sunnudagur, 26. ágúst 2012

Flatey


Hef verið á flakki síðustu viku þar á meðal fórum við út í Flatey og vorum þar nokkra daga. Flatey hefur ákveðna sérstöðu í hugum margra, rómantík og seiðmagnað andrúmsloft. Það er fábreytnin sem verður til þess að maður nýtur þess sem eyjan hefur upp á að bjóða. Hvíldin felst í því að það er góður tími til þess að skríða jafnvel upp í aftur og lesa aðeins meira og fara svo aftur í stuttan göngutúr.

Húsin í þorpinu hafa flest verið endurbyggð í sína upprunalegu mynd með myndarlegum hætti. Breyting hefur orðið á ferðamenningu með tilkomu hótelsins. Þar er búið að endurbyggja þrjú hús á listilegan hátt. Fágað og vandað handbragð iðnaðarmanna blasir við hvar sem litið er. Ingibjörg Á. Pétursdóttir hótelstýra hefur stutt við það andrúmsloft sem er í húsunum með góðu vali á húsgögnum og munum.

Margir hafa farið fögrum orðum um eyjuna og lífið þar, t.d. kvað Þórbergur Þórbergsson :
Í Flatey var ég í fjóra daga,
fann þar yndi margt
Eyjan er eins og aldingarður,
alla daga hlýtt og bjart.
Í Flatey vil ég ævi una
á eintali við náttúruna.

Vatnsenda Rósa sagði:
Væri ég tvítugsaldri á
og ætti von til þrifa
Mér ég kjósa myndi þá
að mega í Flatey lifa.

Matthías Jochumsson :
Fögur eins og forðum
fyrst, er veldisorðum.
Guð þér blómann gaf,
Skikkjan græn í skorðum
skín þér undir borðum.
græðis gullið haf.

Engin ummæli: