þriðjudagur, 20. ágúst 2013

Enn um verðtrygginguna


Sumir halda því fram að verðtrygging valdi því að verðbólga sé hærri hér en annarsstaðar. Ef grannt er skoðað þá er það sveiflukenndur gjaldmiðill og óöguð efnahagsstjórn sem er sökudólgurinn. Það að ráðast að verðtryggingunni og ætla sér að afnema hana eina sér leysir engan vanda, við þurfum að ráðast að rótum vandans eigi að leysa hann.

Í fjölmörgum skýrslum sem unnar hafa verið um þessi mál, kemur fram að vextir hér eru ávallt um það bil 3 – 5% hærri en í nágrannalöndum okkar vegna hins ótrygga gjaldmiðils sem við notum. Reglubundnar sveiflur hans valda verðbólguskotum og setja verðtryggingarkerfið í gang. Það er krónan og efnahagsstjórnin sem er vandinn, ekki verðtryggingin. Á þetta hefur ítrekað verið bent á í ályktunum verkalýðshreyfingarinnar, þess vegna dugi ekki það eitt að afnema verðtrygginguna eins og eitt stéttarfélag heldur fram og lofar sjálft sig fyrir að berjast eitt verkalýðsfélaga gegn verðtrygginunni. Í raun er það eina verkalýðsfélagið sem berst fyrir viðhaldi verðtryggingarinnar.

Eftir að hafa tekið við forsætisráðherraembættinu var Sigmundur Davíð spurður út í hvenær hann hyggðist afnema verðtrygginguna, eins og hann lofaði í kosningabárttunni. En þegar Sigmundur Davíð svaraði kom í ljós að hann hafði skipt skipt um gír og í stað þess að nota klisjuna um afnám verðtryggingarinnar sagði hann að til að losna við hana þyrfti að taka upp agaða efnahagsstjórn og þá yrði hún óvirk. Það er hárrétt og þar tók forsætisráðherra undir framangreind sjónarmið.

En það eru mjög margir sem telja að íslenskir stjórnmálamenn muni ekki fást til þess að gera þetta og þess vegna hefur verið rætt um að eina leiðin sér að setja verði þeim ákveðnari ramma, eins og t.d. Norðurlöndin gerðu þegar þau höfðu hafnað alfarið að lána Íslandi meiri fjármuni nema þá gegn því að íslenskir ráðherrar myndu undirgangast eftirlit AGS og íslenskir stjórnmálamenn yrðu þá að fara að þeim leikreglum sem þeim væru settar.

En hinir óöguðu íslensku stjórnmálamenn berjast gegn þessu af mikilli hörku og hafa að baki sér þann hóp í þjóðfélaginu, sem hagnast á því að viðhalda krónunni og hér er spilað á þjóðrembuna og búnir til óvinir í útlöndum til þess að beina umræðunni inn á villigötur.

Ástæða er að halda því sérstaklega til haga að verðbólga hér á landi var í hæstu hæðum áður en verðtrygging var tekinn upp, þá var ekki hægt að kenna henni um.

Það er ekkert tiltökumál að afnema verðtryggingu og það má reyndar segja að það hafi verið verið gert, það eru aðrir kostir í boði fyrir lántakendur. Flestar bankastofnanir bjóða fasteignalán með nafnvöxtum á bilinu 7-8% (eftir tímalengd vaxta og veðhlutfalli) sem verða að teljast ágæt kjör í ljósi þess að verðbólga hefur verið á bilinu 4-5% síðustu misseri. Margir hafa skipt yfir í óverðtryggð lán, en notkun verðtryggðra lán virðast hafa aukist aftur.

Á það hefur verið bent af mörgum aðilum að umræðan hafi í raun nefnilega ekki snúist um afnám verðtryggingar heldur um niðurfærslu útistandandi lána. Kostnaðurinn vegna hennar mun falla á skattgreiðendur og hér er um stórar fjárhæðir að tefla. Verðtryggð fasteignalán heimilanna eru nú um 1150 milljarðar króna og kostnaðurinn við að færa höfuðstól verðtryggðra lána aftur til ársins 2008 gæti verið 350-400 milljarðar króna.

Af þessum lánum eru 57% veitt af Íbúðalánasjóði með ábyrgð ríkisins en 15% eru frá lífeyrissjóðum komin. Almenn niðurfærsla verðtryggðra lána er því í raun bein tekjufærsla frá þeim skattgreiðendum og lífeyrisþegum sem hafa ekki náð að skuldsetja sig nægjanlega til þess að hljóta slíka leiðréttingu.

Því er gjarnan haldið fram að verðtrygging húsnæðislána sé einungis hér á landi, það er ekki rétt hún er vel þekkt í mörgum löndum, en hún er sumstaðar útfærð öðru vísi og að auki er rétt að benda á að þar er mun meiri stöðugleiki þannig að hún er að mestu óvirk. Það myndi hún ennig vera hér á landi ef verðbólgunni væri haldið undir 3%. 

Benda má á fordæmi Breta sem eru með þak á verðtryggingarvísitölu (Limited Price Index) sem viðmiðun í lánaviðskiptum og réttindareikningi lífeyrissjóða. Slík þaksett vísitala er þannig gjörð að hún hækkar aldrei umfram ákveðið mark á ársgrundvelli – til að mynda 4-5%. Lántakendur borga þannig hærri vexti en eru varðir fyrir verðbólguáhættu og þaksett lán má því kalla blending á milli nafnvaxta og verðtryggingar.

Síðasta haust vann Dr. Ásgeir Jónsson skýrslu með hagfræðingunum Valdimar Ármann og Sigurði Jóhannessyni um verðtryggingu frá öllum hliðum fyrir Samtök fjármálafyrirtækja. Skýrslan bar heitið „Verðtrygging – nauðsyn eða val“ þeir sem fjalla um verðtryggingu og afnám hennar ættu að kynna sér vel það sem hefur verið ritað um þetta mál. Í þessari skýrslu eru færð rök fyrir því að verðtryggingin sé að mörgu leyti óholl fyrir landið, í það minnsta  hvernig henni hefur verið beitt hérlendis.

Í skýrslunni kemur fram að verðtryggingin skapi bæði of mikinn hvata til skuldsetningar og varpi of mikilli þjóðhagslegri áhættu á herðar heimila landsins, sem þurfi að taka á sig áhættu vegna verðbólguskella. Verðtryggingin hafi einnig valdið ákveðnu kæruleysi gagnvart verðbólgu og torveldað peningamálastefnu Seðlabankans.

Vandi margra þeirra sem ráða ekki við afborganir er sjálfskapaður, vegna þess að þeir gengu of langt í fjárfestingum. Þeir hefði lent í enn meiri vanda ef greiðsludreifingarkerfi verðtryggingarinnar hefði veirð afnumið, sakir þess að þá hefðui afborganir snarhækkað, eins og rakið er í pistlinum hér á þessari síðu í gær. 

Það er hins vegar engin lausn að banna verðtryggingu eina og sér – val í lánamálum verður alltaf af telja af hinu góða. Hins vegar er hægt að gera ýmsa hluti til þess að leysa verðtryggingu af hólmi og fá heilbrigðara lánaumhverfi.

Hins vegar er hægt að benda á að meginvandinn nú sé ekki endilega sá að lánin hafi fylgt verðbólgu með verðtryggingu heldur mun fremur að fasteignaverð og laun hafa ekki gert það á síðustu 4 árum. Besta leiðin út úr skuldavandanum felst í hagvexti og hækkandi ráðstöfunartekjum.

Ætla má að áfram verði töluverð eftirspurn eftir verðtryggðum lánum þar sem þau gefa færi á mikilli skuldsetningu með lítilli upphafsgreiðslubyrði og gefa því fólki færi á því að kaupa mun stærri eignir en óverðtryggð lán. Og það er meginástæðan fyrir almennri notkun verðtryggingar hérlendis í lánaviðskiptum. Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.

mánudagur, 19. ágúst 2013

Um afnám verðtryggingar og skoðanafrelsis


Nú er búið að setja á laggirnar nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, sem hefur það hlutverk að finna leið til þess að afnema verðtrygginguna, eins og lofað var í síðustu kosningabaráttu. Á undanförnum misserum hafa verið stofnaðar allnokkrar nefndir, þ.á.m. á Alþingi, til þess að framkvæma þessa niðurfellingu, en einhverra hluta vegna hafa þær allar guggnað á verkefninu eftir að hafa skoða málið ítarlega.

Hvað þýðir hugtakið afnám verðtryggingar? Því var haldið ákaft að kjósendum að þar væri að finna auðvelda og einfalda leið til þess að lækka skuldir og minnka afborganir lána umtalsvert.

Vitanlega vilja allir afnema verðtryggingu/háa vexti. Hvers vegna einungis 80%  svöruð með já við í skoðanakönnum þar sem spurt var "Viltu afnema verðtryggingu?" skil ég ekki. Þessi spurning er svona ein og sér er vitanlega út í hött og ég reikna með að þessi 20% sem sögðu nei, hafi verið með það a hreinu um hvað málið snérist í raun.
 
Afnám verðtryggingar einnar út af fyrir sig leysir engan vanda. Það er lýðskrum. Það er einungis en leið til þess að gera verðtrygginguna óvirka, það er að lækka verðbólgu niður fyrir 3,5% og halda henni þar.
 
Í spjallþáttunum og kosningaræðunum varð maður ekki var við efnislega umræðu um orsök þess að tekin var upp verðtryggingu inn- og útlána á Íslandi, eða hvers vegna verðbólga á Íslandi er langt umfram það sem þekkist í Evrópu, samfara því að tiltekinn hópur rígheldur í krónuna.

Þeir sem hafa verið að slá sér upp með því að þeir hafi í hendi sér þá töfralausn að redda öllum málum með því að afnema verðtryggingu, hafa gengið svo langt að fullyrða að Hrunið sé afleiðing verðtryggingarinnar.

Verðtrygging er greiðsludreifing á háum vöxtum, þar er um að ræða jafngreiðslur út lánstímann og greiðslutoppar sem skapast í verðbólguskotum eru jafnaðir út. Ef þetta kerfi væri ekki til staðar, hefðu enn fleiri heimili orðið gjaldþrota, en raun varð á í kjölfar Hrunsins.

Tökum dæmi : Ef 28 milljóna króna lán hefði verið á almennum óverðtryggðum vöxtum skuldabréfa Seðlabanka Íslands árið 2007, þá hefði lántakandi þurft að greiða um 4,5 milljónir í vexti það árið, eða um 375 þúsund krónur á mánuði. Hverjir hefðu þolað það?

Lán sem greidd eru í gegnum greiðsludreifingarkerfi verðtryggingar eru á föstum vöxtum, ef þeir eru lægri en verðbólgan á einhverju tímabili, er vandinn einfaldlega fluttur frá nútíð til framtíðar og þannig verður hann þolanlegri, en hann hverfur ekki.

Ef greiðsludreifingarkerfið (verðtrygging) er afnumið, verða lántakendur einfaldlega að staðgreiða vextina. Nema þá að menn ætli sér að hverfa til áranna fyrir 1980 og taka upp neikvæða vexti, en þá er verið að boða eignaupptöku hjá sparifjáreigendum.

Það var við óábyrga efnahagsstjórn að sakast að verðgildi krónunnar hrundi, ekki verðtryggingunni. Það var yfirverð krónunnar og takmarkalausra lána bankanna að verðlag húsnæðis fór upp. Þegar búið var að fleyta froðunni í burtu, lækkaði verðmæti húsnæðis. Það gerðist einnig í löndum þar sem enginn er verðtryggingin.

Ef verðbólga/vextir hefðu ekki farið jafnmikið upp og raun varð á, þá hafði ekkert/minna farið inn í greiðsludreifingarkerfið. Lækkun húsnæðisverðs og lækkun tekna á Íslandi má alfarið rekja til afleitrar efnahagsstjórnunar undanfarinna ára.

Haldið var á lofti „sérstöðu Íslands“ hagkerfinu haldið lokuðu og krónan hoppaði og skoppaði eins og korktappi á úthafi við hlið risaolíuskips/stærri efnahagskerfa eins og t.d. ESB. Verðtryggingu var komið á vegna þessarar sérstöðu, hún er ekki orsök þess.

Við ættum e.t.v. að spyrja okkur þeirra spurningar hvers vegna 100 nýjar krónur í janúar 1981 þegar tvö núll voru tekin aftan af þáverandi krónu oru orðnar um 4.000 krónur í árslok 2012 ef eitthvað er að marka verðlagsreiknivél á vef Hagstofu Íslands. Á 31 ári hefur verðlag sem sagt hækkað um 3.815%.

Verkalýðshreyfingin hefur á þessum tíma barið í gegn launahækkanir upp á tugi prósenta á hverju ári, á meðan samið hefur verið um nokkur prósent launahækkun í nágrannalöndum okkar.

Þau 43 ár sem Rafiðnaðarsambandið hefur starfað hafa samninganefndir sambandsins samið um tæplega 4.000% í launahækkanir hjá félagsmönnum, á meðan systursambönd okkar á hinum Norðurlöndunum hafa samið um launahækkanir sem nema um það bil 340%. Þrátt fyrir að við séum 3.600% slappari í gerð kjarasamninga standa þau okkur samt framar á nánast öllum sviðum hvað varða kaupmátt og lánakjör heimilanna.

Þessi 3.600% munur er ástæða þess að hér varð að koma á greiðsludreifingarkerfi, sem nefnt var Verðtrygging. Til eru fjölmargar skýrslur þar sem þessi vandi er greindur ítarlega. Stjórnmálamenn bíta svo höfuðið af skömminni með því að bera sakir á verkalýðshreyfinguna um að gera ekki nægilega góða kjarasamninga.

Öll þekkjum við þá reglubundnu gengisfellingu kjarasamninga sem slakir STJÓRNMÁLAMENN standa fyrir og ógilda þar gildandi kjarasamninga og eru þar að gera eignaupptöku hjá launamönnum sem flutt er til útflutningsfyrirtækja og ríkissjóðs.

En umræðuhefðin á Íslandi veldur því að spjallþættir fjölmiðlanna eru fullir af skrumurum, sem vísa á bug öllum staðreyndum því þá yrðu ræður þeirra og upphrópanir verðlausar og þeir væru berir af skruminu. Spjallþættirnir vöktu upp afl, sem ekkert erindi á í valdastóla lýðræðisríkis, sem vill taka af alvöru á sínum vandamálum.

Nýir valdhafar vilja nú koma í veg fyrir umræðu um vandann og hafa stillt sér upp við hlið einstaklings sem heldur um niðurskurðarhnífinn. Og hún hótar okkur öllu illu höfum við okkur ekki hægt um okkur.

þriðjudagur, 13. ágúst 2013

Glópagull og veikbyggð stjórnsýsla


Það sem einkennir Ísland sé það borið saman þau lönd sem við viljum standa jafnfætis við, er veik stefnumótun sem ekki er reist á rannsóknum og undangenginni rökræðu. Stefnumótun á Íslandi er tekin einhendis af ráðandi stjónmálamönnum þar sem gengið er erinda þess hagsmunahóps sem stendur að baki viðkomandi stjórnmálamanni hverju sinni.

Þetta hefur leitt til þess að lífsgæði á Ísland, kaupmáttur og velferð fjölskyldunnar hefur verið að dragast aftur úr nágrannalöndum okkar. Sífellt fleiri velja það að flytja til nágrannalanda okkar, samfara því að sífellt fleiri námsmenn velja það að koma ekki heim að námi loknu og samfélag okkar tapar miklum verðmætum og um leið framtíðarmöguleikum.

Virðing fyrir lögum og Stjórnarskrá er áberandi takmörkuð meðal íslenskra stjórnmálamanna. Átakastjórnmál eru allsráðandi og mál keyrð í gegn með málþófi og upphrópunum. Allt of oft hefur komið í ljós að ný lög og reglugerðir stangast á við gildandi lög og jafnvel Stjórnarskránna. Og stjórnmálamenn sletta bara í góm og taka til við næsta hasar.

Áberandi er virðingarleysi íslenskra stjórnmálamanna gagnvart vilja almennings og með hvaða hætti þeir halda sér til hlés í umræðunni og eru jafnvel virkir þátttakendur í því að koma í veg fyrir að hún geti þorskast með eðlilegum hætti, með því að varpa reglubundið fram reyksprengjum til þess að afvegaleiða umræðuna.

Það er áberandi hér á landi að ekki er byggt ofan á þann grunn, sem reistur hefur verið á reynslu. Í stað þess er allri fyrri umræðu og reynsluferli endurtekið vikið til hliðar. Þetta vinnulag stjórnmálamanna hefur leitt til þess að þeir hafa hrakið á brott þá einstaklinga, sem hafa sýnt vilja og getu til þess að vera virkir þátttakendur í því að þroska umræðuna.

Stjórnarráð Íslands er veikburða, það var eitt af stóru málunum sem blasti við okkur þegar staðan var gerð upp eftir Hrun. Ráðuneytin eiga fullt í fangi með að afgreiða þau erindi sem til þeirra berast. Það er nánast viðtekin venja að lögbundnir frestir renni út áður en mál eru tekin til afgreiðslu. Stefnumótun fámennra deilda takmarkast við einstök svið og víða skortir sérhæfingu.

Það hefur verið unnið að því að styrkja íslenska stjórnsýslu. En sú viðleitni takmarkar það svigrúm sem tjórnmálamenn hafa komist upp með að taka sér og kemur þar með í veg fyrir tækifærisbundna ákvarðanatöku þeirra. Helst amarkmið þessa hefur verið að auka öryggi almennings gagnvart stjórnvaldinu. Skapa festu og jafna lífsgæðin.

Eitt af þeim ráðum sem gripið var til eftir Hrun var fækka ráðuneytum, það myndi leiða til þess að einingar Stjórnarráðsins yrðu stærri og hægt yrði að setja á stofn fleiri og fjölmennari vinnuhópa um tilgreind verkefni. Sameining stofnana yrði markvissari, allsherjar stefnumótun væri möguleg enda allt ákvarðanaferli heildstæðara.

Ummæli og viðbrögð ráðandi stjórnmálamanna um tilgang IPA styrkja koma ekki á óvart. Þar er talað af fullkomnu ábyrgðarleysi, jafnvel gengið svo langt að það eitt dugi að bera glópagull alla stjórnsýsluna og bjóða henni í ferðir til Brussel til þess að fá hana til þess að fremja landráð.

Þessir stjórnmálamenn eru reyndar að lýsa sjálfum sér umfram anna, en augljóst er að helsta markmið þeirra er að koma í veg fyrir að hér verði tekin upp ábyrgari stjórnsýsla, því það mun koma í veg fyrir að þeir geti viðhaldið þeim starfsháttum sem þeir hafa tamið sér.

Margar þeirra réttarbóta sem íslenskir launamenn hafa náð fram á undanförnum tveim áratugum, hefur náðst eftir mikið stríð við íslensk stjórnvöld um að fá þau til þess að staðfesta lög og reglugerðir, sem önnur Evrópuríki hafa komið sér saman um. Ísland hefur oft verið mörgum árum á eftir öðrum löndum í þeim efnum og er enn.

Núverandi stjórnvöld ætla að ríghalda í krónuna. Hún hefur reynst íslenskum stjórnvöldum svo vel til að gjaldfella kjarasamninga og leggja með þeim hætti óbeina skatta á íslensk heimili og framkvæma þar eignaupptöku, sem síðan færð er til ríkissjóðs og eigenda útflutningsfyrirtækjanna. Með þessu háttalagi eru tryggðir háir vextir og viðhaldið greiðsludreifinu á ofurvöxtunum í gegnum kerfi sem hefur verið nefnt verðtrygging.