miðvikudagur, 8. ágúst 2012

Fjármálaráðherra undirbýr einn lífeyrissjóð


Það hefur oft komið fram að stjórnmálamenn hafa vikið sér undan því að horfast í augu við kostnaðinn af því lífeyriskerfi sem þeir hafa búið sjálfum sér og nokkrum opinberum starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga. Þetta kerfi er ekki sjálfbært eins og lífeyriskerfi annarra landsmanna, ekki dugar að hafa töluvert hærra iðgjald en greitt er af öðrum landsmönnum, heldur þarf auk þess að leggja kerfinu til aukalega tugi milljarða árlega.

Í dag er staða þessa kerfis sú að það vanta um 500 – 600 milljarða inn í það. Einungis ein raunhæf leið er úr þessum vanda það greiða upp Þessa skuld samfara því að samræma lífeyrisréttindi landsmanna.

Iðgjald snýst ekki bara um lífeyrisgreiðslur, það er aðgangur að víðtæku tryggingarkerfi, með örorkubætur, makalífeyri og barnabætur, sá hluti samsvarar líklega nálægt 4 - 6% tekjuskattsstofni og lífeyrishlutinn 8 - 10% tekjuskattsstofni.

Ef sameina á alla lífeyrissjóðina í einn, verður ekki komist hjá því að taka ákvörðun um hvort menn ætli sér að skerða réttindi hjá einhverjum hópum. Eða hið gagnstæða að færa þá sem hafa minni réttindi upp, það er ekki framkvæmanlegt nema að hækka iðgjöldin umtalsvert hjá þeim sem búa við lakari réttindi.

Hér minni ég á að Fjármálaeftirlitið hefur gefið það út að það verði að hækka iðgjald opinberu sjóðanna upp í 19% eigi þessir sjóðir að vera sjálfbærir, ef jafna á t.d. lífeyrisréttindi láglaunafólks á almennum markaði við þá sem eru í opinbera sjóðnum þarf að hækka iðgjöld þeirra um 7%.

Ég fullyrði að stórir hópar myndu aldrei samþykkja að iðgjald til lífeyrissjóða verði hækkað um allt að 7%. Ef það yrði gert yrði það líklega verða gert með því að fella 4% séreignariðgjaldið inn í samtryggingariðgjaldið, ásamt því að næsta kauphækkun yrði að auki tekinn inn í iðgjaldið. Þeir sem búa við bestu lífeyrisréttindin munu berjast kröftuglega gegn því að þeirra lífeyrisréttindi verði skert.

Ef sameina á lífeyrissjóðina án þess að breyta iðgjöldum, er það ekki framkvæmanlegt án þess að einhverjir hópar verði að sætta sig við umtalsverðar skerðingar. Þar má t.d. benda á að jafnvel þó „einungis“ almennu lífeyrissjóðirnir yrðu sameinaðir í einn sjóð og iðgjaldið yrði óbreytt áfram, myndi það samt sem áður verða mikill vandi og framkalla miklar deilur.


Skerða réttindi þeirra sem hafa mest?

Jafna öll réttindi upp á við og hækka iðgjöldin?

Eða er þetta bara leið til þess að losa ríkissjóð undan því að greiða uppsafnaðan vanda slakrar og óvandaðrar efnahagsstjórnunar undanfarinna áratuga til almennu lífeyrissjóðanna.

Ég giska á hið síðasta.

Ég minni á að allir sjóðir sem stjórnmálamenn hafa stjórnað hafa orðið gjaldþrota og vel það. Bjarghringur hins íslenska samfélags við Hrunið hafa verið hinar gríðarlegu eignir almennu lífeyrissjóðanna. Ég geng út frá því að fjármálaráðherra ætli sér að setja nokkra „velvalda stjórnmálamenn“ í stjórnarsæti lífeyrissjóðs allra landsmanna. Þar með opnast leiðir fyrir tækisfærissinnaða stjórnmálamenn á atkvæðaveiðum að losa sig við reikningnum fyrir sínum Vaðlaheiðagöngum.


Að marggefnu tilefni þykist ég vita að sumir vilji túlki orð mín á þann veg að finni því allt til foráttu að lífeyrissjóðum verði fækkað. Ég hef einungis verið að benda á að þetta er ekki eins einfalt og margir virðast telja og ég er næsta viss um að stórir hópar hafi takmarkaðan áhuga á að sameina alla sjóðina.

Það er tæknilega framkvæmanlegt að stefna á einn lífeyrissjóð, en menn verða þá að leggja það vel niður fyrir sér hversu mikil réttindi þessi sjóður eigi að veita, og þá er hægt að reikna í hversu hátt iðgjaldið þurfi að vera.

Ég hef bent á að menn verða þá að reikna með að sumir hópar muni örugglega velja að loka sínum sjóð, frekar en að hann renni inn í einn sameinaðan sjóð. Þar munu viðkomandi sjóðsfélagar vísa til stjórnarskrárvarins eignarréttar og hafna skerðingum. Það er reyndar tekið fram í lögum að sameiningar sem valdi skerðingum eins hóps umfram annarra, eru bannaðar.

Ég tel raunsætt til að byrja með, að stefna á 4 – 5 sjóði á einhverjum tilteknum tíma, eigi að nást þokkaleg sátt um málið. Ég viðurkenni reyndar mínar efasemdir um að menn nái svo stóru skrefi í fyrstu umferð, líklegra væri að fækka þeim um helming.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir athyglisverða grein.

Hvað mælir gegn því að lífeyrissjóðir verði einfaldlega lagðir niður og lífeyrisþegar fái þá peninga sem þeir eiga lagða inn á einkareikinga í bönkum og öðrum fjármálastofnunum?

Þeir sem engan lífeyrissjóð eiga fengju eftir sem áður lífeyrir úr hinum sameiginlegu sjóðum landsmanna/Tryggingastofnun.

Kveðja Rósa G.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,

Þú segir:

"Eða er þetta bara leið til þess að losa ríkissjóð undan því að greiða uppsafnaðan vanda slakrar og óvandaðrar efnahagsstjórnunar undanfarinna áratuga til almennu lífeyrissjóðanna."

Sammála þessu.

Ef það er pólitísk sýn einhverja að ganga frá opinbera kerfinu og steypa öllu í einn lífeyrissjóð þá held ég að það verði aðeins gert með því að loka öllum almennum sjóðum og gera þá upp gagnvart sjóðsfélögum sínum.

Hins vegar er það alveg kristaltært að stjórnmálamenn eiga ekki að komast upp með að hafa lífeyristekjur sem er úr takti við það sem gerist almennt. Þeir eiga einfaldlega að hækka í launum og þyggja sama rétt og aðrið:

Eða er jafnrétti aðeins undir merkjunum "...eru jafnari en önnur dýr".

Kveðja,
Björn Kristinsson

Guðmundur sagði...

Rósa. Það liggur fyrir að engin þjóð stendur undir uppsöfnunarkerfi því meðalaldur er sífellt að hækka og hlutfall skattgreiðenda lækkar á meðan lífeyrisþegum. Í dag eru um 6 skattgreiðendur á móti hverjum lífeyrisþega en eftir 10 ár verður hlutfallið tæplega 3 skattgreiðendur á móti hverjum lífeyrisþega. Ef uppsöfnunakerfið verður lagt niður þarf að hækka skatta strax um 12% og síðar upp í liðlega 20% eigi að standa undir lífeyriskerfinu. Þetta er nákvæmlega sá vandi sem er að fara með Grikkland, Ítalíu og Spán á hliðina.

Gísli Tryggvason sagði...

Áunnin réttindi verða ekki skert. Hitt er samningsatriði. VIð hljótum að finna lausn.