föstudagur, 30. nóvember 2012

Í samúðarverkfall með LÍÚ


Það er með ólíkindum hvað sjómenn hafa mátt þola í áralangri deilu sinni við útgerðarmenn um að njóta sömu réttinda og aðrir launamenn hafa hér á landi að geta gert kjarasamning. Síðasta útspil LÍÚ um að snúa deilunni yfir í pólitískan þrýsting á ríkisstjórn, sem gengur reyndar þvert á gildandi lög. En það er nú svo að oft hafa LÍÚ menn komist upp með hluti sem ekki eru taldir framkvæmanlegir fyrir aðra.

Hér er ég að vísa til þeirra breytinga sem gerðar voru á stöðu vinnudeilna með svokölluðum Pálslögum á sínum tíma. Þar var megintilgangurinn að koma einmitt í veg fyrir að verkalýðsforkólfar sem væru um of tengdir flokkspólitík, gætu smellt sér í löng og góð verkföll til þess að efla félagsandann, eins oft var sagt hér á fram undir 1985 þar til Pálslög voru sett.
 
Verkalýðsforystan þótti þá um of gleyma sér og tengja stjórnmálabaráttuna við kjarabaráttuna til þess að berja fram pólitíska stöðubreytingu. Það hefur ekki verið hægt síðan Pálslög voru sett af Framsókn og Sjálfstæðismönnum. Þetta er reyndar atriði sem fréttamenn og spjallþáttastjórnendur gleyma ætíð þegar þeir eru að leggja mat á stöðuna á vinnumarkaði.  

Í dag hafa hinir fjársterku eigendur kvótans innan LÍÚ gleymt sér í gæslu eigin hagsmuna. Barátta þeirra gegn nýrri Stjórnarskrá er þekkt og hefur verið umtöluð. Nú hefur LÍÚ farið inn á nýjar brautir og þeir krefjast þess að sjómenn sjái um greiða úr eigin vasa þann auðlindaskatt, sem þjóðin hefur lengi réttilega krafist að greiddur yrði fyrir afnotin af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, til þess að standa undir rekstri íslensks samfélags frekar en að tugir milljarða lendi árlega í vösum fárra.

Hér ætla útgerðarmenn greinilega að nota atvinnulaust fiskvinnslufólk til þess að reyna að skapa þrýsting á stjórnvöld. Þetta kostar útgerðarmenn ekki krónu, því þeim var gefinn á sínum tíma fiskurinn sem syndir kringum Ísland og geta veitt hann þegar þeim sýnist. Með þessuari ókeypis aðgerð telja útgerðarmenn sig geta áhyggjulaust skellt á þessu verkfalli.

Umtalsverðar líkur eru á því, ef LÍÚ fer alla leið með þetta mál og boði verkbann, muni það breiðast út og valda gríðarlega alvarlegum og víðtækum deilum á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu. Næsta víst er að margir muni vilja fara í samúðarverkfall með sjómönnum, en það er aftur á móti ekki er útlit fyrir að sjómenn vilji fara í verkfall, það sé betra fyrir þá að halda stöðunni sinni óbreyttri.
 
Það er nákvæmlega þetta sem LÍÚ stólar á og sægreifarnir komist þannig í verulega arðbært verkbann, með því að berja á saklausu fiskvinnslufólki. Það er svo sem ekki í fyrsta skipti.

Samkvæmt landslögum þá telst samúðarverkfall vera vinnustöðvun eins aðila sem gerð er til stuðnings kröfum annars. Samúðarverkföll eru þannig ólík öðrum verkföllum, þau eiga að stuðla að framgangi krafna annars aðila en þess sem stendur að samúðarverkfallinu. Félagsdómur hefur staðfest stöðu samúðarverkfalla á þessum grunni. Með þeim sé ekki verið að brjóta friðarskyldu og hún kemur sakir þessa ekki í veg fyrir samúðarverkföll.

Það má því leiða að því rök að margir launþegahópar muni jafnvel íhuga að fara í samúðarverkfall með LÍÚ, þannig að þetta verði þeim ekki eins arðbært og þægilegt og hinir sjálfhverfu og sjálfumglöðu sægreifar áætla.

Engin ummæli: