sunnudagur, 24. febrúar 2013

Heill þér Sjálfstæðisflokkur





Nú er ljóst að valdastéttin í Sjálfstæðisflokknum er búinn að tryggja tök sín enn betur á flokknum og ætlar ekki að sleppa þeim tökum sem hún hefur á Íslensku samfélagi og stefnir að því að viðhalda einangrun Íslands. Hvergi vottar fyrir endurskoðun á útfærslu Eimreiðarhópsins á frjálshyggjunni þrátt fyrir við höfum Hrunið og ítarlega skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Hvergi í heiminum tókst að tapa nándarnærri jafnmiklu fé, í hlutfalli við stærð hagkerfisins,  á jafnskömmum tíma og undir stjórn og stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þessi stefna gerði það mögulegt að taka lítið ríkisbankakerfi með sáralítil erlend umsvif og búa til úr því bólu upp á ferfalda landsframleiðslu innan bankakerfisins og líklega annað eins utan þess.

Gjaldþrot íslenska bankanna eru öll á topp 10 lista þeirra stærstu í mannkynssögunni. Frelsið og eftirlitsleysið sem flokkurinn beitti sér fyrir leiddi til ofboðslegar misskiptingar og ójafnaðar og fáir efnuðust mikið á kostnað fjöldans. Hér spilar krónan í einangruðu efnahagskerfi stórt hlutverk. Þessu vill valdastétt Sjálfstæðisflokksins ekki breyta og unir vel þeirri mismunun sem almenning er búið í gjaldeyrishöftunum og ofurvöxtunum.

Þetta er það kerfi sem tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Hann er réttindalaus. Það eru fyrirtækin sem eiga að stjórna landinu með sína hagsmuni í fyrirrúmi og velja þau kjör sem almenning er boðið upp á. Þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við uppbygging á samfélagi okkar síðustu öld er að glatast og viðhorf fjármálanna hafa tekið yfir.

Við höfum undanfarið séð þá valdbeitingu sem flokkurinn vill viðhafa gagnvart þjóðinni þegar hann virðir að vettugi afgerandi niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Flokkurinn ítrekar þessa afstöðu á landsfundinum þegar hann vill ekki láta kanna til hlítar hvað okkur standi til boða í samningum við nágrannlönd okkar. Hann óttast það nefnilega að það muni leiða til þess að hann missi þau tök sem hann hefur á íslensku efnahagslífi.

Mannfyrirlitning fjölþjóðafyrirtækjanna endurspeglast í þeim viðhorfum sem borin eru til okkar frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Opnir óheftir markaðir leiddu Ísland, eina ríkustu þjóð Evrópu, í gjaldþrot og fleiri eru á leiðinni. Gjaldþrot auðhyggjunnar og nýfrjálshyggjunnar blasir við hvert sem litið er. Fjárfestar eru prímusmótorar þessa ferlis blindaðir af þeirri veðmálakeppni sem fer fram undir flautuspili greiningardeildanna.

Við sjáum þetta ekki bara hér á landi barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst sem aldrei áður, kynlífsþrælkun vex, réttindalausum farandverkamönnum fjölgar og hungrið í heiminum vex og þeim fjölgar sem ekki hafa aðgang að vatni.

Einu sinni var ég flokksbundinn á Sjálfstæðisflokknum, þá fylgdi hann norrænum gildum og var stærsti krataflokkur landsins. En stefna Eimreiðarinnar hrakti mig á brott. Það er gott að flokkurinn opinberi sig svona rækilega eins og gert er á þessum landsfundi. Það var viðtekin venja hjá Eimreiðarhópnum að draga upp leiktjöld norrænnar jafnaðarstefnu síðustu daga fyrir kosningar, en draga þau niður þegar kjörstöðum var lokað.

Nú er það ekki gert, Heill þér Sjálfstæðisflokkur, eða hitt þá heldur.

laugardagur, 16. febrúar 2013

Ónýtur gjaldmiðill veldur óróleika á vinnumarkaði



Það eru ekki nema 2-3 áratugir síðan allar innistæður íslenskra sparifjáreigenda í bönkum og lífeyrissjóðum brunnu upp á verðbólgubáli. Þar lagðist á eitt, lélegur gjaldmiðill og sveiflukennd, ómarkviss peningastjórnun, sem er ekki trúverðug, enda erlendir fjárfestar tregir til þátttöku í rekstri á íslandi. Upptaka evru eða tenging krónunnar við Evruna með vikmörkum og baktryggingu Seðlabanka ESB eins og Danir og Færeyingar hafa gert mun gera okkur kleift að ná langþráðum stöðugleika.

Seðlabankinn áætlar að með upptöku evru sparist 5 til 15 milljarðar króna á ári í beinan viðskiptakostnað. Þá getur sjálfstæð mynt ein og sér virkað sem viðskiptahindrun. Beinn viðskiptakostnaður vegna sérstaks gjaldmiðils er kostnaður sem fylgir því að skipta úr einum gjaldmiðli yfir í annan, það er þegar evrur eru keyptar fyrir krónur og öfugt. Þessi kostnaður lendir bæði á fjármálafyrirtækjum sem eiga viðskipti sem erlendan gjaldeyri fyrir innlendan og einnig hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem þurfa að kaupa eða selja erlendan gjaldeyri til að greiða fyrir tiltekin viðskipti.

Einnig verður að benda á þann sparnað sem hlýst af því að þurfa ekki að halda úti stórum gjaldeyrisforða til að styðja við smáa mynt. Vaxtakostnaður vegna gjaldeyrisvarasjóðsins Íslands er um 33 milljarðar króna á ári og eins hærri vaxtakostnaðar vegna þeirra lánakjara sem Íslandi býðst með sinn ótrúverðuga gjaldmiðil.

Lækkun vaxta mun hafa gríðarleg áhrif á greiðslubyrði einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Sem dæmi má nefna að samkvæmt nýlegum útreikningum Alþýðusambands Íslands getur árlegur sparnaður fyrir íslensk heimili numið um 15 milljörðum króna fyrir hverja prósentu í lægri vöxtum.

Óstöðugur gjaldmiðill veldur því að vextir hér á landi eru um 5% hærri en í nágrannalöndum okkar, þetta kostar heimilin og fyrirtækin í landinu gríðarlega mikið, eða með öðrum orðum íslensk heimili eru að greiða árlega 75 milljarða í vexti umfram það sem hér væri ef við værum með „eðlilegan“ gjaldmiðil.

Til þess að dreifa þessum gríðarlega vaxtakostnaði eru húsnæðislán á Íslandi 40 ár í stað 20 ára eins og er í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Íslensk fjölskylda greiðir 2,4 sinnum meira fyrir sína íbúð þegar upp er staðið. Til þess að geta það þarf íslenska fjölskyldan að skila um 10 klst. lengri vinnuviku en sú danska, ekki í 20 ár heldur 40 ár svo öllu sé til haga haldið. Ef við værum með lán á breytilegum vöxtum, þá koma reglulega tímabil þar sem engin ræður við vaxtagreiðslurnar. Þegar ég keypti mína fyrstu íbúð árið 1971 fóru vextir á tímabili upp í 49,5%. Til þess að ráða við þetta þá var tekin upp árið 1982 greiðsludreifing á vöxtum með því að færa hluta ofurvaxtanna með jafngreiðslukerfi yfir á seinni hluta 40 ára greiðslutímabils.

Andstæðingar þess að íslenskar fjölskyldur geti búið við sambærileg kjör og fjölskyldur í nágrannalöndum okkar segja að með því sem stefnt að afsali fullveldi þjóðarinnar. Öll þekkjum við mörg dæmi um sjálfstæðar þjóðir sem ekki telja brýna þörf að nota eigin mynt. Þar má t.d. nefna Lúxemborg með innan við hálfa milljón íbúa, eitt af stofnríkjum Evrópusambandsins og smáríkið Möltu með tæplega 400.000 íbúa. Eystrasaltslöndin þrjú, Eistland, Lettland og Litháen, sem fagna frelsi eftir langa ánauð, stefna inn í Evrópusambandið og eru að taka upp Evru, trúlega ekki með nýja áþján í huga. Finnar nota Evru og Danir eru með sinn gjaldmiðil fasttengdan við Evru, þannig mætti lengi telja. Eru leiðtogar þessara þjóða landráðamenn?

Íslenskum launamönnum er gert að búa í efnahagslegum þrælabúðum. Í könnunum kemur fram að íslenskir launamenn eru harðastir allra Evrópuþjóða í verkföllum og vinnudeilum. Það er ómögulegt að semja um laun þar sem efnahagsumhverfi er óstöðugt og verðbólgan og reglulegar gengisfellingar eyðileggja alla kjarabaráttu. Besti kostur krónunnar segja efnahagsráðunautar fyrrverandi ríkisstjórna er að „þá er blóðsúthellingalaust hægt að leiðrétta of góða kjarasamningar verkafólks með því að gengisfella krónuna.“

Sem dæmi má nefna að Rafiðnaðarsamband Íslands hefur frá árinu 1970 samið um launahækkanir sem nema um 3.500% launahækkunum, á sama tíma hefur Danska rafiðnaðarsambandið samið um 330% launahækkanir. Þetta segir reyndar allt sem þarf að segja um þetta mál.

Íslenskir rafiðnaðarmenn eru ekki 3.000% flinkari í kjarasamningum en Danir. Það blasir við þegar kaupmáttur okkar er borinn saman við Danina, þrátt fyrir að við látum 10 klst. lengri vinnuviku liggja milli hluta. Það er skattur sem íslenskur launamaður skilar til samfélagsins og útflutningsfyrirtækjanna til þess að standa undir því fullveldi að viðhalda íslenskri krónu. Veik króna stuðlar að verkföllum og óstöðugleika á vinnumarkaði. Það er verulegur ávinningur í því að nota mynt sem skipar traustan sess á alþjóðavettvangi, en upp á slíka stöðu býður Evran.
 
Við höfum undanfarnar vikur fylgst með óróleika meðal heilbrigðistétta, sú snjóhengja sem þar hefur safnast upp var ekki leist endanlega með samningum við  hjúkrunarfræðinga. Það vitum við öll.
 
Það að dæma verðtryggingu ólöglega leysir ekki lánavanda heimilanna, lánavandinn mun einfaldlega breytast og ekki endilega batna. Það vitum við öll.
 
Við verðum að ráðast að rót vandans.
 

Búsáhaldabyltingin fjögurra ára.

Þessi pistill birtist nýlega í norsku blaði þar sem ég er fastur pistlahöfundur.
 
Nú eru rétt 4 ár síðan almenningur stillti sér upp fyrir framan Seðlabankann og Alþingishúsið í Reykjavík, barði potta og pönnur, kveikti bál, söng, hrópaði, öskraði, stappaði og klappaði í búsáhaldabyltingunni. Fólkið vildi breytingar, enda hafði orðið á Íslandi algjört efnahags- og kerfishrun.
 
Mikil siðspilling afhjúpaðist, það ásamt hörmungum í efnahagslífinu vöktu reiði fólks sem fór þúsundum saman út á götur og mótmælti. Aðalkrafan var að þáverandi ríkisstjórn færi frá, boðað yrði til kosninga og frávikningu stjórnar Seðlabankans, sem hafði keyrt hann í 800 milljarða gjaldþrot.
 
Mótmælaaldan óx dag frá degi, bál voru kveikt, pústrar féllu milli manna, lögreglan stóð í ströngu og undir niðri dunaði beljandinn í pottaslættinum fram á miðjar nætur og fólkið hrópaði: „Vanhæf ríkisstjórn, burtu með seðlabankastjórann."
 
Og fólkið hafði sitt fram, en síðan þá hefur borið á því að fyrrum valdhafar vilji endurskrifa þessa sögu. Á Íslandi hafi orðið „svokallað Hrun“ segja þeir, og halda því jafnframt fram að það hafi einungis verið nokkrir úr unglingadeildum þáverandi stjórnarandstöðuflokkum sem stóðu fyrir skrílslátunum.
 
Þetta er fjarri öllu sanni, í janúar 2009 var gerð meðal allra íslendinga skoðanakönnun og spurt um afstöðu fólks til mótmælanna. Svörin voru skýr, tæp 46 prósent íslendinga voru hlynnt þeim og tæpt 21 prósent mjög hlynnt þeim.

Nú er að renna út kjörtímabil þeirrar ríkisstjórnar, sem var til úr búsáhaldabyltingunni og hafinn undirbúningur næstu alþingiskosninga. Hvar stöndum við? Gjaldeyrishöft valda því að erfitt er að meta raunverulega stöðu Íslands. Skuldir almennings tóku stökkbreytingum í kjörfar 46% gengisfellingar krónunnar, mikillar verðbólgu og vaxta upp á þriðja tug prósenta. Sparifé margra hvarf þegar fjölmörg fyrirtæki og verðbréfasjóðir stóðu skyndilega uppi sem verðlausar skeljar og fjármagnið hvarf inn á leyndareikninga í Karabíska hafinu.
 
