fimmtudagur, 29. nóvember 2012

Þjóðin gerir tilraun til valdaráns


Ég er pistlahöfundur í norrænum blöðum hér er pistill sem birtist nýlega í Noregi:
 
Íslendingar fengu tækifæri til að kjósa um framtíðina 20. okt. síðastliðinn, tækifæri sem margar þjóðir öfunduðu okkur af. Fréttin um kosningarnar fór víða, og niðurstaðan ekki síður; að á Íslandi væri samfélag þar sem lýðræði virkar í alvöru en er ekki kæft eða skrumskælt af þingmönnum og hagsmunaöflum.

Margir erlendir fjölmiðlar sendu fréttamenn til Íslands til þess að fjalla um byltinguna sem íslenska þjóðin framkallaði 2009 með því að stilla sér upp fyrir framan Alþingishúsið og hrekja sitjandi ríkisstjórn frá völdum og reka þá stjórnendur Seðlabankans sem höfðu gert hann gjaldþrota. Hún valdi síðan 25 einstaklinga úr 530 frambjóðendum til þess að mynda Stjórnlagaráð og skrifa nýja stjórnarskrá, setja stjórnmálamönnum nýjar leikreglur.

Eftir byltinguna fannst mörgum útilokað að þingmenn myndu halda áfram á sömu braut, að í alvöru að það væri búið að fletta svo rækilega ofan af spillingu, dugleysi og svikum að ekki yrði aftur snúið. Sú von vaknaði að stjórnmálamenn myndu taka vilja þjóðarinnar alvarlega, ekki síst eftir að Rannsóknarskýrslan birti sín járnbundnu rök um þann fáránleika sem leitt hafði íslenska þjóð fram af björgunum.

Þar hrundi allt, ekki bara efnahagskerfið heldur hugmyndakerfið líka. Við blasti spillingin, misskiptingin, lygarnar og vanhæfnin. Það er Ríkið sem á að tryggja stöðu almennings, en það brást og lagði til hliðar samkennd og jöfnuð. Markaðshyggjan og græðgin réð för. Við urðum að huga að grunnstoðum samfélagsins, hugsa allt upp á nýtt.

Hrunið var staðfesting á því að innri hugsun íslensks samfélags var verulega ábótavant. Þess vegna þurfti nýja stjórnarskrá. Árið 2010 var kallaður saman þjóðfundur með því að velja með slembiúrtaki 1000 einstaklinga úr þjóðskrá, þar kom fram ákall um nýja stjórnarskrá þar sem hið endanlega vald væri í reynd og í verki hjá þjóðinni. Hávært ákall um skilvirkara og fjölbreyttara lýðræði. Úr niðurstöðu þjóðfundar vann Stjórnlagaráð tillögur sínar um nýja stjórnarskrá.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. okt. samþykktu 67 % kjósenda að Alþingi skyldi fara eftir tillögum stjórnlaganefndar um nýja stjórnarskrá. 82% vildu að náttúruauðlindir væru í eigu þjóðarinnar, 77% vildu auka persónukjör til Alþingis, 71% vildu auka beint lýðræði. Allt eru þetta ákvæði í tillögum að nýrri stjórnarskrá. En þessi niðurstaða var andstæð þeim sérhagsmunum sem hluti alþingismanna ver. Þeirra túlkun var að þeir sem ekki mættu á kjörstað hefðu sagt nei, og bjuggu með því til allt aðra niðurstöðu. Á Íslandi er flokksveldi ekki lýðveldi.

Í öllum lýðræðisríkjum lúta stjórnmálamenn án nokkurra skilyrða niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Þar gildir hið eina að öllum sé tryggður aðgangur að kjörklefa til þess að nýta sér vald sitt. Annað er grímulaus tilraun til valdaráns. Lýðræðið skrumskælt með því gera að engu niðurstöðu mikils meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað.

Vald þjóðarinnar er stjórnarskrárvarið og það er hún sem setur stjórnvöldum leikreglur. Þingmenn segja þjóðinni að gagnslaust sé að kjósa í ráðgefandi kosningum. Valdið liggi hjá þeim ekki þjóðinni. Hér birtist sá fáránleiki sem gjörspillt íslensk valdastétt hefur búið íslenskri þjóð.

Í þjóðaratkvæðagreiðslum ræðst niðurstaðan ætíð af vilja meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað og taka þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu. Vald sem ekki er sprottið frá þjóðinni verður aldrei annað en ofbeldi sem beint er gegn henni. Vilji þjóðarinnar er vilji samfélagsheildarinnar og sá vilji fer saman við almannahagsmuni.

Stjórnvald sem vill kallast réttmætt verður hverju sinni að lúta skilyrðislaust niðurstöðum í þjóðaratkvæðagreiðslum. Í þjóðaratkvæðagreiðslum eru mál sett í dóm allra kjósenda, þar sem æðsta valdið liggur. Þar er málið lagt undir alla þjóðina og úrslitin eru í höndum meirihluta þeirra sem mæta á kjörstað. Þeir sem ekki mæta eru að fela öðrum að greiða atkvæði fyrir sig. Engum hefur hingað til komið til hugar að taka sér það vald að túlka hvernig flokka eigi ógreidd atkvæði.

Nú eru 15 mánuðir liðnir síðan Stjórnlagaráð skila sínu frumvarpi um nýja Stjórnarskrá. Allir, ekki síst sitjandi stjórnmálamenn, hafa haft tækifæri til þess að koma fram með athugsemdir. En það blasir við öllum að þeir stjórnmálaflokkar sem hafa verið hvað lengst við völd á Íslandi hafa barist á öllum stigum gegn endurnýjun Stjórnarkrárinnar.

Í dag 15 mánuðum síðar birtast þeir íslenskum almenning í fréttatímum sjónvarpstöðvanna kvarta undan því að þeir hafi ekki fengið nægan tíma til þess að gera athugasemdir. Engar málefnalegar athugasemdir einungis upphrópanir að engu megi breyta, því það geti orðið til þess að þeir missi þau tök sem þeir hafa á íslensku samfélagi. Það sé hættulegt.
 
Það sé hættulegt að þjóðin fái að segja sitt álit í þjóðaratkvæðagreiðslum. Það sé valdránrán þjóðar frá þeim sem hafi tekist að draga til sín öll völd og auð þjóðarinnar. Íslenskt þjóð sé að gera tilraun til valdaráns hjá sitjandi valdastétt.

Engin ummæli: