fimmtudagur, 12. júlí 2012

Barist gegn breytingum með öllum ráðum


Það er sorglegt að hlusta á forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins þegar þeir fjalla um Stjórnarskrána og endurnýjun hennar. Þeir fullyrða er að þeir sem tali fyrir endurnýjun Stjórnarskrárinnar geri það á grundvelli þess að núgildandi Stjórnarskráin hafi verið orsök Hrunsins, auk þess að þeir sem tali fyrir nýrri Stjórnarskrá líki hinni eldri við hið ljótasta sem valdhafar einræðisríkja hafa beitt landsmenn sína. Í þeim þjóðfélagshóp sem ég umgengst hef ég ekki heyrt neinn taka svona til orða.


Full ástæða er að benda á að Sjálfstæðismenn hafa alltaf barist gegn breytingum á núverandi Stjórnarskrá og kæft allar tilraunir á nefndum skipuðum af Alþingi. Sjálfstæðismenn voru á móti Þjóðfundi, á móti Stjórnlaganefnd og hinni ítarlegu vinnu sem þar var unnin m.a. á grunni Stjórnarskrárnefnda Alþingis. Og þeir voru einnig á móti kosningu Stjórnlagaþings og líka á móti skipan Stjórnlagaráðs og lýstu fyrirfram yfir að þeir væru á móti öllu því sem þaðan kæmi.

Þrátt fyrir að sú vinna hafi verið unnin á grunni niðurstöðu Þjóðfundar, sem síðan hafði verið send Stjórnlaganefnd, sem var skipuð af 7 sérfræðingum. Hún vann gott starf og skilaði inn 600 bls. skýrslu með tveim stjórnarskrártillögum. Þá var efnt til almennra kosninga um Stjórnlagaþing þar sem 25 manns áttu að sitja, 530 einstaklinga gáfu kost á sér. Valdastéttin fór hamförum gegn kosningunum og latti fólk til þess að mæta, en þrátt fyrir það mættu um 36% þjóðarinnar á kjörstað og kusu 25 einstaklinga þeir komu víða að ú samfélaginu og viðurkennt að mjög vel hefði tekist til.

Í tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri Stjórnarskrá er lagt til að færa valdið til þjóðarinnar. Núverandi kosningakerfi er þannig uppbyggt að það tryggir stöðu núverandi stjórnmálaflokka og liðlega helmingur alþingismanna þarf aldrei að óttast næstu kosningar. Þeir eru í öruggum sætum, sem úthlutað er af flokkskrifstofum valdaflokkanna. Í nýrri stjórnarskrá er lagt er til að þessu verði breytt. Alræði ráðherra og embættismanna þeirra er minnkað og þingræðið styrkt. Á Íslandi hefur almenningur barist gegn því hvernig stjórnmálamenn gáfu auðlindir hafsins til fárra útgerðarmanna.

Í auðlindaákvæðinu í nýju stjórnarskrárfrumvarpi segir svo: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“ Þetta orðalag er í samræmi við í samræmi við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hún gaf um kvótakerfið á Íslandi 2007. Í rökstuðningi mannréttindanefndarinnar er vitnað til 1. greinar íslenskra laga um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, er segir: „Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“

Full ástæða er að benda á að forsvarsmenn Sjálfstæðismenn hafa haft alla möguleika til þess að koma fram með tillögur um hvernig breyta ætti að Stjórnarskránni, en þeir hafa ekki komið fram með neitt annað en að þeim finnist tillögur Stjórnlagaráðs ómögulegar, engar efnislegar ábendingar og tillögur hafa komið fram.

Sjálfstæðismenn töldu eðlilegt að farið væri eftir rödd þjóðarinnar þegar 30 þús. manns skrifuðu undir lista gegn Icesave. Þeir lýstu yfir stórsigri sínum skoðunum og vilja þjóðarinnar þegar núverandi forseti var endur kosinn með 37% atkvæða, en þeir sögðu að mikill meiri hluti þjóðarinnar hefði lýst andstöðu við kosningu Stjórnlagalráðs þegar það var kosið með atkvæðum 36% þjóðarinnar.

Þetta lýsir engu öðru en því að Sjálfstæðismenn vilja viðhalda því samfélagi sem þeir hafa byggt upp fyrir sig og sína á grunni núgildandi Stjórnarskrá, þar sem mikill minni hluti þjóðarinnar hefur komið sér vel fyrir á kostnaði fjöldans og þeir berjast með öllum kröftum gegn því að þessu verði breytt, með allskonar orðhengilshætti og útúrsnúningum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Völdin getum við haft, en viljum þau ekki; við höfum fengið þa öðrum í hendur, eða réttara sagt, leyfum öðrum að halda þeim fyrir oss. Við höfum aftur augun og gefum okkur í auðmýkt undir þrælkun, rnaglæti og fyrirlitningu. Valdhafarnir segja okkur hvernig við eigum að sitja og standa, hvernig við eigum að lifa og deyja. Þau binda okkur byrðar, en spyrja okkur ekki um, hve þungar þær megi vera. Þeim er ekki nóg að láta okkur mala kornið sitt, þeir verða líka að ráða með hvorri hendinni við snúum kvörninni. Ef þeir byggja skóla, megum við nota hann með því skilyrði að læra þar eitt, sem þeim hefur komið saman um að láta okkur læra. Þau gefa út blöð og bækur og selja okkur hvort sem við viljum kaupa eða ekki. Eigum við við góða yfirmenn, þá líður okkur þolanlega, séu vondir, eigum við illa ævi. Þegar valdhafinn beitir svipunni, þá skrækjum við eins og hundar, en klappi hann á lærið, þá dilum við rófunni. Það sem okkur vantar, heimtum við af völdhöfunum. Þegar við sakberum, sakberum við þá.

Við kunnum ekki, við þorum ekki, við reynum ekki að hjálpa okkur sjálfir.

Svona erum við.

Margrét Rósa Sigurðardóttir sagði...

flottur pistill.