miðvikudagur, 4. júlí 2012

Ég er handhafi valdsins


Ekkert vit í því að breyta Stjórnarskránni, segir nýendurkjörinn forseti. Fyrir nokkru sagði hann hins vegar að hann vildi að tillögur Stjórnlagaráðs yrðu bornar undir þjóðina og hvatti til þess að þær væru samþykktar, þá hélt hann því fram að verið væri að færa mikil völd til forsetans. Það var leiðrétt af ráðsliðum Stjórnlagaráðs og forsetanum bent á að í nýju stjórnarskránni heldur forsetinn óbreyttum málskotsrétti, en þarf að rökstyðja ákvörðun um synjun laga og tilkynna hana forseta Alþingis.

Það sem virðist fara fyrir brjóstið á forsetanum er að Stjórnlagaráð ætlar honum að deila málskotsréttinum með þjóðinni, 10% kjósenda geta einnig farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Þessi ákvörðun var tekinn af ráðsliðum eftir mjög ítarlegar umræður og tilgangurinn sá að forsetinn þyrfti þá afar sjaldan að grípa málskots.

Sé litið til ummæla forsetans nú, er ekki hægt að skilja hann öðru vísi en svo að hann telji að hagsmunir þjóðarinnar felist í því að hann einn ráði því hverjir taki endanlegar ákvarðanir.

Alþingi samþykkti með yfirgnæfandi meirihluta að þjóðin fengi að segja álit sitt á tillögum Stjórnlagaráðs, en forsetinn vill ganga gegn vilja Alþingis og hefur gengið í lið með þeim sem vilja verja hagsmuni sérhyggjunnar. Hann vill ásamt valdagæsluliðum koma í veg fyrir að þjóðin fái sjálf að greiða atkvæði um nýja Stjórnarskrá.

Í tillögum Stjórnlagaráðs er ákaflega skýrt hvert hlutverk forsetans sé, andstætt því sem er í núgildandi Stjórnarskrá og reyndar andstætt því sem sumir halda fram. Á það hefur forsetinn spilað og vill hafa möguleika til þess að halda því áfram. Forsetinn hefur nokkur formleg hlutverk sem ekki breytast frá núgildandi Stjórnarskrá, svo sem að stefna saman og setja Alþingi, veita náðun og sakaruppgjöf að tillögu ráðherra.

Í tillögum Stjórnlagaráðs skipar forsetinn forsætisráðherra í embætti eftir að Alþingi hefur kosið hann, og veitir honum lausn í kjölfar kosninga, ef samþykkt er vantraust eða ef ráðherrann óskar þess sjálfur. Forsetinn kemur einnig að myndun ríkisstjórnar með því að það er hlutverk hans að leggja fram á þingi tillögur um forsætisráðherraefni eftir samráð við þingflokka og þingmenn.

Þegar ráðherra hyggst skipa dómara eða ríkissaksóknara í embætti þarf að bera tillögu um skipunina undir forseta. Telji forseti hana umdeilanlega eða vafasama getur hann synjað skipuninni staðfestingar og gengur málið þá til Alþingis þar sem greidd eru atkvæði um hana. Sé skipunin studd með 2/3 atkvæða á þingi telst hún staðfest en annars ekki, og þarf ráðherra þá að gera nýja tillögu.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hann er handhafi valdsins en dreymir um að verða íslenzkur heimsleiðtogi, en nóg elskar maður heiminn til forðast að ÓRG verði útflutningsvara. Ef ekki forseti, ættum við Íslendingar í deilum við Stofnun Ólaf Ragnar Grímssonar, undir handleiðslu þeirra hjóna. Það er dapurlegt að horfa á ´lýðræðisríki´ láta einn mann spila svona með sig á afar mikilvægum tímum eftir forsendubrest og efnahagshrun græðgisafla.

Hreint og beint er það aumingjaskapur að hann skuli enn vaða hér um, til að tryggja áframhaldandi stjórnskipan á Íslandi sem tryggir fáum áfram aðgang að auðlindum og verkfæri til að kúga almúgann niður í ekki neitt. Þess vegna varla tilviljun að forsetinn líkir sér við norrænt kóngafólk og neitar siðareglum. Jafnframt neitar hann þjóðinni um nýja stjórnskrá og vill heldur samskipti við fjarlægðar harðstjórnir en nágranna í Evrópu. En helmingur fólks vill þetta og getur nú skemmt sér við þá iðju að koma hér á sjálfstæði frá Dönum, til þess eins að koma því hendur á einræðisherra úr heimahögum. Puntdúkka frá botni miðjarðarhafsinsins og einræðisherra passa svo þegna landsins frá hinum illu öflum í Evrópu, sem hér vilja ræna og rupla auðlindum íslenskra valdahópa.

Nafnlaus sagði...

Það er risastór galli á þessum stjórnarskrárhugmyndum stjórnlagaráðs. Auðlindaákvæðið er stór skaðlegt. "Sameign þjóðarinnar" er ekkert annað en falinn sósíalismi, Karl Marx, Lenin og Stalín hefðu verið stoltir af þeim sem þetta settu inn í stjórnarskránna. Ég held að þeir sem eru fylgjandi þessu ákvæði ættu að kynna sér sögu 20. aldarinnar rækilega og velta fyrir sér hvort þjóðfélög sem byggð hafa verið upp með séreign og eignarrétt einstaklinga sem undirstöðu hafi farnast betur en þeim sem höfðu sameignina að leiðarljósi. Hvorum megin við Járntjaldið hefðirðu viljað búa Guðmundur?

Markmið stjórnarskrár á ekki að vera að lágmarka öfund og hvetja til meðalmennsku. Eini tilgangur stjórnarskráa á að vera að vernda einstaklinga gagnvart átroðningi ríkisvaldsins, grunn mannréttindi og allt það. Að vera að troða hreinum sósíalisma inn í plaggið er eiginlega glæpsamlegt...

Guðmundur sagði...

Verð að segja að ég skil ekki hvert nafnlaus #10:38 er að fara. Að líkja tillögum Stjórnlagaráðs við Lenin og Stalín segir reyndar allt um hugarfar þess sem þetta ritar.

Nafnlaus sagði...

Var ekki að lesa ummælin fyrr en núna. Naflausi kl. 10:38 er all hrikalegur. Gæti verið Hannes Hólmsteinn. Ekki einu sinni Davíð Oddsson mundi láta svona bull frá sér fara.
Haukur Kristinsson