fimmtudagur, 1. nóvember 2012

Öllu snúið á haus


Ég neita því ekki að einhverra hluta vegna ætlast ég til þess að prófessor við háskóla fari með rétt mál. Maður reiknar ekki með að þeir sem tala í nafni fræðastofnana beiti fyrir sig umræðuhefð viðtekinnar þrætubókarlistar.

Ég gæti vel skilið að hann væri annarrar skoðunar en Stjórnlagaráð og Þjóðfundar og færði fyrir því haldgóð rök. Því miður gildir þetta ekki um grein ÞóroddsBjarnasonar prófessors.

Hér er í svipinn aðeins tóm til að fjalla um eitt atriði, sem er þó grundvallaratriði. Ástæða er að halda því til haga að það er 10% skekkja hjá prófessornum, það voru 67% kjósenda sem merktu já við spurninguna um að atkvæði kjósenda alls staðar af landinu skuli vega jafnt í kosningum.. Auk þess vil ég einnig árétta að Stjórnlagaráð taldi sig vitanlega bundið þeim stefnumiðum sem voru afgreidd með afgerandi hætti á Þjóðfundi og hefur því komið fram í með afgerandi hætti í fyrri könnunum meðal þjóðarinnar.

Prófessor Þóroddur segir:

1.                   „Stjórnlagaráð hefur lagt til viðamiklar breytingar á núgildandi kosningakerfi þar sem … kjördæmakjörnum þingmönnum [er] fækkað til mikilla muna“.

Þetta er rangt. Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs skal boðið bæði upp á kjördæmiskjör og landskjör. Það er síðan undir kjósendum komið hvernig sætin skiptast. Þau gætu öll orðið að kjördæmissætum ef kjósendur velja þann kost. Það er val kjósenda en hvorki löggjafans og enn síður stjórnlagaráðs.

2                    „Þannig verði minnst 33 þingmenn kosnir landskjöri en að hámarki 30 þingmenn kjördæmakosnir í 1–8 kjördæmum.“

Þetta er allt kolrangt og stendur hvorki í stjórnlagatextanum í tillögum stjórnlagaráðs né heldur í skýringum við þær. Þvert á móti má samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs binda 30 sæti við kjördæmi með ákvæðum í kosningalögum og það þótt kjósendur vildu velja sér fleiri en 33 þingmenn af landslistum.

Þarna heimila tillögur stjórnlagaráðs „að hafa megi vit“ fyrir kjósendum og ganga þar með á svig við meginregluna um jafnt vægi atkvæða og persónukjör. Það sem stjórnlagaráð nefnir sem lágmark af kjördæmissætum gerir prófessorinn að hámarki. Landskjörsætin verða ekki minnst 33. Þau geta – ef Alþingi svo kýs – mest orðið 33 og það þótt allir kjósendur á landinu finndu sér betri frambjóðendur á landslistum en á kjördæmislistum. Þetta er því allt á haus hjá fræðimanninum.

3.                  „Tala kjósenda á kjörskrá að baki hverju kjördæmabundnu sæti skuli þó ekki vera lægri en meðaltalið fyrir öll 63 sætin og kjördæmakjörnir þingmenn yrðu því að jafnaði nokkru færri en 30.“

Hér átta ég mig alls ekki á hvert prófessorinn er að fara. Við skulum draga upp einfalda mynd og skipta landinu í tvö kjördæmi, landsbyggðarkjördæmi og höfuðborgarkjördæmi. Samkvæmt við kjósendatölum úr síðustu þingkosningum voru að meðaltali 3.617 kjósendur að baki hverju sætanna 63.

Ef sætunum 63 er nú skipt á milli þessara tveggja meginsvæða í sem fyllstu samræmi við tölu kjósenda á kjörskrá kæmu 23 í hlut landsbyggðar en 40 í hlut höfuðborgarsvæðisins og væru þá 3.572 að baki hverju landsbyggðarsæta en 3.643 að baki hverju hinna.

Nær landsmeðaltalinu verður ekki komist, annað kjördæmið hlýtur alltaf að vera undir en hitt yfir meðaltalinu. Það er tilviljun að það er landsbyggðin sem er undir í þessu dæmi. Setningin sem hér er höfð eftir höfundi greinarinnar segir berum orðum að það megi binda allt að 22 sæti við landsbyggðina og allt að 40 við höfuðborgarsvæðið ef ekki væri líka sagt að einungis 30 sé til ráðstöfunar í þessu skyni.

En texti stjórnlagagreinarinnar hjá stjórnlagaráði segir ekkert fleira um ráðstöfun hinna bundnu sæta. Því mætti festa 22 þeirra á landsbyggðinni en láta 8 duga „fyrir sunnan“ væri það vilji Alþingis. (Ef landsbyggðarkjördæmunum er skipt upp í þrjú eins og nú gæti eitt þessara 22 farið forgörðum vegna námundunarreiknings.)

Greinarhöfundur og fleiri sem hafa skrifað undir með fræðingsstimpli tjáðu sig fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna á ofangreindum nótum og hræddu landsbyggðarfólk með því að fullyrða að samkvæmt tillögum stjórnlagráðs kæmu aðeins 10-11 þingmenn af landsbyggðinni. Þessu var reynt að andmæla en það var eins og berja höfðinu við stein. Og enn hafa fræðingarnir ekkert lært.

Það er mikill ábyrgðahlutur að villa um fyrir fólki og það í sambandi við þjóðaratkvæðagreiðslu um stór mál. Vonandi er það óviljaverk, en þá ættu viðkomandi að sjálfir að leiðrétta sig og biðjast afsökunar.

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Er það hlutverk stjórnlagaráðs að útfæra kosningafyrirkomulag og meitla það í stjórnarskrá? Er þetta ekki hlutverk Alþingis? Og eru ekki 23 þingmenn fyrir landsbyggðina ekki of lítið hafandi það í huga að landsbyggðin dekkar yfir stórt landssvæði? Á ekki landsbyggðin að njóta jákvæðrar mismununar hvað þetta varðar?

Nafnlaus sagði...

En Guðmundur, er það ekki rétt skilið að tillögur stjórnlagaráðs útiloka alls ekki að einungis 10-11 þingmenn komi af landbyggðarkjördæmum? Það er þannig alveg jafn mögulegt og að 22 þingmenn verði fyrir landsbyggðina og 8 fyrir höfuðborgarsvæðið, einsog þú nefnir sem dæmi. Hvort skyldi svo vera líklegri niðurstaða í lagasetningu þegar til kemur?
Og afhverju var þá ekki í tillögum stjórnlagaráðs kveðið á um 22-8 skitpingu kjördæmakjörinna þingmanna, fyrst hún er svona borðleggjandi sniðug?
Annars tel ég stjórnarskrártillöguna ágæta, en ábendingar Þórodds eru að mínu mati fyllilega þess verðar að vera gefinn gaumur.
kv. Páll Sigurðsson

Guðmundur sagði...

Ég er ekki að gera lítð í tillögum Þórodds, ég er einfaldlega að benda á að túlkun hans á tillögum stjórnlagaráðs er alröng, fullkominn rangtúlkun. Þessi vinnubrögð eru ekki sæmandi prófessor.

Ákvæði í frumvarpi Stjórnlagaráðs um þingkosningar eru hvorki umfangsmeiri né ítarlegri en gengur og gerist í stjórnarskrám.

Ákvæði í norsku stjórnarskránni eru liðlega helmingi lengri en er í frumvarpi Stjórnlagaráðs. Undan því verður ekki vikist að hafa ákvæði stjórnarskrá sem að lágmarki eru nægilega ítarleg til þess að meginmarkmiðin sem kosningalög eiga að byggja á, séu tryggð og varin fyrir skyndiákvörðunum og hagsmunagæslu sérhagsmuna.

Til þess að tryggja þetta enn frekar verða breytingar á kosningalögum einungis gerðar með samþykki 2/3 atkvæða á Alþingi og slíkar breytingar má ekki gera ef minna en sex mánuðir eru til kosninga.

Það er nú einfaldlega svo að margir hafa spurt sig eru alþingismenn líklegir til þess að setja hlutlausa og góða kosningalögjöf um sjálfa sig. Svarið er nei, nægilegt er að líta til sögunnar hvað það varðar.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,

Það er afar leitt að sumir stjórnlagaráðsliðar skuli hafa kosið að bregðast við allri gagnrýninni umræðu um tillögur stjórnlagaráðs með offorsi og jafnvel með því að vega að starfsheiðri þeirra sem hætta sér út í slíka umræðu. Það er eflaust ein meginástæða þess hversu lítil málefnaleg umræða hefur farið fram tillögurnar enn sem komið er.

Umrædd grein eftir mig í Akureyri vikublaði fjallar raunar um landskjör og er tilraun til að útskýra með einföldum hætti hvernig margfeldisáhrif mannfjöldans verða til þess að frambjóðandi með 90% stuðning í landsbyggðakjördæmi myndi lúta í lægra haldi fyrir frambjóðanda með allt niður í 14% stuðning á höfuðborgarsvæðinu.

Umfjöllun mín um kjördæmakjörna þingmenn í þeirri grein er nánast í framhjáhlaupi en hún byggir einfaldlega á þessari tillögu stjórnlagaráðs: „Í lögum má mæla fyrir um að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn einstökum kjördæmum, þó ekki fleiri en 30 alls. Tala kjósenda á kjörskrá að baki hverju bundnu sæti skal ekki vera lægri en meðaltalið miðað við öll 63 þingsætin.“ Það er augljóst að „þó ekki fleiri en 30 alls“ þýðir hámark kjördæmakjörinn þingmanna, ekki lágmark eins og stjórnlagaráðsliðar hafa stundum gefið í skyn.

Miðað við það er auðvelt að reikna fjölda kjördæmakjörinna þingmanna í landsbyggðakjördæmum: Kjósendur landsbyggðanna eru ca. 37% allra kjósenda og 0,37*30 er 11,1. Þar af leiðandi verða kjördæmakjörnir þingmenn landsbyggðanna í hæsta lagi ellefu talsins en geta orðið færri ef margir kjósendur velja landslista. Vitaskuld gæti Alþingi ákveðið að svipta höfuðborgarsvæðið sínum kjördæmakjörnu þingmönnum og færa þá til landsbyggðakjördæmanna. Það myndi þó ganga þvert gegn þess anda að sama kosningakerfið gildi um allt land og nauðsynlegt væri að ítarleg umræða færi fram um það á höfuðborgarsvæðinu hvort kjósendur teldu slíkt misvægi réttlætanlegt.

Með von um hófstilltari og málefnalegri umræðu,

Þóroddur Bjarnason

Guðmundur sagði...

Sæll Þóroddur
Ítreka að ég hef vitanlega ekkert við það að athuga þó einstaklingar setji fram sínar hugmyndir um hvernig þeir kjósa að hafa hlutina.

Harla einkennilegt hvernig þú túlkar svör mín, svo ekki sé nú meira sagt, að þú megir ekki setja fram málefnalega tillögur, engin hefur gagnrýnt það ekki nokkur maður.

Þar er ég að gagnrýna er hvernig þú túlkar okkar tillögur og býrð þar til eigin túlkun byggða á kolröngum niðurstöðum og síðan hefur þú skotárás a okkur. Þetta eru dæmigerð vinnubrögð í íslenskri umræðuhefð.

Við tókum við þúsundum tillagna og athugasemda í vinnu okkar í Stjórnlagaráði.

Auk þess unnun við úr ítarlegum tillögum Stjórnlaganefndar og eins tókum við tillit til þess sem fram hafði komið frá Þjóðfundi.

Niðurstaðan varð málamiðlun okkar 25 eftir gríðarlega vinnu og þr sem mörg kosningakerfi voru prófuð, enda vorum við með tvo af mestu stærðfræðingum þessa lands í þessum vinnuhóp.

Það eina við ætlumst til er að ekki sé verið að gera okkur upp skoðanir með því að snúa tillögum okkar á haus.

Nafnlaus sagði...

Mér þykir afar leitt ef þú hefur túlkað vangaveltur mínar sem skotárás á ykkur eða nokkurn annan mann.

Þetta átti að vera innlegg frá svolítið öðru sjónarhorni í umræðu um tillögur að nýrri stjórnarskrá landsins, ekki persónleg árás á þá sem unnu mikið verk í þessu sambandi.

Ég vil líka taka það alveg sérstaklega fram að ég hef ekkert á móti tillögum stjórlagaráðsins í heild og það er ekki rétt að ég hafi rekið hræðsluáróður gegn þeim. Ég gerði sjálfur upp hug minn í kjörklefanum.

Ég hef hins vegar áhyggjur af því að núverandi kjördæmakerfi verði lagt niður án almennilegrar umræðu um kosti og galla þess að þingmenn sæki lýðræðislegt umboð sitt til tiltekinna landsvæða. Það mætti þess vegna jafna vægi atkvæða innan núverandi kerfis ef vilji er til þess.

Þetta hljótum við að rætt í rólegheitunum og jafnvel ákveðið að vera vinsamlega ósammála. Það að vera ósammála þýðir ekki endilega að annar hafi misskilið hinn.

Bestu kveðjur,
Þóroddur

Nafnlaus sagði...

Það á semsagt að tryggja það í stjórnarskrá að höfuðborgarsvæðið fái alltaf meirihluta kjörinna þingmanna.

Þetta er gulltryggt með því að það 2/3 þingmanna að samþykkja breytinngar á kosningafyrirkomulaginu í stjórnarskrá.

Slíkt er nær óhugsandi því þetta þýðir að það þarf 42 þingmenn af 63að samþykkja breytingar á kosningafyrirkomulaginu í stórnarskránni.

Nafnlaus sagði...

Kosningaákvæði hinnar nýju stjórnarskrár er í samræmi við ákall þjóðfundar um jafnt atkvæðavægi. Í því felst að landsbyggðin er beðin um eftirgjöf. Á móti koma ákvæði um aukna heimastjórn héraða og tekjustofna. Ennfremur má minna á auðlindaæakvæði sem tryggir jafnræði allra landsmanna í auðlindaýtingu sem í ljósi núverandi tekju- og fólksflæðis hlýtur að teljast stórkostleg réttarbót fyrir landsbyggðina.
Margir segja Ísland vera að þróast í borgríki. Því er ég sammála og horfi þá ekki sízt til núverandi kosningafyrirkomulags. Sem dæmi verða Vestfirðir þjóðgarður 2060.
Því tel ég breytta kosningalöggjöf ekki landsbyggðinni til trafala heldur lífsgjöf.
Hafi Þóroddur þökk fyrir ágætt innlegg.
Lýður Árnason.

Nafnlaus sagði...

Það er alltaf erfitt að deila við nafnlausa. Ákvæðið um að kosninglögum verði ekki breytt gegn vilja þriðjungs þingmanna er orðrétt upp úr gildandi stjórnarskrá. Við ráðsliðar lögðum ekki í að breyta því, enda þótt það geti orkað tvímælis.
Þorkell Helgason

Nafnlaus sagði...

Það er ákaflega ótrúverðugt þegar háskólaprófessor býr til sínar eigin reiknikúnstir þess að ná fram heimatilbúinni skýringu á niðurstöðu kosninga.

Hann kvartar svo um allt um ofsafengin viðbrögð stjórnlagaráðsmanna, ekkert hefur komið frá þeim annað en bent er á að háskólaprófessor býr til heimatilbúna túlkun á því sem stendur í tillögum stjórnlagráðs.
Kristinn Þór

Siggi Hrellir sagði...

Ég var að hlusta á viðtalið við Þórodd Bjarnason á Sprengisandi sl. sunnudag: http://vefutvarp.visir.is/upptokur?itemid=14665

Ekki fæ ég betur heyrt en að Þóroddur fari rangt með sitthvað sem tillögur stjórnlagaráðs mæla fyrir um. Tökum eitt dæmi:

Þóroddur gefur sér það að prófkjör hverfi og segir að stjórnmálaflokkar þurfi að leggja fram óraðaða lista í alþingiskosningum. Í framhaldinu dregur hann þá ályktun að þetta dragi úr raunverulegum möguleikum á persónukjöri.

Í fyrsta lagi er ekkert sem segir að prófkjör hverfi ef persónukjör verður heimilað eins og stjórnlagaráð leggur til. Ég finn hvergi neitt í tillögum ráðsins sem segir að stjórnmálaflokkar verði að leggja fram óraðaða lista frekar en vilji þeirra stendur til. Hvort sem þeir leggja fram raðaða eða óraðað lista þá þarf einhvern veginn að velja fólk á þessa lista. Það væri þá annað hvort gert með prófkjöri, uppstillingu eða öðru fyrirkomulagi.

Að möguleikinn á því að geta kosið einstakar persónur úr hvaða kjördæmi sem er "dragi úr persónukjöri" hlýtur að vera erfitt að rökstyðja, enda tekst Þóroddi það ekki sérstaklega vel.

Nafnlaus sagði...

Einn hinna nafnlausu sem hafa brugðist við grein Guðmundar tortryggir það ákvæði að kosningalögum verði ekki breytt nema með stuðningi 2/3 atkvæða á Alþingi.

Stjórnlagaráð fann þetta ekki upp heldur er þetta úr gildandi stjórnarskrá og við ráðslimir lögðum ekki í að breyta því. Þetta getur þó verið varahugavert og mætti íhuga.

Annar gagnrýnir að kosningaákvæði í tillögum stjórnlagaráðs séu of ítarleg. GG andmælir þessu réttilega. Hingað til hefur verklagið verið þannig að fyrst eru drög að kosningalögum samin og náð samkomulagi um þau á Alþingi. Síðan hafa þau ákvæði sem talin eru eiga heima í stjórnarskrá tínd út úr kosningalagadrögunum.

Í kjölfar samþykktar stjórnarskrárbreytingar eru kosningalögin síðan sett (oftast lítt breytt frá drögunum). Þannig hefur litlu skipt hvar landamærin eru milli kosningalaga og stjórnarskrár.

Nú er þessu verklagi að heilsa. Það eitt verður til þess að viðkomið núna. Þess vegna þurfa markmiðin að vera all skýr í stjórnarskrárákvæðinu.

Síðan tekur Alþingi við og semur kosningalög. Það hafa líka heyrst umkvartanir um að Alþingi hafi þar of mikið svigrúm, að rammi stjórnlagaráðs gefi Alþingi möguleika á að hunsa kjördæmavörnina sem stjórnlagaráð hefur í huga.

Þorkell Helgason

Nafnlaus sagði...

Þóroddur virðist enn og aftur misskilja það ákvæði í tillögu stjórnlagaráðs sem heimilar Alþingi að tryggja kjördæmunum visst LÁGMARK þingsæta þó það þrengi valmöguleika kjósenda.

Þóroddur les þetta sem HÁMARK.

Eins og Guðmundur hefur bent á er útilokað að fá þetta út úr 8. mgr. 39. gr. í tillögum ráðsins sem Þóroddur vitnar í.

Enn óskiljanlegri verður þessi misskilningur ef horft er til skýringa og dæmis sem er að finna á bls.
112-113 og 201-204 í skýrslu forsætisnefndar Alþingis um tillögur stjórnlagaráðs, en það er hið formlega opinbera gagn um málið.

Í akureyrivikublad.is bregður Þóroddur jafnframt upp ýktu hryllingsdæmi um það hvernig landsbyggðarkjördæmin gætu verið hlunnfarin ef Alþingi fer illa með svigrúm sitt við setningu kosningalaga og kjósendur haga sér með ólíkindum.

En þetta dæmi er samt vert skoðunar - og það verður gert.

Komi í ljós að sannleikskorn sé í dæminu þarf að benda þingsnefndinni, sem er með málið, á það hvernig við megi bregðast.

Þorkell Helgason