fimmtudagur, 7. mars 2013

Flokksræðið við völd

Íslenskir stjórnmálamenn tóku þá stefnu eftir að ljóst varð að við værum að losna undan einveldi konungs að undirbúa yfirtöku flokksræðis. Lýðræðið náði aldrei hingað, nema þá í stuttan tíma eftir búsáhaldabyltinguna, en Hæstiréttur afnám þá stuttu tilvist með ógildingu kosningar þjóðarinnar til Stjórnlagaþings. Alþingi er þessa dagana að tryggja niðurstöðu Hæstaréttar með ógildingu þjóðaratkvæðisgreiðslu um nýja stjórnaskrá saminni af þjóðinni, sem átti að tryggja að þjóðin kæmist undan ofríki flokksræðisins.
 
Íslendingar kusu um framtíðina 20. okt. síðastliðinn, það var tækifæri sem margar þjóðir öfunduðu okkur af. Fréttin um kosningarnar fór víða og þar kom fram að á Íslandi væri samfélag þar sem lýðræði virkaði í alvöru, en væri ekki kæft eða skrumskælt af þingmönnum og hagsmunaöflum.
 
Fjölmargir erlendir fjölmiðlar sendu fréttamenn til Íslands til þess að fjalla um byltinguna sem íslenska þjóðin framkallaði árið 2009 með því að stilla sér upp fyrir framan Alþingishúsið. Dáðst var að þjóðinni sem síðan kaus 25 einstaklinga í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að setja stjórnvöldum nýjar reglur og gerði það í beinu sambandi við þjóðina sem var virkur þátttakandi í þessu verki. Allt þetta vakti heimsathygli.
 
Eftir byltinguna fannst flestum útilokað að þingmenn myndu voga sér að halda áfram á sömu braut, því búið væri að fletta svo rækilega ofan af spillingu, dugleysi og svikum að ekki yrði aftur snúið. Sú von vaknaði meðal þjóðarinnar að stjórnmálamenn myndu eftir þetta taka vilja þjóðarinnar alvarlega, ekki síst eftir að Rannsóknarskýrslan birti sín járnbundnu rök um spillinguna og fáránleikann.
 
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni kom glögglega fram að þjóðin vildi setja valdhöfum skýrari leikreglur og leiðrétta þá misskiptingu sem hér er. Það birtist í niðurstöðunum, 67 % kjósenda samþykkti að Alþingi skyldi fara eftir tillögum stjórnlaganefndar um nýja stjórnarskrá. 82% vildu að náttúruauðlindir væru í eigu þjóðarinnar, 77% vildu auka persónukjör til Alþingis, 71% vildu auka beint lýðræði.
 
Allt eru þetta ákvæði í tillögum að nýrri stjórnarskrá. Í öllum lýðræðisríkjum lúta stjórnmálamenn án nokkurra skilyrða niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Annað er grímulaus tilraun til valdaráns. 
 
Ræðustóll Alþingis hefur undanfarna 20 mánuði verið hertekinn með innihaldslausu málþófi þar sem lýðræðið hefur verið skrumskælt með því gera að engu niðurstöðu mikils meirihluta þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað.
 
Í spjallþætti í gær kom fram hjá Sigmundi Davíð formanni Framsóknarflokksins að ef að flytja ætti stjórnarskrármálið fram á næsta haust, þá lendi það inni á sama tíma og fjárlögin. Hann upplýsti okkur um vinnubrögð sín með því að segja „þá væri auðvelt að beita málþófi til að eyðileggja málið.“ Hér talar sá stjórnmálamaður sem beitir sér hvað harðast fyrir því að viðhalda flokksræðinu og er þegar farinn að leggja línurnar um hvernig hægt verði að halda áfram á þeirri braut.
 
Mér er misboðið hvernig formenn stjórnarflokkanna hyggjast ganga í lið með þeim sem hafa lítilsvirt þjóðina undanfarna mánuði. Ég féllst á að vera á lista Samfylkingarinnar í vor vegna drengilegrar baráttu Samfylkingarinnar í þessu máli, en sú ákvörðun mín virðist hafa verið byggð á misskilning. Hér er stefnt á að viðhalda flokksræðinu og koma í veg fyrir að íslenskur almenningur fái notið lýðræðis.

Engin ummæli: