sunnudagur, 24. febrúar 2013

Heill þér Sjálfstæðisflokkur





Nú er ljóst að valdastéttin í Sjálfstæðisflokknum er búinn að tryggja tök sín enn betur á flokknum og ætlar ekki að sleppa þeim tökum sem hún hefur á Íslensku samfélagi og stefnir að því að viðhalda einangrun Íslands. Hvergi vottar fyrir endurskoðun á útfærslu Eimreiðarhópsins á frjálshyggjunni þrátt fyrir við höfum Hrunið og ítarlega skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Hvergi í heiminum tókst að tapa nándarnærri jafnmiklu fé, í hlutfalli við stærð hagkerfisins,  á jafnskömmum tíma og undir stjórn og stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þessi stefna gerði það mögulegt að taka lítið ríkisbankakerfi með sáralítil erlend umsvif og búa til úr því bólu upp á ferfalda landsframleiðslu innan bankakerfisins og líklega annað eins utan þess.

Gjaldþrot íslenska bankanna eru öll á topp 10 lista þeirra stærstu í mannkynssögunni. Frelsið og eftirlitsleysið sem flokkurinn beitti sér fyrir leiddi til ofboðslegar misskiptingar og ójafnaðar og fáir efnuðust mikið á kostnað fjöldans. Hér spilar krónan í einangruðu efnahagskerfi stórt hlutverk. Þessu vill valdastétt Sjálfstæðisflokksins ekki breyta og unir vel þeirri mismunun sem almenning er búið í gjaldeyrishöftunum og ofurvöxtunum.

Þetta er það kerfi sem tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Hann er réttindalaus. Það eru fyrirtækin sem eiga að stjórna landinu með sína hagsmuni í fyrirrúmi og velja þau kjör sem almenning er boðið upp á. Þau viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við uppbygging á samfélagi okkar síðustu öld er að glatast og viðhorf fjármálanna hafa tekið yfir.

Við höfum undanfarið séð þá valdbeitingu sem flokkurinn vill viðhafa gagnvart þjóðinni þegar hann virðir að vettugi afgerandi niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Flokkurinn ítrekar þessa afstöðu á landsfundinum þegar hann vill ekki láta kanna til hlítar hvað okkur standi til boða í samningum við nágrannlönd okkar. Hann óttast það nefnilega að það muni leiða til þess að hann missi þau tök sem hann hefur á íslensku efnahagslífi.

Mannfyrirlitning fjölþjóðafyrirtækjanna endurspeglast í þeim viðhorfum sem borin eru til okkar frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Opnir óheftir markaðir leiddu Ísland, eina ríkustu þjóð Evrópu, í gjaldþrot og fleiri eru á leiðinni. Gjaldþrot auðhyggjunnar og nýfrjálshyggjunnar blasir við hvert sem litið er. Fjárfestar eru prímusmótorar þessa ferlis blindaðir af þeirri veðmálakeppni sem fer fram undir flautuspili greiningardeildanna.

Við sjáum þetta ekki bara hér á landi barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst sem aldrei áður, kynlífsþrælkun vex, réttindalausum farandverkamönnum fjölgar og hungrið í heiminum vex og þeim fjölgar sem ekki hafa aðgang að vatni.

Einu sinni var ég flokksbundinn á Sjálfstæðisflokknum, þá fylgdi hann norrænum gildum og var stærsti krataflokkur landsins. En stefna Eimreiðarinnar hrakti mig á brott. Það er gott að flokkurinn opinberi sig svona rækilega eins og gert er á þessum landsfundi. Það var viðtekin venja hjá Eimreiðarhópnum að draga upp leiktjöld norrænnar jafnaðarstefnu síðustu daga fyrir kosningar, en draga þau niður þegar kjörstöðum var lokað.

Nú er það ekki gert, Heill þér Sjálfstæðisflokkur, eða hitt þá heldur.

Engin ummæli: