fimmtudagur, 27. febrúar 2014

Málflutningur ráðherra


Í umtöluðu viðtali á RÚV fyrir skömmum kom Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra víða við. Eitt af því var áminning til RÚV um að skortur væri á fulltrúum dreifbýlis í spjallþáttum RÚV, þar setti hann fram klisju sem þingmenn nota gjarnan til þess drepa umræðunni á dreif.

Forsætisráðherra er reyndar þingmaður dreifbýlis, flutti sína búsetu norður í land og var kosinn þar á þing, en ráðherrann virðist afar illa upplýstur um efnahagslega stöðu og horfur, hvort sem horft er til allrar þjóðarinnar eða þess kjördæmis sem hann var kosinn fyrir.
 
Sama má segja um Gunnar Braga Sveinsson dreifbýlisþingmann og ráðherra: ,,ESB er í raun ekki í stakk búið til að taka á móti velmegandi ríki eins og Íslandi og eiga samninga um aðild á jafnræðisgrundvelli.” Þessar fullyrðing lýsir dæmafáu þekkingarleysi á stöðu efnahagsmála og stöðu atvinnulífsins hér á landi.

Kaupmáttur Íslendinga er sá langlakasti á Norðurlöndum og vel undir meðaltali Evrópu. Framleiðni er með því lægsta sem þekkist í Evrópu eða á svipuðu stigi og er í Grikklandi. Tekjur Íslendinga eru tæplega 20% lægri en meðaltekjur í Evrópu. Íslendingar skila lengri vinnuviku en aðrir Norðurlandabúar, en þrátt fyrir það kemur minni kaupmáttur upp úr þeirra launaumslagi.

Það er ekki síst vegna rangrar efnahags- og peningastefnu, sem valda reglulegum gengisfellingum og leiða til þess að vextir íbúðalána hér eru a.m.k. tvöfalt hærri en í Evrópu og á Norðurlöndunum. Verðbólga hér er að jafnaði allt að þrefalt hærri en í nágrannalöndum okkar.
 
Seðlabankinn og reyndar fleiri hafa bent á að þær aðgerðir í efnahagsmálum sem Framsóknarflokkurinn hefur skipulagt muni leiða til enn frekari hækkunar verðbólgu og vaxta. Allt að fjórðungur þess sem kemur upp úr launaumslaginu fer í þessa gjaldmiðilshít.

Ráðherrarnir forðast endurtekið að ræða hina raunverulega stöðu mála og draga umræðuna frekar ofan í skotgrafirnar með klisjum, eins og að dreifbýlið búi við einhverskonar samsæri af hálfu þéttbýlinga.
 
Því er stundum haldið fram að ef bæta eigi stöðu dreifbýlis gagnvart þéttbýlinu þurfi að viðhalda mismunandi vægi atkvæða, það muni stuðla að fjölgun atvinnutækifæra í dreifbýlinu og bættum launakjörum, þannig sé þéttbýlinu gert að taka þátt í að lagfæra hina slöku félagslega stöðu dreifbýlisins.

Þetta er þekkt aðferð ákveðinna tegundar stjórnmálamanna og valdhafa, það er að beina athyglinni frá getuleysi ráðamanna og skapa til einhvern óvin. Á Íslandi er og hefur ætíð verið mesta misvægi atkvæða sem þekkist á Norðurlöndunum og hafa verið gerðar aths. við þetta kerfi. Þrátt fyrir þessa stöðu blasir við að mesta atvinnuleysið og um leið lakasta félagsleg staða hérlendis er í úthverfum höfuðborgarsvæðisins, ekki í dreifbýlinu.

Dæmi frá alþingiskosningunum 2007 varpa ljósi á kosningakerfið íslenska. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 35,4% atkvæða í Reykjavíkurkjördæmi norður og fjóra þingmenn kjörna, en Samfylkingin 29,2 prósent og fimm þingmenn. Framsóknarflokkurinn fékk þrjá þingmenn í Norðausturkjördæmi með 5.726 atkvæðum en engan þingmann með 4.266 atkvæði í Reykjavík.
Samfylkingin fékk 26,8% atkvæða í Suðurkjördæmi og tvo þingmenn, sama þingmannafjölda og Framsókn bar úr býtum í sama kjördæmi með 18,7% atkvæða.
Í Suðvesturkjördæmi voru um 4.600 atkv. bak við hvern þingmann á meðan það voru liðlega 2.000 atkv. í Norðvesturkjördæmi.
(Ath, orðalag lagfært og gert skýrara í þessari málsgrein eftir ábendingu kl 14:10 gg)

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar að draga tilbaka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er afdrifarík fyrir fyrirtæki og almenning í landinu, segja forsvarsmenn íslenskra tæknifyrirtækja, þau munu missa aðgang að innri markaði EES, þeim samning verði rift þegar viðræðum við ESB verður slitið. Þessi ákvörðun setur rekstrarskilyrði margra fyrirtækja í uppnám.

Í könnunum undanfarin misseri kemur fram að 85% ungs fólks sættir sig ekki við þau kjör sem í boði eru á Íslandi og lítið framboð á spennandi atvinnutækifærum. Tæknifyrirtækin eru að flytja vegna stjórnunar efnahagsmála hér á landi. Flestir þeirra sem eru að fara úr landi er vel menntað fólk í góðum störfum, við ákvörðun um brottflutning ráða allt önnur sjónarmið en dreifbýlingar halda fram og þingmenn nota til þess að koma sér undan því að ræða stöðu Íslands.
 
Vægi atkvæða hefur ekkert með atvinnu- eða kjaramál að gera. Í ummælum forsvarsmanna íslenskra tæknifyrirtækja staðfestist vanþekking núverandi ráðherra á efnahagslegri stöðu Íslands og þeir eru að leiða landið inn í enn lakari stöðu.

Það er nánast allt sem bendir til þess að ríkisstjórnin vilji komast hjá málefnalegri umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, þar er nefnilega margt sem mælir með því að Ísland ljúki samningaviðræðunum. Ráðherrarnir vilja gera allt sem hægt er til þess að komast hjá umræðu við atvinnulífið og væntanlega skýrslu Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands. Þá er gripið til framangreindra vopna, sprengja umræðuna í loft upp og koma af stað djöfulgang um slit viðræðna.

Engin ummæli: