagns keyptu hlutabréf að þeir héldu í stöndugum og velreknum fyrirtækjum. Á einni nóttu voru fjárglæframennirnir búnir að búta þau upp og skuldsetja og hlutabréfin orðin einskis virði, án þess að nokkur tími væri til varna eða viðbragða hjá saklausu. Þessum mönnum var hrósað af forseta landsins og ráðandi stjórnvöldum sem nefndu þá Efnahagsundur Íslands.

Nú duga ekki upphrópanir og yfirboð lýðskrumaranna. Allir verða að horfast í augu við stöðuna. Við blasa allmargar sársaukafullar og óvinsælar ákvarðanir. Það verður t.d. forvitnilegt að sjá hvort alþingismenn muni breyta um vinnubrögð. Hvort stjórnarandstaðan muni halda áfram að beita innihaldslausu málþófi eins og í vetur og vera á móti öllum tillögum sem stjórnvöld leggja fram. Hvort stjórnvöld muni frysta allar þingmannatillögur í nefndum, eins hefur verið viðtekin venja hjá ríkisstjórnum undanfarinna tveggja áratuga.

Það munu örugglega stíga fram einhverjir verkalýðsforingjar og stjórnmálamenn með venjubundin yfirboð, og reyndar þegar komið fram. Þó svo ekki sé búið að halda nema einn fund. Ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur að taka 800 milljóna arð úr rekstri OR setur viðræður í uppnám, sama og gerðist þegar eigendur Granda ákváðu að greiða sér arð um leið og þeir ætluðu að smeigja sér unda því að greiða út launahækkanir.

Yfirlýsingar forsvarsmanna borgarstjórnar segja okkur að þau hafa nákvæmlega engan skilning á því hvernig samskipti á vinnumarkaði fara fram. Ekki nýtt, alltof margir stjórnmálamenn sem aldrei hafa tekið þátt í samskiptum á vinnumarkaði. Einungis starfað í stjórnmálum og stofnunum tengdum þeim.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ef 300 þús. kr. laun eiga að þola 10% launaskerðingu og engar hækkanir, þá hljóta 600 þús. kr. laun að þola 20% skerðingu o.s.frv.