sunnudagur, 22. ágúst 2010

Burt með lélega stjórnmálamenn.

Inn um lúguna barst í gær Reykjavík nýtt, vikublað. Ágætis blað utan þess að þar er einhver ómerkilegasta bullgrein sem ég hef lesið um verkalýðshreyfinguna eftir Þorleif Gunnlaugsson borgarfulltrúa sem kynnir sig sem oddvita VG. Þar skrifar greinilega maður sem ekki er þátttakandi í stéttarfélagi og veit ekkert um hvað hann er að skrifa. Þorleifur veitist að starfsmönnum stéttarfélaga með rakalausum dylgjum og rógburði.

Til að byrja með vill ég leiðrétta það sem hann vitnar til um launakjör starfsmanna stéttarfélaga. Laun sem birtast í launatímaritum t.d. DV segja oft ekkert til um raunlaun fólks. Þar má t.d. benda á mig, því er haldið fram að ég sé með 1,5 millj. kr. í laun hjá Rafiðnaðarsambandinu. Þetta er vel liðlega helmingi hærra en ég hef í laun hjá RSÍ, m.a. vegna þess að ég eins og mjög margir aðrir tók út séreignarsparnað til þess að laga skuldastöðu fjölskyldunnar og gera greiðslubyrði viðráðanlega. DV er búið að leiðrétta þetta, en Þorleifur kýs að gera það ekki, enda ber greinin glöggt vitni um hvers konar málflutning hann ástundar.

Kunnugt er að það voru teknir um 22 milljarðar út úr séreignareikningum á síðasta ári. Ég er eins og aðrir starfsmenn stéttarfélaga á launum samkvæmt kjarasamningi RSÍ. Þriðjungur félagsmanna er með hærri heildarlaun en ég og liðlega helmingur með hærri föst laun. Ég þekki allmarga starfsmenn stéttarfélaganna, engin þeirra er á mála hjá einhverjum fyrirtækjum eins og Þorleifur dylgir með í sínum ómerkilega rógburði.

Þorleifur talar um ASÍ eins og það sé stéttarfélag. ASÍ er sameiginleg skrifstofa sem stéttarfélög á almennum markaði reka. Þangað eru ráðnir sérfræðingar á ýmsum sviðum til þess að sinna sérverkefnum, eins og t.d, vinnu við greiningu á hagkerfinu og viðbrögðum við laga- og reglugerðarsetningu hins opinbera. Hagstofa ASÍ er sú eina sem getur státað af því að hafa verið með rétta greiningu á því hvert stjórnmálamenn eins og t.d. Þorleifur voru að leiða Ísland.

ASÍ heldur ekki félagsfundi, það eru stéttarfélögin sem gera það, þau hafa samningsréttinn. T.d. má benda á að Rafiðnaðarsambandið hélt á síðasta ári fundi þar sem mættu liðlega 1.000 félagsmenn og hefur félagsleg starfsemi aldrei verið öflugri en nú. Umræðan á þeim fundum var ekki eins og Þorleifur heldur fram, enda veit hann greinilega ekkert um starfsemi stéttarfélaga.

Starfsemi stéttarfélaga hefur aldrei verið jafnumfangsmikil og hún hefur verið eftir Hrun. Gríðarlegt álag hefur verið á starfsmenn stéttarfélaganna og þar má t.d. benda á að styrkir Rafiðnaðarsambandsins til félagsmanna var á síðasta ári um 100 millj. kr. hærri en í venjulegu árferði. Ásókn í símenntunarnámskeið á vegum sambandsins hefur aldrei verið meiri, sama má segja um orlofskerfi sambandsins.

En við eigum við að stríða lélega stjórnmálamenn, eins og t.d. Þorleif, sem ríghalda í það efnahagskerfi sem Ísland hefur, þar sem þeir leiðrétta efnahagsleg mistök með því að fella krónuna. Um leið eyðileggja þeir margra ára kjarabaráttu launamanna, blóðsúthellingalaust. Þetta vill Þorleifur ekki að sé rætt um og ræðst að stéttarfélögunum til þess að draga athyglina frá eigin getuleysi.

Í könnun sem gerð var fyrri hluta árs 2008 voru meðalheildarlaun íslenskra rafiðnaðarmanna um 500 þús. eða svipuð og í Noregi og kaupmáttur sá hæsti á Norðurlöndum, en meðalvinnutími rafiðnaðarmanna var 45 klst. á viku meðan hann var 40 klst. annarsstaðar á Norðurlöndum. Föst laun voru svipuð og í Danmörku nokkuð lægri en í Noregi hærri en í Svíþjóð og nokkuð hærri en í Finnlandi.

Í dag eru laun íslenskra rafiðnaðarmanna um það bil helmingi lægri en laun rafiðnaðarmanna í Noregi, rafiðnaðarmenn í Noregi fá 230 Nkr á tímann í dagvinnu, danskir rafiðnaðarmenn eru með um 210 Dkr, rafiðnaðarmenn á Íslandi eru með um 100 Dkr. auk þess að verðlag hefur hækkað, skuldir snaraukist og kaupmáttur fallið.

Þetta er ekki fyrsta skipti sem launamenn ganga í gegnum efnahagssveiflu, en hún er mikið stærri núna en áður. Þar má minna á stóru niðursveifluna 1968 - 1972 og svo mikla fallið fyrir 1990, og svo um aldamótin. Alltaf hefur það verið leiðrétt af stjórnmálamönnum með því að fella krónuna og um leið eyðilagt kjarabaráttu launamanna auk eignatilfærslu til fárra.

Sveigjanleiki krónunnar er dýru verði keyptur og launamenn borga þann brúsa, t.d. með því að borga þegar upp er staðið 4 – 5 sinnum meira en t.d. Danir og Svíar fyrir þakið sem hann byggir yfir sig og sína. Frá árinu 1995 og til ársloka 2007 var vaxtamunur við útlönd að meðaltali um 5%. Gengi krónunnar var nánast hið sama í lok þessa tímabils og það var í upphafi.

Nú standa yfir fundir innan stéttarfélaganna til undirbúnings komandi kjarasamningum. Þar er áberandi að félagsmenn vilja leggja mikið í sölurnar til þess að takmarka vald stjórnmálamanna til þess að eyðuleggja kjarabaráttu okkar, m.a. með því að skipta um gjaldmiðil. En eins og kunnugt er þá berjast Þorleifur og félagar hans gegn því.

Nú þegar eru allnokkrir félagsmenn okkar með kjör sem bundin eru Evru, eins og t.d. rafiðnaðarmenn sem vinna hjá hátæknifyrirtækjunum og nú vilja fleiri feta í þau spor. Já það er rétt hjá Þorleifi að það er kominn tími til breytinga, burt með lélega stjórnmálamenn og þeirra hagstjórn.

8 ummæli:

Kjartan Valgarðsson sagði...

Sæll,
Þorleifur er ekki oddviti VG.

Unknown sagði...

Þessu skylt; hvert er álit þitt Guðmundur á því sem Þorleifur segir um upphæð lágmarkslauna og atvinnuleysisbóta?

Trausti Þórðarson sagði...

Stundum dáist ég að því hvað þú ert skarpur.Ég hélt að þetta væri allt Davíð að kenna.Gott að fá það á hreint að það var Þorleifur.Burt með hann og við fáum sama kaupmátt og 2007.Reyndar hef ég ekki lesið þessa grein hans Þorleifs en hún er örugglega argasta bull.

Guðmundur sagði...

Ég svara því pistlinum og hef komið að því margoft hér á þessari síðu, afleiðingar gjörða þeirra sem hafa farið með efnahagstjórn landins undanfarin ár eru nú að bitna launamönnum og eyðileggja enn eina ferðina kjarabaráttu þeirra. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem "of góðir kjarasamningar eru leiðréttir blóðsúthellingalaust", svo ég noti þeirra eigin orð.
En þeir hinir sömu berjast svo gegn því að við losum við krónuna, háu vextina, há verðlagið og slaka kaupmáttinn

Nafnlaus sagði...

Góð grein,

Skaði krónunnar er margfalt meiri en talað er um og fer hratt vaxandi, en ekki minnkandi,,,

Nú lítur allt út fyrir að ónýtur gjaldmiðill krónan, fari langt með að gera Orkuveituna greiðsluþrota, nem til koma svimandi hækkanir á gjaldskrá, sem senda á heimilunum,,,

Skuldir OR hækkuðu um 100% í hrun krónunnar og fóru úr um 120 milljörðum í 240 milljarðar – krónan bjó því til nýjar skuldir OR að upphæð meira en 100 milljarða!! sem ógnar hratt OR, Reykjavíkurborg og ríki!!!

Þessi 120 milljarða hækkun á skuldum OR lætur nærri að vera um 5 milljóna króna reikningur á hvert heimili í Reykjavík!!! þökk sé krónunni... Hefði verið hér evra hefðu skuldir OR ekki hækkað neitt,,, þar sem ekkert gegnisfall hefði orðið.

Það er ekki nema von að áhugamenn um ónýtan gjaldmiðil vilji halda honum áfram.

Með þessu framferði, kann hinsvegar að styttast í nýjar hörmungar, ætli men ekki að opna augun fyrir þeirri skelfilegu ógn sem ónýtur gjaldmiðill er að valda þjóðinni. Skaði krónunnar heldur áfram með skelfilegum afleiðingum, þar til annar gjaldmiðill tekur við...verði ekki hratt brugðist við,,,

Hvað tjónið þarf að verða mikið til að fólk opni augun fyrir þessari skelfilegu ógn krónunnar, er erfitt að meta, en fer eftir hugrekki og framsýni þeirra sem vilja þjóðinni, heimilum, fólki vel, (fólki í öllum flokkum) - sem og hæfni fjölmiðla til að fjalla af fagmennsku um þessa hluti,,,,

Unknown sagði...

Komdu sæll Guðmundur

Greinin sem þú vitnar í er nú kominn á Eyjubloggið mitt (http://blog.eyjan.is/thorleifur/2010/08/22/kominn-timi-til-breytinga/) og ég hvet lesendur þína að lesa hana því satt best að segja finnst mér og að þú sért að vitna í einhverja aðra grein.

Ég vil leiðrétta ákveðnar staðreyndavillur sem fram koma í blogginu þínu.

Svo því sé haldið til haga þá er ekki rétt að ég kynni mig sem oddvita VG í umræddri grein. Blaðið gerir hinsvegar þau mistök að kynna mig sem borgarfulltrúa en þegar ég sendi greinina undirritaði ég hana : „Þorleifur Gunnlaugsson varaborgarfulltrúi og fulltrúi í velferðarráði.“

Þú segir að ég „veitist að starfsmönnum stéttarfélaga með rakalausum dylgjum og rógburði.“ Og bendir á að DV hafi farið með rangt mál hvað laun þin varðar. Þessu er til að svara að þær upplýsingar fóru ekki fram hjá mér en eftir sem áður stend ég við þá fullyrðingu að „nokkrir helstu forystumenn sambandsins væru með um og yfir milljón í laun á mánuði“ og þá er ég að tala um heildarlaun (með fríðindum) en ekki úttekt á séreignarsparnaði.

Þú segir í greininni að ég dylgi ég um að verkalýðsforingjar séu á „ mála hjá einhverjum fyrirtækjum“ og sakar mig því um „ ómerkilega rógburð“. Þetta er ekki rétt og hvergi má í minni grein finna slíkar dylgjur. Það var a.m.k. ekki ætlunin.

Þú segir að ég tali um ASÍ eins og það sé stéttarfélag og „ASÍ er sameiginleg skrifstofa sem stéttarfélög á almennum markaði reka“. Í greininni tala ég aldrei um að ASÍ sé eitt stéttarfélag en að halda því fram að aðeins sé um að ræða skrifstofu er mikil einföldun. Á heimasíðu ASÍ segir: „ ASÍ er samband landssambanda og landsfélaga með beina aðild. Æðsta vald í málefnum ASÍ er í höndum ársfunda sambandsins. Árlega koma saman 290 kjörnir fulltrúar launafólks af öllu landinu, en hvert aðildarfélag á rétt á að senda a.m.k. einn fulltrúa óháð stærð. Á fundinum er stefna heildarsamtakanna mótuð og þeim valin forysta.“

Þú segir að ég sé „maður sem ekki er þátttakandi í stéttarfélagi og veit ekkert um hvað hann er að skrifa.“ Um þetta er það að segja að ég er ekki þáttakandi í stéttarfélagi eins og er. Ég byrjaði hins vegar ungur að vinna og var strax um 17 ára aldur virkur á félagsfundum Dagsbrúnar, í iðnnemafélaginu og síðan sveinafélaginu mínu. Ég varð síðan virkur í meistarafélaginu mínu og var formaður þar um tíma. Ég var einnig einn þeirra sem endurreisti Meistarasamband byggingamanna og sat þar í fyrstu stjórn. Í störfum mínum með meistarafélaginu mínu og meistarasambandinu lagði ég áherslu á að hækka þyrfti lægstu laun. Ég benti á hættuna af því að þó svo Íslendingar væru á þeim tíma háttlaunaðir þá gæti það breyst hratt og svo hitt að óprúttnir verktakar stunduðu þann leik að ráða erlenda „fagmenn“ á lágmarkstöxtum.

Þú segir að ég ráðist „að stéttarfélögunum til þess að draga athyglina frá eigin getuleysi“ að ég sé dæmi um „lélega stjórnmálamenn sem ríghalda í það efnahagskerfi sem Ísland hefur, þar sem þeir leiðrétta efnahagsleg mistök með því að fella krónuna“ Þú segir að ég og „hinir stjórnmálamennirnir berum ábyrgð á því að „nú erum við á svipuðum slóðum með kaupmátt og við vorum fyrir 15 árum." Viltu vera svo vænn að rökstyðja þetta þegar kemur að mínum störfum í stjórnmálum?

Eftir sem áður stend ég við grein mína sem nú er kominn á netið en þeir sem hana lesa sjá að þar er ég fyrst og fremst að gagnrýna ríkisstjórnina og kjörna fulltrúa fyrir að bregðast fátækum og svo verkalýðshreyfinguna fyrir að styðja ekki við bakið á þeim. Ennfremur að samið sé um svo lá laun að þau eru fyrir neðan fátækramörk og hömlun hækkun atvinnuleysisbóta og fjárhagsaðstoðar.

Með kveðju,
Þorleifur Gunnlaugsson

Héðinn Björnsson sagði...

Bendi fólki á að lesa greinina sem um er rætt. Þorleifur er fyrst og fremst að benda á að fátækum hafi verið brugðist bæði af kosnum fulltrúum og verkalýðshreyfingu. Guðmundur virðist hinsvegar vera annsi hörundsár og tæklar manninn frekar en boltan.

http://blog.eyjan.is/thorleifur/2010/08/22/kominn-timi-til-breytinga/

Guðmundur sagði...

Ég stend við allt það sem fram kemur í greininni.

Bendi á að Þorleifur viðurkennir að hann sé ekki þátttakandi í stéttarfélagi og veit þar af leiðandi ekki um hver starfsemi þeirra er.

Við starfsmenn höfum nefnilega tekið eftir því að þeir sem eru að dylgja hvað mest um stéttarfélögin og starfsemi þeirra eru menn eins og Þorleifur sem ekki eru félagsmenn og eru að því virðist að reyna að sannfæra sjálfa sig og aðra um að það hafi sé rétt ákvörðun með "vínberin eru súr" málflutningi.

Ég ítreka spurningu mína Þorleifur umlaun starfsmanna stéttarfélaga, hvernig veist þú hver kjör starfsmanna eru hjá viðkomandi félagi. Minni t.d. á frægt dæmi þar sem gagnrýnd voru ofurlaun fyrrv. formanns félags atvinnuflugmanna hjá tiltölulega litlu félagi síðar kom í ljós að viðkomandi hafði ekki krónu hjá sínu félagi en var flugstjóri hjá erlendu flugfélagi. Þorleifur er að dylgja með hluti sem hann hefur ekki hugmynd um.

Þorleifur virðist telja að félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins hafi ekki burði til þess að ræða málin hreinskilinglsega við okkur starfsmenn félagsins. Þeir gera það svo sannarlega og eru á félagsfundum, auk þess að senda tölvupósta og hringja í okkur, en þeir eru ekki með rógburð og órökstuddar dylgjur eins og Þorleifur.

Þorleifur segir í greininni að starfsmenn stéttarfélaga dragi taum fyrirtækja.

Ég ítreka það sem ég hef sagt grein þín er samansafn af órökstuddum og rætnum dylgjum um fólk sem vinnur samviskusamlega vinnuna sína.

Svo ómerkilegir útúrsnúningar sem fram koma í svari Þorleifs styðja mál mitt enn frekar.