sunnudagur, 28. júlí 2013

Framlenging vistarbandsins


Það er að renna upp fyrir þingmönnum nýrrar ríkisstjórnar að hlutirnir eru ekki eins einfaldir og þeir hafa haldið fram. Þeir voru í nánast hverjum einasta fréttatíma allt síðasta kjörtímabil þar sem þeir greindu frá alls konar töfralausnum á efnahagsvanda þjóðarinnar og heimilanna.

Í skjóli þess náðu lýðskrumarar flugi og voru á fremstu bekkjum í öllum spjallþáttum og eru reyndar enn að á Bylgjunni.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar síðasta kjörtímabils tömdu sér einhver ógeðfelldustu vinnubrögð sem þekkst hafa á Alþingi, og drógu með því álit þingsins niður í eins stafs tölu. Í kosningabaráttunni lofuðu þeir umtalsverðri aukningu á útgjöldum ríkissjóðs, hækkun örorkubóta og lífeyrisgreiðslna, 250 milljarða niðurfellingu á skuldum heimilanna, skattalækkunum.

Það var talað þannig að það væri aldeilis til nóg af fjármunum til þessa, það væri einungis um að kenna fantaskap þáverandi ráðherra í garð þeim sem áttu í vandræðum að þeir deildu þessum fjármunum ekki út.

Nú er staðan sú að ef bent er á að fullyrðingar núverandi stjórnarþingmanna standist ekki neina skoðun, eru viðbrögðin þau að banna eigi fólki að tjá skoðanir sínar séu þær í einhverju andstæðar núverandi ríkisstjórn.

Samtímis er því haldið að okkur þeir séu talsmenn frjálslyndis og berjist gegn kommúnisma. En það eru þeir sem purrkunarlaust vilja taka upp Sovéskt vinnubrögð og eru ekkert að fara í felur með það.

Endurritum sögunnar var áberandi í tíð fyrri ríkisstjórna Framsóknar- og Sjálfstæðismanna og nú á að taka aftur upp þau vinnubrögð.

Ég hef bent á það hér í pistlum undanfarið, að það er búið að leggja línurnar í komandi kjarasamningum, það hefur hið opinbera gert í gegnum Kjararáð. Það er búið að leggja línurnar með skerðingarmörkin á örorkubótum og lífeyrisgreiðslum og þá vitanlega atvinnuleysisbótum, þau loforð kosta um 9 milljarða. Ég þekki þessar tölur því ég var í nefnd sem vann að endurbótum á bótakerfinu. Nefndin skilaði inn sínum tillögum í vor.

Það er rétt sem formaður Öryrkjabandalagsins hefur sagt, það er fantaskapur vekja upp væntingar hjá fólki sem er í miklum vanda, ef ekki eigi að standa við þau loforð.

Við munum öll eftir þeim aðvörunum sem sendar voru til Íslands á árunum 2005 – 2008 og hvernig þáverandi ráðherrar með forseta landsins í broddi fylkingar virtu þær ekki viðlits og slógu um sig með yfirhlöðnum þjóðarrembingi.

Það sama er nú upp á teningnum. Núverandi ráðherrar segjast vita betur, og segja að þessar stofnanir verði að sanna sig fyrir Íslendingum. Minna má það nú ekki vera.

Öll vitum við hverjar afleiðingarnar urðu. Það er hægt að standa við loforðin miklu sem gefin voru í kosningabaráttunni, en allar líkur eru á að það muni kalla yfir okkur miklar gengisfellingar og óðaverbólgu.

Efnahagssérfræðingurinn Frosti Sigurjónsson segir að þeir sem hafa andstæðar skoðanir við hann eigi „að skilja skoðanir sínar eftir heima“. Forsætisráðherra kvartar undan loftárásum og fullyrðir að hann viti miklu betur en viðurkenndar erlendar stofnanir.

Þessir menn og skoðanabræður þeirra vilja einangrunarstefnu og ríghalda í krónuna, því hún hefur reynst valdastéttinni vel. Íslenska krónan er bein framlenging á Vistarbandinu, ófrelsisákvæði íslenskra launamanna og bindur þá í efnahagslegum þrælabúðum.

Þetta er afgreitt út af borðinu með því einu að þeir sem mæli gegn þessu séu eitthvert vinstra lið og ráðherrar halda glaðbeittir kenningum Jónasar frá Hriflu á lofti.

mánudagur, 22. júlí 2013

Spírall niður á við


Mörgum er tamt að vísa til gjörða og athafna verkalýðsforingja á árunum fyrir þjóðarsátt og taka þannig til orða að þá hafi verkalýðshreyfing verið verkalýðshreyfing, það sé nú annað upp á teningunum í dag. Á þessum árum fylgdi full vísitölubinding og verðbólgan var oft á fyrir ofan 50% og náði jafnvel yfir 100% og var í hæðum sem einungis voru þekktar í Suður Ameríku.

Lukkuriddarar spjallþáttanna eftir Hrun hafa margir hverjir borið á borð þekktar vinsældaaflandi fullyrðingar frá fyrri árum og hefur verið ákaft hampað, jafnvel af mönnum sem eru komnir í áhrifastöður eftir síðustu kosningar. Það er mjög margt í efnahagsumhverfinu sem bendir til þess að við gætum á næstu mánuðum siglt inn í nákvæmlega sama ófremdarumhverfi og var hár á árunum fram undir 1990.

Dæmigerðar hagstjórnaraðgerðir á þeim tíma voru verðstöðvanir og skerðingu verðbóta og frestun á verðtryggingu fjármagns. Krónan var orðin einskis virði og sett var í gang ný króna sem jafngilti 100 gömlum krónum. Aðilar vinnumarkaðarins sættust á að beita ekki verðtryggingu á laun, enda verðtryggi hún ekki laun í reynd, heldur hraðaði verðbólgu og kaupmáttur minnkaði frekar en að vaxa, ef gerðir voru gildishlaðnir kjarasamningar.

Nýrri kynslóð verkalýðsforingja á þessum tíma var orðið ljóst, að með því að verðtryggja laun var verið að fastbinda og tengja saman til framtíðar öll launakerfi. Það yrði nánast útilokað að hækka t.d. lægstu laun sérstaklega. Þessi ákvörðun verkalýðsforingjanna átti eftir að reynast farsæl, laun hækkuðu frá þessum tíma að jafnaði um 30% umfram verðlagsvísitölu til ársins 2010 og lægstu laun mun meira.

Á það var bent að velferðarþjónustu hér á landi væri að dragast aftur úr hinum Norðurlöndunum og á sama tíma þróaðist umfangsmikið kerfi ríkisforsjár, sem stuðlaði að því að vernda og styrkja fyrirtæki gegn áhættu, en þjóðnýtti síðan tap þegar illa gengi.

Þetta var oft nefnt „pilsfaldakapítalismi“, ef í nauðir ræki gátu fyrirtækin ávalt hlaupið undir pilsfald ríkisins í stað þess að taka ábyrgð á eigin gerðum og heimta gengisfellingar.

Þess var vandlega gætt af forkólfum stjórnmálaflokka og valdakerfisins að verkalýðshreyfingin næði ekki saman á pólitískum grundvelli og hún ætti ávalt að vera ópólitísk, á meðan samtök fyrirtækja gættu vel að því að vera sameinuð innan eins flokks og þau stæðu öflug að baki að þeim flokki.

Reynt var að hafa stjórn á umræðunni og oft beitt þeim brögðum að setja á dagskrá umræðunnar mál sem í raun skiptu engu, en til þess eins að afvegaleiða umræðuefni sem væri óheppileg valdhöfnum

Verðtrygging launa og verðtrygging lána eru ósambærilegar viðmiðanir. Lán til margra ára jafnvel áratuga er veitt í væntingu þess að jafngilt verðmæti sé skilað að lánstíma loknum. Á þeim tíma hefur lánveitandi engin tök á að endursemja um lánskjör með hliðsjón af breyttum aðstæðum og hefur því ástæðu til að tryggja verðgildi endurgreiðslu.

Vinna er hins vegar afhent þjónusta á líðandi tíma. Gildi launakjara er háð lengd og friðarskyldu kjarasamninga og persónulegum uppsagnarfresti. Kjör og laun eru reglulega endurskoðuð miðað við breyttar aðstæður, og unnt að beita uppsögn. Ennfremur eru laun svo mikill meginhluti rekstrarkostnaðar og ráðstöfunar verðmæta í þjóðarbúi, að óraunhæft er að festa raungildi þeirra til nokkurrar lengdar, og gildir það til beggja átta, hækkunar og lækkunar.

Hugmyndin að baki verðtryggingu launa var sú, að hagvöxtur og kjarabætur væru stöðugar hreyfistærðir, sem ekki gengju til baka, heldur mætti stöðugt bæta ofan á. Þessi hugmynd gekk ekki upp í þjóðarbúskap háðum sveiflum í auðlindum og ytri skilyrðum. Þegar óraunhæf kröfugerð náði fram og var þar með verðtryggð um leið og ekkert mátti slaka á kröfunni um fulla atvinnu, leiddi þetta kerfi til sjálfgengrar verðbólgu. Engin slík félagslega þvinguð kröfugerð er hins vegar að verki við mótun raunvaxta á markaðnum.

Í mikilli verðbólgu og reglulegum gengisfellingum hrapaði kaupmáttur launa um tugi prósenta. Kostnaðarverðbólga hefur verið áberandi í íslensku hagkerfi. Spenna á vinnumarkaði hefur valdið launaskriði, það kemur síðan fram í hækkandi verði á vörum og þjónustu og skekkir samkeppnisstöðu útflutningsgreina.

