laugardagur, 16. febrúar 2013

Búsáhaldabyltingin fjögurra ára.

Þessi pistill birtist nýlega í norsku blaði þar sem ég er fastur pistlahöfundur.
 
Nú eru rétt 4 ár síðan almenningur stillti sér upp fyrir framan Seðlabankann og Alþingishúsið í Reykjavík, barði potta og pönnur, kveikti bál, söng, hrópaði, öskraði, stappaði og klappaði í búsáhaldabyltingunni. Fólkið vildi breytingar, enda hafði orðið á Íslandi algjört efnahags- og kerfishrun.
 
Mikil siðspilling afhjúpaðist, það ásamt hörmungum í efnahagslífinu vöktu reiði fólks sem fór þúsundum saman út á götur og mótmælti. Aðalkrafan var að þáverandi ríkisstjórn færi frá, boðað yrði til kosninga og frávikningu stjórnar Seðlabankans, sem hafði keyrt hann í 800 milljarða gjaldþrot.
 
Mótmælaaldan óx dag frá degi, bál voru kveikt, pústrar féllu milli manna, lögreglan stóð í ströngu og undir niðri dunaði beljandinn í pottaslættinum fram á miðjar nætur og fólkið hrópaði: „Vanhæf ríkisstjórn, burtu með seðlabankastjórann."
 
Og fólkið hafði sitt fram, en síðan þá hefur borið á því að fyrrum valdhafar vilji endurskrifa þessa sögu. Á Íslandi hafi orðið „svokallað Hrun“ segja þeir, og halda því jafnframt fram að það hafi einungis verið nokkrir úr unglingadeildum þáverandi stjórnarandstöðuflokkum sem stóðu fyrir skrílslátunum.
 
Þetta er fjarri öllu sanni, í janúar 2009 var gerð meðal allra íslendinga skoðanakönnun og spurt um afstöðu fólks til mótmælanna. Svörin voru skýr, tæp 46 prósent íslendinga voru hlynnt þeim og tæpt 21 prósent mjög hlynnt þeim.

Nú er að renna út kjörtímabil þeirrar ríkisstjórnar, sem var til úr búsáhaldabyltingunni og hafinn undirbúningur næstu alþingiskosninga. Hvar stöndum við? Gjaldeyrishöft valda því að erfitt er að meta raunverulega stöðu Íslands. Skuldir almennings tóku stökkbreytingum í kjörfar 46% gengisfellingar krónunnar, mikillar verðbólgu og vaxta upp á þriðja tug prósenta. Sparifé margra hvarf þegar fjölmörg fyrirtæki og verðbréfasjóðir stóðu skyndilega uppi sem verðlausar skeljar og fjármagnið hvarf inn á leyndareikninga í Karabíska hafinu.
 
Verðlag húsa lækkaði um þriðjung og fjölmargar fjölskyldur sem áður höfðu átt hlut í sínum íbúðum, áttu skyndilega ekkert og horfðust í augu við ókleifar skuldir. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna heldur utan um vísitölu matarverðs í heiminum. Samkvæmt henni hefur matarverð í heiminum almennt hækkað um 35 prósent á sama viðmiðunartímabili.
 
Ástæður þessara hækkana eru mýmargar. Náttúran hefur þar spilað stórt hlutverk. Mestu þurrkar sem orðið hafa í Bandaríkjunum í 50 ár, skógareldar í Rússlandi, uppskerubrestir í Evrópu og jarðskjálftar í Japan hafa valdið miklum hækkunum á korni, kjöti, mjólkurvörum og mörgu öðru.

Í alþjóðavæddu samfélagi skiptir verð á olíu höfuðmáli í verði matvæla, enda þarf að flytja matvælin frá þeim löndum þar sem er arðbært að framleiða þau til þeirra sem vilja neyta þeirra. Hrávöruverð hefur hækkað mikið í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Fjárfestingar færðust úr hlutabréfum yfir í hrávörur sem héldu betur verðgildi sínu.
 
Hér vegur það þungt að millistétt heimsþorpsins stækkar á hverju ári og notar því bæði meira eldsneyti og borðar dýrari og fjölbreyttari fæðu. En stóri þátturinn í mikill verðhækkun á dagvöru heimilanna á Íslandi er hrun íslensku krónunnar sem lifir í sinni eigin veröld inna gjaldeyrishaftanna.
 
Heimsbyltingin átti að eyða kapítalismanum úr mannfélaginu spáði Karl Marx, en í stað þess bylti kapítalisminn heiminum með víðtækum afleiðingum og þar er að finna eina stærstu breytingu okkar umrótstíma. Samfélög eru að leysast upp vegna áherslu á einstaklingshyggju og frelsi til að velja án tillits til samfélagsins og afleiðinganna.
 
Allar áherslur miða að forréttindum og hagsmunum þeirra sem eiga fjármagnið. Marx sagði að einungis upplýst fjöldahreyfing verkafólks gæti haft forystu í slíkri byltingu, en mánaðarleg gluggaumslög og kreditkortareikningar hinnar hratt vaxandi millistéttar hafa gert spádóma Marx að engu og eru búin að draga allar vígtennur úr verkalýðshreyfingunni.

Engin ummæli: