miðvikudagur, 29. ágúst 2012

Snæfellsjökull nálgast fyrra horf


Nú er Þúfan efst á Snæfellsjökli íslaus. Ég hef gengið 14 sinnum á jökulinn langoftast á gönguskíðum. Fyrst þegar ég var að fara upp úr 1990 gekk ég á snjó frá þjóðveginum við Arnarstapa alla leið upp og þúfurnar voru ísi þaktar. Ég fór síðar oftast upp frá Ólafsvík, ók veginn upp á Jökulhálsinn upp fyrir vatnsbólin og komst í snjó stuttu fyrir ofan þorpið. Þetta var seint á vorin oftast um Hvítasunnuna þegar ég var í fermingarveislum í fjölskyldu konunnar vestur í Rifi.

Þá gekk maður upp hálsinn í góðu skíðafæri og kom að skíðalyftum í norðanverðum jöklinum og gekk upp með þeim. Þar var æfingasvæði á vorin fyrir skíðalandsliðið. Síðar voru skíðalyfturnar úr Hveradölum fluttar og settar upp í sunnaverðum jöklinum, þær hafa verið ónothæfar í mörg ár vegna snjóleysis.

Undanfarin á hefur það verið svo að jafnvel þó maður aki veginn upp Jökulhálsinn alla leið að jöklinum þarf að ganga drjúgan spotta til þess að komast í snjó. Á vorin er jökullinn síðan svo sprunginn að maður fer helst ekki upp nema þá um hávetur.

Samkvæmt upplýsingum frá jarðfræðingum eru jöklarnir okkar nú að nálgast sama ástand og var á landnámsöld, eða með öðrum orðum nú er kuldaskeið sem hófst á þrettándu öld með röð af fellisvorum er loks að renna sitt skeið á enda. Veturnir urðu oft fádæma harðir með miklum snjó og frosthörkum. Hafís lagðist að norðanverðu landinu og allt varð ísköld breiða.

Þetta gerðist reglulega með þeim afleiðingum að það tók fyrir beit, hey gengu til þurrðar og búsmalinn tók að falla. Menn og skepnur sem voru veik fyrir féllu fyrst. Enga björg var að fá og fólk úr sveitunum leitaði í kauptúnin til verslunarmanna eftir mat, en hann var ekki falur nema gegn greiðslu.

Á þessum tíma þóttu siglingar við þessar aðstæður mikil afrek. Ísing hlóðst á skipin og sjómenn urðu að berjast allan sólarhringinn við að brjóta ísinn. Það gerðist reglulega að saman fóru erfið sumur með litlum heyjum og ef því fylgdi harður vetur voru það kallaðir fellisvetur, eða fellisvor. Ef næsti vetur varð lítið skárri féllu oft færri, en menn betur undir hann búnir, það mætti kannski orða það þannig að þeir sem stóðu veikastir voru þá þegar fallnir.

Allmörg nöfn voru viðhöfð á þessum illu viðburðum eins og t.d.: Undravetur (1118), Jökulvetur hinn mikli (1233), Fellisvetur (1188), Fellisvetur hinn mikli (1331), Harði veturinn (1552), Lurkur (1601), Píningin (1602), Eymdarvetur (1604), Svellavetur  (1625), Jökulvetur (1630), Hvíti vetur (1633), Rollubani (1648), Hestabani (1660), Snjóavetur hinn mikli (1802), Klaki (1881), Fellisvor (1882).

Engin ummæli: