föstudagur, 22. mars 2013

Bætum hag heimilanna og spörum fyrir skuldunum


Seðlabankinn áætlar að með upptöku evru sparist 5 til 15 milljarðar króna á ári í beinan viðskiptakostnað sú mynt sem við höfum virki sem viðskiptahindrun. Sá kostnaður lendir á öllum viðskipum sem eiga sér stað með erlendan gjaldeyri. Einnig verður að benda á þann sparnað sem hlýst af því að þurfa ekki að halda úti stórum gjaldeyrisforða til að styðja við smáa mynt.

Á meðan við erum með sjálfstæða mynt verðum við að halda úti gjaldeyrisvarasjóð, við eigum ekki fyrir honum og verðum sakir þess að taka hann allan að láni. Vaxtakostnaður vegna gjaldeyrisvarasjóðsins Íslands er um 33 milljarðar króna á ári. Auk þess verðum við að greiða hærri vaxtaprósentu. Samkvæmt gögnum frá hagdeildum vinnumarkaðsins og Viðskiptaráði, er vaxtamunur á ríkisskuldabréfum og húsnæðislánum 4,2-4,5% hærri hér á landi en innan Evrulandanna. Þessi vaxtamunur stafar af verðbólgu og óstöðugleika sem rekja má beint til krónunnar, þar sem hún er allt of lítil.

Skuldir ríkissjóðs eru c.a. 1400 milljarðar, skuldir einstaklinga 1500 milljarðar og skuldir fyrirtækja 1700 milljarðar, eða samtals 4600 milljarðar. 4,2% aukavextir af 4600 milljörðum nemur 193 milljörðum á hverju ári. Allur kostnaður af vöxtum hvort sem er frá ríki eða fyrirtækjum lendir vitanlega á almenningi beint eða óbeint. Þessi upphæð jafngildir 2,5 milljóna aukaútgjöldum sem hver 4ra manna fjölskylda þarf að bera á Íslandi umfram Evrulönd á hverju ári.

Kostnaður alls heilbrigðiskerfisins er um 116 milljarðar á ári og allur útflutningur á sjávarafurðum er um 230 milljarðar. Árlegur kostnaður landsmanna vegna krónunnar samsvarar öllum útflutningstekjum sjávarafurða.

Árlegur rekstrarkostnaður Landsspítalans er um 35 milljarðar og byggingakostnaður ný Landsspítala um 100 milljarðar. Árlegur aukakostnaður krónunnar er 6 sinnum árlegur rekstrarkostnaður Landsspítalans og tvöfaldur byggingakostnaður Landsspítalans. Þessi aukakostnaður vegna krónunnar jafngildir 14% af landsframleiðslu. Engin þjóð þolir slíkan kostnað af sínum gjaldmiðli.

Menn halda svo hvern fundinn á fætur öðrum og tala um að bæta hag heimilanna í landinu og segjast jafnframt leita að sparnaðarleiðum. Stærsti sparnaður Íslandssögunnar yrði með því að taka upp annan gjaldmiðil. Þjóð sem notar svo dýran gjaldmiðil er langt komin með að gera stóran hluta þegna sinna eignalausa.

Við hefðum getað sparað 1000 milljarða sl. 5 ár og aðra 1000 milljarða næstu 5 ár. Það eru 2000 milljarðar eða 25 milljónir á hverja 4ra manna fjölskildu. En lesandi góður það liggur nefnilega fyrir að allur gjaldeyrir landsins verður búinn 2016, sem þýðir ekki nema eitt auknar erlendar lántökur á enn hærri vöxtum en áður, sem magna mun vandann enn frekar

Lækkun vaxta myndi hafa gríðarleg áhrif á greiðslubyrði heimila vegna íbúðarlána. Samkvæmt nýlegum útreikningum ASÍ getur árlegur sparnaður fyrir íslensk heimili numið um 15 milljörðum króna fyrir hverja prósentu í lægri vöxtum.

Til þess að dreifa þessum gríðarlega vaxtakostnaði eru húsnæðislán á Íslandi 40 ár í stað 20 ára eins og er í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Íslensk fjölskylda greiðir 2,4 sinnum meira fyrir sína íbúð þegar upp er staðið. Til þess að geta það þarf íslenska fjölskyldan að skila um 10 klst. lengri vinnuviku en sú danska, ekki í 20 ár heldur 40 ár svo öllu sé til haga haldið.

Íslenskum launamönnum er gert að búa í efnahagslegum þrælabúðum.

Sem dæmi má nefna að Rafiðnaðarsambandið hefur frá árinu 1970 samið um launahækkanir sem nema um 3.500% launahækkunum, á sama tíma og Danska rafiðnaðarsambandið samdi um 330% launahækkanir. Þetta segir reyndar allt sem þarf að segja um þetta mál.

Við höfum undanfarnar vikur fylgst með óróleika meðal heilbrigðistétta, sú snjóhengja sem þar hefur safnast upp var ekki leyst endanlega með samningum við hjúkrunarfræðinga. Það vitum við öll.

Það að dæma verðtryggingu ólöglega leysir ekki lánavanda heimilanna, lánavandinn mun einfaldlega breytast og ekki endilega batna. Það vitum við öll.

Við verðum að ráðast að rót vandans, gjaldmiðilsmálum.

Engin ummæli: