þriðjudagur, 22. maí 2012

Aðför stjórnvalda gegn öldruðu fólki

Ég hef skrifað reglulega um starfsemi og stöðu lífeyrissjóðanna hér á þessari síðu. Mjög margir hafa haft samband og þakkað þessa pistla, og þar eru áberandi virkir sjóðsfélagar. Hér séu birtar skoðanir þeirra og viðhorf til þessara mála. Það er rétt, því pistlarnir eru byggðir á samþykktum sjóðsfélagafunda, starfsreglum og lögum um starfsemi lífeyrissjóða.

Ég hef aftur á móti fengið yfir mig margskonar gusur og mismunandi málefnalegar frá einstaklingum sem margir eiga það sameiginlegt að starfa sem verktakar, eða sem sjálfstæðir launamenn, (undirverktakar/ gerviverktakar). Þetta fólk er áberandi meðala álitsgjafa og spjallþáttastjórnenda.

Fólk sem vill greiða sem minnst til samfélagsins og samtryggingarkerfisins, en eru aftur á móti með háværar kröfur um að sparifé launamanna í lífeyrissjóðum sé tekið og nýtt til þess að greiða upp almennar skuldir. Þessu hafa sjóðsfélagar mótmælt og bent á að þeir vilji fara fyrir dómstóla og láta reyna á 1. mgr. 72 gr. Stjórnarskrárinnar um eignarrétt sinn á þessu sparifé. Álitsgjafar og spjallþáttastjórnendur virða þessarar skoðanir eigenda þessara fjármuna ekki viðlits og veitast að stjórnendum lífeyrissjóðanna og krefjast þess að þeir brjóti landslög og Stjórnskránna.

Sérstök ástæða er að minna þessa óbilgjörnu kröfuhafa og ásamt alþingismönnum og ráðherrum, á að sjóðsfélagar voru þolendur í Hruninu ekki gerendur. Þegar hlustað er á ræður alþingismanna og núverandi ráðherra, þá tala þeir ætíð um sjóðsfélaga í almenna lífeyrisjóðakerfinu með þeim hætti eins og þeir sitji við hlið útrásarvíkinga og bankstera. Hvaða rök eru fyrir .því að jafnsetja þessa aðila?

Staðreyndin er hins vegar sú að lífeyrissjóðirnir hafa reynst fjöregg íslensks efnahagslífs, þegar allt féll og engir aðrir voru aflögufærir. Það eru margir sjóðsfélagar sem spyrja hvers vegna í ósköpunum sé verið að semja við stjórnmálamenn um framkvæmdir.

Formaður fjárlaganefndar ásamt fjármálaráðherra vill skattleggja sjóðsfélaga í almennu lífeyrissjóðunum sérstaklega, en undanskilja sjóðsfélaga í opinberu sjóðunum. Þetta er sama og launamenn upplifðu fyrir stríð þegar alþingis- og embættismenn börðust gegn því af öllu afli að almenningur fengi samskonar lífeyrisréttindi og þeir höfðu búið sjálfum sér á kostnað skattgreiðenda.

Nú velta þessir aðilar því fyrir sér hvort ekki eigi að hverfa til neikvæðrar ávöxtun á því sparifé sem er í lífeyrissjóðunum. Í því sambandi má benda á að árlegt eignatap lífeyrisjóðanna fram til setningar svokallaðra Ólafslaga árið 1983 var meira en tapið sem varð árið 2008. Í því sambandi má einnig benda á að ef það yrði gert er núverandi kynslóða að eyða öllu sparifé í landinu og eru í raun að framvísa kostnaði vegna núverandi lifnaðarhátta til framtíðarinnar. Þ.e. barna að barnabarna okkar.

Í raun er það hið sama og stjórnvöld hafa verið og eru að gera í opinbera lífeyriskerfinu og TR. Það lífeyris- og bótakerfi er ekki sjálfbært og því er ekki gert að skerða ef ekki eru innistæður fyrir skuldbindingum. Í dag vantar um 500 milljarða upp á að lífeyrissjóðir hins opinbera eigi fyrir skuldbindingum, þessi skuld opinbera lífeyrissjóðakerfisins hefur hækkað um 136 milljarða frá 2007. Til þess að komast út úr þeirri stöðu þarf hið opinbera að greiða um 30 milljarða á ári í næstu 40 ár. Svo stór er sú skuldbinding sem stjórnmálamenn eru nú þegar búnir að senda inn í framtíðina og hún stækkar um nokkra tugi milljarða á hverju ári.

Í þessu sambandi er sérstök ástæða að benda á, að allir lýðfræðilegir útreikningar og spádómar ganga útfrá að :

Í dag eru um 5,6 vinnandi menn á móti hverjum lífeyrisþega.

Árið 2030 verður það hlutfall orðið 3 vinnandi menn á móti hverjum lífeyrisþega.

Árið 2050 verður það komið niður í 2,5 vinnandi menn á móti hverjum lífeyrisþega.

Það blasir við þingmenn eru með upptöku í lífeyrissparnaði jafnframt yfirskuldsetningu í opinbera lífeyriskerfinu, að senda þennan reikninginn inn í framtíðina. Hafa menn gert sér grein fyrir því hversu mikið þurfi að hækka skatta á þessu fólki þegar að því kemur? (Ath. Börnum okkar og barnabörnum) Í þessu sambandi má benda t.d. á stöðu Grikklands í dag.

Það blasir við að við getum ekki treyst því að það sem við komum til með að fá frá TR verður ekki það sama og í dag, heldur hið gagnstæða. Og hverjir standa þá uppi með ríkistryggð réttindi og allt sitt á þurru. Jú þeir sem fá að vera í sama lífeyrissjóð og alþingsmenn og ráðherra og útvalinn hópur opinberra starfsmanna.

Þegar sjóðsfélagar benda á að þeir séu ósáttir við þann ójöfnuð sem þeim er gert að búa við um að skerða eigi í almenna lífeyriskerfinu, opinberu sjóðirnir búa aftur á móti við ríkisábyrg, þá er bent á að við fáum það bætt í gegnum TR. Það kerfi kallar á hverju ári fram meira óréttlæti yfir þá landsmenn sem starfa á almennum vinnumarkaði. TR hefur á undanförnum árum verið með stórsókn gegn hinu svokallaða millitekjufólki, er reyndar búið að flokka fólk sem er með tekjur á bilinu frá 250 – 350 þús. kr. í mán.laun í þann hóp sem sé aflögufær.

Stjórnmálamenn hafa með öðrum orðum hagræða kjaratengdum skerðingum bótakerfisins þannig að þeir sem hafa greitt til almenna lífeyriskerfisins greiða 100% jaðarskatt af fyrstu 70 þúsundum sem þeir fá frá sínum lífeyrissjóðum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir stórfróðlega grein.

Það sannast enn og aftur að stjórnmálamenn eru óvinir fólksins.

Nú er skerðingin/tekjutenging orðin svo gegndarlaus að réttast er að líta á lífeyrisgreiðslur sem skattgreiðslur til ríkisins.

Er ekki hag almennings best borgið með því að þetta lífeyriskerfi verði lagt niður en einstaklingum gert að leggja lífeyri til hliðar á þann veg sem þeir kjósa þannig að um einstaklingseign verði að ræða?

Mér sýnist það.

Kveðja
Rósa G.

Nafnlaus sagði...

Hvað með aðför lífeyrissjóðanna gegn almenningi í gegnum arðrán verðtryggingar, eiga their ekki megnið af lánunum, rukka okkur svo um of með vaxtavöxtum og fá miklu meira tilbaka og glotta thegar verðbólgan fer upp, thá hækka lánin, thetta eru thjófar og ekkert annað. Hér er að skapast stétt fátæks ungs fólks og stétt eldra fólks sem hefur thað betur, thað verður að hluta til skýrt með arðráni verðtryggingar og að skuldavandi heimilanna strandar ætíð á lífeyrissjóðunum sem vilja halda öllum illa fengna gróðanum

Guðmundur sagði...

Þetta er einhver vitlausasta aths. sem hingað hefur verið send. Ef verðtrygging væri afnumin myndi rekstur lífeyrissjóðanna snarbreytast til hins betra rekstrarlega séð. Það vita allir sem hafa kynnt sér þau mál. Útgjöld þeirra myndi lækka gríðarlega þar sem verðtrygging á örorkubótum og lífeyri myndi vitanlega hverfa einnig.
Lækkun þessara bóta mum vitanlega auka útgjöld Tryggingarstofnunar um sömu upphæð eða um allnokkra tugi milljarða, sem myndi kalla á skattahækkun um líklega nálægt 4 -6%.

Ef verðtrygging væri afnumin á lánum myndu vitanlega koma breytilegir vextir sem lánþegar þyrftu að greiða strax, ekki seinna eins og í gegnum greiðsludreifingarkerfi verðtryggingarinnar.

Það hefði t.d. þýtt að vextir hefðu verið árið um 25% árið 2008 og mun fleiri lánþegar farið á hausinn.

Ég bið menn í guðs bænum að kynna sér málin betur áður en þeir senda frá sér svona endaleysu.