laugardagur, 30. maí 2009

Hinn ískaldi veruleiki

Hef verið latur við pistlaskrif undanfarið. Enda á fundum frá morgni til kvölds í Karphúsinu þar sem hver sérfræðingurinn á fætur öðrum hellir yfir okkur hinum jökulkalda veruleika um stöðu litla Íslandsins okkar sem nánast lamar hugann.

Það blasir við að til margskonar aðgerða af hálfu hins opinbera mun koma á næstu vikum. Brennivíns- og benzínkatturinn á að gefa 2.5 MIA, en ríkisstjórnin verður að ná saman 20 MIA ef við eigum að uppfylla þau skilyrði sem okkur eru sett gagnvart lánum frá AGS og seðlabönkum Norðurlanda og Póllands.

Það eru eru einu lánin sem íslendingum standa til boða. Þetta er hin skelfilega staða sem sú efnahagstefna sem stjórnmálamenn hafa fylgt undanfarna tvo áratugi hefur komið okkur í. Seðlabankastjórar norðurlandanna hafa margendurtekið það sem þeir sögðu í nóvember; „Við lánum íslendingum ekki eina kr. nema þeir taki á sínum efnahagsmálum í alvöru og AGS fylgist með þeim. Við erum búnir að vara ykkur við á annað ár en þið hafið virt allar okkar beiðnir að vettugi, nú er nóg komið. Íslendingar verða einfaldlega að horfast í augu við þá stöðu sem þeir hafa komið sér í.“

Norrænu lánin og það pólska eru forsenda þess að hægt sé að ýta bönkunum af stað. Í umræðum um vaxta- og gengisstefnu hafa menn vonast til þess að fram komi veruleg vaxtalækkun til að forða frekara hruni á efnahag heimila og fyrirtækja. Svar seðlabankastóranna er nei, það gangi ekki, frekari vaxtalækkun muni leiða til gengislækkunar og hækkunar verðbólgu - en krónan hefur vissulega verið að veikjast undanfarið.

Seðlabankastjórarnir segja við ríkisstjórnina; „Viljið þið taka áhættu og spila með þetta og kalla fram enn frekari eignauppskiptingu með hækkun gengis- og verðtryggðra lána heimila og fyrirtækja með tilsvarandi hækkun greiðslubyrði?“

Jákvæð áhrif vaxtalækkunar gæti þannig orðið skammvinnur ávinningur með enn skelfilegri afleiðingum en við höfum upplifað undanfarna mánuði . Íslendingar eiga einfaldlega ekki til þann gjaldeyrisvaraforða sem til þarf til að standa við krónuna. Norðurlöndin ásamt Póllandi (sem er næstum orðið eitt þeirra) eru ekki tilbúin að taka þessa áhættu fyrir okkur - sem lánveitendur.

Minna má á að í sömu stöðu hurfu þau gjaldeyrislán sem Argentína fékk til þess að starta sínu efnahagslífi á 30 mín. Líkurnar á stórri vaxtalækkun verða því að teljast litlar.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk, Guðmundur, fyrir að minna á orð erlendu seðlabankanna.

Þetta hefur gleymst í umræðunni hjá fjölmiðlum, og stjórnvöld eru afskaplega illa að sér í því að upplýsa almenning um stöðu mála.

Sem er skrýtið, því þetta sama fólk fær laun fyrir að sitja í umboði okkar kjósenda.

Héðinn Björnsson sagði...

Er ekki best að láta gengið bara falla? Ef við komumst ekki undan því og borgum mikið fyrir að fresta því vil ég eiginlega frekar bara láta það gerast. Er orðinn verulega þreittur á fallinu og fæ ekki betur séð en að það sé betra að taka bara skellinn strax.

Slíkum skelli myndi náttúrulega fylgja greiðsluverkfall og nauðsynlegir þjóðarsáttarsamningar um kaup og lánakjör þar sem bæði myndu verða jöfnuð, en þetta er að gerast hvort hið er.

Það sem myndi vinnast væri að þetta gerðist áður en við borgum yfirverð fyrir eigur gömlu bankana sem færast yfir í nýju bankana og við gætum farið sameinuð út í uppbyginguna.

En ég er sjálfsagt að vanmeta stórlega hversu harður skellurinn yrði og möguleika liðtoga okkar á að sameina þjóðina á bak við sig.

