Nú er
búið að setja á laggirnar nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, sem hefur það hlutverk að finna leið
til þess að afnema verðtrygginguna, eins og lofað var í síðustu kosningabaráttu. Á
undanförnum misserum hafa verið stofnaðar allnokkrar nefndir, þ.á.m. á Alþingi, til þess að
framkvæma þessa niðurfellingu, en einhverra hluta vegna hafa þær allar guggnað
á verkefninu eftir að hafa skoða málið ítarlega.
Hvað
þýðir hugtakið afnám verðtryggingar? Því var haldið ákaft að kjósendum að þar
væri að finna auðvelda og einfalda leið til þess að lækka skuldir og minnka
afborganir lána umtalsvert.
Vitanlega
vilja allir afnema verðtryggingu/háa vexti. Hvers vegna einungis 80% svöruð með já við í skoðanakönnum þar sem
spurt var "Viltu afnema verðtryggingu?" skil ég ekki. Þessi spurning er svona ein og sér er vitanlega út í hött og ég reikna með að þessi 20% sem sögðu nei, hafi
verið með það a hreinu um hvað málið snérist í raun.
Afnám verðtryggingar einnar út af fyrir sig leysir engan vanda.
Það er lýðskrum. Það er
einungis en leið til þess að gera verðtrygginguna óvirka, það er að lækka verðbólgu
niður fyrir 3,5% og halda henni þar.
Í spjallþáttunum og kosningaræðunum varð maður ekki var við
efnislega umræðu um orsök þess að tekin var upp verðtryggingu inn- og útlána á
Íslandi, eða hvers vegna verðbólga á Íslandi er langt umfram það sem þekkist í
Evrópu, samfara því að tiltekinn hópur rígheldur í krónuna.
Þeir
sem hafa verið að slá sér upp með því að þeir hafi í hendi sér þá töfralausn að
redda öllum málum með því að afnema verðtryggingu, hafa gengið svo langt
að fullyrða að Hrunið sé afleiðing verðtryggingarinnar.
Verðtrygging
er greiðsludreifing á háum vöxtum, þar er um að ræða jafngreiðslur út lánstímann og
greiðslutoppar sem skapast í verðbólguskotum eru jafnaðir út. Ef þetta kerfi væri ekki til staðar, hefðu enn
fleiri heimili orðið gjaldþrota, en raun varð á í kjölfar Hrunsins.
Tökum dæmi : Ef 28
milljóna króna lán hefði verið á almennum óverðtryggðum vöxtum skuldabréfa
Seðlabanka Íslands árið 2007, þá hefði lántakandi þurft að greiða um 4,5
milljónir í vexti það árið, eða um 375 þúsund krónur á mánuði. Hverjir hefðu
þolað það?
Lán sem greidd eru í gegnum greiðsludreifingarkerfi verðtryggingar eru á föstum vöxtum, ef þeir eru lægri en verðbólgan á einhverju tímabili, er vandinn einfaldlega fluttur frá nútíð til framtíðar og
þannig verður hann þolanlegri, en hann hverfur ekki.
Ef greiðsludreifingarkerfið (verðtrygging) er afnumið, verða lántakendur einfaldlega að staðgreiða vextina. Nema þá að menn ætli sér að hverfa til áranna fyrir 1980 og taka upp neikvæða vexti, en þá er verið að boða eignaupptöku hjá sparifjáreigendum.
Ef greiðsludreifingarkerfið (verðtrygging) er afnumið, verða lántakendur einfaldlega að staðgreiða vextina. Nema þá að menn ætli sér að hverfa til áranna fyrir 1980 og taka upp neikvæða vexti, en þá er verið að boða eignaupptöku hjá sparifjáreigendum.
Það var
við óábyrga efnahagsstjórn að sakast að verðgildi krónunnar hrundi, ekki
verðtryggingunni. Það var yfirverð krónunnar og takmarkalausra lána bankanna að
verðlag húsnæðis fór upp. Þegar búið var að fleyta froðunni í burtu, lækkaði verðmæti
húsnæðis. Það gerðist einnig í löndum þar sem enginn er verðtryggingin.
Ef verðbólga/vextir
hefðu ekki farið jafnmikið upp og raun varð á, þá hafði ekkert/minna farið inn í
greiðsludreifingarkerfið. Lækkun húsnæðisverðs og lækkun tekna á Íslandi má
alfarið rekja til afleitrar efnahagsstjórnunar undanfarinna ára.
Haldið
var á lofti „sérstöðu Íslands“ hagkerfinu haldið lokuðu og krónan hoppaði og
skoppaði eins og korktappi á úthafi við hlið risaolíuskips/stærri efnahagskerfa
eins og t.d. ESB. Verðtryggingu var komið á vegna þessarar sérstöðu, hún er ekki
orsök þess.
Við
ættum e.t.v. að spyrja okkur þeirra spurningar hvers vegna 100 nýjar krónur í
janúar 1981 þegar tvö núll voru tekin aftan af þáverandi krónu oru orðnar um 4.000
krónur í árslok 2012 ef eitthvað er að marka verðlagsreiknivél á vef Hagstofu
Íslands. Á 31 ári hefur verðlag sem sagt hækkað um 3.815%.
Verkalýðshreyfingin
hefur á þessum tíma barið í gegn launahækkanir upp á tugi prósenta á hverju ári,
á meðan samið hefur verið um nokkur prósent launahækkun í nágrannalöndum okkar.
Þau 43
ár sem Rafiðnaðarsambandið hefur starfað hafa samninganefndir sambandsins samið um tæplega 4.000% í
launahækkanir hjá félagsmönnum, á meðan systursambönd okkar á hinum Norðurlöndunum hafa samið um
launahækkanir sem nema um það bil 340%. Þrátt fyrir að við séum 3.600% slappari í gerð kjarasamninga standa þau okkur samt framar á nánast öllum
sviðum hvað varða kaupmátt og lánakjör heimilanna.
Þessi
3.600% munur er ástæða þess að hér varð að koma á greiðsludreifingarkerfi, sem
nefnt var Verðtrygging. Til eru fjölmargar skýrslur þar sem þessi vandi er
greindur ítarlega. Stjórnmálamenn bíta svo höfuðið af skömminni með því að bera sakir á verkalýðshreyfinguna um að gera ekki nægilega góða kjarasamninga.
Öll þekkjum við þá reglubundnu gengisfellingu kjarasamninga sem slakir STJÓRNMÁLAMENN standa fyrir og ógilda þar gildandi kjarasamninga og eru þar að gera eignaupptöku hjá launamönnum sem flutt er til útflutningsfyrirtækja og ríkissjóðs.
Öll þekkjum við þá reglubundnu gengisfellingu kjarasamninga sem slakir STJÓRNMÁLAMENN standa fyrir og ógilda þar gildandi kjarasamninga og eru þar að gera eignaupptöku hjá launamönnum sem flutt er til útflutningsfyrirtækja og ríkissjóðs.
En
umræðuhefðin á Íslandi veldur því að spjallþættir fjölmiðlanna eru fullir af
skrumurum, sem vísa á bug öllum staðreyndum því þá yrðu ræður þeirra og
upphrópanir verðlausar og þeir væru berir af skruminu. Spjallþættirnir vöktu upp afl, sem ekkert erindi á í valdastóla lýðræðisríkis,
sem vill taka af alvöru á sínum vandamálum.
Nýir valdhafar vilja nú koma í veg fyrir umræðu
um vandann og hafa stillt sér upp við hlið einstaklings sem heldur um niðurskurðarhnífinn.
Og hún hótar okkur öllu illu höfum við okkur ekki hægt um okkur.
12 ummæli:
Nú held ég að ansi margir séu sammála þér í því að skást væri með tíð og tíma að taka upp Evru. En það virðist þó ekki vera meirihluti kjósenda, allavega sést það ekki á niðurstöðum kosninga. Verður þá ekki að horfa til fleiri leiða?
Það þarf enginn að segja mér það að með lítinn gjaldmiðil sé alger nauðsyn að vera með verðtryggingu. Það hljóta að vera leiðir til að afnema hana. Ólafur Margeirsson hefur bent á leiðir sem virðast skynsamlegar. Auk þess sem hann hefur bent á bjögunina sem er innbyggð í vísitölumælingar og er þess valdandi að neysluvísitalan mælist allta 1,5-2% hærri en raunin er. Ég hef reyndar bent þér á það áður en þú taldir það algjört rugl.
Mér þykir það metnaðarleysi að telja að ekki sé hægt með samstilltu átaki þeirra sem málið varða að ráða við efnahagsstjórn sem byggir undir sjálfstæðan gjaldmiðil án verðtryggingar. Úr því að ekki næst stuðningur við ESB og þar með EVRU. EN kannski þessi ríkisstjórn komi svo málum fyrir að það gerist sjálfkrafa fyrr en varir. Hef reyndar mesta trú á því.
Kveðja Sævar.
Á vinnustað minn kom Vigdís Hauks og sagði að það væri ekkert mál að laga verðtygginguna. Þegar hún var spurð hvort verðbólgan væri ekki vandamálið , þá benti hún á að það mætti ekki rugla þessu tvennu saman . Var bara alls ekki ágnæð með vankunnáttu okkar á þessu máli.
Kv Sigmundur Grétarsson
Sumir hafa bent á að það væri hægt að auka framlög til samgöngumála um 20% með því að samþykkja lög á Alþingi um að stytta tommustokkinn um 20 cm,
Sumir eru með samskonar tillögur um lagfæringar á vísitöluni
5 árum eftir risagengisfellingu er hagvöxtur kominn á svipað ról og hjá nágrannaríkjunum sem ekki gengisfelldu en heimilin standa uppi með stökkbreytt lán og gengisfelld laun. Gengisfelling er ekki það töfratæki sem margir halda. Dálítið eins og að pissa í skóinn.
Það sem er verra er að á Íslandi vísa hallatölur á hinu efnahagslega mælaborði í ranga átt. Hallatala hagvaxtar á Íslandi er neikvæð á meðan hún er orðin jákvæð í Evrópu. Þetta gefur ákveðnar vísbendingar um framtíðina.
Andri Geir
Úr því það er rannsakað og sannað að tommustokkurinn sé vitlaus þá hlýtur það að vera þjóðþrifamál að laga hann eða fá sér nýjan. Ég vildi ekki búa í því húsi sem væri byggt eftir þeim tommustokk. Eins og er reyndin með okkar efnahagslíf það er allt snar bjagað innbyggðar miklar skekkjur þar sem ekki er ráðist á skekkjurnar og þær lagfærðar. Þessi er náttúrlega bara ein af mörgum eins og flestir vita.
Kveðja Sævar.
Já það er hárrétt hjá Guðmundi að það sé engin lagfæring í því að búa til enn eitt fixið með því að breyta mæliaðferðum og taka upp séríslenska mælingu á meðan hlutirnir eru sannarlega ekki í lagi hér. Það væri sannarlega ákaflega íslenskt og fullyrða svo að búið sé að lagfæra vandann. Það er nákvæmlega það sem nokkrir í þessari nýju Verðtryggingarnefnd hafa verið að boða. Þeir eru ekki með neinar lausnir bara einherjar sjónnhverfingar eins og þeir hafa verið að boða í spjallþáttunum og í kosningabaráttunni.
Íslenska hagkerfið mun alltaf sveiflast vegna smæðar þess, einhæfra útflutningsatvinnuvega og þeirrar staðreyndar að við flytjum inn um það bil 90% neysluvarnings okkar. Við komumst sem sagt ekki undan tekju-/útgjalasveiflum sama hvað. Lausn? Auðlindasjóður (allra náttúruauðlinda) sem væri meðal annars notaður til að jafna gengi krónu að einhverju marki. Eins og flesir vita mun slíkt aldrei verða ofan á meðan gömlu flokkarnir stjórna og eru þeir þvi hluti af stöðugleikavandamálinu.
Raunávöxtunarkrafa lífeyrissjóða upp á 3,5% (sem stenst ekki til lengri tíma vegna þess að langtímahagvöxtur er undir 3,5% - vöxtur rauntekna getur þar með ekki staðið undir lífeyrisgreiðslum til lengri tíma) setur gólf undir vexti margra lánasaamning hér á landi. Það gengur ekki upp til lengri tíma og það er byrjað að láta sjá sig nú þegar.
Lífeyrissjóðir eiga að fjárfesta mun meira í innviðum þjóðfélags sem eykur framleiðni hagkerfisins í mun meira mæli og hækkar rauntekjur þannig. Alþjóðlegi fjármálaheimur sl. 30 ára er búinn að vera - lífeyrissjóðirnir þurfa að skilja það. Þjóðverjar hafa fjármálastofnanir sem fjárfesta í innviðum hagkerfisins og það gefur mjög vel af sér.
Verðtryggingin - sem helst í hendur við lífeyriskerfið - hvetur auk þess til aukinnar verðbólgu því höfuðstóllinn er borgaður svo hægt niður sbr. við óverðtryggð lán. Það þýðir að peningamagn í umferð er meira en ella, sem leiðir til meiri verðbólgu en ella. Þetta, auk þeirrar staðreyndar að flestir verðtryggðir samningar búa við fasta raunvexti þýðir að heimilin bregðast ekki mikið við stýrivaxtahækkunum SÍ. Það þýðir svo að SÍ þarf að hækka vexti meira en ella.
Hærri nafn- og raunvextir vegna tekju-/útgjaldasveiflna (án þess að gera neitt í þeim) auk lífeyris- og verðtryggingarkerfisins gerir það svo að verkum að raungengi okkar hækkar með reglulegu millibili sbr. við helstu viðskiptalönd okkar. Það þýðir svo að samkeppnishæfni útflutnings okkar skerðist - en við treystum mikið á samkeppnishæfni útflutnings.
Það gerir það svo að verkum að krónan þarf að falla hressilega inn á milli. Það þýðir svo að óverðtryggðar eignir fólks halda ekki i við verðtryggðar skuldir. Það þýðir að kerfið er dauðadæmt.
Þetta er ekki flóknara en svo.
Maður er bara hafður að fífli á 4 ára fresti.
Ekkert mun breytast á Íslandi.
Verðtrygging / Evra / Leiðréttingar /........
Það mun ekkert gerast nema verkalýðshreyfingin taki völdin og komi okkur inn í ESB með stuðningi almúgans. Gylfi sagði að það væru 200þ manns á bakvið sig. Hvernig væri að nota það og koma einhverju í gegn.
Kjarni málsins hjá þeim sem skrifar hér á undan ''18:36''
En til að takast á við þetta þarf aðkomu lífeyrissjóða-stéttarfélaga og samtaka atvinnulífsins að ónefndri ríkisstjórninni. Það hlýtur að vera kominn ágætis grunnur eftir störf síðustu ríkisstjórnar. Einhvernvegin læðist að mér sá grunur að það verði bara einn séns til að reyna að komast af botninum að öðrum kosti sökkvum við aftur og endanlega. Hugsanlega hægt en allavega örugglega.
Bara minna á það enn einu sinni að 3.5% talan er reiknitala sem er notuð til þess að til þess að tryggja að ekki sé verið að flytja eignir eins aldurshóps til annars, ekki ávöxtunarkrafa.
Þessi tala er hærri í öðrum löndum einsog t.d.hjá sumum lífeyrissjóðanna í USA þar er hún um 4.8%.
Þannig að sumt af því 18:36 segir er ekki reist á rökum.
Stærsta hætt akerfisins er skortur á áhættudreifingu. Í Norska lífeyriskerfinu (olíusjóðnum) sem margir líta til sem velheppnað dæmi, er einfaldlega bannað að fjárfesta innalanlands
Svo einfalt er það nú
takka annars fyrir innlitið GG
Svar við ummæli Guðmundar kl. 20:45:
Þú segir: "Bara minna á það enn einu sinni að 3.5% talan er reiknitala sem er notuð til þess að til þess að tryggja að ekki sé verið að flytja eignir eins aldurshóps til annars, ekki ávöxtunarkrafa." Sannleikurinn er sá að reglulega eru fluttar eignir frá lántökum með verðtryggð lán á vinnualdri til fólks sem þiggur lífeyri sinn. Reglulega verður hér áfall, eins og lýst er hvernig verður til í fyrri athugasemd minni, sem verður til þess að fjöldi fólks missir nánast allt sitt eigið fé sem það hefur kannski byggt upp í nokkur ár. Sá peningur flyst til lífeyriskerfisins að miklu leyti. Þetta gerir verðtryggingin og lífeyriskerfið okkar að verkum.
Í skýrslunni "Nauðsyn eða val? Verðtrygging, vextir og verðbólga" eftir Ásgeir Jónsson, Sigurð Jóhannesson og Valdimar Ármann, sem hægt er að finna á netinu, má sjá eftirfarandi setningar er snúa að 3,5% uppgjörsreglunni:
"Það verður einnig að horfa til fjármögnunarhliðar lánanna hér innanlands. Til að mynda hefur lagarammi lífeyrissjóðakerfisins veruleg áhrif á fjármögnunarkjör hinna ýmsu lánaleiða, sem og verðlagningu áhættuvarna, sem hér hefur verið minnst á. Þannig væri nauðsynlegt að taka til endurskoðunar uppgjörsreglur lífeyrissjóðanna, einkum 3,5% tryggingarfræðilega uppreikning á skuldbindingum þeirra sem á sér litla eða enga stoð í hagrænum rökum." Með öðrum orðum, vaxtagólf er sett á ýmis útlán fyrir almenning.
"Þá er það hin einkennilega 3,5% uppgjörsregla lífeyrissjóðanna
sem hefur haldið aftur af lækkun raunvaxta. En téð regla mælir svo fyrir að lífeyrissjóðirnir skuli núvirða bæði eignir og skuldbindingar með 3,5% raunvaxtakröfu. Það er í sjálfu sér engin sérstök hagfræðileg rök fyrir því að velja þessa raunvaxtakröfu
frekar en einhverja aðra, en þetta felur í sér að ef sjóðirnir kaupa raunvaxtabréf er bera lægri ávöxtun en 3,5% verða þeir að færa tryggingarfræðilegt tap í bækur sínar." Þetta gerir það að verkum að sökum of hárrar uppgjörsreglu m.v. gang hagkerfisins (sem heldur meira að segja gangi hagkerfis niðri í þokkabót) fjárfesta lífeyrissjóðir minna hér á landi en ef uppgjörsreglan væri í samræmi við vöxt hagkerfisins.
"Lífeyrissjóðir: Íslenska lífeyriskerfið er sjóðasöfnunarkerfi með mjög löngum
verðtryggðum skuldbindingum. Af þeim sökum falla Íslandslánin mjög vel að efnahagsreikningi lífeyrissjóðanna til þess að tryggja 3,5% raunávöxtun sem lögboðin er íslenskum lífeyrssjóðum." Hérna komum við að þeim punkti þar sem lántakar með verðtryggð lán og skattgreiðendur eru látnir borga til að halda uppi duðadæmdu lífeyriskerfi. Íbúðalánasjóður er á hausnum. Það er ríkisábyrgð á honum þannig að gjaldþrot sjóðsins lendir á skattgreiðendum - en lífeyrissjóðirnir fá allt sitt. Og hringavitleysan heldur áfram og áfram.
Skorturinn á áhættudreifingu er líka alvarlegur vandi. Lífeyrissjóðirnir hafa verið mjög umsvifamiklir í fjárfestingum á fjármálamörkuðum en það hefur gefið afar vel af sér sl. áratugi svo sem. Sá tími er hins vegar búinn og það ætti að skylda þá til að fjárfesta í innviðum - "vörum" sem ganga til næstu kynslóðar á eftir og svo framvegis.
Svo má auðvitað rökræða gegnumstreymiskerfi vs. sjóðstreymiskerfi út í hið óendanlega. Íslenska lífeyriskerfið er allavega ekki eitt það besta í Evrópu/heimi. Í hvert skipti sem maður heyrir svoleiðis um eitthvað íslenskt á maður strax að efast um að það virki yfirhöfuð - sagan hefur sýnt það.
Þau þjóðlönd sem hafa verið með gegnumstreymiskerfi eru að verða gjaldþrota, enda eru flest ríki annaðbúinn að taka upp söfnunarkerfi eða eru að undirbúa það, eins og t.d. öll Norðurlöndin, Þýskaland og Holland og ákveðin ríki í USA.
Um þetta eru til mjög góðar skýrslur, t.d eftir Ásgeir Jónsson og fleiri.
Iðjgjöld í gegnumstreymiskerfi verður að vera um það bil 35% í stað um 15% eigi það að standa undir samskonar lífeyrisgreiðslum og eru hér.
Byrði vegna lífeyrisgreiðslna mun vaxa mjög hratt á næstu árum, en barnasprengjuárgangarnir eru að komast á lífeyrisaldur eins þeir vita sem hafa skoðað lýðfræðina. Hlutfall þeirra gagnvart skattgreiðendum mun nánast tvöfaldast á næstu 10 árum.
Útgjöld ríkissjóðs vegna gegnumstreymiskerfis yrði honum ofviða eftir nokkur ár, nema þá að skerða velferðarkerfið umtalsvert.
Um þetta eru einnig til afskaplega vandaðar skýrslur.
Afnám verðtryggingar er ekki lausn og hefur ekkert með þetta að gera.
Ef verðtrygging hefði t.d. verið afnumin um síðustu aldamót hefðu útgjöld lífeyriskerfisins lækkað umtalsvert og þeir væru í dúndrandi fínum málum rekstrarlega séð.
Einstaklingar sem væru að fá 200 þús. kr. í dag fengju einungis 100 þús. kr. í lífeyri.
Hér verður að líta til þess að einungis helmingur eigna lífeyrissjóðanna eru verðtryggðar, en aftur á móti öll útgjöld.
Útgjöld Tryggingarstofnunar væru hins vegar umtalsvert meiri en þau eru í dag. Líklega hefðu þær vaxið það miki9 að hækka þyrfti tekjuskatt um 2-3% eða skerða ennfrekar í velferðarkerfinu og sá vandi Tryggingarstofnunar myndi tvöfaldast á næstu 10 árum.
Áður en menn setja fram svona fullyrðingar ættu þeir að kanna málið aðeins betur.
Kv GG
Skrifa ummæli