föstudagur, 9. nóvember 2012

Af ávöxtum þeirra skuluð þið þekkja þá


Þessi pistill birtist í Fréttablaðinu 7. nóv.

Ólafur Stephensen ritstjóri Fréttablaðsins og Þorstein Pálsson fyrrv. ráðherra og sendiherra hafa tekið höndum saman um að skrifa reglulega í Fréttablaðið pistla með það að markmiði að grafa undan trúverðugleika tillagna Stjórnlagaráðs. Þorsteinn líkti nú um helgina tillögum Stjórnlagaráðs við óvandað smjör og bendir á að hér á landi sé einmitt regluverk sem verndar þá framleiðendur sem eru valdhöfunum þóknanlegir hverju sinni. Framleiðsla þeirra fari milliliðalaust í gæðaflokk. Þessu regluverki var komið á af þeim flokk sem var við völd frá lýðveldisstofnun fram yfir Hrun. Regluverki sem færir mikið til fárra og talsmenn flokksins beita öllum ráðum til þess að vernda.

Nýlega var ákaflega upplýsandi þáttur í sjónvarpinu um Teboðshreyfinguna, þar sem sýnt var fram á hvernig þeir sem hefðu fjármagnið og völdin, hafi á sínum snærum fjölmiðlafólk sem spinni ferli með röngum fréttum, og heimatilbúnum skýrslum. Þar er marvisst spilað á hégómagrind nytsamra sakleysingja sem fá tækifæri til þess að  upplifa sig sem stjörnur í spjallþáttum og á síðum fjölmiðla í eigu auðmanna. Fréttamenn og spjallþáttastjórnendur taka endurtekið við þá viðtöl sem beint er markvisst inn á brautir reistum á spuna valdhafanna. Mattheus sagði: „Varist falspámenn. Þeir munu koma til yðar í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þið þekkja þá.“

Hér heima blasir við okkur nákvæmlega hið sama. Hinum nytsömu sakleysingjum er stillt upp fremst í fjölmiðlum valdastéttarinnar. Hvert er spjótunum beint? Jú að starfsfólki stéttarfélaga og lífeyrissjóða. Sjóðsfélagar lífeyrissjóða eru miskunnarlaust fordæmdir fyrir það eitt að reyna að verja ævisparnað sinn. Örorku – og lífeyrisþegar sitji ásamt starfsfólki stéttarfélaganna á ránsfeng sem þeir hafi tekið ófrjálsri hendi frá heimilunum. Þeir sem skrifa í miðopnur fjölmiðla valdhafanna halda því að almenning að það sé meðal þessa fólks sem er að finna þá sem keyrðu þjóðina fram af brúninni. Öllum ráðum er beitt til þess að beina sjónum almennings frá valdhafahópnum, sem tryggilega heldur sig í felum sauðaklæðanna. Í spjallþáttum eru reglulega leiddir fram þátttakendur sem fullyrða, að allir starfsmenn stéttarfélaganna séu glæpahyski og eru ekki krafðir um skýringa. Hér vísa ég m.a til ummæla sem fram komu í Silfri Egils 4. nóv.

Samskonar vinnubrögðum er beitt í öðrum spjallþáttum og samsamar sig fullkomlega við aðferðir Teboðshreyfingarinnar. Athyglinni er markvist beint frá atriðum sem þyrfti að skoða og viðtölum við einstaklinga sem stóðu uppi með digra sjóði eftir Hrunið og hafa hagnast um milljarða króna á kostnað launamanna. Starfsmenn stéttarfélaganna eða lífeyrissjóðanna eru sannarlega ekki meðal þessara auðmanna, þaðan að síður lífeyris- og örorkuþegar.

Ólafur og Þorsteinn halda því fram að tillögur Stjórnlagaráðs séu ómögulegar og unnar í miklum flýti. Engin rök koma, engar ábendingar. Markvist sniðganga þeir þá gríðarlegu forvinnu sem lá á borðum Stjórnlagaráðs þegar ráðið hóf störf. Í ráðinu sat fólk sem hafði til að bera umtalsverða þekkingu á málinu, fólk sem kom úr flestum geirum samfélagsins. Öll þessi vinna var unnin fyrir opnum tjöldum og mjög margir höfðu samband við ráðið og komu á framfæri tillögum og ráðleggingum, þar á meðal fjölmargir innlendir og erlendir sérfræðingar.

