fimmtudagur, 20. febrúar 2014

Mogginn á morgunverðarborðinu


Árum saman las ég Morgunblaðið á hverjum morgni. Fann þar vel skrifaðar fréttir, áhugaverðar greinar og innlegg í umræðuna, sem opnuðu margskonar vinkla á þjóðmálunum.

Svo breyttist Mogginn allt í einu í ofstopa  og rætinn skæting og ég afþakkaði að fá blaðið sent heim ásamt fjölmörgum öðrum og mér skilst að sá flótti standi enn.

En nokkur fyrirtæki virðast ekki sætta sig að boðskapur Moggans nái ekki inn á morgunverðarborð landsmanna og leggja reglulega í þann kostnað að koma blaðinu þangað.

Í morgun lá blaðið undir póstlúgunni. Í boði eru á greinar umfram leiðara ritstjórans eftir Jón Bjarnason, Guðna Ágústsson, Sigríði Andersen, og skoðanabræður þeirra í Staksteinum, ásamt ítarlegri umfjöllun um hvernig maður eigi að skilja nýja skýrslu Framsóknarflokksins um váfuglinn ESB. Einnig eru viðtöl við Birgi Ármannsson og Óskar Bergsson.

Mikið rosalega er ég þakklátur Hamborgarafabrikkunni að koma þessu til mín. Eftir að hafa skoðað Moggann í dag í boði þessa fyrirtækis get ég nefnilega svo auðveldlega tekið upplýsta ákvörðun um að ég mun ekki gerast áskrifandi
 
Ásamt því að vera upplýstur um hvaða skoðanir Hamborgarafabrikkan vill að ég og fjölskylda mín hafi.

Engin ummæli: