Forsætisráðherra talaði í nýársræðu sinni á sömu nótum og hann gerði í kosningabaráttunni.
Lofaði miklu án þess að skýra hvernig hann ætlaði að framkvæma það. Hann fékk
mörg atkvæði út á kosningaloforðin, en vill í dag ekki kannast við þau. Talar
um loftárásir og mistúlkanir.
Öll
vitum að það standa yfir kjaraviðræður á öllum vinnumarkaðnum. Í miðjum
viðræðum kemur hann fram að segir að það verði að hækka mikið lægstu laun ásamt
launum millistéttarinnar.
Þetta
er vitanlega það sem við launamenn viljum heyra og er einmitt það sem tækifærissinnaður
stjórnmálamaður segir þegar hann slær um sig í kosningabaráttu
En
getur forsætisráðherra talað svona?
Þetta
er reyndar vel þekkt, lofa miklum launahækkunum án þess að skýra út hvernig
eigi að fjármagna þær. Hvernig eigi að koma í veg fyrir ruðningsáhrif,
hækkun verðlags og verðbólgu. Með gengisfellingum hækkunum á vöxtum og skuldum
heimila og fyrirtækja.
Hvernig
ætlar forsætisráðherra að hækka laun þannig að hækkunin skili sér til
launamanna og stoppi þar? Renni ekki beint í gegnum heimilið út í hærra verðlag
og hærri afborganir af lánum og launamaðurinn standi eftir í enn verri stöðu.
Þetta
upplifðum við, sem erum kominn yfir miðjan aldur, reyndar endurtekið á hinum umtalaða "Framsóknaráratug" fyrir
þjóðarsátt. Þá var samið reglulega um 30% launahækkanir og launamenn fengu síðan yfir sig
gengisfellingar og 50% verðbólgu.
Þá voru sko við lýði alvöru verkalýðsleiðtogar, sem stóðu á bryggjuandanum á gúmmístígvélum og fóru í löng og góð verkföll og helltu niður mjólk.
Það
er hvergi auðveldara að yfirbjóða en í kjaraviðræðum, en bera síðan sakir á
aðra. Afsaka sig með því að andstæðingar glæsilegra launahækkana hafi náð sínu fram, með því að afþakka tilboð um enn frekari launahækkanir.
Fréttamenn
hafa síðan ætíð einungis tekið viðtöl við þá sem yfirbuðu, en aldrei spyrja
þeir grundvallarspurningarinnar, „Hvernig átti að framkvæma þetta þannig að kaupmátturinn
vaxi?“
Nú
segir fréttastofa Eyjunnar að það stefni í vandræði með kjarasamninga við opinbera
starfsmenn. Af hverju spyr fréttastofan ekki frekar forsætisráðherra um hvað
hann átti við í orðum sínum á gamlárskvöld?
Af hverju hafnaði hann launamönnum á almennum launamarkaði sérstökum
skattbreytingum? Aðgerðum sem hefðu einmitt komið hinum lægst launuðu vel, líka opinberu
starfsmönnunum. Aukið kaupmátt án þess að skila sér í gengisfellingu og
lækkuðum kaupmætti.
Einnig
hljótum við að ætlast til þess að fréttamenn biðji forsætisráðherra um að
útskýra fyrir okkur hvernig hann ætli að fara að því að framkvæma nýársloforð
sín.
Forsætisráðherra
mátti nefnilega vita að hann yrði að svara þeirri spurningu 2. janúar. Allir kjarasamninga opinberra starfsmanna voru lausir þegar
hann flutti ræðu sína og það er ekki búið að ganga endanlega frá kjarasamningum
á almennum markaði.
1 ummæli:
En er þetta ekki einmitt málið? Að sundra verkalýðshreyfingunni, koma tilteknum rugludöllum að í stað þeirra sem nú ráða og nota þessi skilningsana grey frá Akranesi og Húsavík til að rústa lífeyrissjóðunum. XD og xB tókst jú fyrir hrun að tæma öll fyrirtæki landsins, alla banka og sparisjóði. Það eina sem lifði voru lífeyrissjóðirnir og nú skulu þeir tæmdir skv. Formúlu Péturs Blöndal um "fé án hirðis". Þetta verður gert með kerfisbreytingu eða með því að afnema verðtryggingu enþað er það sama og tæma sjóðina.
Skrifa ummæli