sunnudagur, 26. ágúst 2012

Afnemum verðtrygginguna - með viðbót

(Vegna einkennilegra ummæla og persónulegra ávirðinga í minn garð vegna þessa pistils þá hef ég bætt inn nokkrum atriðum til þess að skýra betur hvað ég á við. Efnislega stendur það sama í pistlinum og áður.)

Þingmenn tala um að gera eitthvað í verðtryggingunni, það var mikið. Þeir hafa rætt um hversu ómöguleg verðtrygging sé og það verði að afnema hana. Við erum mörg sammála því að það verði gert. En þegar við höfum spurt hvernig eigi að gera það og hvað eigi að koma í staðinn, hafa aldrei komið svör.

Framsetning helstu talsmanna um afnám verðtryggingar er með þeim hætti að þeir gefa sér að lánakostnaður lækki sem nemi því fjármagni sem fer inn í verðtryggingarkerfið. Eða með öðrum orðum, að hluti lánakerfisins væri með neikvæðri ávöxtun. Einhver þarf að greiða það, þá er spurning hver eigi að gera það, í þessu sambandi má minna oftast hefur verið nefnd tala um 300 milljarða, og menn hafa ekki getað sagt hvaðan þeir peningar eigi koma, stundum hefur verið talað um að þetta sé herfang sem öryrkjar og lífeyrisþegar í almennu lífeyrissjóðunu hafi hrifsað til sín.

Fyrir liggur að örorku- og lífeyrisþegar hafa hafnað því og munu fara fram og verja stjórnarskrárvarinn eignarrétt sinn á sparifé sínu í lífeyrissjóðunum. Þeim samþykktum hafa einnig fylgt þau skilaboð að engin setji sig upp á móti því að tekið verði á lánavanda heimilanna, en það verði þá að gera það með almennri skattheimtu, ekki senda reikninginn einunigs til örorku- og lífeyrisþega í almennu lífeyrissjóðunum. 

Ef menn vilja aftur á móti reikna með þannig að lífeyrissparnaður skerðist ekki og þar með að lífeyrir- og örorka  haldi verðgildi þá taka við fullir breytilegir vextir, sem setur lánþega í mun verri stöðu en þeir eru í dag. Það er nákvæmlega það sem hefur staðið í mönnum þegar farið er að skoða niðurfellingu verðtryggingarkerfisins.

Sumir hafa haldið því fram að það séu stjórnir lífeyrissjóðanna sem standi í vegi fyrir því að þetta verði gert, þær hafa ekkert með það er gera, það var Alþingi sem setti lögin árið 1983 og getur eitt breytt þeim. Það var reyndar gert vegna þess að þá var allt sparifé landsmanna í bönkum og lífeyrissjóðum hafði þá brunnið upp á verðbólgubálinu, og fólk vildi hætta öllum sparnaði.

Á þessum tíma var mikið rætt um það innan verkalýðshreyfingarinnar hvort festa ætti laun með sama hætti, en því var mótmælt þar sem með því væri verið að setja lögbundið þak á kjarabaráttuna. Sú ákvörðun þáverandi verkalýðsforystu reyndist rétt, þar sem laun hafa frá þessum tíma hækkað um 30 % umfram neyslutrygginguna, það er að segja að ef það hefði verið gert væru launataxtar um 30% lægri en þeir eru í dag.

Svo það sé á hreinu þá skulum við hafa það í huga að ef verðtrygging yrði afnumin myndu rekstrareikningar almennu lífeyrissjóðanna snarlagast. T.d. hefur verið bent á að ef verðtrygging hefði verið afnuminn um síðustu aldamót, þ.e. árið 2000, væri einstaklingur sem í dag væri að fá 190 þús. kr. úr lífeyrissjóði á mánuði að fá einungis um 100 þús. kr. Eða með öðrum orðum öryrkjar og lífeyrisþegar á almennum vinnumarkaði væru látnir greiða niður lán landsmanna. 

Stjórnendur almennu lífeyrissjóðanna gætu þá kynnt fína rekstrareikninga á ársfundum og þyrftu ekki að vera framkvæma óvinsælar skerðingar, kerfið sæi um þær sjálfvirkt. Reyndar væri ójöfnuður lífeyrisþega orðin margfalt meiri en áður, því lífeyrisþegar í opinberu sjóðunum væru með sitt á þurru. Þetta kallaði reyndar á um 4 – 6% skattahækkanir því útgjöld Tryggingarstofnunar hefðu vaxið í réttu hlutfalli við fall útgjalda almennu lífeyrissjóðanna.

Það er æpandi skortur á vitrænni umræðu um þessi mál, eins og svo mörg önnur. Afnám verðtryggingar ein og sér skapar önnur vandamál og lausn þeirra verður að liggja fyrir þegar ákvörðun um afnám verðtryggingar verður tekin. Það verður ekki komist hjá því að ráðast að rót vandans, sem er klárlega að stærstum hluta óvönduð og óábyrg stjórn efnahagsmála. Stjórnmálamenn hafa nýtt krónuna til þess að færa reglulega kostnað af óábyrgum ákvörðunum yfir á launamenn með gengisfellingum. Það er stóri kostur krónunnar eins og aðdáendur hennar benda réttilega á, það er svo gott að geta leiðrétt of góða kjarasamninga stéttarfélaganna með því að fella gengi krónunnar.

Um fjórðungur launa verkafólks hefur undanfarna áratugi farið í að standa undir rekstrarkostnaði krónunnar. T.d. má benda á að frá því að Rafiðnaðarsambandið var stofnað árið 1970 hefur það samið um launahækkanir sem eru ríflega 3000% meiri en félagar okkar á hinum Norðurlöndunum hafa samið um. Þeir búa við verðbólgu sem er um þrisvar sinnum lægri en hér og þar af leiðandi jafnmikla lækkun vaxta og þá enga verðtryggingu.
 






Grunnvextir á Íslandi eru að jafnaði 4-5% hærri en í nágrannalöndum, það er afleiðing mikillar og viðvarandi verðbólgu sem sveiflur krónunnar valda. Óverðtryggðir vextir eru um 3% hærri en verðtryggðir vextir. Sveiflukennd króna veldur gríðarlegum kostnaði fyrir samfélagið vegna hins mikla vaxtamunar. Hvert vaxtaprósent kostar heimilin um 15 milljarða kr. á ári, eða um 18% af ráðstöfunartekjum. Hvert vaxtaprósent kostar atvinnulífið um 17 milljarða.kr. á ár og hið opinbera um 14 milljarða.kr. á ári.
Ef settur væri frakki á íslenska stjórnmálamenn og þeir þvingaðir ábyrgari stjórnarhátta og verðbólgu á svipuðu stigi og hún er í nágrannalöndum okkar, væru vextir á langtímalánum milli 2 og 3% og verðtryggingarálög væru óvirk. Hér er á ferðinni mesta hagsmunamál íslenskra launamanna.
Við erum mörg sem bíðum spennt eftir því að þingmenn taki nú loks til við að afnema verðbólgu, gengisfellingar og okurvexti og verðtryggingarkerfið sem er reynda rangnefni það er greiðsludreifingarkerfi á okurvöxtum.  Stöðugleiki í efnahags- og félagslegu tilliti er algjör forsenda árangurs í uppbyggingarstarfinu. Krónan búin að leika sitt hlutverk og býður einungis upp á höft, háa vexti og rýran kaupmátt. Aðild að ESB og upptaka evru eina færa leiðin úr þessum ógöngum og ætti því að vera forgangsverkefni allra.

Engin ummæli: