föstudagur, 11. maí 2012

Lýðskrum á Alþingi

Ítrekað senda þingmenn þau skilaboð út í samfélagið að þeir vilji að teknir verði fjármunir úr lífeyrissjóðunum og þeir nýttir til þess að greiða niður skuldir almennings. Með því hafa þeir ítrekað vakið upp innistæðulausar væntingar hjá fólki sem er í vandræðum. Þetta eru ákaflega óvönduð vinnubrögð.

Ítrekað er búið að benda þingmönnum á að Alþingi Íslendinga setti lög á sínum tíma sem gera þetta óframkvæmanlegt, auk þess að í landinu er í gildi Stjórnarskrá sem gerir þessar áætlanir óframkvæmanlegar.

Sá munur er á lífeyrissjóðum og þeim sjóðum sem alþingismenn hafa til umráða, að þeir geta ekki samið við stjórnarmenn í lífeyrissjóðum um að ráðstafa fjármunum sjóðanna. Það fjármagn sem er í lífeyrissjóðunum er í eigu tiltekins hóps fólks sem eru sjóðsfélagar. Þetta er sparifé þeirra, og það verða þingmenn sem og aðrir að virða. Það er löglegt að semja um að lífeyrissjóðirinir láni ríkissjóð þessa 230 milljarða, en það er ólöglegt að taka þessa fjármuni úr sjóðunum og ráðstafa þeim án þess að semja um endurgreiðslu.   

Þetta virðast þingmenn ekki skilja, eða sem er líklegra að þeir eru ekki meiri menn en svo að þeim er um megn að axla ábyrgð á eigin loforðum og standa fyrir framan almenning og viðurkenna að þeir hafi í þessu máli farið fram með innistæðulaust lýðskrum.

Þingmönnum er vel kunnugt um að það liggja fyrir samþykktir frá sjóðsfélögum um að ef þessi leið verði farin verði stjórnarmönnum lífeyrissjóðanna stefnt fyrir fjárdrátt.

Ef þingmenn vilja gera eitthvað í þessum dúr verða þeir að byrja á því að breyta landslögum og einnig Stjórnarskránni. Það eru til margskonar samþykktir úr verkalýðshreyfingunni um að taka verði á skuldavanda heimilanna og vilji til þess að gera það, en þessi leið er einfaldlega ekki fær.


Þetta er búið að margskoða og það er því ákaflega ómaklegt af hálfu þingmanna að ræða þetta með með þeim hætti að málið snúist um að ná samningum við einhverja einstaklinga á skrifstofu ASÍ. Það er ekki á þeirra valdi. Það ættu þingmenn sem fara með löggjafarvaldið að vita umfram aðra.

Þessi nálgun þingmanna styður þá fullyrðingu að atgervisflótti hafi verið frá Alþingi. Það birtist okkur m.a. með þeim hætti að traust almennings á stjórnmálamönnum og Alþingi mælist í eins stafs tölu.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bíddu nú aðeins .... Lífeyrissjóðirnir eru búnir að tapa milljörðum með sínu fjárhættuspili og eru þeir allt í einu orðir "stikkfrí" ? Það ætti að taka alla stjórnendur lífeyrissjóða og flengja þá á almannafæri að mínu mati !
Karlar sem hafa 1,5 millur á mánuði og gera ekkert nema tapa peningunum okkar !

Nafnlaus sagði...

"Almæli er að það hafi orðið mikill atgervisflótti af Alþingi á það er almenningur minntur daglega á í fréttum fjölmiðla. Traust almennings á stjórnmálamönnum og Alþingi mælist þar af leiðandi í eins stafs tölu."

Þessi ummæli eru þér ekki sæmandi, Guðmundur. Það eru öllu fremur þingmenn kosnir 2009 eða jafnvel 2007 sem helst reyna að halda uppi örlítilli virðingu þingsins.

Góðar kveðjur - Jón Daníelsson.

Nafnlaus sagði...

Blessaður Guðmundur...
Einhverjir einstaklingar á skrifstofum lífeyrisjóðanna eru nú samt að semju um greiðslur á tugum milljarða til að standa straum af afleiðusviðskiftum sjóðanna fyrir hrun ! Finnst þér það mál ekki þess virði að reifa það á síðunni þinni fram fyrir að snupra þingmenn sem enginn tekur mark á hvort eð er... ?? Kv. Einar

Guðmundur sagði...

Hér blanda menn saman tveim óskildum hlutum. Samkvæmt lögum á starfsfólk lífeyrissjóða að fjárfesta og ávaxta það fjármagn sem er í lífeyrissjóðum. Þar tapa menn og græða. Margir töpuðu töluvert í Hruninu, þar töpuðu þeir sem stjórnuðu lífeyrissjóðunum um 22% af eignum sínum á meðan sjóðir og bankar sem stjórnmálamenn stjórnuðu og sérþjálfaðir háskólamenntaðir sérfræðingar töpuðu öllu. Seðlabankinn fór á hausinn ásamt öllum hinum bönkunum og Íbúðarlánasjóður.

Í þessum pistli er aftur á móti verið að gagnrýna ætlan þingmanna að taka fjármuni úr lífeyrissjóðum og úthluta þeim fjármunum. Það er ólöglegt og gengur gegn lögum og stjórnarskrá.

Stjórnvöldum hefur verið bent á nokkrum sinnum á undanförnum árum að ef þeir ætluðu að lagfæra skuldastöðu heimila, yrðu þeir að fjármagna það með einhverju öðru en taka eignarnámi sparifé þeirra einstaklinga sem eru sjóðsfélagar. Það jafngilti því að stjórnmálamenn færi inn í bankana og tæku þar hluta af inneignum á sparibókum og úthlutuðu þeim fjármunum til einhverra sem ekki ættu það sparifé.

Lífeyrissjóðirnir gætu aftur á móti lánað ríkissjóð fjármuni á hagstæðum vöxtum til langs tíma sem þeir gætu síðan úthlutað til landsmanna sem væru í efnahagsvanda. Það stenst lög.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus BR:

Að flestu leyti sammála þessu. Enda kæri ég mig ekki um að stjórnmálamenn krukki í mína peninga. Sem ég á. En ekki þeir.

"Conservatives say if you don't give the rich more money, they will lose their incentive to invest. As for the poor, they tell us they've lost all incentive because we've given them too much money."

En mikið vildi ég nú fá að kjósa mína fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðanna beint og milliliðalaust. En það er önnur Ella og pistlinum óviðkomandi.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus BR:

Tilvitun: George Carlin.

Nafnlaus sagði...

Einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn takk. Stjórn kosin af eigendum, opnar fundargerðir, opnar launaupplýsingar og starfslokasamningar.
Þetta er slíkt og þvílíkt bull eins og það er í dag. Litlir kóngar stjórna peningum okkar VIÐ verðum að stoppa þetta strax.