Í kjölfar
viðtals Egils við hina snjöllu Elvira
Mendez Pinedo, prófessor í lögfræði við Háskóla Íslands í Silfrinu áðan, langar
mig til þess endurbirta pistil sem ég skrifaði 11. desember 2009.
Síðasta
hrun er afstaðið, spilapeningarnir eru á borðinu og fjárhættuspilararnir eru
enn í spilavítinu, en þeir viku aðeins úr salnum um tíma. Þeir ætla engu að
breyta og vilja fá áfram sína bónusa og premíur. Sömu menn eru enn að störfum í
greiningardeildunum, þó svo þessir menn hafi orðið uppvísir að því, að allt sem
þeir greindu og allar spár þeirra, reyndust vera rangar.
Það
eru 100 menn sem eru í leiðandi stöðum helstu greiningarhúsanna og starfa þar
án nokkurra laga og reglna. Enn er greint á sömu forsendum og gefnar út spár.
Allt er til reiðu til þess að hefja fjárhættuspilið aftur og stefna í næsta
hrun. Miðað við óbreytta stöðu er það óhjákvæmilegt.
Þannig
hófst erindi Heiner Flassbeck framkv.stj. deildar alþjóðavæðingar og þróunar
stefnumörkunar Sameinuðu þjóðanna á alþjóðaþingi byggingarmanna í Lille í
Frakklandi. Hér á eftir eru nokkur þeirra fjölmörgu atriða sem hann kom að.
Hann nálgaðist heimskrísuna á annan hátt en ég hef heyrt áður og var sannarlega
mjög áhugaverður fyrirlesari.
Stjórnmálamenn
halda því fram að ástæða hrunsins hafi verið áhættusækni í fjárfestingum. Allir
sem voru í spilavítinu spiluðu eins höguðu sér heimskulega. Allir voru
þátttakendur í fjárhættuspilinu. Það er háttalag þessara spilara sem er
vandamálið. Það er keppni í öllu og markaðurinn ræður og hann leiðréttir sig.
Hefur hann gert það? Nei.
Við
erum að drukkna í olíu, en samt fer olíuverð hækkandi. Þar sem þessi hækkun
hefur gengið í mörg ár er verð á olíu orðið langt fyrir ofan eðlileg mörk. Það
eru spádómar greiningardeildanna sem stjórna hegðun allra og raun ákvarða verð
á olíu. Allir í spilavítinu bíða eftir ábendingum greiningardeildanna og hlaupa
svo til eftir þeirra spádómum og fjárfesta. Allir veðja á sömu forsendum og
verðið getur í raun ekki annað en hækkað.
Á
markaðurinn að ráða nauðsynlegum aðgerðum í umhverfismálum? Það eru ekki
ríkisstjórnir eða fólk í spilavítinu (greiningardeildunum) sem ver hagsmuni
umhverfis og almennings. Fjárfestar eiga gríðarlega mikið af olíu og hafa
fjárfest ofboðslega í olíuhreinsunarstöðvum.
Hvernig
bregst markaðurinn við ef menn eiga mikið undir því að þróun og notkun
rafmagnsbíla verði hröð? Allar líkur benda til þess að þeir felli olíuverð það
mikið að öll þróun rafmagnsbíla stöðvast eða verður mjög hæg. Markaðurinn ræður
og fjárfestar geta í einu vettvangi ómerkt allar ákvarðanir Umhverfisþingsins í
Kaupmannahöfn.
Pólitískar
ákvarðanir skipta í raun engu hvað varðar alþjóðamarkaðinn og þróun samfélaga
heimsins. Næsta hrun blasir við ef ekkert verður að gert. Við verðum að leita
að rótum vandans og lagfæra hann. Það er endalaus keppni á öllum sviðum.
Almannahagsmunir hafa vikið fyrir hagsmunum fjármagnseigenda. Þjóðir eru farnar
að keppa í lækkun skatta vegna fyrirtækjanna. Það getur ekki leitt til annars
en lakari skólum og veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða. Það
setur þrýsting á stéttarfélögin, þau dragi úr sínum kröfum og laun hækki ekki.
Kaupmáttur minnkar. Arður fyrirtækjanna ræður öllu.
Þessi
keppni getur ekki leit til annars en að þau samfélög sem byggðum upp á síðustu
öld munu hrynja. Þeim er fórnað á altari samkeppninnar. Það vantar lög sem
tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það verður að setja
alþjóðlega stjórn á kerfið sem tekur mið af heildahagsmunum. Það þarf að
skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera.
Sú
þjóð sem er í vanda skapaði ekki vandamálið, það var hið frjálsa alþjóðlega og
óheilbrigða fjármálaumhverfi. Ef ekki er tekið á kerfinu getur það ekki annað
en leitt okkur í annað Hrun með sömu alvarlegu afleiðingunum og almenningur sem
situr í súpunni með enn lakari lífskjör.
Það
eru engin lög sem taka á þeim vanda sem við er að eiga. Ef ekki verða settar
skýrari reglur til þess að taka á grunnvandanum, þá mun sama heimska og leiddi
Ísland í gjaldþrot endurtaka sig. Það eru sömu forsendur sem eru að leiða
Grikkland í þrot.
Þegar
þjóð er kominn í þrot og rúinn trausti er henni gert að leita til AGS, sem í
raun skapar sömu aðstæður aftur án þess að taka á vandanum. Þjóðfélög eru sett
inn í sama farið. Það er einungis einn alþjóðlegur aðili sem getur tekið á
vandanum og þvingað fram þær leiðréttingar sem verður að setja. Það er
alþjóðaverkalýðshreyfingin. Hún verður að beita sér í því stoppa
fjárhættuspilið í spilavítinu og þvinga stjórnvöld til þess að taka upp
annarskonar samskipti og koma böndum á spilavítin.
Kerfið
eins og það er nú tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Hann er réttindalaus.
Það eru fyrirtækin sem stjórna ríkisstjórnunum með sína hagsmuni í fyrirrúmi.
Samspil þessara aðila velur þau kjör sem launamönnum er boðið upp á. Þau
viðhorf sem höfð voru að leiðarljósi við uppbyggingu samfélaga eru að glatast
og viðhorf fjármálanna hafa tekið yfir. Barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst
sem aldrei áður, kynlífsþrælkun vex, réttindalausum farandverkamönnum fjölgar
og hungrið í heiminum vex.
Þeim
fjölgar sem ekki hafa aðgang að vatni. Mannfyrirlitning fjölþjóðafyrirtækjanna
nálgast okkur sífellt meir, meir að segja í löndum í miðri Evrópu eins og t.d.
Bretlandi eru fyrirtæki sem byggja upp svarta lista og selja til
atvinnurekanda. Á þessa lista eru menn skráðir sem vilja vera í
verkalýðsfélögum, hafa gefið sig út fyrir að krefjast hærri laun eða gert
athugasemdir við öryggisbúnað.
Opnir
óheftir markaðir leiddu Ísland, eina ríkustu þjóð Evrópu, í gjaldþrot og fleiri
eru á leiðinni. Gjaldþrot auðhyggjunnar og nýfrjálshyggjunnar blasir við hvert
sem litið er. Fjárfestar eru prímusmótorar þessa ferlis blindaðir af
veðmálakeppni sem fer fram eftir flautu greiningardeildanna. Skipuleggja verður
baráttu almennings gegn þeim.
Ég
fór og ræddi við Heiner Flassbeck eftir erindið og spurði hvort hann væri ekki
til í að koma og heimsækja okkur. Hann tók vel í það og hann kom, en sárafáir
mættu á erindi hans í fundarsal Háskóla Íslands. Ég hafði einnig samband við
Egil og hann gaf sér ekki tíma til þess að kynna sér málið eða taka viðtal við
Flassbeck.
1 ummæli:
en samt viltu fá alt ódýrara hvernig heldurðu að menn geta framleit ódyrt jú með ódýru vinnuaflimér sínist þettað vera erfit val´hjá þér
Skrifa ummæli