föstudagur, 30. nóvember 2012

Í samúðarverkfall með LÍÚ


Það er með ólíkindum hvað sjómenn hafa mátt þola í áralangri deilu sinni við útgerðarmenn um að njóta sömu réttinda og aðrir launamenn hafa hér á landi að geta gert kjarasamning. Síðasta útspil LÍÚ um að snúa deilunni yfir í pólitískan þrýsting á ríkisstjórn, sem gengur reyndar þvert á gildandi lög. En það er nú svo að oft hafa LÍÚ menn komist upp með hluti sem ekki eru taldir framkvæmanlegir fyrir aðra.

Hér er ég að vísa til þeirra breytinga sem gerðar voru á stöðu vinnudeilna með svokölluðum Pálslögum á sínum tíma. Þar var megintilgangurinn að koma einmitt í veg fyrir að verkalýðsforkólfar sem væru um of tengdir flokkspólitík, gætu smellt sér í löng og góð verkföll til þess að efla félagsandann, eins oft var sagt hér á fram undir 1985 þar til Pálslög voru sett.
 
Verkalýðsforystan þótti þá um of gleyma sér og tengja stjórnmálabaráttuna við kjarabaráttuna til þess að berja fram pólitíska stöðubreytingu. Það hefur ekki verið hægt síðan Pálslög voru sett af Framsókn og Sjálfstæðismönnum. Þetta er reyndar atriði sem fréttamenn og spjallþáttastjórnendur gleyma ætíð þegar þeir eru að leggja mat á stöðuna á vinnumarkaði.  

Í dag hafa hinir fjársterku eigendur kvótans innan LÍÚ gleymt sér í gæslu eigin hagsmuna. Barátta þeirra gegn nýrri Stjórnarskrá er þekkt og hefur verið umtöluð. Nú hefur LÍÚ farið inn á nýjar brautir og þeir krefjast þess að sjómenn sjái um greiða úr eigin vasa þann auðlindaskatt, sem þjóðin hefur lengi réttilega krafist að greiddur yrði fyrir afnotin af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til þess að standa undir rekstri íslensks samfélags frekar en að tugir milljarða lendi árlega í vösum fárra.

Hér ætla útgerðarmenn greinilega að nota atvinnulaust fiskvinnslufólk til þess að reyna að skapa þrýsting á stjórnvöld. Þetta kostar útgerðarmenn ekki krónu, því þeim var gefinn á sínum tíma fiskurinn sem syndir kringum Ísland og geta veitt hann þegar þeim sýnist. Með þessuari ókeypis aðgerð telja útgerðarmenn sig geta áhyggjulaust skellt á þessu verkfalli.

Umtalsverðar líkur eru á því, ef LÍÚ fer alla leið með þetta mál og boði verkbann, muni það breiðast út og valda gríðarlega alvarlegum og víðtækum deilum á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu. Næsta víst er að margir muni vilja fara í samúðarverkfall með sjómönnum, en það er aftur á móti ekki er útlit fyrir að sjómenn vilji fara í verkfall, það sé betra fyrir þá að halda stöðunni sinni óbreyttri.
 
Það er nákvæmlega þetta sem LÍÚ stólar á og sægreifarnir komist þannig í verulega arðbært verkbann, með því að berja á saklausu fiskvinnslufólki. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti.

Samkvæmt landslögum þá telst samúðarverkfall vera vinnustöðvun eins aðila sem gerð er til stuðnings kröfum annars. Samúðarverkföll eru þannig ólík öðrum verkföllum, þau eiga að stuðla að framgangi krafna annars aðila en þess sem stendur að samúðarverkfallinu. Félagsdómur hefur staðfest stöðu samúðarverkfalla á þessum grunni. Með þeim sé ekki verið að brjóta friðarskyldu og hún kemur sakir þessa ekki í veg fyrir samúðarverkföll.

Það má því leiða að því rök að margir launþegahópar muni jafnvel íhuga að fara í samúðarverkfall með LÍÚ, þannig að þetta verði þeim ekki eins arðbært og þægilegt og hinir sjálfhverfu og sjálfumglöðu sægreifar áætla.

fimmtudagur, 29. nóvember 2012

Þjóðin gerir tilraun til valdaráns


Ég er pistlahöfundur í norrænum blöðum hér er pistill sem birtist nýlega í Noregi:
 
Íslendingar fengu tækifæri til að kjósa um framtíðina 20. okt. síðastliðinn, tækifæri sem margar þjóðir öfunduðu okkur af. Fréttin um kosningarnar fór víða, og niðurstaðan ekki síður; að á Íslandi væri samfélag þar sem lýðræði virkar í alvöru en er ekki kæft eða skrumskælt af þingmönnum og hagsmunaöflum.

Margir erlendir fjölmiðlar sendu fréttamenn til Íslands til þess að fjalla um byltinguna sem íslenska þjóðin framkallaði 2009 með því að stilla sér upp fyrir framan Alþingishúsið og hrekja sitjandi ríkisstjórn frá völdum og reka þá stjórnendur Seðlabankans sem höfðu gert hann gjaldþrota. Hún valdi síðan 25 einstaklinga úr 530 frambjóðendum til þess að mynda Stjórnlagaráð og skrifa nýja stjórnarskrá, setja stjórnmálamönnum nýjar leikreglur.

Eftir byltinguna fannst mörgum útilokað að þingmenn myndu halda áfram á sömu braut, að í alvöru að það væri búið að fletta svo rækilega ofan af spillingu, dugleysi og svikum að ekki yrði aftur snúið. Sú von vaknaði að stjórnmálamenn myndu taka vilja þjóðarinnar alvarlega, ekki síst eftir að Rannsóknarskýrslan birti sín járnbundnu rök um þann fáránleika sem leitt hafði íslenska þjóð fram af björgunum.

Þar hrundi allt, ekki bara efnahagskerfið heldur hugmyndakerfið líka. Við blasti spillingin, misskiptingin, lygarnar og vanhæfnin. Það er Ríkið sem á að tryggja stöðu almennings, en það brást og lagði til hliðar samkennd og jöfnuð. Markaðshyggjan og græðgin réð för. Við urðum að huga að grunnstoðum samfélagsins, hugsa allt upp á nýtt.

Hrunið var staðfesting á því að innri hugsun íslensks samfélags var verulega ábótavant. Þess vegna þurfti nýja stjórnarskrá. Árið 2010 var kallaður saman þjóðfundur með því að velja með slembiúrtaki 1000 einstaklinga úr þjóðskrá, þar kom fram ákall um nýja stjórnarskrá þar sem hið endanlega vald væri í reynd og í verki hjá þjóðinni. Hávært ákall um skilvirkara og fjölbreyttara lýðræði. Úr niðurstöðu þjóðfundar vann Stjórnlagaráð tillögur sínar um nýja stjórnarskrá.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. okt. samþykktu 67 % kjósenda að Alþingi skyldi fara eftir tillögum stjórnlaganefndar um nýja stjórnarskrá. 82% vildu að náttúruauðlindir væru í eigu þjóðarinnar, 77% vildu auka persónukjör til Alþingis, 71% vildu auka beint lýðræði. Allt eru þetta ákvæði í tillögum að nýrri stjórnarskrá. En þessi niðurstaða var andstæð þeim sérhagsmunum sem hluti alþingismanna ver. Þeirra túlkun var að þeir sem ekki mættu á kjörstað hefðu sagt nei, og bjuggu með því til allt aðra niðurstöðu. Á Íslandi er flokksveldi ekki lýðveldi.

Í öllum lýðræðisríkjum lúta stjórnmálamenn án nokkurra skilyrða niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Þar gildir hið eina að öllum sé tryggður aðgangur að kjörklefa til þess að nýta sér vald sitt. Annað er grímulaus tilraun til valdaráns. Lýðræðið skrumskælt með því gera að engu niðurstöðu mikils meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað.

Vald þjóðarinnar er stjórnarskrárvarið og það er hún sem setur stjórnvöldum leikreglur. Þingmenn segja þjóðinni að gagnslaust sé að kjósa í ráðgefandi kosningum. Valdið liggi hjá þeim ekki þjóðinni. Hér birtist sá fáránleiki sem gjörspillt íslensk valdastétt hefur búið íslenskri þjóð.

Í þjóðaratkvæðagreiðslum ræðst niðurstaðan ætíð af vilja meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað og taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu. Vald sem ekki er sprottið frá þjóðinni verður aldrei annað en ofbeldi sem beint er gegn henni. Vilji þjóðarinnar er vilji samfélagsheildarinnar og sá vilji fer saman við almannahagsmuni.

Stjórnvald sem vill kallast réttmætt verður hverju sinni að lúta skilyrðislaust niðurstöðum í þjóðaratkvæðagreiðslum. Í þjóðaratkvæðagreiðslum eru mál sett í dóm allra kjósenda, þar sem æðsta valdið liggur. Þar er málið lagt undir alla þjóðina og úrslitin eru í höndum meirihluta þeirra sem mæta á kjörstað. Þeir sem ekki mæta eru að fela öðrum að greiða atkvæði fyrir sig. Engum hefur hingað til komið til hugar að taka sér það vald að túlka hvernig flokka eigi ógreidd atkvæði.

Nú eru 15 mánuðir liðnir síðan Stjórnlagaráð skila sínu frumvarpi um nýja Stjórnarskrá. Allir, ekki síst sitjandi stjórnmálamenn, hafa haft tækifæri til þess að koma fram með athugsemdir. En það blasir við öllum að þeir stjórnmálaflokkar sem hafa verið hvað lengst við völd á Íslandi hafa barist á öllum stigum gegn endurnýjun Stjórnarkrárinnar.

Í dag 15 mánuðum síðar birtast þeir íslenskum almenning í fréttatímum sjónvarpstöðvanna kvarta undan því að þeir hafi ekki fengið nægan tíma til þess að gera athugasemdir. Engar málefnalegar athugasemdir einungis upphrópanir að engu megi breyta, því það geti orðið til þess að þeir missi þau tök sem þeir hafa á íslensku samfélagi. Það sé hættulegt.
 
Það sé hættulegt að þjóðin fái að segja sitt álit í þjóðaratkvæðagreiðslum. Það sé valdránrán þjóðar frá þeim sem hafi tekist að draga til sín öll völd og auð þjóðarinnar. Íslenskt þjóð sé að gera tilraun til valdaráns hjá sitjandi valdastétt.

föstudagur, 9. nóvember 2012

Af ávöxtum þeirra skuluð þið þekkja þá


Þessi pistill birtist í Fréttablaðinu 7. nóv.

Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins og Þorstein Pálsson fyrrv. ráðherra og sendiherra hafa tekið höndum saman um að skrifa reglulega í Fréttablaðið pistla með það að markmiði að grafa undan trúverðugleika tillagna Stjórnlagaráðs. Þorsteinn líkti nú um helgina tillögum Stjórnlagaráðs við óvandað smjör og bendir á að hér á landi sé einmitt regluverk sem verndar þá framleiðendur sem eru valdhöfunum þóknanlegir hverju sinni. Framleiðsla þeirra fari milliliðalaust í gæðaflokk. Þessu regluverki var komið á af þeim flokk sem var við völd frá lýðveldisstofnun fram yfir Hrun. Regluverki sem færir mikið til fárra og talsmenn flokksins beita öllum ráðum til þess að vernda.

Nýlega var ákaflega upplýsandi þáttur í sjónvarpinu um Teboðshreyfinguna, þar sem sýnt var fram á hvernig þeir sem hefðu fjármagnið og völdin, hafi á sínum snærum fjölmiðlafólk sem spinni ferli með röngum fréttum, og heimatilbúnum skýrslum. Þar er marvisst spilað á hégómagrind nytsamra sakleysingja sem fá tækifæri til þess að  upplifa sig sem stjörnur í spjallþáttum og á síðum fjölmiðla í eigu auðmanna. Fréttamenn og spjallþáttastjórnendur taka endurtekið við þá viðtöl sem beint er markvisst inn á brautir reistum á spuna valdhafanna. Mattheus sagði: „Varist falspámenn. Þeir munu koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þið þekkja þá.“

Hér heima blasir við okkur nákvæmlega hið sama. Hinum nytsömu sakleysingjum er stillt upp fremst í fjölmiðlum valdastéttarinnar. Hvert er spjótunum beint? Jú að starfsfólki stéttarfélaga og lífeyrissjóða. Sjóðsfélagar lífeyrissjóða eru miskunnarlaust fordæmdir fyrir það eitt að reyna að verja ævisparnað sinn. Örorku – og lífeyrisþegar sitji ásamt starfsfólki stéttarfélaganna á ránsfeng sem þeir hafi tekið ófrjálsri hendi frá heimilunum. Þeir sem skrifa í miðopnur fjölmiðla valdhafanna halda því að almenning að það sé meðal þessa fólks sem er að finna þá sem keyrðu þjóðina fram af brúninni. Öllum ráðum er beitt til þess að beina sjónum almennings frá valdhafahópnum, sem tryggilega heldur sig í felum sauðaklæðanna. Í spjallþáttum eru reglulega leiddir fram þátttakendur sem fullyrða, að allir starfsmenn stéttarfélaganna séu glæpahyski og eru ekki krafðir um skýringa. Hér vísa ég m.a til ummæla sem fram komu í Silfri Egils 4. nóv.

Samskonar vinnubrögðum er beitt í öðrum spjallþáttum og samsamar sig fullkomlega við aðferðir Teboðshreyfingarinnar. Athyglinni er markvist beint frá atriðum sem þyrfti að skoða og viðtölum við einstaklinga sem stóðu uppi með digra sjóði eftir Hrunið og hafa hagnast um milljarða króna á kostnað launamanna. Starfsmenn stéttarfélaganna eða lífeyrissjóðanna eru sannarlega ekki meðal þessara auðmanna, þaðan að síður lífeyris- og örorkuþegar.

Ólafur og Þorsteinn halda því fram að tillögur Stjórnlagaráðs séu ómögulegar og unnar í miklum flýti. Engin rök koma, engar ábendingar. Markvist sniðganga þeir þá gríðarlegu forvinnu sem lá á borðum Stjórnlagaráðs þegar ráðið hóf störf. Í ráðinu sat fólk sem hafði til að bera umtalsverða þekkingu á málinu, fólk sem kom úr flestum geirum samfélagsins. Öll þessi vinna var unnin fyrir opnum tjöldum og mjög margir höfðu samband við ráðið og komu á framfæri tillögum og ráðleggingum, þar á meðal fjölmargir innlendir og erlendir sérfræðingar.

En til ráðsins barst ekki ein einasta tillaga frá þeim Þorsteini eða Ólafi, þaðan af síður frá þeim þingmönnum sem hafa gagnrýnt störf Stjórnlagaráðs. En sama dag og Stjórnlagaráð skilaði inn sínum tillögum hófst markvist niðurrifsstarf í samræmi við starfsreglur Teboðshreyfingarinnar. Frumvarpið er nú búið að vera eitt og hálft ár í þinginu, og þingmenn flokksins og dálkahöfundar valdastéttarinnar hafa beitt öllum ráðum til þess að koma í veg fyrir málefnalega umræðu í þinginu. Valdastéttin ætlar enn einu sinni að koma málinu í nefndir og drepa því á dreif, eins og m.a. Þorsteinn hefur verið virkur þátttakandi í á sínum stjórnmálaferli. Frumvarp Stjórnalagarráðs reyndist betra og hefur fengið mun betri viðtökur hjá þjóðinni en valdastéttin ætlaði og hún er að fara á taugum. Fjölmargir erlendir sérfræðingar hafa hlaðið lofsorði á frumvarpið og hingað streyma erlendir fréttamenn til þess að fylgjast með framvindu eftirtektarverðrar lýðræðisbaráttu almennings gegn þeim sem hafa ástundað stórtæka hrifsun á völdum og þjóðarauðnum.

fimmtudagur, 1. nóvember 2012

Öllu snúið á haus


Ég neita því ekki að einhverra hluta vegna ætlast ég til þess að prófessor við háskóla fari með rétt mál. Maður reiknar ekki með að þeir sem tala í nafni fræðastofnana beiti fyrir sig umræðuhefð viðtekinnar þrætubókarlistar.

Ég gæti vel skilið að hann væri annarrar skoðunar en Stjórnlagaráð og Þjóðfundar og færði fyrir því haldgóð rök. Því miður gildir þetta ekki um grein ÞóroddsBjarnasonar prófessors.

Hér er í svipinn aðeins tóm til að fjalla um eitt atriði, sem er þó grundvallaratriði. Ástæða er að halda því til haga að það er 10% skekkja hjá prófessornum, það voru 67% kjósenda sem merktu já við spurninguna um að atkvæði kjósenda alls staðar af landinu skuli vega jafnt í kosningum.. Auk þess vil ég einnig árétta að Stjórnlagaráð taldi sig vitanlega bundið þeim stefnumiðum sem voru afgreidd með afgerandi hætti á Þjóðfundi og hefur því komið fram í með afgerandi hætti í fyrri könnunum meðal þjóðarinnar.

Prófessor Þóroddur segir:

1.                   „Stjórnlagaráð hefur lagt til viðamiklar breytingar á núgildandi kosningakerfi þar sem … kjördæmakjörnum þingmönnum [er] fækkað til mikilla muna“.

Þetta er rangt. Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs skal boðið bæði upp á kjördæmiskjör og landskjör. Það er síðan undir kjósendum komið hvernig sætin skiptast. Þau gætu öll orðið að kjördæmissætum ef kjósendur velja þann kost. Það er val kjósenda en hvorki löggjafans og enn síður stjórnlagaráðs.

2                    „Þannig verði minnst 33 þingmenn kosnir landskjöri en að hámarki 30 þingmenn kjördæmakosnir í 1–8 kjördæmum.“

Þetta er allt kolrangt og stendur hvorki í stjórnlagatextanum í tillögum stjórnlagaráðs né heldur í skýringum við þær. Þvert á móti má samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs binda 30 sæti við kjördæmi með ákvæðum í kosningalögum og það þótt kjósendur vildu velja sér fleiri en 33 þingmenn af landslistum.

Þarna heimila tillögur stjórnlagaráðs „að hafa megi vit“ fyrir kjósendum og ganga þar með á svig við meginregluna um jafnt vægi atkvæða og persónukjör. Það sem stjórnlagaráð nefnir sem lágmark af kjördæmissætum gerir prófessorinn að hámarki. Landskjörsætin verða ekki minnst 33. Þau geta – ef Alþingi svo kýs – mest orðið 33 og það þótt allir kjósendur á landinu finndu sér betri frambjóðendur á landslistum en á kjördæmislistum. Þetta er því allt á haus hjá fræðimanninum.

3.                  „Tala kjósenda á kjörskrá að baki hverju kjördæmabundnu sæti skuli þó ekki vera lægri en meðaltalið fyrir öll 63 sætin og kjördæmakjörnir þingmenn yrðu því að jafnaði nokkru færri en 30.“

Hér átta ég mig alls ekki á hvert prófessorinn er að fara. Við skulum draga upp einfalda mynd og skipta landinu í tvö kjördæmi, landsbyggðarkjördæmi og höfuðborgarkjördæmi. Samkvæmt við kjósendatölum úr síðustu þingkosningum voru að meðaltali 3.617 kjósendur að baki hverju sætanna 63.

Ef sætunum 63 er nú skipt á milli þessara tveggja meginsvæða í sem fyllstu samræmi við tölu kjósenda á kjörskrá kæmu 23 í hlut landsbyggðar en 40 í hlut höfuðborgarsvæðisins og væru þá 3.572 að baki hverju landsbyggðarsæta en 3.643 að baki hverju hinna.

Nær landsmeðaltalinu verður ekki komist, annað kjördæmið hlýtur alltaf að vera undir en hitt yfir meðaltalinu. Það er tilviljun að það er landsbyggðin sem er undir í þessu dæmi. Setningin sem hér er höfð eftir höfundi greinarinnar segir berum orðum að það megi binda allt að 22 sæti við landsbyggðina og allt að 40 við höfuðborgarsvæðið ef ekki væri líka sagt að einungis 30 sé til ráðstöfunar í þessu skyni.

En texti stjórnlagagreinarinnar hjá stjórnlagaráði segir ekkert fleira um ráðstöfun hinna bundnu sæta. Því mætti festa 22 þeirra á landsbyggðinni en láta 8 duga „fyrir sunnan“ væri það vilji Alþingis. (Ef landsbyggðarkjördæmunum er skipt upp í þrjú eins og nú gæti eitt þessara 22 farið forgörðum vegna námundunarreiknings.)

Greinarhöfundur og fleiri sem hafa skrifað undir með fræðingsstimpli tjáðu sig fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna á ofangreindum nótum og hræddu landsbyggðarfólk með því að fullyrða að samkvæmt tillögum stjórnlagráðs kæmu aðeins 10-11 þingmenn af landsbyggðinni. Þessu var reynt að andmæla en það var eins og berja höfðinu við stein. Og enn hafa fræðingarnir ekkert lært.

Það er mikill ábyrgðahlutur að villa um fyrir fólki og það í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslu um stór mál. Vonandi er það óviljaverk, en þá ættu viðkomandi að sjálfir að leiðrétta sig og biðjast afsökunar.