Arinbjörn Kúld sagði...

Í örstuttu máli: AGS lánið er til að bakka krónuna upp. Lánin frá Norðurlaöndum og Pólanadi eru til að endurfjármagna bankakerfið?

Nafnlaus sagði...

Varla má skilja þessi skrif þín þannig að þú ert búinn að missa móðinn og orðinn meðlimur í grátkór SF og VG?

Vandinn er sambland af eyðingarstefnu fyrri ára, vanhæfni stjórnar Geirs H og kunnáttuleysi og íhaldssemi núverandi stjórnar.

Það þarf fólk með kraft og dugnað til að rífa okkur áfram.

Steingrímur og Jóhanna eru ekki rétta fólkið til þess. Of föst í fortíðinni og úreltum kreddum til þess.

Beta sagði...

Ég er að þrotum komin en nú er svo komið að fjölskyldan stefnir á að flytja erlendis á haustmánuðum! Við grétum það að fjármálaeftirlitið brást. Það setti okkur í þá stöðu að skulda eitthvað sem var ekki okkar heldur þeirra sem keyptu bankana. Við grétum vitleysuna í Seðlabankanum og við grátum allar þær stjórnir sem líta á okkur sem erum að fara erlendis sem fórnarkostnað!

Guðmundur sagði...

Nei því fer fjarri aðég sé að missa móðinn.

En mér finnst harla einkennilegt að hlusta umræður á marga, þá kannski sérstaklega þingmenn, þegar þeir tala eins og það sé í raun ekkert sérstakt sem er í gangi og margir þingmenn þá kannski sérstaklega Sjálfstæðismenn virðast telja að það þurfi ekki að hækka skatta og ekki skera neitt niður, bara gera eitthvað annað!!

án þess að segja hvað sé

Nafnlaus sagði...

Þetta sem að þú segir hefur legið ljóst í um 1 ár. Hrunið hófst með því að KB banki fékk ekki að gera upp í EVRU. Í dag sitjum við í gjaldþrota þjóðfélagi, sem enginn þorir að viðurkenna, og kórum í bakkann. Hvað á að gera? það er bara ein leið og hún er ESB.

þakka góða pistla og upplýsa um hvernig staðan er

kv

Helgi Njálsson

Nafnlaus sagði...

sóðar Íslands
http://www.hvitbok.vg/

Nafnlaus sagði...

Sæll
Finnst athyglisvert að menn tala um gott gengi Ísl. Lífeyrissjóðanna.

"The Icelandic pension plans benefited from their overseas investments, which accounted for up to 30% of their collective assets. A fall of 45% in the value of the Icelandic krona against most currencies gave the pension funds a boost."

Þetta þýðir auðvitað að sjóðirnir hafa bara hagnast á falli krónunnar. Þeir gleyma að minnast á að megnið af þeirri vöru sem lífeyrisþegarnir þurfa að kaupa er verðmetin í evrum. Legg til að menn hætti að reikna í íslenskum krónum og taki upp ærgildi eða evru í staðinn.

"Góðu" fréttirnar eru þær að þessi túlkun kemur úr Wall Street sem þýðir að þeir kunna heldur ekki að reikna:-)

Hér ég að tala um þessa grein, (http://online.wsj.com/article/SB124338502405756783.html)

Sem fékk svo þessa umfjöllun í vísi http://www.visir.is/article/20090527/VIDSKIPTI06/346571969

Og þessa í mogganum. http://mogginnminn.is/mm/vidskipti/frettir/2009/05/27/stada_islensku_lifeyrissjodanna_god_i_althjodlegu_s/

Það er eiginlega hægt að ganga út frá því sem vísu að allir séu alltaf að ljúga og það virðist vera allt í lagi að birta það sem góðar fréttir að rauneign íslenskra lífeyrisþega hafi rýrnað um helming. (staðreyndin er líklega sú að Íslensku lífeyrissjóðirnir hafa tapað margfalt á við þá sem við berum okkur saman við ef allt er talið í sömu mynt) Nákvæmlega sama bullið og fékk mann til að fjárfesta hérna í húsnæði. Munurinn er kannski sá að þá voru það stjórnvöld sem kepptust við að villa manni sýn. (ennþá jafn fúll yfir að hafa látið þau plata mig með þvælunni um aðför að íslenska efnahagsundrinu:-).

Hilsen í bili

Kommi