mánudagur, 22. júlí 2013

Spírall niður á við


Mörgum er tamt að vísa til gjörða og athafna verkalýðsforingja á árunum fyrir þjóðarsátt og taka þannig til orða að þá hafi verkalýðshreyfing verið verkalýðshreyfing, það sé nú annað upp á teningunum í dag. Á þessum árum fylgdi full vísitölubinding og verðbólgan var oft á fyrir ofan 50% og náði jafnvel yfir 100% og var í hæðum sem einungis voru þekktar í Suður Ameríku.

Lukkuriddarar spjallþáttanna eftir Hrun hafa margir hverjir borið á borð þekktar vinsældaaflandi fullyrðingar frá fyrri árum og hefur verið ákaft hampað, jafnvel af mönnum sem eru komnir í áhrifastöður eftir síðustu kosningar. Það er mjög margt í efnahagsumhverfinu sem bendir til þess að við gætum á næstu mánuðum siglt inn í nákvæmlega sama ófremdarumhverfi og var hár á árunum fram undir 1990.

Dæmigerðar hagstjórnaraðgerðir á þeim tíma voru verðstöðvanir og skerðingu verðbóta og frestun á verðtryggingu fjármagns. Krónan var orðin einskis virði og sett var í gang ný króna sem jafngilti 100 gömlum krónum. Aðilar vinnumarkaðarins sættust á að beita ekki verðtryggingu á laun, enda verðtryggi hún ekki laun í reynd, heldur hraðaði verðbólgu og kaupmáttur minnkaði frekar en að vaxa, ef gerðir voru gildishlaðnir kjarasamningar.

Nýrri kynslóð verkalýðsforingja á þessum tíma var orðið ljóst, að með því að verðtryggja laun var verið að fastbinda og tengja saman til framtíðar öll launakerfi. Það yrði nánast útilokað að hækka t.d. lægstu laun sérstaklega. Þessi ákvörðun verkalýðsforingjanna átti eftir að reynast farsæl, laun hækkuðu frá þessum tíma að jafnaði um 30% umfram verðlagsvísitölu til ársins 2010 og lægstu laun mun meira.

Á það var bent að velferðarþjónustu hér á landi væri að dragast aftur úr hinum Norðurlöndunum og á sama tíma þróaðist umfangsmikið kerfi ríkisforsjár, sem stuðlaði að því að vernda og styrkja fyrirtæki gegn áhættu, en þjóðnýtti síðan tap þegar illa gengi.

Þetta var oft nefnt „pilsfaldakapítalismi“, ef í nauðir ræki gátu fyrirtækin ávalt hlaupið undir pilsfald ríkisins í stað þess að taka ábyrgð á eigin gerðum og heimta gengisfellingar.

Þess var vandlega gætt af forkólfum stjórnmálaflokka og valdakerfisins að verkalýðshreyfingin næði ekki saman á pólitískum grundvelli og hún ætti ávalt að vera ópólitísk, á meðan samtök fyrirtækja gættu vel að því að vera sameinuð innan eins flokks og þau stæðu öflug að baki að þeim flokki.

Reynt var að hafa stjórn á umræðunni og oft beitt þeim brögðum að setja á dagskrá umræðunnar mál sem í raun skiptu engu, en til þess eins að afvegaleiða umræðuefni sem væri óheppileg valdhöfnum

Verðtrygging launa og verðtrygging lána eru ósambærilegar viðmiðanir. Lán til margra ára jafnvel áratuga er veitt í væntingu þess að jafngilt verðmæti sé skilað að lánstíma loknum. Á þeim tíma hefur lánveitandi engin tök á að endursemja um lánskjör með hliðsjón af breyttum aðstæðum og hefur því ástæðu til að tryggja verðgildi endurgreiðslu.

Vinna er hins vegar afhent þjónusta á líðandi tíma. Gildi launakjara er háð lengd og friðarskyldu kjarasamninga og persónulegum uppsagnarfresti. Kjör og laun eru reglulega endurskoðuð miðað við breyttar aðstæður, og unnt að beita uppsögn. Ennfremur eru laun svo mikill meginhluti rekstrarkostnaðar og ráðstöfunar verðmæta í þjóðarbúi, að óraunhæft er að festa raungildi þeirra til nokkurrar lengdar, og gildir það til beggja átta, hækkunar og lækkunar.

Hugmyndin að baki verðtryggingu launa var sú, að hagvöxtur og kjarabætur væru stöðugar hreyfistærðir, sem ekki gengju til baka, heldur mætti stöðugt bæta ofan á. Þessi hugmynd gekk ekki upp í þjóðarbúskap háðum sveiflum í auðlindum og ytri skilyrðum. Þegar óraunhæf kröfugerð náði fram og var þar með verðtryggð um leið og ekkert mátti slaka á kröfunni um fulla atvinnu, leiddi þetta kerfi til sjálfgengrar verðbólgu. Engin slík félagslega þvinguð kröfugerð er hins vegar að verki við mótun raunvaxta á markaðnum.

Í mikilli verðbólgu og reglulegum gengisfellingum hrapaði kaupmáttur launa um tugi prósenta. Kostnaðarverðbólga hefur verið áberandi í íslensku hagkerfi. Spenna á vinnumarkaði hefur valdið launaskriði, það kemur síðan fram í hækkandi verði á vörum og þjónustu og skekkir samkeppnisstöðu útflutningsgreina.

Það kallaði aftur á móti á gengisfellingar, sem síðan verða til þess að hækka verðlag enn frekar. Kostnaðarspírall upp á við, eins og það var oft nefnt í Karphúsinu. Kaunahækkanir upp á tugi prósent skilaði sáralitlu í hækkun kauðmáttar.
 
Þau sjónarmið voru áberandi í þáverandi verkalýðsforystu að hennar hlutverk væri að sjá til þess að sem flestar krónur væru í launaumslaginu við útborgun, það væri síðan á ábyrgð stjórnmálamanna að tryggja stöðugleikann. Þeir þóttu mestir sem höfðu í frammi umfangsmestu launakröfurnar.

Áhrif verðbólgu af þeirri stærð sem tíðkaðist hér á landi frá því í heimstyrjöldinni síðan fram til ársins 1990 náði til ýmissa fleiri sviða en hér hafa verið nefnd. Tiltrú á krónuna minnkaði. Margir töldu farsælast fyrir sig og heimili sín, að eyða sem fyrst öllum launum og frekar vera í skuld og sparnaður var ekki jafnmikils metinn og á fyrri hluta aldarinnar. Ýmsir sjóðir sem höfðu að markmiði að styrkja góð málefni rýrnuðu mjög og gátu ekki gegnt hlutverki sínu.

Sama var upp á teningunum ef fólk ætlaði að geyma fé á bankabók til elliáranna þar sem vextir voru löngum neikvæðir. Þess eru dæmi að líftrygging sem jafngilti verðs um 100 dilka að hausti árið 1938 var 25 Nýkrónu virði um aldamótin 2000.

4 ummæli:

Maron Bergmann sagði...

Einfaldast að hætta að borga og láta hlutina einfaldlega hafa sinn gang. Hér verður hvort eð er alltsaman farið á hausinn eftir 2 til 3 ár. Heilbrigðiskerfið ónýtt, forsvarsmenn lífeyrissjóðanna loksins búnir að átta sig á að lífeyriskerfið er algerlega ósjálbært, líkt og flestir sjá nú þegar. Opnberar framkvæmdir verða engar, skólakerfið komið niður á sama stig og á Kúbu og þeir sem komast í burtu verða farnir til Noregs. Ísland verður orðið líkt og mörg þorp á landsbyggðinni þar sem meðalaldurinn er orðinn álíka hár og íbúafjöldinn.

Unknown sagði...

Skulum tala um þetta hreint út.
Vilhjálmur Birgisson er í þessum lýðskruma ham alla daga. Og menn eru að dýrka þennan dreng.
Svo betur fer er þetta bara einn maður. Aðrir verkalýðsforingar hafa sómakennd og skynsmei og vinna í alvöru fyrir sína félagsmenn

Guðmundur sagði...

Maron Bergmann. Undanfarna áratugi hefur eitt af efstu málum meðal aðila vinnumarkaðisins verið staða opinbera lífeyriskerfisins, þar sem lofað hefur verið hlutum sem ekki er hægt að standa við og skuldir kerfisins hafa því hækkað gríðarlega. Eða með öðrum orðum ríkissjóður hefur ekki skilað inn umsömdum iðgjöldum, þar til viðbótar eru iðgjöld ekki í samræmi við skuldbindingar. :Þetta var m.a. efsta mál þegar rætt var um svokallaðan stöðugleika sáttmála árin 2009 - 2011 og hefur verið eitt efsta mál í ályktunumn. Þess vegna er þessa aths. þín Maron kostuleg, þú fylgist greinilega ekki með umræðunni.
Almenna líeyriskerfið er sjálfbært, þar sem réttindi eru skert ef inngreiðslur standa ekki undir skuldbindingum, þetta vita allir sem fylgjast með.

Maron Bergmann sagði...

Þú komst nefnilega nákvæmlega með það sem ég var að meina;

"Almenna líeyriskerfið er sjálfbært, þar sem réttindi eru skert ef inngreiðslur standa ekki undir skuldbindingum,"

Maður borgar svo og svo mikið en hefur ekki hugmynd um hvað kemur til baka þegar ellilífeyrisaldrinum er náð. Hrun og misvitlausar ákvarðanir ábyrgðarlausra stjórnenda leiða af sér að lífeyrissjóðirnir virka meira eins og happdrætti heldur en eithvað sem er hægt að treysta á.

Ég er búinn að vera út á vinnumarkaðnum í fáein ár og allan þann tíma hef ég reynt að skilja réttlætinguna fyrir því að hanga á ónýtri krónu sem verðbólgan gerir sífellt verðlausari. Þið verðalýðsleiðtogar klappið hvor öðrum á bakið þegar samið hefur verið um nokkurra prósentna launahækkanir sem halda í nokkra daga. Þá er búið að hækka vörur og þjónust sem nemur launahækkununum, verðbólgan hækkar og launahækkanirnar eru horfnar og verðtryggðu lánin hækkað sömuleiðis.

Kannski er ég bara svona illa gefinn en ég hef aldrei skilið af hverju lánin mín þurfa alltaf að hækka þegar einhverjum olíufursta dettur í hug að hækka heimsmarkaðverð á olíu með einhverjum æfingum eða þá þegar sígarettur hækka alltíeinu.

Örugglega einhverjir hagsmunir sem þið verkalýðsforkólfar eruð að vernda en sé ekki alveg hverra.