Verðlag húsa lækkaði um þriðjung og fjölmargar fjölskyldur sem áður höfðu átt hlut í sínum íbúðum, áttu skyndilega ekkert og horfðust í augu við ókleifar skuldir. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna heldur utan um vísitölu matarverðs í heiminum. Samkvæmt henni hefur matarverð í heiminum almennt hækkað um 35 prósent á sama viðmiðunartímabili.
 
Ástæður þessara hækkana eru mýmargar. Náttúran hefur þar spilað stórt hlutverk. Mestu þurrkar sem orðið hafa í Bandaríkjunum í 50 ár, skógareldar í Rússlandi, uppskerubrestir í Evrópu og jarðskjálftar í Japan hafa valdið miklum hækkunum á korni, kjöti, mjólkurvörum og mörgu öðru.

Í alþjóðavæddu samfélagi skiptir verð á olíu höfuðmáli í verði matvæla, enda þarf að flytja matvælin frá þeim löndum þar sem er arðbært að framleiða þau til þeirra sem vilja neyta þeirra. Hrávöruverð hefur hækkað mikið í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Fjárfestingar færðust úr hlutabréfum yfir í hrávörur sem héldu betur verðgildi sínu.
 
Hér vegur það þungt að millistétt heimsþorpsins stækkar á hverju ári og notar því bæði meira eldsneyti og borðar dýrari og fjölbreyttari fæðu. En stóri þátturinn í mikill verðhækkun á dagvöru heimilanna á Íslandi er hrun íslensku krónunnar sem lifir í sinni eigin veröld inna gjaldeyrishaftanna.
 
Heimsbyltingin átti að eyða kapítalismanum úr mannfélaginu spáði Karl Marx, en í stað þess bylti kapítalisminn heiminum með víðtækum afleiðingum og þar er að finna eina stærstu breytingu okkar umrótstíma. Samfélög eru að leysast upp vegna áherslu á einstaklingshyggju og frelsi til að velja án tillits til samfélagsins og afleiðinganna.
 
Allar áherslur miða að forréttindum og hagsmunum þeirra sem eiga fjármagnið. Marx sagði að einungis upplýst fjöldahreyfing verkafólks gæti haft forystu í slíkri byltingu, en mánaðarleg gluggaumslög og kreditkortareikningar hinnar hratt vaxandi millistéttar hafa gert spádóma Marx að engu og eru búin að draga allar vígtennur úr verkalýðshreyfingunni.

fimmtudagur, 14. febrúar 2013

Reyksprengjur og lýðskrum


Nú er farið að hilla undir kosningar og nokkrir stjórnmálamenn byrjaðir að draga upp um sig pilsin og setja sig í þær stellingar að vera sætasta stelpan á ballinu. Þeir horfa fram hjá staðreyndum, eins og ætíð, sakir þess hversu mikið kostar að benda á nokkrar óþægilegar staðreyndir, t.d. eins hvað króna kostar launamenn mikið, hverjir eru í raun að borga ef verðtrygging er lögð niður og fleira. Em það er ljóst er að almenningur mun ekki lengur sætta sig við það umhverfi sem krónan býður upp á með reglulegum gengisfellingum sem valda hækkun vaxta og skulda og skerðingu launa.

En þessir „sumir stjórnmálamenn“ hafa hingað til komist upp með að verja núverandi kerfi með því að kasta upp margskonar reyksprengjum til þess að villa fólki sýn og margir hafa trúað því að krónan sé bjargvættur, það er hið gagnstæða hún er sjúkdómurinn. Króna er verkfæri sem valdhafar vilja halda í til þess að færa kostnað vegna eyðsluhyggju og vanhugsaðra kosningaloforða yfir á almenning, með reglubundnum gengisfellingum. Einnig leggja helstu kostunaraðilar „sumra stjórnmálamanna“ fast á um að krónunni verði ekki hent.

Alls ekki má viðurkenna að ESB er raunverulegur kostur, líklega sá eini sem er í boði til þess að koma í veg fyrir annað Hrun og enn meiri fólksflótta frá Íslandi. Andstæðingar ESB umræðunnar nota öll vopn til þess að eyðileggja rökræna samræðu. Nú er því haldið fram að Kanadamenn séu gríðarlega spenntir að við tökum upp Kanadadollar. Eru Kanadamenn virkilega tilbúnir að spandera á okkur þeim fjármunum sem hlýst af því að verja okkar hagkerfi? Eru þeir til í að kaupa allar krónur sem eru í umferð, allt lausafé og skuldabréf og greiða það upp í topp með kanadískum dollurum? Henda svo öllum krónunum í ruslið. Fyrirfinnst enn í heiminum slík gjafmildi og hjartahlýja?

Þetta er óraunhæft og fyrir því eru nokkrar ástæður.
1. Við eigum ekki nægan gjaldeyrisforða sjálf til að kaupa það magn af viðkomandi gjaldeyri til að mæta lausu fé í umferð. Því yrðum við að fá samþykki AGS og Norðurlandanna til að nota lánin frá þeim til þessa arna og það gæti reynst þrautin þyngri. Ljóst má vera að þessar þjóðir myndu ekki vilja fá greitt með krónum fyrir sinn gjaldeyri.

2. Ef okkur tækist að safna saman nægum gjaldeyri til að umbreyta myntinni er ljóst að lítið væri eftir til að mynda varaforða – sá sem er til og er í raun lánsfé færi í myntbreytinguna. Auðvitað skiptir máli á hvaða skiptigengi þessi aðgerð yrði framkvæmd. Ef krónan er of veik (aflandsgengið er 250-300 á evrunni) rýrna eignir okkar tekjur gríðarlega við myntbreytinguna og ef krónan er of sterk göngum við nærri samkeppnishæfni atvinnulífsins og þar með störfum okkar og tekjum.

3. Gefum okkur að við notum jafnvægisgengið sem gæti legið í kringum 130-140 kr. á evruna. Þegar umbreytingunni væri lokið skiptir miklu máli að aðgerðin sé svo trúverðug og traust – að hér verði svo öflugt atvinnulíf – að ekki leiki minnsti vafi á því að við munum standa við skuldbindingar okkar gagnvart erlendum innistæðueigendum sem eru æði margir. Ef þeir telja hins vegar að nú séu þeir lausir og best sé að taka evrurnar og hverfa aftur heim á þarlendan fjármálamarkað er ljóst að bankarnir lenda fljótlega í lausafjárvanda – þá vantar þá meiri gjaldeyri í lausu fé.

Í venjulegu hagkerfi myndi Seðlabankinn sjá til þess að bankinn fengi ,,innlendu myntina‘‘ ef ekki með öðru þá með prentun fleiri seðla. Þetta er hins vegar ekki hægt og þá erum við komin í sama vanda nema hvað við erum búin að sólunda varasjóðnum sem við fengum að láni hjá AGS og Norðurlöndunum til að hleypa þeim erlendu fjárfestum, sem eignuðust íslensk verðbréf þegar þeir voru að veðja á vaxtamun milli Íslands og annarra landa, út úr hagkerfinu með erlendan gjaldeyri og sitjum uppi með afleiðingarnar. Það er ástæðan fyrir því að AGS og Norðurlöndin myndu trúlega aldrei samþykkja svona aðgerð – hún gengur einfaldlega ekki upp.

4. Þá er ótalin sá vandi sem yrði í framtíðinni að ef okkur tekst að koma hagvexti í gang þarf peningamagnið í umferð að fylgja hagvextinum– en ekki vaxa meira en sem nemur hagvexti. Til að gera það í hagkerfi með gjaldmiðil annars ríkis verður Seðlabankastjóri að fara reglulega til þess ríkis með afrakstur útflutningsins og kaupa meiri gjaldeyri og ef hér kæmi upp einhver efnahagskreppa aftur (og það verðum við að gera ráð fyrir að muni gerast) er enginn bakhjarl og engin prentsmiðja.

Þessi mál hafa verið rædd ítarlega á fundum innan verkalýðshreyfingarinnar og hún hefur komist að þeirri niðurstöðu að eina færa leiðin út úr þessum ógöngum sem núverandi gjaldmiðill og ábyrgðarlaus efnahagsstefna undanfarinna ára hefur leitt okkur í væri umsókn um aðild að ESB og upptaka evru. Og það eins fljótt og auðið er ef okkur tekst að ná ásættanlegum aðildarsamningi sem tryggir hagsmuni okkar í sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðamálum.

Takist þetta er okkur greið leið inn í myntsamstarf Evrópuríkjanna innan ramma ERM-II í stað núverandi gjaldeyrishafta til að lækka vexti og koma fjárfestingum og atvinnusköpun í gang. Það sýnir reynsla Eystrasaltsríkjanna að aðlögunarferli vaxtanna hefst strax innan ERM-II þannig að áhrifin koma mikið fyrr en þann dag sem við fengjum myndina sjálfa. Ekki hafa orðið neinar þær grundvallar breytingar á okkar aðstæðum sem breyta þessari stöðu.