þriðjudagur, 9. júlí 2013

Óábyrg vinnubrögð og hringlandaháttur


Öll þekkjum við vinnubrögð stjórnmálamanna í kosningabaráttu. Lofað er aukinni atvinnu og talinn upp verkefni sem viðkomandi frambjóðandi ætli sér að hrinda í framkvæmd nái hann inn á þing.

Flestir forsvarsmenn atvinnufyrirtækja hér á landi kvarta undan hringlandahætti stjórnvalda, erfitt sé jafnvel ómögulegt að gera áætlanir til framtíðar. Þeir sem hafa komið í gömlu höfnina í Reykjavík sjá að þar hefur orðið sprenging, iðandi mannlíf, veitingahús, hótel og gallerí. Helsta forsenda þessa mikla mannfjölda eru hvalaskoðunarfyrirtækin.

Nýr ráðherra lætur það verða eitt sínum fyrstu verkum að gera atlögu að þessari ánægjulegu þróun með því að minnka friðað svæði í Faxaflóanum, svo örfáir menn geti veitt þar hvali. En ráðherrann virðist algjörlega skorta öll rök þegar fréttamenn spyrja hana hvers vegna eigi að gera þetta. Það eina sem má skilja á henni er að Steingrímur Joð. setti lögin, þá séu þau ómöguleg, eins og allt sem síðasta ríkisstjórn framkvæmdi og það réttlæti að gera þessa aðför að hinni blómlegu uppbyggingu í gömlu höfninni og verbúðunum þar.

Íslenskir stjórnmálamenn hafa hafa tamið sér að tala ákaflega óábyrgt, allt má ef það verði til þess að ná atkvæðum.

Í þessu sambandi má minna á málflutning stjórnarflokkanna eftir aldamót. Lofað var Kárahnjúkavirkjun og stóru álveri fyrir austan, bara sú framkvæmd velgdi hagkerfið töluvert. Þar til viðbótar var bætt í með 100% fasteignalánum og á örskömmum tíma margfaldaðist byggingariðnaðurinn. Öll þekkjum við hvaða reikning stjórnmálamenn hafa sent okkur skattborgurum í gegnum Íbúðarlánasjóð.

Auk þess var byrjað á að reisa stóra tónleikahöll, alþjóðlega viðskiptamiðstöð og risahótel við höfnina í Reykjavík, samfara því að staðið var að margföldum bankakerfisins. Á sama tíma átti að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Sundabraut, Vaðlaheiðagöng og tvöfalda Hvalfjarðargöng.

Þar til viðbótar var lofað tveim nýjum stórum álverum í Helguvík og Bakka. Stækka átti álverið í Straumsvík og fyrirheit gefin álver í Þorlákshöfn. Jafnvel að stækka álverið á Reyðarfirði, þar sem afgangsorka væri í Kárahnjúkum. Og þar til viðbótar átti að leggja sæstreng til Evrópu og græða svo mikið á því að hægt væri að fjármagna allan rekstur heilbrigðiskerfisins, samfara að rafvæða allan bílaflotann og minnka innflutning á erlendu eldsneyti.

Auk þess voru á dagskránni nokkur risavaxin gagnaver og nokkrar verksmiðjur víðsvegar um landið. Koltrefjaverksmiðja, kísilverksmiðjur og þannig mætti lengi telja. Margir bentu á að ef af þessu yrði þyrfti að virkja allt sem virkjanlegt væri á Íslandi með núverandi tækni.

Stjórnmálamenn bjuggu til svar við þessu, þeir lofuðu ómældri orku með djúpborunum, tækni sem er óþekkt í dag!! Vinnubrögð af þessu tagi eru í raun skemmdarverk, því endurtekið er verið að beina athyglinni að einhverju óraunverulegu, en viðráðanleg verkefni og undirbúningur þeirra komast ekki í umræðu.

Engin ummæli: