miðvikudagur, 29. ágúst 2012

Snæfellsjökull nálgast fyrra horf


Nú er Þúfan efst á Snæfellsjökli íslaus. Ég hef gengið 14 sinnum á jökulinn langoftast á gönguskíðum. Fyrst þegar ég var að fara upp úr 1990 gekk ég á snjó frá þjóðveginum við Arnarstapa alla leið upp og þúfurnar voru ísi þaktar. Ég fór síðar oftast upp frá Ólafsvík, ók veginn upp á Jökulhálsinn upp fyrir vatnsbólin og komst í snjó stuttu fyrir ofan þorpið. Þetta var seint á vorin oftast um Hvítasunnuna þegar ég var í fermingarveislum í fjölskyldu konunnar vestur í Rifi.

Þá gekk maður upp hálsinn í góðu skíðafæri og kom að skíðalyftum í norðanverðum jöklinum og gekk upp með þeim. Þar var æfingasvæði á vorin fyrir skíðalandsliðið. Síðar voru skíðalyfturnar úr Hveradölum fluttar og settar upp í sunnaverðum jöklinum, þær hafa verið ónothæfar í mörg ár vegna snjóleysis.

Undanfarin á hefur það verið svo að jafnvel þó maður aki veginn upp Jökulhálsinn alla leið að jöklinum þarf að ganga drjúgan spotta til þess að komast í snjó. Á vorin er jökullinn síðan svo sprunginn að maður fer helst ekki upp nema þá um hávetur.

Samkvæmt upplýsingum frá jarðfræðingum eru jöklarnir okkar nú að nálgast sama ástand og var á landnámsöld, eða með öðrum orðum nú er kuldaskeið sem hófst á þrettándu öld með röð af fellisvorum er loks að renna sitt skeið á enda. Veturnir urðu oft fádæma harðir með miklum snjó og frosthörkum. Hafís lagðist að norðanverðu landinu og allt varð ísköld breiða.

Þetta gerðist reglulega með þeim afleiðingum að það tók fyrir beit, hey gengu til þurrðar og búsmalinn tók að falla. Menn og skepnur sem voru veik fyrir féllu fyrst. Enga björg var að fá og fólk úr sveitunum leitaði í kauptúnin til verslunarmanna eftir mat, en hann var ekki falur nema gegn greiðslu.

Á þessum tíma þóttu siglingar við þessar aðstæður mikil afrek. Ísing hlóðst á skipin og sjómenn urðu að berjast allan sólarhringinn við að brjóta ísinn. Það gerðist reglulega að saman fóru erfið sumur með litlum heyjum og ef því fylgdi harður vetur voru það kallaðir fellisvetur, eða fellisvor. Ef næsti vetur varð lítið skárri féllu oft færri, en menn betur undir hann búnir, það mætti kannski orða það þannig að þeir sem stóðu veikastir voru þá þegar fallnir.

Allmörg nöfn voru viðhöfð á þessum illu viðburðum eins og t.d.: Undravetur (1118), Jökulvetur hinn mikli (1233), Fellisvetur (1188), Fellisvetur hinn mikli (1331), Harði veturinn (1552), Lurkur (1601), Píningin (1602), Eymdarvetur (1604), Svellavetur  (1625), Jökulvetur (1630), Hvíti vetur (1633), Rollubani (1648), Hestabani (1660), Snjóavetur hinn mikli (1802), Klaki (1881), Fellisvor (1882).

sunnudagur, 26. ágúst 2012

Afnemum verðtrygginguna - með viðbót

(Vegna einkennilegra ummæla og persónulegra ávirðinga í minn garð vegna þessa pistils þá hef ég bætt inn nokkrum atriðum til þess að skýra betur hvað ég á við. Efnislega stendur það sama í pistlinum og áður.)

Þingmenn tala um að gera eitthvað í verðtryggingunni, það var mikið. Þeir hafa rætt um hversu ómöguleg verðtrygging sé og það verði að afnema hana. Við erum mörg sammála því að það verði gert. En þegar við höfum spurt hvernig eigi að gera það og hvað eigi að koma í staðinn, hafa aldrei komið svör.

Framsetning helstu talsmanna um afnám verðtryggingar er með þeim hætti að þeir gefa sér að lánakostnaður lækki sem nemi því fjármagni sem fer inn í verðtryggingarkerfið. Eða með öðrum orðum, að hluti lánakerfisins væri með neikvæðri ávöxtun. Einhver þarf að greiða það, þá er spurning hver eigi að gera það, í þessu sambandi má minna oftast hefur verið nefnd tala um 300 milljarða, og menn hafa ekki getað sagt hvaðan þeir peningar eigi koma, stundum hefur verið talað um að þetta sé herfang sem öryrkjar og lífeyrisþegar í almennu lífeyrissjóðunu hafi hrifsað til sín.

Fyrir liggur að örorku- og lífeyrisþegar hafa hafnað því og munu fara fram og verja stjórnarskrárvarinn eignarrétt sinn á sparifé sínu í lífeyrissjóðunum. Þeim samþykktum hafa einnig fylgt þau skilaboð að engin setji sig upp á móti því að tekið verði á lánavanda heimilanna, en það verði þá að gera það með almennri skattheimtu, ekki senda reikninginn einunigs til örorku- og lífeyrisþega í almennu lífeyrissjóðunum. 

Ef menn vilja aftur á móti reikna með þannig að lífeyrissparnaður skerðist ekki og þar með að lífeyrir- og örorka  haldi verðgildi þá taka við fullir breytilegir vextir, sem setur lánþega í mun verri stöðu en þeir eru í dag. Það er nákvæmlega það sem hefur staðið í mönnum þegar farið er að skoða niðurfellingu verðtryggingarkerfisins.

Sumir hafa haldið því fram að það séu stjórnir lífeyrissjóðanna sem standi í vegi fyrir því að þetta verði gert, þær hafa ekkert með það er gera, það var Alþingi sem setti lögin árið 1983 og getur eitt breytt þeim. Það var reyndar gert vegna þess að þá var allt sparifé landsmanna í bönkum og lífeyrissjóðum hafði þá brunnið upp á verðbólgubálinu, og fólk vildi hætta öllum sparnaði.

Á þessum tíma var mikið rætt um það innan verkalýðshreyfingarinnar hvort festa ætti laun með sama hætti, en því var mótmælt þar sem með því væri verið að setja lögbundið þak á kjarabaráttuna. Sú ákvörðun þáverandi verkalýðsforystu reyndist rétt, þar sem laun hafa frá þessum tíma hækkað um 30 % umfram neyslutrygginguna, það er að segja að ef það hefði verið gert væru launataxtar um 30% lægri en þeir eru í dag.

Svo það sé á hreinu þá skulum við hafa það í huga að ef verðtrygging yrði afnumin myndu rekstrareikningar almennu lífeyrissjóðanna snarlagast. T.d. hefur verið bent á að ef verðtrygging hefði verið afnuminn um síðustu aldamót, þ.e. árið 2000, væri einstaklingur sem í dag væri að fá 190 þús. kr. úr lífeyrissjóði á mánuði að fá einungis um 100 þús. kr. Eða með öðrum orðum öryrkjar og lífeyrisþegar á almennum vinnumarkaði væru látnir greiða niður lán landsmanna. 

Stjórnendur almennu lífeyrissjóðanna gætu þá kynnt fína rekstrareikninga á ársfundum og þyrftu ekki að vera framkvæma óvinsælar skerðingar, kerfið sæi um þær sjálfvirkt. Reyndar væri ójöfnuður lífeyrisþega orðin margfalt meiri en áður, því lífeyrisþegar í opinberu sjóðunum væru með sitt á þurru. Þetta kallaði reyndar á um 4 – 6% skattahækkanir því útgjöld Tryggingarstofnunar hefðu vaxið í réttu hlutfalli við fall útgjalda almennu lífeyrissjóðanna.

Það er æpandi skortur á vitrænni umræðu um þessi mál, eins og svo mörg önnur. Afnám verðtryggingar ein og sér skapar önnur vandamál og lausn þeirra verður að liggja fyrir þegar ákvörðun um afnám verðtryggingar verður tekin. Það verður ekki komist hjá því að ráðast að rót vandans, sem er klárlega að stærstum hluta óvönduð og óábyrg stjórn efnahagsmála. Stjórnmálamenn hafa nýtt krónuna til þess að færa reglulega kostnað af óábyrgum ákvörðunum yfir á launamenn með gengisfellingum. Það er stóri kostur krónunnar eins og aðdáendur hennar benda réttilega á, það er svo gott að geta leiðrétt of góða kjarasamninga stéttarfélaganna með því að fella gengi krónunnar.

Um fjórðungur launa verkafólks hefur undanfarna áratugi farið í að standa undir rekstrarkostnaði krónunnar. T.d. má benda á að frá því að Rafiðnaðarsambandið var stofnað árið 1970 hefur það samið um launahækkanir sem eru ríflega 3000% meiri en félagar okkar á hinum Norðurlöndunum hafa samið um. Þeir búa við verðbólgu sem er um þrisvar sinnum lægri en hér og þar af leiðandi jafnmikla lækkun vaxta og þá enga verðtryggingu.
 






Grunnvextir á Íslandi eru að jafnaði 4-5% hærri en í nágrannalöndum, það er afleiðing mikillar og viðvarandi verðbólgu sem sveiflur krónunnar valda. Óverðtryggðir vextir eru um 3% hærri en verðtryggðir vextir. Sveiflukennd króna veldur gríðarlegum kostnaði fyrir samfélagið vegna hins mikla vaxtamunar. Hvert vaxtaprósent kostar heimilin um 15 milljarða kr. á ári, eða um 18% af ráðstöfunartekjum. Hvert vaxtaprósent kostar atvinnulífið um 17 milljarða.kr. á ár og hið opinbera um 14 milljarða.kr. á ári.
Ef settur væri frakki á íslenska stjórnmálamenn og þeir þvingaðir ábyrgari stjórnarhátta og verðbólgu á svipuðu stigi og hún er í nágrannalöndum okkar, væru vextir á langtímalánum milli 2 og 3% og verðtryggingarálög væru óvirk. Hér er á ferðinni mesta hagsmunamál íslenskra launamanna.
Við erum mörg sem bíðum spennt eftir því að þingmenn taki nú loks til við að afnema verðbólgu, gengisfellingar og okurvexti og verðtryggingarkerfið sem er reynda rangnefni það er greiðsludreifingarkerfi á okurvöxtum.  Stöðugleiki í efnahags- og félagslegu tilliti er algjör forsenda árangurs í uppbyggingarstarfinu. Krónan búin að leika sitt hlutverk og býður einungis upp á höft, háa vexti og rýran kaupmátt. Aðild að ESB og upptaka evru eina færa leiðin úr þessum ógöngum og ætti því að vera forgangsverkefni allra.

Flatey


Hef verið á flakki síðustu viku þar á meðal fórum við út í Flatey og vorum þar nokkra daga. Flatey hefur ákveðna sérstöðu í hugum margra, rómantík og seiðmagnað andrúmsloft. Það er fábreytnin sem verður til þess að maður nýtur þess sem eyjan hefur upp á að bjóða. Hvíldin felst í því að það er góður tími til þess að skríða jafnvel upp í aftur og lesa aðeins meira og fara svo aftur í stuttan göngutúr.

Húsin í þorpinu hafa flest verið endurbyggð í sína upprunalegu mynd með myndarlegum hætti. Breyting hefur orðið á ferðamenningu með tilkomu hótelsins. Þar er búið að endurbyggja þrjú hús á listilegan hátt. Fágað og vandað handbragð iðnaðarmanna blasir við hvar sem litið er. Ingibjörg Á. Pétursdóttir hótelstýra hefur stutt við það andrúmsloft sem er í húsunum með góðu vali á húsgögnum og munum.

Margir hafa farið fögrum orðum um eyjuna og lífið þar, t.d. kvað Þórbergur Þórbergsson :
Í Flatey var ég í fjóra daga,
fann þar yndi margt
Eyjan er eins og aldingarður,
alla daga hlýtt og bjart.
Í Flatey vil ég ævi una
á eintali við náttúruna.

Vatnsenda Rósa sagði:
Væri ég tvítugsaldri á
og ætti von til þrifa
Mér ég kjósa myndi þá
að mega í Flatey lifa.

Matthías Jochumsson :
Fögur eins og forðum
fyrst, er veldisorðum.
Guð þér blómann gaf,
Skikkjan græn í skorðum
skín þér undir borðum.
græðis gullið haf.

laugardagur, 18. ágúst 2012

Auknar fjárfestingar


Það var ekki af ástæðulausu að við gerð Stöðugleikasáttmála var horft til fjárfestinga þegar rætt var hvernig blása mætti nýju lífi í efnahagslífið. Ef takast ætti að koma íslensku hagkerfi úr þeim vanda sem það væri í, yrði að auka verðmætasköpun umtalsvert. Þá fyrst væri hægt að greiða niður skuldir og koma í veg fyrir enn frekari niðurskurð á velferðarsamfélaginu. Án aukinna fjárfestinga væri óframkvæmanlegt að viðhalda og þaðan af síður að auka framleiðslustig hagkerfisins.

Þeir sem hafa komið nálægt kjarasamningum undanfarin misseri af fullri alvöru eða fylgst með þeim, muna vel að í vinnu við stöðugleikasáttmála er talið raunhæft að ná fjárfestingum upp í um 280 – 380 milljarða króna á ári.

Hvað varðar framkvæmdir hefur verið rætt um að fá hingað fjárfesta til þess að byggja upp fyrirtæki, þar er hefur verið mest áberandi álver í Helguvík og tengdar framkvæmdir. Í þessu sambandi hefur ekki verið talað um að það skorti fjárfestingar af hálfu ríkis, enda er það ekki ríkið sem stæði að þessum framkvæmdum, heldur er vandinn sá að stjórnmálamönnum takist (alþingis- og sveitarstjórnar) að leysa þá hnúta sem hafa hingað til staðið í veginum fyrir því að fyrirtækin geti lokið samningum sín á  milli og svo fjármögnunarsamningum í kjölfar þess.

Einnig var rætt í hinum þríhliðaviðræðum um verkefni sem væru í einkafjármögnun og fjárfestingar utan ríkisreiknings eins og byggingu Landspítalans, Samgöngumiðstöð, tvöföldun Hvalfjarðargangna, Vaðlaheiðargöng, Suðurlandsveg, tvöföldun Kjalarnesvegar og Sundabraut.

Það sem hefur tafið þessi mála eða jafnvel komið í veg fyrir það þau nái fram að ganga hefur verið gríðarlegt ósamkomulag milli stjórnmálamanna og venjubundnum vinnubrögðum um að koma í veg fyrir að mótaðilinn geti náð fram sínum markmiðum. Þar hefur þjóðhagslegum hagsmunum verið kastað til hliðar í ómerkulegu vopnaskaki þingmanna. Einnig hafa verið áberandi gríðarlegar mótsagnir í málatilbúnaði stjórnmálamanna. Margir þeirra hafa talað fyrir uppbyggingu fyrirtækja og jafnvel aukna sölu á orku innanlands og utan, en síðan hafa sömu aðilar talað gegn uppbyggingu orkuvera. Það hefur leitt til þess að þessar framkvæmdir hafa ekki komist af stað og áætlanir í mörgum tilvikum gerðar óraunhæfar.

mánudagur, 13. ágúst 2012

Sigur vörslumanna sérhagsmuna



Sé litið yfir efnahagsstjórn undanfarna áratugi blasa við aðhaldslaus vinnubrögð tækifærissinnaðra stjórnmálamanna í atkvæðaleit. Stjórnendur peningamála undanfarna tvo áratugi gerðu alvarleg mistök í aðdraganda þess að gjaldmiðillinn ofreis og hrundi með falli bankanna í kjölfarið og gjaldþrots Seðlabankans.

Samskonar vinnubrögð hafa birst okkur undanfarnar vikur í hnotskurn t.d. þegar litið er til áætlana um Vaðlaheiðagöng og rekstur Hörpu. Eitt helsta hlutverk ESB hefur verið að veita stjórnmálamönnum aðhald eins við höfum séð t.d. í Grikklandi undanfarið. Stöðva óráðssíu og koma efnahagsstjórn í raunsæjan farveg.

Krónan orsök spillingar
ESB andstæðingar verja krónuna á hverju sem gengur. Gott sé að hafa sveigjanlegan gjaldmiðil svo leiðrétta megi slaka efnahagsstjórn með því að færa peninga frá launafólki til útflutningsfyrirtækja. Það væri skerðing á fullveldi sérhagsmuna ef krónan væri lögð niður segir helsti efnahagssérfræðingur þeirra Ragnar Árnason.

Í skýrslum um íslenska efnahagsstjórn kemur fram að jafnaði hafi um 30% tekna heimilanna undanfarna áratugi hafi horfið við leiðréttingamillifærslur framkvæmdar með gengisfellingum krónunnar. Þarna er verið að framkvæma purkunarlausa eignaupptöku hjá launamönnum og það er réttlætt með því að verið sé að halda uppi atvinnustigi í atvinnubótavinnu þar sem afraksturinn rennur milliliðalaust frá heimilunum til fárra efnamanna.

Síðan beina óvandaðir stjórnmálamenn og varðhundar sérhagsmuna spjótum sínum að verkalýðshreyfingunni og halda því fram að kaupmáttarhrap sé tilkomið vegna slakra kjarasamninga!! Verðbólga, okurvextir og verðtrygging sé afkvæmi lífeyrissjóða!!

Verðtrygging afleiðing verðbólgu og gengisfellinga
Svo það sé á hreinu þá settu lífeyrissjóðirnir ekki á verðtryggingu, það voru stjórnmálamenn. Verðtrygging er afleiðing hárra vaxta, sem er svo afleiðing verðbólgu sem myndast vegna slakrar efnahagsstjórnunar. Það væri ákaflega hagkvæmt fyrir lífeyrissjóðina rekstrarlega séð ef verðtrygging yrði afnumin og myndi leysa allan rekstrarvanda þeirra og þeir myndu skila mun betri rekstrarafkomu því lífeyrir myndi snarlækka. Það ættu að vera öllum ljóst, því allir vita að um helmingur eigna lífeyrissjóða er bundinn í verðtryggðum lánum, en öll útgjöld þeirra eru aftur á móti verðtryggð.

Þannig að allar fullyrðingar um að lífeyrissjóðirnir vilji viðhalda verðtryggingu er barnalegt gaspur. Ef verðtrygging myndi verða afnuminn myndi hlutur lífeyrissjóða í greiðslu ellilífeyris og örorkubóta snarminnka og hlutur Tryggingarstofnunar snarhækka, sem myndi valda líklega allt að 6% hækkun skatta, eða samsvarandi niðurskurði einhversstaðar í velferðarkerfinu.

Á meðan hér eru við völd menn sem komast upp með svona veruleikafirrtar fullyrðingar, þá er ekki von á góðu fyrir launamenn.

Blóðsúthellingalaus leiðrétting of góðra kjarasamninga
Frá stofnun Rafiðnaðarsambands Íslands 1970 til þessa dags hefur sambandið samið um ríflega 3.o00% launahækkanir, á sama tíma hefur Danska rafiðnaðarsambandið samið um liðlega 300% launahækkanir. Þetta hefur einn helsti fjármálaspekingur Sjálfstæðisflokksins kallað bestakostinn við að hafa eigin gjaldmiðil því þá sé svo auðvelt að framkvæma blóðsúthellingalausa leiðréttingu of góðra kjarasamninga stéttarfélaganna.

Þrátt fyrir að hafa gert um 3.000% lakari kjarasamninga en við síðustu 40 ár er kaupmáttur í Danmörku er hærri en hér, vextir á lánum eru nálægt þrefalt lægri og í Danmörku héldu Danir eignum sínum á meðan íslendingum var gert að horfða upp að á lán okkar stökkbreyttust vegna kerfishruns krónunnar og 20 þús. íslensk heimili urðu gjaldþrota.

Upptaka alvörugjaldmiðils er helsta hagsmunamál launamanna
Mesta hagsmunamál íslenskra launamanna er að koma böndum á hamfarastjórn slakra stjórnmálamanna og varðhunda sérhagsmuna aðilanna, sem slá um sig þessa daga með innistæðulausum sigrum byggðum á fölskum gjaldmiðli í höftum. Það er skelfilegt ef nú eigi þessu liði að takast að koma í veg fyrir að íslenskir launamenn búi við samskonar réttlæti og tíðkað er í þróuðum eins og t.d. á hinum norðurlöndunum. Okkur er ætlað búa áfram í landi þar sem hagsmunir 20% þjóðarinnar eru teknir fram fyrir hina.

miðvikudagur, 8. ágúst 2012

Fjármálaráðherra undirbýr einn lífeyrissjóð


Það hefur oft komið fram að stjórnmálamenn hafa vikið sér undan því að horfast í augu við kostnaðinn af því lífeyriskerfi sem þeir hafa búið sjálfum sér og nokkrum opinberum starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga. Þetta kerfi er ekki sjálfbært eins og lífeyriskerfi annarra landsmanna, ekki dugar að hafa töluvert hærra iðgjald en greitt er af öðrum landsmönnum, heldur þarf auk þess að leggja kerfinu til aukalega tugi milljarða árlega.

Í dag er staða þessa kerfis sú að það vanta um 500 – 600 milljarða inn í það. Einungis ein raunhæf leið er úr þessum vanda það greiða upp Þessa skuld samfara því að samræma lífeyrisréttindi landsmanna.

Iðgjald snýst ekki bara um lífeyrisgreiðslur, það er aðgangur að víðtæku tryggingarkerfi, með örorkubætur, makalífeyri og barnabætur, sá hluti samsvarar líklega nálægt 4 - 6% tekjuskattsstofni og lífeyrishlutinn 8 - 10% tekjuskattsstofni.

Ef sameina á alla lífeyrissjóðina í einn, verður ekki komist hjá því að taka ákvörðun um hvort menn ætli sér að skerða réttindi hjá einhverjum hópum. Eða hið gagnstæða að færa þá sem hafa minni réttindi upp, það er ekki framkvæmanlegt nema að hækka iðgjöldin umtalsvert hjá þeim sem búa við lakari réttindi.

Hér minni ég á að Fjármálaeftirlitið hefur gefið það út að það verði að hækka iðgjald opinberu sjóðanna upp í 19% eigi þessir sjóðir að vera sjálfbærir, ef jafna á t.d. lífeyrisréttindi láglaunafólks á almennum markaði við þá sem eru í opinbera sjóðnum þarf að hækka iðgjöld þeirra um 7%.

Ég fullyrði að stórir hópar myndu aldrei samþykkja að iðgjald til lífeyrissjóða verði hækkað um allt að 7%. Ef það yrði gert yrði það líklega verða gert með því að fella 4% séreignariðgjaldið inn í samtryggingariðgjaldið, ásamt því að næsta kauphækkun yrði að auki tekinn inn í iðgjaldið. Þeir sem búa við bestu lífeyrisréttindin munu berjast kröftuglega gegn því að þeirra lífeyrisréttindi verði skert.

Ef sameina á lífeyrissjóðina án þess að breyta iðgjöldum, er það ekki framkvæmanlegt án þess að einhverjir hópar verði að sætta sig við umtalsverðar skerðingar. Þar má t.d. benda á að jafnvel þó „einungis“ almennu lífeyrissjóðirnir yrðu sameinaðir í einn sjóð og iðgjaldið yrði óbreytt áfram, myndi það samt sem áður verða mikill vandi og framkalla miklar deilur.


Skerða réttindi þeirra sem hafa mest?

Jafna öll réttindi upp á við og hækka iðgjöldin?

Eða er þetta bara leið til þess að losa ríkissjóð undan því að greiða uppsafnaðan vanda slakrar og óvandaðrar efnahagsstjórnunar undanfarinna áratuga til almennu lífeyrissjóðanna.

Ég giska á hið síðasta.

Ég minni á að allir sjóðir sem stjórnmálamenn hafa stjórnað hafa orðið gjaldþrota og vel það. Bjarghringur hins íslenska samfélags við Hrunið hafa verið hinar gríðarlegu eignir almennu lífeyrissjóðanna. Ég geng út frá því að fjármálaráðherra ætli sér að setja nokkra „velvalda stjórnmálamenn“ í stjórnarsæti lífeyrissjóðs allra landsmanna. Þar með opnast leiðir fyrir tækisfærissinnaða stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum að losa sig við reikningnum fyrir sínum Vaðlaheiðagöngum.


Að marggefnu tilefni þykist ég vita að sumir vilji túlki orð mín á þann veg að finni því allt til foráttu að lífeyrissjóðum verði fækkað. Ég hef einungis verið að benda á að þetta er ekki eins einfalt og margir virðast telja og ég er næsta viss um að stórir hópar hafi takmarkaðan áhuga á að sameina alla sjóðina.

Það er tæknilega framkvæmanlegt að stefna á einn lífeyrissjóð, en menn verða þá að leggja það vel niður fyrir sér hversu mikil réttindi þessi sjóður eigi að veita, og þá er hægt að reikna í hversu hátt iðgjaldið þurfi að vera.

Ég hef bent á að menn verða þá að reikna með að sumir hópar muni örugglega velja að loka sínum sjóð, frekar en að hann renni inn í einn sameinaðan sjóð. Þar munu viðkomandi sjóðsfélagar vísa til stjórnarskrárvarins eignarréttar og hafna skerðingum. Það er reyndar tekið fram í lögum að sameiningar sem valdi skerðingum eins hóps umfram annarra, eru bannaðar.

Ég tel raunsætt til að byrja með, að stefna á 4 – 5 sjóði á einhverjum tilteknum tíma, eigi að nást þokkaleg sátt um málið. Ég viðurkenni reyndar mínar efasemdir um að menn nái svo stóru skrefi í fyrstu umferð, líklegra væri að fækka þeim um helming.

mánudagur, 6. ágúst 2012

Bakhlið hins íslenska efnahagsundurs

Ég er fastur  pistlahöfundur í norsku dagblaði hér er ágústgreinin:

Þegar erlendir menn eru að skoða Ísland í dag og „hið íslenska efnahagsundur“ virðast þeir ekki gera sér grein fyrir ákveðnum séríslenskum einkennum. Þar ber vitanlega hæst liðónýtur gjaldmiðill, sem er varinn með gjaldeyrishöftum og útflutningsfyrirtækjum bjargað með því að færa rekstrarvandann yfir á launamenn í gegnum reglubundnar gengisfellingar krónunnar og þá um lækkun launa. Þetta veldur því að verðbólga hér er helmingi hærri en þekkist í nágrannalöndum okkar og vextir eru þar afleiðandi tvöfalt hærri hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Við upphaf 21 aldarinnar voru gerðar umfangsmiklar breytingar í peningaumhverfi Íslands. Gengisskráning er gefin frjáls, Seðlabankinn er gerður sjálfstæður, tekin er upp verðstýrð peningastefna, og bankarnir eru einkavæddir. Opnað er á frjáls flæði fjármagns og afleiðingarnar koma strax fram í gífurlegri aukningu peningamagns í umferð. Þessi hömlulausa prentun krónuseðla var afleiðing á fjármálastarfsemi bankanna og vaxta- og peningastefnu Seðlabankans. Afleiðingar innstreymis erlends lánsfjár, aflandskróna og hlutabréfafúsks. Þarna er að finna snjóhengjuna margumræddu.

Ef gjaldeyrishöftum á Íslandi verður aflétt án þess að gripið verði til sérstakra varnarráðstafana, mun að öllum líkindum skella á önnur risavaxinn efnahagslega kreppa í formi mikillar gengisfellingu krónunnar, sem myndi valda miklum verðbólguskell og ofurvöxtum sem myndi kaffæra til viðbótar fjölda heimila og fyrirtækja. Sá árangur sem nú er kallaður hið íslenska efnahagsundur er framhlið leiktjalda handstýrðs gjaldmiðils.

Aflandskrónur, erlendar krónueignir kröfuhafa bankanna og krónueignir margra landsmanna sem myndu vilja skipta í erlendan gjaldeyri, eru svo stór vandi að hann er vart skiljanlegur venjulegu fólki. Það sem verra er, vandinn fer vaxandi. Það er einungis ein raunsæ leið úr þessu og hún er að ná samningum við Seðlabanka ESB um upptöku Evru og fá aðstoð til þess að komast í gegnum hina ógnvænlegu snjóhengju.

Sé t.d. þau húsnæðislán skoðuð sem íslenskum fjölskyldum standa til boða  borin saman við húsnæðiskaup danskrar fjölskyldu, þá greiðir íslenska fjölskyldan þegar upp er staðið tvöfalt meira fyrir sitt hús, en sú danska. Vöruverð á Íslandi er hærra. Ísland náði botni í kreppunni árið 2010, þá var kaupmáttarstigið svipað og verið hafði árin 2001-2. Við höfum í dag endurheimt um helming af falli kaupmáttarins frá toppi bóluhagkerfisins árið 2007. En það segir ekki allt um lífskjaraskerðinguna, kjörin versnuðu meir vegna skemmri vinnutíma, meira atvinnuleysis og aukinnar skuldabyrði heimilanna.

Lífskjaraskerðingin kom til vegna gengisfalls krónunnar, sem íslenska valdastéttin dásamar og vill alls ekki vera án. Lífskjörin á árunum 2001 til 2007 voru að umtalsverðu leyti byggð á froðu, með flæði ódýrs lánsfjár inn í landið og spilagaldra fjárglæframanna, sem kom fram í aukinni skuldsetningu fyrirtækja og heimila, of hátt skráðu gengi og misheppnaðri peningastjórnun Seðlabankans.

Við Hrunið afhjúpaðist siðferðisleg og hugmyndafræðileg kreppa, þar opinberaðist þjóðinni stétt manna, sem töldu sig óbundna að þurfa að greiða til samfélagsins. Þeir tæmdu bankana innan frá, keyptu upp fyrirtæki seldu öll verðmæti úr þeim og komu þessu góssi undan í erlendum skattaskjólum. Í dag er enn við lýði stór atvinnugrein sem beitir öllum ráðum til þess að koma sér hjá því að þurfa að skila samfélaginu samgjörnum arði af nýtingu þeirra á þjóðarauðlindinni sem er í hafinu umhverfis Ísland. Þessi hópur berst með öllum ráðum gegn því að Stjórnarkrá landsins verði breytt og eignaréttur þjóðarinnar tryggður, þeir hafa úr miklum sjóðum að spila til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og styðja „rétta“ aðila í kosningum.

80% þjóðarinnar býr við það ástand að vera gert að þola skert laun í gegnum endurteknar gengisfellingar krónunnar. Launamönnum eru með því gert að greiða aukaskatt vegna Hrunsins og fjármagna uppgönguna, á meðan litli hluti þjóðarinnar kemur sér undan því að vera þátttakandi í þeirri skattlagningu. Um 20 þús. íslensk heimili misstu allt sitt, það gerðist ekki í nágrannalöndum okkar þrátt fyrir að þar væri á ferð efnahagskreppa. Þessi staða er enn til staðar, íslensk heimili eru ennþá í meiri vanda en heimilin á hinum Norðurlandanna.

Á þessu ári hafa verið ört vaxandi útflutningstekjur af miklum makrílveiðum, sem gæti verið tímabundinn arður þar sem ekki hafa náðst samningar við aðrar þjóðir um hvernig skipta eigi þessum veiðum. Auk þess skiptir miklu aukning er í ferðaþjónustu vegna lágs gengis krónunnar. Ef ekki tekst að takast á við efnahagsvandan umheimsins þá er allar líkur á að útflutningstekjur Íslendinga minnki umtalsvert. Í ferðaþjónustu hafa skapast ný störf, en það eru ekki hálaunastörf og mikið um aðflutt fólk sem fer í þau störf.

En þetta eru skammtímalausnir, það blasir við íslendingum að þurfa að leysa úr gjaldmiðilsmálum sínum til framtíðar. Krónan hefur reynst vel við að auka útflutningstekjur með því að gengisfella hana, en vert er að halda því vel til haga að krónan var mikill gerandi í því að hér varð fullkomið kerfishrun haustið 2008, það gerðist ekki í nágrannalöndum okkar. Stígandi lukka er best, stóra vandamálið er óleyst við búum við gjaldmiðil sem ver lítinn hluta þjóðarinnar, hann hagnast á því að viðhalda þessum gjaldmiðli, á meðan stóri hlutinn býr við lakari kost en þekkist í nágrannalöndum okkar.