mánudagur, 1. júní 2009

Viðkvæm staða í Karphúsi

Nú eru samningaviðræður í Karphúsinu á viðkvæmu stigi. Telja má næsta víst að í lok þessarar viku liggi fyrir hvaða stefna verði tekin. Það var í byrjun þessa árs sem Samtök atvinnulífs lögðu fram tvo kosti, annars vegar að segja samningum upp eða fresta launahækkunum sem koma áttu 1. mars til 1. janúar 2010 og launahækkunum 1. janúar 2010 yrði frestað til loka árs 2010 og hún yrði hluti af upphafshækkun í næsta kjarasamningi.

Þetta kom síðan opinberlega fram í bók þeirra í febrúar ,,Hagsýn framsýn og áræðin atvinnustefna.á bls. 11: ‘’Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að leita samkomulags um breytingar og æskilegt er að tryggja frið á vinnumarkaði á næstu misserum. Þær leiðir sem til greina koma eru m.a. að fresta öllum launahækkunum fram á haust og taka þá ákvörðun um framlengingu samninga eða uppsögn en þá mun liggja betur fyrir hvernig efnahagslægðin þróast og hversu mikið vextir og verðbólga hafa lækkað.

Þá kemur til greina að ákveða strax nýja tímapunkta fyrir þær hækkanir sem samið hefur verið um annað hvort með eða án opnunarákvæðis á milli hækkana til þess að endurmeta stöðuna. Ennfremur kemur til greina að launahækkunum 1. Mars verði frestað og taki gildi t.d. í byrjun næsta árs. Á síðari hluta árs 2010 verði síðan ákveðið hvenær umsamin launahækkun 1. janúar 2010 komi til framkvæmda.’’

Báðum þessum hugmyndum hafnaði samninganefnd ASÍ strax, ekki yrði samþykkt svona mikil frestun á launahækkunum. Þegar ljóst var að kosið yrði til Alþingis 25. apríl lagði samninganefnd ASÍ að freista þess að ná sameiginlegri niðurstöðu með nýrri ríkisstjórn með Stöðugleikasáttmála frekar en segja samningum upp og taka upp viðræður um það. Niðurstaða yrði að liggja fyrir í júní 2009.

Aðildarfélög ASÍ með um 95% félagsmanna sambandsins samþykktu að fara þessa leið. Stjórnir 6 stéttarfélaganna með 5% félagsmanna ASÍ hafa voru þessu ósammála og hafa forsvarsmenn þessara félaga beint ákaflega ómaklegum og ódrengilegum aðdróttunum í garð forsvarsmanna allra hinna félaganna, sem hafa unnið sér það eitt til saka að fara að samþykktum sinna félagsmanna og reynt að verja kjör og hagsmuni þeirra við aðstæður sem vart eiga sér hliðstæðu í hinum vestræna heimi.

Viðræður ASÍ og SA hanga nú á bláþræði, en samninganefndin hefur algerlega hafnað að semja um frekari frestun launahækkana en orðið er. SA hefur á sama hátt algerlega hafnað að greiða launahækkanirnar að fullu frá 1. júlí n.k. og fátt sem getur leyst þennan hnút.

Samninganefndir landssambanda munu funda næstu daga um framhaldið. Sé litið til fullyrðinga forsvarsmanna hinna 6 stéttarfélaga eru líkur á að upp samstöðunni slitni og samningsumboðið fari til hvers landssambands. Þau munu síðan hvert í sínu lagi hefja undirbúning að nýjum viðræðum með mótun kröfugerðar, gerð viðræðuáætlunar og í framhaldi af því samningaviðræður.

Þær viðræður munu örugglega taka alllangan tíma, sumarið er komið og engin staða til þess að þrýsta á viðræður. Á meðan verður ekki um það að ræða að ganga frá neinum Stöðugleikasáttmála og hafa aðkomu að mótun ríkisfjármála eða velferðarkerfisins, sem væri miður sé litið þeirrar stöðu sem er uppi í atvinnulífinu þessa daganna.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er nú ekki hægt að afnema allar launahækkanir enn áfram að vera með verðtryggingu á flestum lánum. Ef samningar losna þarf að taka upp lög um lífeyrissjóði, þannig að í þeim sitji ekki í stjórn fólk sem valið er inn í sjóðina af atvinnurekendu, heldur aðeins af sjóðsfélögum. Eins þurfa stjórnvöld að samþykkja evrósku atvinnlöggjöfina ( mann ekki hvað hún heitir nákvæmlega ). Enn þessi löggjöf hefur alltof lengi legið í félagsmálaráðaneytinu ósamþykkt. KV Simmi