þriðjudagur, 20. ágúst 2013

Enn um verðtrygginguna


Sumir halda því fram að verðtrygging valdi því að verðbólga sé hærri hér en annarsstaðar. Ef grannt er skoðað þá er það sveiflukenndur gjaldmiðill og óöguð efnahagsstjórn sem er sökudólgurinn. Það að ráðast að verðtryggingunni og ætla sér að afnema hana eina sér leysir engan vanda, við þurfum að ráðast að rótum vandans eigi að leysa hann.

Í fjölmörgum skýrslum sem unnar hafa verið um þessi mál, kemur fram að vextir hér eru ávallt um það bil 3 – 5% hærri en í nágrannalöndum okkar vegna hins ótrygga gjaldmiðils sem við notum. Reglubundnar sveiflur hans valda verðbólguskotum og setja verðtryggingarkerfið í gang. Það er krónan og efnahagsstjórnin sem er vandinn, ekki verðtryggingin. Á þetta hefur ítrekað verið bent á í ályktunum verkalýðshreyfingarinnar, þess vegna dugi ekki það eitt að afnema verðtrygginguna eins og eitt stéttarfélag heldur fram og lofar sjálft sig fyrir að berjast eitt verkalýðsfélaga gegn verðtrygginunni. Í raun er það eina verkalýðsfélagið sem berst fyrir viðhaldi verðtryggingarinnar.

Eftir að hafa tekið við forsætisráðherraembættinu var Sigmundur Davíð spurður út í hvenær hann hyggðist afnema verðtrygginguna, eins og hann lofaði í kosningabárttunni. En þegar Sigmundur Davíð svaraði kom í ljós að hann hafði skipt skipt um gír og í stað þess að nota klisjuna um afnám verðtryggingarinnar sagði hann að til að losna við hana þyrfti að taka upp agaða efnahagsstjórn og þá yrði hún óvirk. Það er hárrétt og þar tók forsætisráðherra undir framangreind sjónarmið.

En það eru mjög margir sem telja að íslenskir stjórnmálamenn muni ekki fást til þess að gera þetta og þess vegna hefur verið rætt um að eina leiðin sér að setja verði þeim ákveðnari ramma, eins og t.d. Norðurlöndin gerðu þegar þau höfðu hafnað alfarið að lána Íslandi meiri fjármuni nema þá gegn því að íslenskir ráðherrar myndu undirgangast eftirlit AGS og íslenskir stjórnmálamenn yrðu þá að fara að þeim leikreglum sem þeim væru settar.

En hinir óöguðu íslensku stjórnmálamenn berjast gegn þessu af mikilli hörku og hafa að baki sér þann hóp í þjóðfélaginu, sem hagnast á því að viðhalda krónunni og hér er spilað á þjóðrembuna og búnir til óvinir í útlöndum til þess að beina umræðunni inn á villigötur.

Ástæða er að halda því sérstaklega til haga að verðbólga hér á landi var í hæstu hæðum áður en verðtrygging var tekinn upp, þá var ekki hægt að kenna henni um.

Það er ekkert tiltökumál að afnema verðtryggingu og það má reyndar segja að það hafi verið verið gert, það eru aðrir kostir í boði fyrir lántakendur. Flestar bankastofnanir bjóða fasteignalán með nafnvöxtum á bilinu 7-8% (eftir tímalengd vaxta og veðhlutfalli) sem verða að teljast ágæt kjör í ljósi þess að verðbólga hefur verið á bilinu 4-5% síðustu misseri. Margir hafa skipt yfir í óverðtryggð lán, en notkun verðtryggðra lán virðast hafa aukist aftur.

Á það hefur verið bent af mörgum aðilum að umræðan hafi í raun nefnilega ekki snúist um afnám verðtryggingar heldur um niðurfærslu útistandandi lána. Kostnaðurinn vegna hennar mun falla á skattgreiðendur og hér er um stórar fjárhæðir að tefla. Verðtryggð fasteignalán heimilanna eru nú um 1150 milljarðar króna og kostnaðurinn við að færa höfuðstól verðtryggðra lána aftur til ársins 2008 gæti verið 350-400 milljarðar króna.

Af þessum lánum eru 57% veitt af Íbúðalánasjóði með ábyrgð ríkisins en 15% eru frá lífeyrissjóðum komin. Almenn niðurfærsla verðtryggðra lána er því í raun bein tekjufærsla frá þeim skattgreiðendum og lífeyrisþegum sem hafa ekki náð að skuldsetja sig nægjanlega til þess að hljóta slíka leiðréttingu.

Því er gjarnan haldið fram að verðtrygging húsnæðislána sé einungis hér á landi, það er ekki rétt hún er vel þekkt í mörgum löndum, en hún er sumstaðar útfærð öðru vísi og að auki er rétt að benda á að þar er mun meiri stöðugleiki þannig að hún er að mestu óvirk. Það myndi hún ennig vera hér á landi ef verðbólgunni væri haldið undir 3%. 

Benda má á fordæmi Breta sem eru með þak á verðtryggingarvísitölu (Limited Price Index) sem viðmiðun í lánaviðskiptum og réttindareikningi lífeyrissjóða. Slík þaksett vísitala er þannig gjörð að hún hækkar aldrei umfram ákveðið mark á ársgrundvelli – til að mynda 4-5%. Lántakendur borga þannig hærri vexti en eru varðir fyrir verðbólguáhættu og þaksett lán má því kalla blending á milli nafnvaxta og verðtryggingar.

Síðasta haust vann Dr. Ásgeir Jónsson skýrslu með hagfræðingunum Valdimar Ármann og Sigurði Jóhannessyni um verðtryggingu frá öllum hliðum fyrir Samtök fjármálafyrirtækja. Skýrslan bar heitið „Verðtrygging – nauðsyn eða val“ þeir sem fjalla um verðtryggingu og afnám hennar ættu að kynna sér vel það sem hefur verið ritað um þetta mál. Í þessari skýrslu eru færð rök fyrir því að verðtryggingin sé að mörgu leyti óholl fyrir landið, í það minnsta  hvernig henni hefur verið beitt hérlendis.

Í skýrslunni kemur fram að verðtryggingin skapi bæði of mikinn hvata til skuldsetningar og varpi of mikilli þjóðhagslegri áhættu á herðar heimila landsins, sem þurfi að taka á sig áhættu vegna verðbólguskella. Verðtryggingin hafi einnig valdið ákveðnu kæruleysi gagnvart verðbólgu og torveldað peningamálastefnu Seðlabankans.

Vandi margra þeirra sem ráða ekki við afborganir er sjálfskapaður, vegna þess að þeir gengu of langt í fjárfestingum. Þeir hefði lent í enn meiri vanda ef greiðsludreifingarkerfi verðtryggingarinnar hefði veirð afnumið, sakir þess að þá hefðui afborganir snarhækkað, eins og rakið er í pistlinum hér á þessari síðu í gær. 

Það er hins vegar engin lausn að banna verðtryggingu eina og sér – val í lánamálum verður alltaf af telja af hinu góða. Hins vegar er hægt að gera ýmsa hluti til þess að leysa verðtryggingu af hólmi og fá heilbrigðara lánaumhverfi.

Hins vegar er hægt að benda á að meginvandinn nú sé ekki endilega sá að lánin hafi fylgt verðbólgu með verðtryggingu heldur mun fremur að fasteignaverð og laun hafa ekki gert það á síðustu 4 árum. Besta leiðin út úr skuldavandanum felst í hagvexti og hækkandi ráðstöfunartekjum.

Ætla má að áfram verði töluverð eftirspurn eftir verðtryggðum lánum þar sem þau gefa færi á mikilli skuldsetningu með lítilli upphafsgreiðslubyrði og gefa því fólki færi á því að kaupa mun stærri eignir en óverðtryggð lán. Og það er meginástæðan fyrir almennri notkun verðtryggingar hérlendis í lánaviðskiptum. Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...



Í skýrslu Viðskiptaráðs frá 2012 um Gjaldmiðilsmál, kemur etirfarandi fram.

http://www.vi.is/files/2012.11.08-Skodun-gjaldmidilsmal_1961160095.pdf

"Því má hins vegar velta því upp hvort ábati krónunnar á undanförnum árum og áratugum hafi verið of dýru verði keyptur. Má þar vísa til þess að lántökukostnaður íslenska ríkisins var að meðaltali 4,5% hærri en í samanburðarlöndum árin 1995-2012.3

Þetta „Íslandsálag“ getur numið á bilinu 130-230 milljörðum króna á ári að jafnaði vegna skulda atvinnulífs, heimila og hins opinbera.

Þetta er álíka upphæð og kostnaður ríkisins vegna reksturs alls heilbrigðiskerfisins á ári. Þá er ótalinn kostnaður vegna minni utanríkisviðskipta og erlendrar fjárfestingar – sem aftur dreifir áhættu hagkerfisins – en flest bendir að upptaka alþjóðlegrar myntar auki hvort tveggja

Því má hins vegar velta því upp hvort ábati krónunnar á undanförnum árum og áratugum hafi verið of dýru verði keyptur. Má þar vísa til þess að lántökukostnaður íslenska ríkisins var að meðaltali 4,5% hærri en í samanburðarlöndum árin 1995-2012.

Nafnlaus sagði...


Ef skuldir ríkisins eru 1500 ma.kr. einstaklinga 1500 ma.kr. og fyrirtækja 3000 ma.kr eru það samtals 6000 ma.kr.

Ef það er rétt sem kemur fram í þessari skýrslu að vextir séu 4,5% hærri hér en í nágrannalöndum - þá eru það 270 milljarðar. kr. á ári!!!

Meira en allt heilbrigðiskerfið - sem gjaldmiðillinn kostar þjóðina á hverju ári.

Slíkur ógnar vaxtarkostnaður grefur afar hratt unda efnahagslegu sjálfstæði fjölskyldna, fyrirtæja og ríkisins.

Og hvert fara þessir vextir beitn til erlendra kröfuhafa bankanna að stærstum hluta.

Það er því fjárhagslegir hagsmunir erlendra kröfuhafa bankanna að hér sé króna til frambúðar svo þeir geti fegnið áfram svimandi vexti af lánum frá íslensku þjóðinni sem þeir mega fara með úr landi !!!