þriðjudagur, 13. ágúst 2013

Glópagull og veikbyggð stjórnsýsla


Það sem einkennir Ísland sé það borið saman þau lönd sem við viljum standa jafnfætis við, er veik stefnumótun sem ekki er reist á rannsóknum og undangenginni rökræðu. Stefnumótun á Íslandi er tekin einhendis af ráðandi stjónmálamönnum þar sem gengið er erinda þess hagsmunahóps sem stendur að baki viðkomandi stjórnmálamanni hverju sinni.

Þetta hefur leitt til þess að lífsgæði á Ísland, kaupmáttur og velferð fjölskyldunnar hefur verið að dragast aftur úr nágrannalöndum okkar. Sífellt fleiri velja það að flytja til nágrannalanda okkar, samfara því að sífellt fleiri námsmenn velja það að koma ekki heim að námi loknu og samfélag okkar tapar miklum verðmætum og um leið framtíðarmöguleikum.

Virðing fyrir lögum og Stjórnarskrá er áberandi takmörkuð meðal íslenskra stjórnmálamanna. Átakastjórnmál eru allsráðandi og mál keyrð í gegn með málþófi og upphrópunum. Allt of oft hefur komið í ljós að ný lög og reglugerðir stangast á við gildandi lög og jafnvel Stjórnarskránna. Og stjórnmálamenn sletta bara í góm og taka til við næsta hasar.

Áberandi er virðingarleysi íslenskra stjórnmálamanna gagnvart vilja almennings og með hvaða hætti þeir halda sér til hlés í umræðunni og eru jafnvel virkir þátttakendur í því að koma í veg fyrir að hún geti þorskast með eðlilegum hætti, með því að varpa reglubundið fram reyksprengjum til þess að afvegaleiða umræðuna.

Það er áberandi hér á landi að ekki er byggt ofan á þann grunn, sem reistur hefur verið á reynslu. Í stað þess er allri fyrri umræðu og reynsluferli endurtekið vikið til hliðar. Þetta vinnulag stjórnmálamanna hefur leitt til þess að þeir hafa hrakið á brott þá einstaklinga, sem hafa sýnt vilja og getu til þess að vera virkir þátttakendur í því að þroska umræðuna.

Stjórnarráð Íslands er veikburða, það var eitt af stóru málunum sem blasti við okkur þegar staðan var gerð upp eftir Hrun. Ráðuneytin eiga fullt í fangi með að afgreiða þau erindi sem til þeirra berast. Það er nánast viðtekin venja að lögbundnir frestir renni út áður en mál eru tekin til afgreiðslu. Stefnumótun fámennra deilda takmarkast við einstök svið og víða skortir sérhæfingu.

Það hefur verið unnið að því að styrkja íslenska stjórnsýslu. En sú viðleitni takmarkar það svigrúm sem tjórnmálamenn hafa komist upp með að taka sér og kemur þar með í veg fyrir tækifærisbundna ákvarðanatöku þeirra. Helst amarkmið þessa hefur verið að auka öryggi almennings gagnvart stjórnvaldinu. Skapa festu og jafna lífsgæðin.

Eitt af þeim ráðum sem gripið var til eftir Hrun var fækka ráðuneytum, það myndi leiða til þess að einingar Stjórnarráðsins yrðu stærri og hægt yrði að setja á stofn fleiri og fjölmennari vinnuhópa um tilgreind verkefni. Sameining stofnana yrði markvissari, allsherjar stefnumótun væri möguleg enda allt ákvarðanaferli heildstæðara.

Ummæli og viðbrögð ráðandi stjórnmálamanna um tilgang IPA styrkja koma ekki á óvart. Þar er talað af fullkomnu ábyrgðarleysi, jafnvel gengið svo langt að það eitt dugi að bera glópagull alla stjórnsýsluna og bjóða henni í ferðir til Brussel til þess að fá hana til þess að fremja landráð.

Þessir stjórnmálamenn eru reyndar að lýsa sjálfum sér umfram anna, en augljóst er að helsta markmið þeirra er að koma í veg fyrir að hér verði tekin upp ábyrgari stjórnsýsla, því það mun koma í veg fyrir að þeir geti viðhaldið þeim starfsháttum sem þeir hafa tamið sér.

Margar þeirra réttarbóta sem íslenskir launamenn hafa náð fram á undanförnum tveim áratugum, hefur náðst eftir mikið stríð við íslensk stjórnvöld um að fá þau til þess að staðfesta lög og reglugerðir, sem önnur Evrópuríki hafa komið sér saman um. Ísland hefur oft verið mörgum árum á eftir öðrum löndum í þeim efnum og er enn.

Núverandi stjórnvöld ætla að ríghalda í krónuna. Hún hefur reynst íslenskum stjórnvöldum svo vel til að gjaldfella kjarasamninga og leggja með þeim hætti óbeina skatta á íslensk heimili og framkvæma þar eignaupptöku, sem síðan færð er til ríkissjóðs og eigenda útflutningsfyrirtækjanna. Með þessu háttalagi eru tryggðir háir vextir og viðhaldið greiðsludreifinu á ofurvöxtunum í gegnum kerfi sem hefur verið nefnt verðtrygging.

Engin ummæli: