Íslendingar verða að taka á aðsteðjandi vanda, samfara því að byggð verði upp trúverðug framtíðarsýn og mega engan tíma missa. Það er lífsnauðsyn að komast út úr skuldavanda ríkissjóðs á sem allra stystum tíma.
Í kjölfar mikillar ESB umræðu innan samtaka launamanna var samþykkt á síðasta ársfundi ASÍ að beita sér fyrir aðild Íslands að ESB og upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi. Helstu forsendur þessarar niðurstöðu er að skapa það umhverfi að atvinnulíf geti vaxið og dafnað og myndað ný störf.
Ef ekki verði leitað framtíðarleiða til stöðugleika og öflugsgjaldmiðils er okkar eina leið að fá álrisana til þess að koma hingað og reisa fleiri álver. Afstaða Ögmundar og fylgismanna hans innan VG er í fullkominni mótsögn við sjálfa sig. Það er umhverfissinnum keppikefli að vera aðilar að umhverfisstefnu ESB.
Krónan hefur stuðlað að miklum sveiflum vegna agalausrar hagstjórnar. Sveiflurnar hafa kallað á að meðaltali 3,5% hærri vexti en þeir þyrftu að vera og verðtryggingu. Íslensk fyrirtæki skapa í dag um 70 þús. störf. Það eru fyrirtæki í íslensku umhverfi sem verða að skapa þau störf sem þörf er á komandi árum. Það er ekki hið opinbera sem skapar störf við verðmætan útflutning.
Þýðingarmesta verkefnið er að stuðla að víðtækri sátt um stöðugleika. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfarinu; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi.
Ef atvinnulífinu er skapað umhverfi stöðugleika og vaxtastig í samræmi við nágrannalönd, eðlilega bankastarfsemi og haftalausan gjaldeyrismarkað þá geta íslensk fyrirtæki skapað 20 þúsund störf fyrir árið 2013. En þá verðum við að taka höndum saman og ganga sameiginlega til lausnar á vandanum og sú ganga þarf að hefjast ekki seinna en á eftir.
4 ummæli:
Þetta er hárrétt. VG er í mótsögn við sjálfa sig í mörgum málum. VG vill berjast fyrir hag launafólks og vernd náttúrunnar en þó virðist VG vilja leggja upp í sambærilega "tilraun" og þá sem sjálfstæðismenn framkvæmdu hér á síðustu árum. Þ.e. að halda úti örmynt í opnu markaðshagkerfi. Ef VG vill ekki sækja um aðild að ESB þá á hún meira sameiginlegt með Sjálfstæðisflokki en Samfylkingu. En mig minnir að VG hafi klappað fyrir því að vinna ekki með þeim flokki eftir kosningar. Er það ekki enn ein mótsögnin?
Einar Pétur
Og kjósendur eru í mótsögn við sjálfa sig.
Endurkusu vanhæfu Hrunstjórnina með ca. 54% atkv.
Vilja endurreisn en kjósa flokk sem vill ekki nýta auðlindir þjóðarinnar.
Eftir að hafa kosið svona koma þeir svo og segjast ekki ætla að borga lánin sín.
Íslendingar eru endanlega búnir að sanna vanhæfni sína bæði til að kjósa og stjórna landinu.
Guðmundur Gunnarsson ef einhver er i mótsögn við sjálfan sig ert það þú sem lifað hefur á því árum saman að tala digurbarkalega og hávært um réttindi og stöðu launafólks en ert svo eini verkalýðsforkólfurinn sem stökkst fram og varði Gylfa Arnbjörnsson forseta ASÍ þegar hann rak lögfræðing hjá ASÍ fyrir að fara í framboð hjá Framsókn. Hafðu eilífa skömm fyrir að bregðast launafólki. Þú ert ekkert nema eitt stórt " ÉG". Heiða
Ég veit að það er tilgangslaust, en ætla samt að endurtaka það sem fram hefur komið. Ég benti á að fullyrðingar Vigdísar stæðust ekki og væru uppspuni og bendi á þá pistla sem ég skrifaði um þetta mál, þar kemur glögglega fram hvernig Vigdís kom fram.
Að öðru leiti þakka ég hlý orð í minn garð.
Skrifa ummæli