En til ráðsins barst ekki ein einasta tillaga frá þeim Þorsteini eða Ólafi, þaðan af síður frá þeim þingmönnum sem hafa gagnrýnt störf Stjórnlagaráðs. En sama dag og Stjórnlagaráð skilaði inn sínum tillögum hófst markvist niðurrifsstarf í samræmi við starfsreglur Teboðshreyfingarinnar. Frumvarpið er nú búið að vera eitt og hálft ár í þinginu, og þingmenn flokksins og dálkahöfundar valdastéttarinnar hafa beitt öllum ráðum til þess að koma í veg fyrir málefnalega umræðu í þinginu. Valdastéttin ætlar enn einu sinni að koma málinu í nefndir og drepa því á dreif, eins og m.a. Þorsteinn hefur verið virkur þátttakandi í á sínum stjórnmálaferli. Frumvarp Stjórnalagarráðs reyndist betra og hefur fengið mun betri viðtökur hjá þjóðinni en valdastéttin ætlaði og hún er að fara á taugum. Fjölmargir erlendir sérfræðingar hafa hlaðið lofsorði á frumvarpið og hingað streyma erlendir fréttamenn til þess að fylgjast með framvindu eftirtektarverðrar lýðræðisbaráttu almennings gegn þeim sem hafa ástundað stórtæka hrifsun á völdum og þjóðarauðnum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur
Það er orðið pínlegt að sjá hvað sumir af ykkur stjórnlagaráðsmönnum eruð viðkvæmir fyrir gagnrýni á störf ráðsins. Mjög margir eru sammála þeirri skoðun að ráðið hafa færst of mikið í fang á of skömmum tíma því verkefnið var að "fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944." Nú eru tillögurnar komnar fram og verkefni og hlutverki ráðsins lokið.
Gagnrýni eins og að engin tillaga hafi borist frá þeim sem gagnrýna vinnu ráðsins er vindhögg því núverandi stjórnarskrá kveður á um að vinna við frumvarpið skuli fara fram á Alþingi. Þið sem viljið að þetta renni í gegn athugasemdalaust eruð að taka fram fyrir hendur gildandi stjórnarskrár.
Einnig er pínlegt að sjá hvað verið er að reyna upphefja viðtökur og áhuga þjóðarinnar á tillögum ráðsins. Meirihluti þjóðarinnar lætur sig málið ekki varða með því að mæta ekki á kjörstað eða skilar auðu. Ástæður áhugaleysisins getur enginn eignað sér en áhugaleysið er staðreynd.
Merkilegt er hvað Teboðshreyfingin í USA er ofarlega í huga manna á vinstri væng stjórnmalanna á Íslandi. Fróðlegt er að sjá hvernig útlistun þín á misnotkun hreyfingarinnar á fjölmiðlum er heimfærð á íslenska fjölmiðla og þáttur á RUV sérstaklega tilgreindur. Ég er sammála þér í því efni að fjölmiðlum er misbeitt í þágu valdhafa og aldrei í sögu þjóðarinnar hefur ríkisfjölmiðli verið misbeitt sem nú í þeirra þágu.
Stjórnir og starfsmenn lífeyrissjóða og verkalýðshreyfingarinnar eru ekki hafnir yfir gagnrýni frekar en annað. Það má í löngu sem stuttu máli ræða fjárfestingar lífeyrissjóða og tap þeirra í hruninu en eitt er nokkuð víst að erfitt er fyrir sömu menn að gæta hagsmuna skuldara og kröfuhafa.
Mér finnst ekkert sjálfgefið að verkalýðshreyfingin sitji í stjórnum lífeyrissjóða því eigendur fjárins eru félagar í sjóðunum en ekki verkalýðsfélögin. Það er ekkert sjálfgefið að hagsmunir lífeyrissjóða og verkalýðsfélaga fari saman þótt félagarnir séu að einhverju leiti þeir sömu.

Kristinn Daníelsson

Guðmundur sagði...

Ég neita því ekki að mér finnst þessi athugasemd einkennileg. Eftir því sem best verður séð er það ekki bara vinstri menn sem gagnrýna Teboðshreyfinguna, fjölmargir repúblikanar flúðu hana.

Um gjörvallan heim gagnrýna menn boðskap Teboðsins, jafnvel hörðustu hægri menn. Nú tel ég mig ekki vera vinstri mann og hef aldrei aðhyllst þá skoðun.

Ég starfaði innan Sjálfstæðisflokksins um allangt skeið, m.a. sem borgarfulltrúi, en hætti því starfi undir lok síðustu aldar sakir þess að ég taldi mig ekki eiga samleið með þeim flokk lengur, og var reyndar ekki einn um það og hef ekki síðan tekið þátt í flokkspólitísku starfi.

Reyndar hefur verið sótt að mér undanfarnar vikur frá mínum fyrri samflokksfélögum um að koma aftur til starfa með framboði í yfirstandandi prófkjörum, einmitt til þess að vinna gegn últra hægrinu sem ekki er í neinum tengslum við atvinnulífið og er að sliga flokkinn eins og teboðið hefur farið með repúblikana.

Í pistlinum er bent á að áður en Stjórnlagaráð tók til starfa var unnin mikil vinna við undirbúning endurskoðunar stjórnarskrárinnar. Þar gátu menn komið að athugasemdum og ekki síður á meðan Stjórnlagaráð vann.

Síðan hefur Alþingi ásamt öllum öðrum haft í 14 mánuði aðgang að því að koma að faglegri umræðu um breytingar á Stjórnarskránni. Stjórnlagaráð fór yfir athugasemdir og svaraði þeim. allan þennan tíma heyrist ekkert frá ákveðnum aðilum.

En þeir koma svo nú fram með allskonar aths. þegar þjóðin er búinn að segja sitt álit og telja sig vita betur en þjóðin. Það er þetta sem verið er að gagnrýna í pistlinum og ég hef nú yfirleitt fengið að heyra það að ég tali stundum of skýrt frekar en hitt.

En sá sem skrifar aths. velur að stilla þessu upp með harla einkennilegum hætti svo ekki sé nú meira sagt.

Síðan kemur í restina ath.s. um lífeyrissjóðina. Allir sem koma að þeim sjóð sem ég er í vita að ég hafnaði alfarið að vera í stjórn sjóðsins á meðan ég var í forsvari fyrir Rafiðnaðarsambandið sakir þess að ég taldi það ekki eiga saman.

Þegar ég hætti sem formaður þar fyrir rúmu ári var þess farið á leit að ég gæfi kost á mér í vali stjórnarmanna ég tók þátt í þeim kosningum ásamt þrem öðrum og náði kosningu á tveim stórum fundum sjóðsfélaga báðir með rúmlega 100 sjóðsfélaga í maí 2011.

Trúlega eru ekki margir sem eiga meiri hagsmuna að gæta en ég, því inneign mín byggist á því að ég hef greitt í sjóðinn frá stofnun hans 1970 og allan tíman verið hjá vinnuveitendum sem greiða af öllum launum og verið á þokkalegum launum, og greitt auk þess á fullu í séreign.

Allt mitt sparifé er í sjóðnum og það styttist í að ég þurfi á þessum fjármunum að halda.

Hvað varðar tengsl sjóðsfélaga við félagsmenn í stéttarfélögum þá hélt ég að allir vissu að allir launamenn eru sjóðsfélagar. Margir aðrir reyna allt sem þeir geta til þess að greiða sem minnst til almennu íslensku lífeyrissjóðanna.

Yfirleitt er allt sparifé fjölskyldna íslenskra launamanna í lífeyrissjóðum sú inneign skiptir launamenn/sjóðsfélaga gríðarlega miklu. Það er áberandi á öllum félagsfundum sem ég hef komið á inna míns sambands umræða um lífeyrisjóði og hvernig eigi að verja þá fyrir ásókn annarra, kannski ekki síst þeirra sem eiga litlar innistæður en vilja nýta f´jarmuni sjóðanna til þess að greiða niður eigin skuldir.

Það virðist vera ástæða að benda á þá staðreynd að allir sjóðir sem stjórnmálamenn og sérfræðingar bankanna stjórnuðu hrundu til grunna á meðan almennu lífeyrissjóðirnir töpuð um 25% af eignum sínum.

Voru einu fjármálastofnanirnar sem komu standandi út úr Hruninu.