föstudagur, 22. mars 2013

Lýðræðið lítilsvirt


Eftir að ljóst var að okkur væri að takast að losna undan einveldi konungs í byrjun síðustu aldar tóku Íslenskir stjórnmálamenn til við að undirbúa yfirtöku flokksræðis. Þýdd var dönsk stjórnarskrá og þar sem ráðherraræði var tryggt án of mikillar aðkomu þjóðarinnar.

Pilsfaldakapítalisminn var búinn til og helmingaskiptaregla flokksræðisins varð alls ráðandi.

Lýðræðið náði aldrei hingað, nema þá í stuttan tíma eftir búsáhaldabyltinguna, en Hæstiréttur afnám þá stuttu tilvist með ógildingu kosningar þjóðarinnar til Stjórnlagaþings.

Alþingi er þessa dagana að tryggja niðurstöðu Hæstaréttar með ógildingu þjóðaratkvæðisgreiðslu um nýja stjórnaskrá saminni af þjóðinni, sem átti að tryggja að þjóðin kæmist undan ofríki flokksræðisins.

Íslendingar kusu um framtíðina 20. okt. síðastliðinn, það var tækifæri sem margar þjóðir öfunduðu okkur af, á Íslandi væri samfélag þar sem lýðræði virkaði í alvöru, en ekki kæft eða skrumskælt af þingmönnum og hagsmunaöflum.

Fjölmargir erlendir fjölmiðlar sendu fréttamenn til Íslands til þess að fjalla um byltinguna sem íslenska þjóðin framkallaði árið 2009 með því að stilla sér upp fyrir framan Alþingishúsið.

Dáðst var að þjóðinni sem síðan kaus 25 einstaklinga í þjóðaratkvæðagreiðslu til þess að setja stjórnvöldum nýjar reglur og gerði það í beinu sambandi við þjóðina sem var virkur þátttakandi í þessu verki. Allt þetta vakti heimsathygli. Sú von vaknaði meðal þjóðarinnar að stjórnmálamenn myndu eftir þetta taka vilja þjóðarinnar alvarlega, ekki síst eftir að Rannsóknarskýrslan birti sín járnbundnu rök um spillinguna og fáránleikann.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu kom glögglega fram að þjóðin vildi setja valdhöfum skýrari leikreglur og leiðrétta þá misskiptingu sem hér er. Það birtist í niðurstöðunum, 67 % kjósenda samþykkti að Alþingi skyldi fara eftir tillögum stjórnlaganefndar um nýja stjórnarskrá. 82% vildu að náttúruauðlindir væru í eigu þjóðarinnar, 77% vildu auka persónukjör til Alþingis, 71% vildu auka beint lýðræði. Allt eru þetta ákvæði í tillögum að nýrri stjórnarskrá.

Í öllum ríkjum sem vilja láta flokka sig meðal lýðræðisríkja lúta stjórnmálamenn án nokkurra skilyrða niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Annað er grímulaus tilraun til valdaráns. Ræðustóll Alþingis hefur undanfarna 20 mánuði verið hertekinn með innihaldslausu málþófi þar sem lýðræðið hefur verið skrumskælt.

Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins hefur nýlega bent á það í spjallþætti að ef flytja ætti  stjórnarskrármálið fram á næsta haust, þá lendi það inni á sama tíma og umræða fari fram um fjárlögin.

Sigmundur upplýsti okkur um hvaða vinnubrögð hann hefur tamið sér vinnubrögð með því að segja „þá væri auðvelt að beita málþófi til að eyðileggja málið.“ Hér talar sá stjórnmálamaður sem beitir sér ásamt formanni Sjálfstæðisflokksins, fulltrúum pilsfaldakapítalismans og helmingaskipta flokksræðisins, hvað harðast fyrir því að viðhalda þeim ofurtökum sem forverar þeirra tókst að ná á Íslensku hagkerfi.

Þeir eru ásamt sínum aðstoðarmönnum ætíð alltaf búnir að leggja línurnar um hvernig hægt verði að halda áfram á þeirri braut.

Mér er algjörlega misboðið hvernig formenn núverandi stjórnarflokka gengu í lið með þeim sem hafa lítilsvirt þjóðina undanfarna mánuði, undirgengust ofurveldi flokksræðisins og eru búnir að klúðra síðustu von okkar að nú tækist að ná fram vilja fólksins.

Hér er stefnt á að viðhalda flokksræðinu og koma í veg fyrir að íslenskur almenningur fái notið lýðræðis.

Nú er búið að koma því í gegn að á Íslandi telji Alþingi sig ekki skuldbundið að fara eftir niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna. Jafnvel þó fyrir liggi hvað 67% þjóðarinnar vilji.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hafa undanfarin misseri ítrekað lýst því yfir að þeir muni ekki taka mark á þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB, gangi niðurstaðan gegn þeirra eigin skoðunum!!!

Engin ummæli: