þriðjudagur, 24. júlí 2012

Uppgræðsla í Þórsmörk - uppfært


Föstudaginn 20. júlí síðastliðinn ákvað sveitarstjórn Rangárþings Eystra þvert á vilja Skógræktarinnar og Landgræðslunnar, að heimila afréttarfélagi Vestur-Eyfellinga upprekstur sauðfjár á Almenninga. Með þessu er sveitarstjórnin að ákveða að eyðileggja áralanga uppgræðslu áhugamanna á þessu svæði. Sveitarstjórn sér enga ástæði til þess að girða Þórsmörkina af eins að eðlilegt væri. Ekki kemur fram í úrskurðinum að bændur skuli bíða eftir úrskurði ítölunefndar um fjölda fjár á afréttinn.

Bændur geta því farið með ótakmarkaðan fjölda fjár inn á afréttinn. Þetta er hápólitísk hefndaraðgerð vegna þjóðlendumála, enda liggja ekki fyrir neinar upplýsingar um skort á beitilandi, þaðan af síður upplýsingar að þessi hópur íslendinga eigi meiri rétt á að nýta þetta land umfram aðra. Nokkrir bændur hafa þegar farið með nokkra vagna af sauðfé inn á afréttinn í gegnum Húsadal og gaf það forsmekkinn að því sem koma skal, að bændur þurftu að elta uppi lambhrút sem slapp frá þeim á völlunum við Húsadal.

Ákvörðun sveitarstjórnar mun vitanlega hafa þau áhrif að nýgræðingur, sér í lagi af birki og reynivið verður nagaður upp og sveitarstjórnin virðir að vettugi 20 ára sjálfboðaliðsstarf fjölmargra sem hafa gróðursett þarna á moldum Þórsmerkur í góðri trú. Sveitarstjórnin hefur ákveðið að breyta þessu landi í beitiland hobbýbænda. Fyrir liggur að það þarf að safna liði til að smala Mörkina, Goðaland og aðra afrétti á svæðinu hugsanlega strax á næstu vikum enda getur fé runnið óheft yfir Þröngá af Almenningum.

Fyrir utan þau áhrif sem þetta kann að hafa á nýgræðing þarna inni á Almenningum má búast við að fé leiti inn í skóglendið í Þórsmörk, enda engin girðing sem hindrar það. Það að girða þetta af myndi kosta tugi milljóna. Básar eru hins vegar væntanlega í vari vegna Krossár. Þetta hefur örugglega líka áhrif á vilja sjálfboðaliða til að vinna að uppgræðslu á svæðinu, en þeir hafa lagt gríðarlega vinnu fram við‘ að rækta landið upp.

Ég hvet alla sem verða á ferðinni um þetta land að fylgjast með þeim áhrifum sem þessi ákvörðun ótengdrar sveitarstjórnar við vilja landsfólks og lítilsvirðingu stjórnarinnar gagnvart því mikla sjálfboðaliðastarfi sem margir hafa lagt fram og fjárútlátum. Hafa augun opin fyrir annars vegar breytingum á gróðri og taka myndir af því. Einnig þarf að halda vel til haga myndum sem sýna gróðurfar á Almenningum eins og það er í dag til samanburðar.

Viðbót


Nú er komið í ljós að þessir tveir bændur úr Rangárþingi eystra, sem nýverið slepptu fé til beitar á viðkvæma afrétti í grennd við Þórsmörk, höfðu ekki leyfi sveitarstjórnar til þess, eins og þeir héldu fram við Fréttastofu í gær. Leyfi sveitarstjórnar var háð niðurstöðu úr svonefndri ítölu, eða rannsókn á beitarþoli, sem ekki hefur enn verið gerð og hefur Landgræðslan réttilega vísað málinu til sýslumanns á Hvolsvelli.

Sú ákvörðun tveggja fjáreigenda að senda nokkra tugi sauðfjár á Almenninga, í nágrenni Þórsmerkur, er óumdeilanlegt brot á fjallskilasamþykkt Rangárvallasýslu og fullkomlega siðlaus að reka fé á þennan ofurviðkvæma afrétt við Þórsmörk. Sá gróður sem að þarna er að koma upp úr auðnunum hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum í eldgosunum 2010 og 2011. Landbúnaðarháskóli Íslands mat þennan litla afrétt algjörlega óbeitarhæfan í úttekt 2011. Þannig að fara að níðast á þessum gróðri núna finnst mér algjörlega siðlaust og lýsir fullkomnu tillitsleysi gagnvart öðrum.


Almenningar hafa notið friðunar frá því um 1987 enda afrétturinn þá nær örfoka og upprekstri hætt. Mér finnst að sem borgara í landinu að það komi mér við hvort þrotlaust friðunarstarf í Þórsmörk verði lagt í rúst og ekki verjandi að kosta milljónatugum til þess að endurreisa skógræktargirðinguna milli Þórsmerkur og Almenninga svo örfáir tómstundabændur geti nýtt sér fornan hefðarrétt sinn til upprekstrar.

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessir einstaklingar ætla sér að smala þessu fé í haust. Ég vill að RÚV fylgist með því og mun reyna hafa áhrif á að það verði gert og fjölmiðlar sendi þangað inn eftir myndatökufólk. Marga grunar að þessir einstaklingar hyggist fara þarna um á fjórhjólum og öðrum vélknúnum tækjum um þetta viðkvæma svæði og spóla það upp. Þá fáum við að sjá afleiðingar þessarar ákvörðunar.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll og blessaður Guðmundur.
Ekki að undra að fólki bregði við fréttirnar á Rúv en þær eru auðvitað nákvæmlega eins og landgræðslustjóri og fulltrúi skógræktar vilja hafa þær.

Til að gæta sanngirni - og þú ert sanngjarn - þarf hin hliðin líka að koma fram en hún er svona:
1. Samkomulag bænda og Landgræðslu um friðun rann út fyrir meira en 10 árum síðan.
2. Afrétturinn er skv. úrskurði Hæstaréttar afréttareign bænda.
3. Bændur hafa sjálfir borið á og sáð í afréttinn í 20 ár samfleytt eftir að friðun hófst með góðum árangri.
4. Farið var með um 30 kindur og aldrei stóð til að fara með fleiri, það vita bæði landgræðslustjóri og fulltrúi skógræktar.
5. Gróðurverndarnefnd tók afréttinn út fyrir tveim vikum og telur afréttinn ekki óhæfan til beitar.
6. Fram hefur komið hjá aðilum Landbúnaðarháskólans að ástand afrétta Fljótshlíðinga og Rangárvalla sé ekki betri en Almenningar - þar er þó ekki gerð krafa um friðun né ítölu.
7. Eftir að samkomulagi um friðun lauk fyrir meira en 10 árum hafa bændur óskað eftir fundum með Landgræðslu til að endurskoða málin og fara yfir árangur uppgræðslunnar - en án árangurs.
8. Það var ekki fyrr en bændur sögðust ætla að nýta sinn beitarrétt sem Landgræðslan svaraði og þá með því að úrskurða afréttinn óhæfan til beitar, án þess að skoða hann.
9.Úttekt Lbhí á afréttinum var að frumkvæði bændanna sjálfra.
10. Þórsmörk var afgirt þegar Skógræktin fékk hana á sínum tíma, en þeir aðilar tóku girðinguna niður.
11. Þetta er ekki hápólitískt mál. Ragnar Aðalsteinsson lögfræðingur benti bændum hins vegar á að þeir skyldu hafa rétt sinn á hreinu.

Ekkert af þessu kemur fram í fréttum Rúv. Það er því best að halda ró sinni og fara ekki á taugum yfir 30 kindum á Almenningum. Enginn þarf að óttast og bændur munu halda áfram að græða upp sem fyrr með viðunandi árangri.

Þórsmörk er hreint ekki að fara í rúst út af þessu frekar en af umgengni og notkun ferðamanna á svæðinu.

Guðmundur sagði...

Mér finnst reyndar ekkert af þessum atriðum sem þarna eru talinn upp réttlæta það að farið var með fé þarna inneftir.

Féð hefur ekkert þangað að gera, nákvæmlega ekkert nema þá til þess að eyðileggja gróðurinn í fullkomnu tilgangs- og tillits leysi þeirra sem fóru með féð þangað inn eftir

Nafnlaus sagði...

Tek fullkomlega undir þessi orð þín Guðmundur um tilgangsleysi og tillitsleysi gagnvart fólki í landinu.

Kindurnar eru í eigu tómstundabændanna Magnúsar sem er blikksmiður og einn eigenda Stjörnublikks í Kópavogi og Jóns Arnar Geirssonar tölvunarfræðings. Bíll á vegum flutningsmanna sat fastur eftir utanvegaakstur við Fagraskóg í Þórsmörk.

Kjarni þessa máls er auðvitað sá að með þessari frekju og yfirgangi, sem ekki verður líkt við neitt nema hryðjuverk er 80 ára friðun Þórsmerkur stefnt í voða. Endir er bundinn 25 ára friðun á Almenningum og þar sem opið er milli Þórsmerkur og Almenninga mun þetta fé blikksmiðsins og tölvunarfræðingsins renna óhindrað inn í skóga Þórsmerkur þar sem almenningur og félagasamtök hafa með þrotlausri vinnu í skapað gróðurvin alþýðu landsins til gleði og stolts.

Eigendurnir munu svo ef að líkum lætur smala þeim í haust á fjórhjólum og torfærumótorhjólum eins og bændur gera nú til dags í skjóli fornaldarlegrar undanþágu frá lögum um utanvegaakstur.

Nafnlaus sagði...

Hvernig í ósköpunum getur þú og aðrir fullyrt að fé sem sett er á uppgrætt land muni eyðileggja gróður á nærliggjandi 4000 hekturum. En ef þú vilt fá vitrænt innlegg, þá getur þú spurt mig.
Ég vann við beitarþolsrannsóknir hjá Rala í áratug.

Rétt skal vera rétt, skiptir ekki máli hvað skoðun fólk hefur á tilgangi- eða leysi.

Það er einhver undarleg móðursýki í gangi út af Almenningum þegar horft er til sambærilegra afrétta sem notaðir eru til beitar handan við Markarfljót. Þangað er fé rekið í góðri sátt við Landgræðslu og Skógrækt en er NÁKVÆMLEGA eins, sami jarðvegur, gróður og gróðurleysi auk ösku úr Eyjafjallajökli.

Af hverju er ekki hryðjuverkastarfsemi og tillitsleysi við fólkið í landinu að beita fé á þann afrétt.

Hví ertu að býsnast yfir fé öðru megin við Markarfljót en ekki beggja megin. Veistu til þess að það sé mikill munur á þessum afréttum?

Það er til nokkuð sem heitir jafnræði hvað sem mönnum finnst um kindur og beit.

(Ég heiti Berglind Hilmarsdóttir, bóndi á Núpi undir Eyjafjöllum og vil ekki vera ,,Nafnlaus said..")

Guðmundur sagði...

Sæl Berglind
Það er nú svo að það eru ákveðin svæði sem við viljum vernda umfram önnur.

Það er einnig svo að beit hefur ekki heppileg áhrif á viðvkæm svæði

Það er einnig þannig að það er ástæðulaust að vera að fara með fé inn á þetta svæði, því er verið að taka tilgangslausa áhættu.

Það verður forvitnilegt hvernig þessir einstaklingar, sem telja sig hafa meiri rétt en aðrir og sýna öðru fólki og náttúrunni fullkomið tillitsleysi, ætla sér að smala þessu fé í haust. Ég vill að RÚV fylgist með því og mun reyna hafa áhrif á að það verði gert og sendi þangað inn eftir myndatökufólk.

Þá fáum við að sjá afleiðingar þessarar ákvörðunar sveitarstjórnarinnar.

Það er kominn tími til að fólk láti af þessum aldagömlu viðhorfum sem þú hefur gagnvart fólki sem ekki er sömu skoðunnar á þú gagnvart náttúrunni. Þið hafið engin forréttindi umfram okkur hin á því að nýta náttúruna í Almenningum hálendisins.

Guðmundur sagði...

Sú ákvörðun tveggja fjáreigenda að senda nokkra tugi sauðfjár á Almenninga, í nágrenni Þórsmerkur, er óumdeilanlegt brot á fjallskilasamþykkt Rangárvallasýslu og fullkomlega siðlaus að reka fé á þennan ofurviðkvæma afrétt við Þórsmörk. Sá gróður sem að þarna er að koma upp úr auðnunum hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum í eldgosunum 2010 og 2011. Landbúnaðarháskóli Íslands mat þennan litla afrétt algjörlega óbeitarhæfan í úttekt 2011. Þannig að fara að níðast á þessum gróðri núna finnst mér algjörlega siðlaust og lýsir fullkomnu tillitsleysi gagnvart öðrum.

Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessir einstaklingar ætla sér að smala þessu fé í haust. Ég vill að RÚV fylgist með því og mun reyna hafa áhrif á að það verði gert og fjölmiðlar sendi þangað inn eftir myndatökufólk. Marga grunar að þessir einstaklingar hyggist fara þarna um á fjórhjólum og öðrum vélknúnum tækjum um þetta viðkvæma svæði og spóla það upp. Þá fáum við að sjá afleiðingar þessarar ákvörðunar sveitarstjórnarinnar.