Það kallaði aftur á móti á gengisfellingar, sem síðan verða til þess að hækka verðlag enn frekar. Kostnaðarspírall upp á við, eins og það var oft nefnt í Karphúsinu. Kaunahækkanir upp á tugi prósent skilaði sáralitlu í hækkun kauðmáttar.
 
Þau sjónarmið voru áberandi í þáverandi verkalýðsforystu að hennar hlutverk væri að sjá til þess að sem flestar krónur væru í launaumslaginu við útborgun, það væri síðan á ábyrgð stjórnmálamanna að tryggja stöðugleikann. Þeir þóttu mestir sem höfðu í frammi umfangsmestu launakröfurnar.

Áhrif verðbólgu af þeirri stærð sem tíðkaðist hér á landi frá því í heimstyrjöldinni síðan fram til ársins 1990 náði til ýmissa fleiri sviða en hér hafa verið nefnd. Tiltrú á krónuna minnkaði. Margir töldu farsælast fyrir sig og heimili sín, að eyða sem fyrst öllum launum og frekar vera í skuld og sparnaður var ekki jafnmikils metinn og á fyrri hluta aldarinnar. Ýmsir sjóðir sem höfðu að markmiði að styrkja góð málefni rýrnuðu mjög og gátu ekki gegnt hlutverki sínu.

Sama var upp á teningunum ef fólk ætlaði að geyma fé á bankabók til elliáranna þar sem vextir voru löngum neikvæðir. Þess eru dæmi að líftrygging sem jafngilti verðs um 100 dilka að hausti árið 1938 var 25 Nýkrónu virði um aldamótin 2000.

sunnudagur, 21. júlí 2013

Ritstjórn umræðunnar


Í haust losna allir kjarasamningar í landinu og næsta víst er að stéttarfélögin muni fara eftir þeim tillögum sem hafa komið fram undanfarna daga og fara fram á afturvirka launahækkun upp á 20-30%, sem síðan mun verða að venju leiðrétt af stjórnvöldum með jafnhárri gengisfellingu.

Talsmenn núverandi stjórnvalda vilja halda í krónuna, því þá sé blóðsúthellingalaust hægt að leiðrétta of góða kjarasamninga verkalýðsfélaganna. Hér er um að ræða afturhvarf til áranna 1960 - 1990, þegar víxlhækkanir launa og verðlags hélt verðbólgunni í 20 - 100%. 

Ljóst er að sú kjarabót sem íslenskum launamönnum væri boðin með inngöngu í ESB myndi halda til framtíðar. Vextir myndu lækka vel yfir helming, dagvara heimilanna myndi lækka um þriðjung, verðlag yrði stöðugt og verðbólga færi ekki upp fyrir 3-4%, í stað þess að fljúga reglulega upp í 30% og vextir þar á eftir og íslenskir stjórnmálamenn myndu síðan að kröfu LÍÚ eignaupptöku hjá launamönnum með 30% gengisfellingu.

Í stjórnarsáttmálanum og í orðum ráðherra undanfarið hefur ítrekað komið fram að þeir vilja geta ritstýrt allri umræðu um þessa hluti. Þeir vilja ekki fara inn í veturinn með loforðapakkann á bakinu og lausa kjarasamninga án þess að geta haft einhverja stjórn á umræðunni. Ráðið því hvaða mál eru sett á dagskrá eins og það var þegar Mogginn var eina blaðið og Sjálfstæðisflokkurinn réð öllu á RÚV, eða bláskjá eins það var nefnt á þeim tíma.

Sá hópur sem fer þessa dagana fram gegn RÚV og krefst þess að þeir fái að taka upp pólitíska ritskoðun á efnistökum þar, er þekktur fyrir að vera með allskonar rangfærslur um ESB og ef það birtist einhver jákvæð frétt um ástand nágrannþjóða okkar rísa þessir menn alltaf upp og hrópa að nú sér verið að útvarpa áróðri um ESB.

Þessir menn halda því m.a. fram að ESB fái úrslitavald til veiða á svæðinu milli 12 og 200 sjómílna og rétt til að taka allar ákvarðanir um tilhögun þessara veiða, svo sem lágmarksstærð á fiski, möskvastærð, lokanir svæða o.s.frv. Við yrðum því óvirkir við eftirlit á okkar eigin miðum.

Hið rétta er að Íslendingar hefðu einir rétt til veiða við Íslandsstrendur. Evrópusambandsþjóðir hafa enga viðurkennda veiðireynslu á Íslandsmiðum og fengju þar af leiðandi engar aflaheimildir. Við gætum svo ráðstafað okkar veiðiheimildum eftir eigin höfði í raun með sama hætti og þau íslensku fyrirtæki sem hafa eignast fiskveiðifyrirtæki innan ESB. Evrópusambandið setur lágmarksreglur um tilhögun veiða og til verndunar lífríkis sjávar en aðildarríkjunum er frjálst að setja strangari og ítarlegri reglur innan sinnar lögsögu.

Einnig hefur þessi hópur haldið því fram að ESB muni annast alla viðskipta- og fiskveiðisamninga fyrir okkar hönd við ríki utan ESB. Við myndum því glata réttinum til að gera viðskiptasamninga við þjóðir í fjarlægum heimsálfum.

Hið rétta er að samningsstaða Íslendinga myndi því styrkjast með stærsta viðskiptaveldi heims sem bakhjarl. Við aðild að ESB myndu Íslendingar ganga inn í þá viðskipta- og fiskveiðisamninga sem ESB hefur gert við önnur ríki, nema við gerðum sérstaka kröfu um undanþágu frá þeim til lengri eða skemmri tíma.

Því er haldið fram að við myndum missa fullveldi okkar og sjálfsákvörðunarrétt. Þessum málum er þannig fyrirkomið að sérhvert aðildarríki ESB kemur að stefnumörkun og ákvarðanatöku sambandsins. Íslendingar yrðu þar engin undantekning.

Í tæplega 50 ára sögu Evrópusambandsins eru þess engin dæmi að gengið sé gegn mikilvægum hagsmunum aðildarríkja slíkt samræmist ekki stefnu og markmiðum sambandsins. Staðreyndin er sú að smærri ríkjum hefur gengið mjög vel að ná fram markmiðum sínum á þeim sviðum sem þau eiga hagsmuna að gæta og búa að sérþekkingu. Máflutningur þessa hóps byggist á sligandi fortíðartrú og hugmyndafræði sem á meira skylt við draugagang. Við getum ekki byggt til framtíðar með þessum hætti, okkur miðar ekkert við erum sífellt að dragast meir aftur úr þeirri þróun sem á sér stað meðal nágrannalanda okkar.

Mjög oft heldur þessi hópur því fram að atvinnuleysi muni aukast umtalsvert ef við göngum inn í ESB og atvinnuleysi hér muni fara upp í 15%. Samkvæmt tölum frá Eurostat þá er meðalatvinnuleysi innan ESB liðlega 7%. Mesta atvinnuleysið er hjá tveimur þjóðum, sem eru tiltölulega nýgengnar í ESB eftir hræðilega efnahagsstjórn sósíalista í áratugi. Það eru Pólland og Slóvakía, sem eru með 11-12% atvinnuleysi.

Eðlilegt væri að líta til nágrannalanda okkar í Norður Evrópu. Atvinnuleysi í Danmörk er 3,4%, Holland 3,5%, Eistland 4,9% , Lúxemborg 5,0%, Litháen 5,7%, Lettland 5,8%, Svíþjóð 6,7%, Finnland 7,0%, Danmörk 7,1%.

mánudagur, 15. júlí 2013

Jöfnun lífeyrisréttinda


Á nú að stofna einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn, spyrja margir þessa dagana, en þannig mætti skilja umæli sem fram hafa komið. Nei það stendur ekki til, það á að jafna lágmarkslífeyrisréttindi. Sameining allra lífeyrissjóða er mun flóknara dæmi.

Ef t.d. allir lífeyrissjóðir innan ASÍ væru sameinaðir í einn, myndi það þýða allt að 20% skerðingu réttinda í sumum sjóðanna. Með öðrum orðum , um 20% af sparifé sjóðsfélaga í einum sjóð yrði flutt yfir í sjóði sem standa lakar. Mismunandi staða sjóða innan ASÍ byggist á misdýrum réttindakerfum og eins mismunadi samsetning sjóðsfélaga viðkomandi sjóðs.      

En snúum okkur að því sem verið er að ræða. Ég hef reyndar farið nokkrun sinnum yfir þetta hér á þessari síðu, þegar ég hef verið að skrifa fréttir úr Karphúsinu undanfarin ár. 

Á almennum vinnumarkaði eru iðgjöld launamanna og launagreiðenda til lífeyrissjóða samtals 12% af heildarlaunum, en 15,5% hjá ríkinu og 16,0% hjá sveitarfélögunum.

Stærsti vandi lífeyriskerfisins er hækkandi lífaldur og vaxandi örorkubyrði, en lífeyristíminn hefur lengst um þriðjung frá því að almennu sjóðirnir voru stofnaðir ári 1970 og hlutfallslega meira hjá körlum.

Til þess að ná jöfnuði í kerfið er augljóslega um þrennt ræða, skerða réttindi, hækka lífeyrisaldurinn eða hækka iðgjaldið.

Samkvæmt lögum er miðað við að sjóðir á almennum vinnumarkaði tryggi að lágmarki 56% meðalævitekna á mánuði í mánaðarlegan lífeyri en samsvarandi hlutfall er 76% hjá hinu opinbera. Lífeyrisaldur á almennum vinnumarkaði er nú 67 ár en 65 ár hjá opinberum starfsmönnum.

Þetta er helsta ástæða þess að það vantar um 600 milljarða inn í opinberu sjóðina svo þeir eigi fyrir skuldbindingum þrátt fyrir að iðgjaldið sem ríkið greiðir í opinberu sjóðina sé um þriðjungi hærri.

Á almennum vinnumarkaði er kerfinu gert að vera sjálfbært og iðgjöld og ávöxtun þeirra standi undir lífeyrisréttindum, en aftur á móti er það ríki og sveitarfélög sem ábyrgjast tiltekin réttindi í sjóðum opinberra starfsmanna.

Það er óþolandi að sumir búi við ríkistryggð réttindi á meðan öðrum er gert að standa undir þeim réttindum og á sama tíma að búa við skerðingar í sínum sjóðum.

Ef ætlast er til þess að lífeyrissjóðir geti staðið við skuldbindingar sínar og tryggt lífeyri allan lífaldur sjóðsfélaga þá þarf að líta til ráðandi þátta.

a) Skerðing réttinda. Ef ekkert verður gert kemur það að sjálfu sér að það verður að skerða réttindi umtalsvert og þá langmest í opinberu sjóðunum.  Það blasir við að innan 5 ára verður að hækkað tekjuskatt allra landsmanna um 3 -4% til þess eins að standa undir opinberu sjóðunum. Ég tel næsta víst að landsmenn muni alfarið hafna þeirri leið

b) Lífeyrisaldur og örorkubætur, margar þjóðir eru að hækka aldurinn úr 60 - 65 upp í 67 ár til þess að mæta hækkandi meðalaldri, undir háværum mótmælum almennings.

c) Iðgjaldi, margar þjóðir hafa verið að hækka iðgjald og það er sumstaðar komið í 16 - 18%. Iðgjald hins opinbera í LSR er umtalsvert hærra en í almennu sjóðina auk rausnarlegs framlags. Vilja launamenn láta af hendi þá launahækkun sem í boði er til þess að hækka iðgjaldið?

d) Ávöxtun sjóðanna. Ef ávöxtunarkrafa er tekinn niður eins og rætt hefur verið um, þá verður að skerða lífeyrisrétt þeirra sem nú eru á bótum umtalsvert strax umtalsvert. Það er að segja í almennu sjóðunum, ekki hins opinbera það er sótt í ríkissjóð.

Inn í skerðingar lífeyrissjóða hefur einnig haft mikil áhrif mikil aukning á örorkubótum. T.d. má benda á að um síðustu aldamót var það sem greitt var úr lífeyrissjóðum jafnhátt því sem greitt var úr Tryggingarstofnun. Í dag er þetta þannig að útgjöld lífeyrissjóða eru um 80 milljarðar á meðan útgjöld Tryggingarstofnunar eru 50 milljarðar.

Allir sem fylgjast með lífeyrismálum vita að mikil fjölgun öryrkja hefur aukið útgreiðslur úr sumum lífeyrisjóðunum. Lífaldur hefur lengst, þá sérstaklega karla. Mismunandi mikið tap og mismikill kostnaðarauki vegna fjölgunar bótaþega,auk þess að lenging lífaldurs hefur leitt til þess að sumir sjóðir hafa þurft að skerða meir en aðrir.

Það liggur fyrir að ef lífeyrissjóðirnir verða að hafa möguleika til þess að ávaxta hina miklu fjármuni sem þar eru þá verða þeir að geta fjárfest erlendis. Það eru ekki nægilega góðir fjárfestingarkostir fyrir hendi á Íslandi. Auk þess má velta fyrir sér hversu örugg fjárfesting það sé ef nánast allar fjárfestingar séu í bréfum með ábyrgð íslenska ríkisins. Hversu öruggt er það?

fimmtudagur, 11. júlí 2013

Hvað gerist ef ekki næst sátt við þjóðina?




Rökstuðningur forsetans um hvort vísa eigi lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu er ekki alltaf skýr og forsetinn hefur ekki verið ekki samkvæmur sjálfum sér. Hann gefur sér nú þá forsendu að stjórnvöld verði ná varanlegri og víðtækri sátt um skipan fiskveiða og arðgreiðslur til þjóðarinnar.

Með þessu er hann að setja sig og ríkisstjórn sína í þá stöðu að náist þessi sátt ekki þá verður hann að taka efnislega afstöðu til málsins, sem hann vék sér undan að gera núna.

Sé litið til sögunnar kemst maður ekki hjá því að vera vonlítill um að þessi sátt finnist Þessi staða ýtir enn frekar undir það að verði að setja enn skýrari stjórnskipulegan ramma mál sem þessi. Það gengur einfaldlega ekki upp að einn maður geti vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu og þurfi ekki að axla neina ábyrgð.

Rökstuðningur Ólafs Ragnars í þessum málum hefur ekki verið skýr og hann er ekki alltaf mjög samkvæmur sjálfum sér enda er það kannski mjög erfitt. Málin eru ólík og deiluefnin mörg hjá vorri þjóð.

Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði, bendir réttilega á að þetta var persónulega ákvörðun forsetans: „Forsetinn segir það einfaldlega berum orðum í dag að þessi ákvörðun er hans persónulega ákvörðun. það er forsetinn sem tekur sem einstaklingur ákvörðun um það hvort eigi að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki. Undirskriftasafnanir skipta þar ekki öllu máli, þar er vilji forsetans.“

Stjórnmálamönnum er gert að bíða eftir ákvörðun forsetans. Í vinnu okkar í Stjórnlagaráði var þetta rætt ítarlega. Ég fagna því að nú er Ólafur Ragnar með háttalagi sínu í raun búinn að gera þjóðinni grein fyrir því að við ráðsliðar höfðum rétt fyrir okkur.

Meir að segja Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem var nú ekki okkar helsti aðdáandi segir :„Ég myndi telja að það væri á margan hátt heppilegra að valdið til að framkalla þjóðaratkvæðagreiðslu væri ekki í höndum eins manns, það er að segja forseta íslands hverju sinni , heldur væri betra ef valdið væri hjá minnihluta þings eins og í Danmörku, eða tilteknum hluta kjósenda.“

Nákvæmlega það sem við sögðum í Stjórnlagaráði.
 
 

miðvikudagur, 10. júlí 2013

Málsvari auðmanna




Nýverið hlustaði ég á frú Vigdísi forseta okkar þar sem hún kynnti ný verkefni stofnunar tungumála. Frú Vigdís nær alltaf athygli allra þegar hún talar. Hún nýtur mikillar virðingar meðal þjóðarinnar og þjóðin stendur óskipt að baki hennar.

Það er annað en hægt er að segja um Ólaf Ragnar. Hann hefur komið sér fyrir meðal auðmanna- og valdastéttarinnar og hefur tekist að mynda mikla gjá milli forsetaembættisins og þjóðarinnar.

Þetta kemur sérstaklega vel fram þegar Ólafur Ragnar mærir krónuna og talar þar um hversu heppilegt sé að geta lagt aukaskatt á launamenn með reglulegum gengisfellingum launa og arður vina hans vex.

Í siðmenntuðum ríkjum fer ákvarðanataka fram meðal þjóðarinnar og þeirra fulltrúa sem hún kýs í löglegum kosningum. Í einræðisríkjum gerist þetta með öðrum hætti, þar ræður hentistefna eins manns hverju sinni, þar sem hann dregur til sín og sinna auð þjóðarinnar.
 

þriðjudagur, 9. júlí 2013

Óábyrg vinnubrögð og hringlandaháttur


Öll þekkjum við vinnubrögð stjórnmálamanna í kosningabaráttu. Lofað er aukinni atvinnu og talinn upp verkefni sem viðkomandi frambjóðandi ætli sér að hrinda í framkvæmd nái hann inn á þing.

Flestir forsvarsmenn atvinnufyrirtækja hér á landi kvarta undan hringlandahætti stjórnvalda, erfitt sé jafnvel ómögulegt að gera áætlanir til framtíðar. Þeir sem hafa komið í gömlu höfnina í Reykjavík sjá að þar hefur orðið sprenging, iðandi mannlíf, veitingahús, hótel og gallerí. Helsta forsenda þessa mikla mannfjölda eru hvalaskoðunarfyrirtækin.

Nýr ráðherra lætur það verða eitt sínum fyrstu verkum að gera atlögu að þessari ánægjulegu þróun með því að minnka friðað svæði í Faxaflóanum, svo örfáir menn geti veitt þar hvali. En ráðherrann virðist algjörlega skorta öll rök þegar fréttamenn spyrja hana hvers vegna eigi að gera þetta. Það eina sem má skilja á henni er að Steingrímur Joð. setti lögin, þá séu þau ómöguleg, eins og allt sem síðasta ríkisstjórn framkvæmdi og það réttlæti að gera þessa aðför að hinni blómlegu uppbyggingu í gömlu höfninni og verbúðunum þar.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa hafa tamið sér að tala ákaflega óábyrgt, allt má ef það verði til þess að ná atkvæðum.

Í þessu sambandi má minna á málflutning stjórnarflokkanna eftir aldamót. Lofað var Kárahnjúkavirkjun og stóru álveri fyrir austan, bara sú framkvæmd velgdi hagkerfið töluvert. Þar til viðbótar var bætt í með 100% fasteignalánum og á örskömmum tíma margfaldaðist byggingariðnaðurinn. Öll þekkjum við hvaða reikning stjórnmálamenn hafa sent okkur skattborgurum í gegnum Íbúðarlánasjóð.

Auk þess var byrjað á að reisa stóra tónleikahöll, alþjóðlega viðskiptamiðstöð og risahótel við höfnina í Reykjavík, samfara því að staðið var að margföldum bankakerfisins. Á sama tíma átti að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Sundabraut, Vaðlaheiðagöng og tvöfalda Hvalfjarðargöng.

Þar til viðbótar var lofað tveim nýjum stórum álverum í Helguvík og Bakka. Stækka átti álverið í Straumsvík og fyrirheit gefin álver í Þorlákshöfn. Jafnvel að stækka álverið á Reyðarfirði, þar sem afgangsorka væri í Kárahnjúkum. Og þar til viðbótar átti að leggja sæstreng til Evrópu og græða svo mikið á því að hægt væri að fjármagna allan rekstur heilbrigðiskerfisins, samfara að rafvæða allan bílaflotann og minnka innflutning á erlendu eldsneyti.

Auk þess voru á dagskránni nokkur risavaxin gagnaver og nokkrar verksmiðjur víðsvegar um landið. Koltrefjaverksmiðja, kísilverksmiðjur og þannig mætti lengi telja. Margir bentu á að ef af þessu yrði þyrfti að virkja allt sem virkjanlegt væri á Íslandi með núverandi tækni.

Stjórnmálamenn bjuggu til svar við þessu, þeir lofuðu ómældri orku með djúpborunum, tækni sem er óþekkt í dag!! Vinnubrögð af þessu tagi eru í raun skemmdarverk, því endurtekið er verið að beina athyglinni að einhverju óraunverulegu, en viðráðanleg verkefni og undirbúningur þeirra komast ekki í umræðu.

sunnudagur, 7. júlí 2013

Spilað á heimskuna


Þessa dagana hamast fótgönguliðar núverandi ríkisstjórnar við að gera lítið úr rannsóknarskýrslu um starfsemi Íbúðarlánasjóðs og fjölmiðlar, sem eru þekktir fyrir að vera mjög hallir undir ríkisstjórnina, eru vitanlega duglegir við að birta það, eins og t.d. ritstjórn Pressunnar og Eyjunnar.

En jafnvel þó finna megi einhverja galla á skýrslunni, breytir það ekki stöðu Íbúðarlánasjóðs og hvernig staðið var að rekstri hans. Þar blasir við hin helkalda staðreynd um þá heimsku og spillingu sem varð til þess að svona fór.

Þar var helsta ástæðan kosningaloforð Framsóknar árið 2003 og valdafíkn Sjálfstæðismanna, en þeir létu undan kröfum Framsóknar þrátt fyrir að fyrir lægju alvarlegar athugasemdir frá mörgum aðilum hvert áætlanir XB gætu leitt efnahagskerfi okkar. Í valdafíkninni skiptir engu hverju er lofað, öllu er fórnað til þess eins að komast til valda, geta sest að kjötkötlunum og hrifsað til sín bestu bitana.

Nágrannalönd okkar og vinaþjóðir gerðu ítrekaðar tilraunir til þess að fá ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðismanna ofan af efnahagsstefnu þeirra, en íslensku ráðherrarnir gerðu gis af þeim og sögðu að þessum erlendu vinum okkar væri nær að fara á endurmenntunarnámskeið í stjórn efnahagsmála. Ísland væri best í heimi og forseti vor brosti sínu breiðasta og talaði um víkinga sem væri að leggja undir sig heiminn.

Margir fengu aulahroll og hér varð fullkomið kerfishrun, margfalt meira en gerðist í öðrum löndum og tugir þúsunda íslenskra heimila urðu gjaldþrota.

Vinaþjóðir okkar voru þar með búnar að fá sig fullsadda á hroka og heimsku íslensku stjórnmálastéttarinnar, en gerðu okkur þó þann greiða að lána Íslandi stórfé á lágum vöxtum, en teystu íslenskum stjórnmálamönnum ekki betur en svo að það var gert í gegnum AGS, og þá gaf forsetinn ásamt skoðanbræðsum sínum út þá yfirlýsingu að Norðurlöndin væru okkar helstu óvinir!!??

Á þeim norrænu ráðstefnum sem ég sótti á þessum tíma var gert stólpagrín af rembingi og heimsku Íslendinga og hins stórfurðulega forseta landsins.

Í aðdraganda kosninganna í vor fóru menn mikinn og lofuðu öllum miklu. Stuðst var við töfralausnir sem þekktir lýðskrumarar héldu á lofti í pistlum á Pressunni og í spjallþáttum Í bítinu og eftirmiðdagsþáttum Bylgjunnar.

Þar var lofað 20% flatri niðurfellingu skulda, í engu var sinnt þeim ábendingum að um 80% af þeim 300 milljörðum sem þetta kostaði myndi renna lóðbeint í vasa ríkustu fjölskyldna landsins. Blásið var á þær ábendingar að þetta form myndi í engu hjálpa þeim fjölskyldum sem voru í mesta vandanum.

Þessir menn veifa í kringum sig loforðum á borð við að þeir muni láta Verðtrygginguna hverfa, en hafa aldrei getað skýrt út hvað þeir eigi við og hvað komi eigi í staðinn. Fyrir liggja ítarlega skýrslur um að afnám verðtryggingarkerfisins geti sett húsbyggendur í mun verri vanda en þeir eru þegar í og muni jafnframt gera enn fleirum ómögulegt að koma undir sig fótunum.

Það virðist þó vera þannig reyni maður að greina þennan málflutning, að hverfa eigi aftur til áranna fyrir 1980 þegar verðbólgan var oft á tíðum um og yfir 50% og vextir ásamt launahækkunum á svipuðum slóðum, án þess að vaxandi kaupmáttur fylgdi. Allt sparifé landsmanna brann upp í verðbólgubálinu og atvinnulífið var að Hruni komið, í lok níunda áratugs síðustu aldar.

Þessir lukkuriddarar fara mikinn þessa daganna og Eyjan birtir það allt á forsíðu. Allt ber þetta vott um heimskuna og minnimáttakenndina sem birtist í þjóðrembunni. Gunnar Smári rekur þetta ágætlega í Fréttatímanum nú um helgina og segir þar að Íslandssagan sé öll ágætur vitnisburður um heimskuna. Þar má rekja hvernig við stóðum að samskiptum við Bandríkjamenn og rekstri varnaliðsins hér. Hverjir voru það sem högnuðust mest á því?

Hvernig við fórum með Marshallaðstoðinni og hvernig það var látið viðgangast að ríkisstjórnir ráku efnahagsstjórn reistri á verðbólgu og gengisfellingum þar sem laun og sparnaður launamanna var reglulega gert upptækt og látið renna í vasa valdastéttarinnar, sem stóð og stendur að baki þessarar stefnu.

Þar teflir valdastéttin gjarnan fram nytsömum sakleysingjum á borð við lukkuriddarana, sem lofa því upp á æru og trú að þeir geti látið skuldir heimilanna hverfa og leið og þeir geri út af við Verðtrygginguna. Spilað er með þá og þeir reglulega kallaðir til í spjallþættina og hampað í fjölmiðlum sem eru í eigu valdstéttarinnar.

Spilað er á þjóðrembuna, eins og alltaf hefur verið gert hér á landi. Við erum mest og best, en allir eru svo vondir við okkur. Við viljum fá alla erlendu styrkina og erlendu aðstoðina, en við höfnum því að fara að leikreglum og samstarfi fullvalda ríkja. Íslenskir launamenn búa ekki við fullveldi, það er valdastéttin sem hefur hrifsað það til sín ásamt auðlindum landsins.

Heimskan er við völd og við blasir enn eitt efnahagshrunið þar sem stefnt er að ná sparifé launamanna í lífeyrissjóðunum og yfirfæra það til valdastéttarinnar.

miðvikudagur, 3. júlí 2013

Höfum ekkert lært?


270 milljarða reikningur til þjóðarinnar er afleiðing þess að reynt var að standa við kosningaloforð XB 2003 um 90% íbúðarlán. Ekkert mark tekið á aðvörunarorðum færustu erlendra sérfræðinga.

Áberandi eftir að hafa skoðað þetta mál allt eru óvönduð vinnuvinnubrögð sem viðhöfð eru á Íslandi segja skýrsluhöfundar.

Svo var komið að Norðurlöndin voru búinn að gefast upp á því að koma vitinu fyrir Íslendingar og neituðu að tala við okkur nema í gegnum AGS.

Höfum við ekkert lært? Í dag gera ríkisstjórnin og hennar málsvarar hróp að þeim sem vara við mjög alvarlegum afleiðingum ef menn ætli sér að standa við risavaxinn kosningaloforð 2013.

Tölum ekki við erlendar skammstafanir, segir forsætisráðherra. Þær þurfa að sanna sig fyrir Íslandi. Það virðist vera að lífeyrissjóðirnir eigi að verða næsta fórnarlamb þessara manna.

Þeir eru búnir að leggja í rúst allt bankakerfið og allt fjármálakerfið þar sem stjórnmálamenn komast að, lífeyrissjóðirnir voru þeir einu sem komu standandi út úr Hruninu, enda komust stjórnmálmenn ekki að þeim þrátt fyrir ítarlegar tilraunir.
 
Eiga þessir aðilar að komast óáreittir út í næstu keldu, og skapa okkur enn meiri vanda?