þriðjudagur, 31. desember 2013

Áramótahugleiðing um áhrif spjallþáttastjórnenda


Gylfi Zoega fer yfir stöðuna í grein í síðustu Vísbendingu sem kom út nú fyrir jólin. Gylfi segir m.a. að góður árangur hafi náðst í hagstjórn hér á landi síðustu árin. Hallarekstur ríkissjóðs hafi minnkað, hagvöxtur hafi verið í nokkur ár, atvinna aukist, skuldir lækkað og svo frv. Viðskiptajöfnuður hefur verið jákvæður undanfarin ár, en hann var mjög neikvæður árin þar á undan. Raungengi hefur ekki verið jafnlágt síðustu þrjátíu ár sama hvort miðað er við laun eða neysluverð, það hefur stuðlað að jákvæðum viðskiptajöfnuði.

Þrátt fyrir þetta hefur lítið birt yfir þjóðarsálinni. Stjórnmálamenn og álitsgjafar með spjallþáttakonungana í broddi fylkingar halda flestir áfram að mála skrattann á vegginn þó að hagtölur segi að kreppan sé búin.

Spjallþáttastjórnendur náðu flugi í Hruninu með yfirlýsingum á borð við“ Lífeyrissjóðirnir rannsökuðu sig sjálfir og eru mjög ánægðir með rannsóknina.“ Það hefur legið fyrir um langt skeið að tjón íslensku lífeyrisjóðanna í heild nam um 21,5%, en til samanburðar má nefna að Calpers sjóðurinn í Bandaríkjunum, sem er sá stærsti í heimi, tapaði 27,1%, Norski olíusjóðurinn tapaði 23,3% og meðaltal bandarískara verðbréfasafna fór niður um 22,5%. Aðrar íslenskar fjármálastofnanir en lífeyrissjóðirnir fóru meir og minna allar lóðbeint á hausinn.

Hvað er það sem skýrir þessa mismunandi upplifum? Menn á borð við Egil Helgason hafa endurtekið gert málflutning lýðskrumara sem náðu miklu flugi í þáttum hans í kjölfar hrunsins í spjallþáttunum að sínum og þeir viðhalda kreppu hugarfarsins.

Innlendur sparnaður er nauðsynlegur til þess að standa straum af innlendri fjárfestingu og afborgunum af erlendum lánum. Því ættu stjórn að leggja áherslu á innlendan sparnað og hann er mestur innan lífeyriskerfisins.

Sparnaður er nauðsynlegur fyrir hagvöxt, án hans getur fjárfesting ekki vaxið. Þeir sem leggja áherslu á aukna einkaneyslu við núverandi aðstæður lifa í hugarheimi lokaðs hagkerfis, en ekki í opnu litlu hagkerfi þar sem stór hluti aukinnar einkaneyslu fer í innflutning og eykur þjóðarútgjöld.

Það gengur ekki upp án þess að verðmætasköpun og þjóðarframleiðsla verði aukinn. Á þetta var bent í Stöðugleikasáttmálanum og hefur verið ítrekað af hálfu aðila vinnumarkaðs undanfarið.

Áratuginn fyrir gerð Þjóðarsáttar í febrúar 1990, var verðbólgan yfirleitt á milli 25-50% og fór jafnvel töluvert hærra, gengið var reglulega fellt og til þess að vinna upp glataðan kaupmátt samið reglulega um launahækkanir sem oftast námu tugum prósenta. var fellt, enda náðu þær vel þennan áratug vel þriðja þúsund prósenta. Vextir fóru með himinskautum.

Í Þjóðarsátt var samið um 1% kaupmáttarlækkun fyrsta árið, en á þeim forsendum að launamenn myndu fá það tilbaka í vaxandi kaupmætti, lægra verðlagi og vöxtum. Áratuginn eftir Þjóðarsátt fór verðbólgan niður í 1 – 3%, kaupmáttur óx sem aldrei fyrr og áratuginn eftir Þjóðarsátt námu launahækkanir að meðaltali á annan tug prósenta.

Þetta kallar spjallþáttakonungar og lýðskrumarar þeirra helför og afþakka blómakransa.

fimmtudagur, 26. desember 2013

Nytsamir sakleysingjar á Akranesi


Hún er einkennileg ritstjórn Eyjunnar, alla jóladagana er á forsíðu unnið að því að kynda undir deilum innan verkalýðshreyfingarinnar. Tilgangurinn blasir við, það hefur allt frá stofnun stéttarfélaganna í byrjun síðustu aldar verið markmið valdhafanna að ala á sundurlyndi meðal launamanna.

Formaður og stjórn Verkalýðsfélagsins á Akranesi er þar óspart nýttur og honum hampað.

Allar athafnir VLFA endurspeglast afskaplega vel í því í því félagið dró ekki tilbaka það samningsumboð sem félagið framseldi í upphafi viðræðna til Starfsgreinasambandsins. Fulltrúar VFLA hlupu hins vegar enn einu sinni á dyr þegar komið er að úrslitastundu, og sýna sig í því að hafa ekki dug og getu til þess að takast á við vandann.

Formaður og stjórn VFLA krefst þess að venju að allir fari að hans vilja, en svo vill til að 95% Alþýðusambandsins er ekki á sömu skoðun, en það virðist ekki skipta fjölmiðlamenn.

Ef litið er til ummæla stjórnar VFLA, sem fjölmiðlamenn og spjallþáttakonungar spila ítrekað, þá er ekki hægt að skilja þau á annan hátt en svo að það hafi verið forseti ASÍ og samningamenn allra annarra stéttarfélaga innan ASÍ, stéttarfélaga sem eru með yfir 95% félagsmanna aðildarfélaga ASÍ, sem hafi sagt í Karphúsinu, „Nú er nóg komið af þessum launahækkunartilboðum, alls ekki meira. Takk fyrir og réttið okkur pennana til þess að undirrita.“

Það liggur fyrir að samningamenn allra aðildarfélaga ASÍ hafa allt frá því í september haldið fjölmarga félagsfundi, auk þess að standa fyrir skoðanakönnunum meðal sinna félagsmanna, þannig að samningamenn þessara stéttarfélaga hafa haft fullt umboð til þess að ganga þá leið sem farinn var, og það er síðan félagsmannanna að taka afstöðu til niðurstöðunnar.

En svo kemur stjórn VFLA enn eina ferðina og segist vita betur hvað félagsmenn allra hinna stéttarfélaganna í landinu vilji og krefst þess að samningamenn viðkomandi stéttarfélaga gangi gegn samþykktri eigin stefnu!!

Hvernig stendur á því að stjórn VFLA dró ekki samningsumboð sitt til baka og snéri síðan spjótum sínum að Samtökum atvinnurekenda og krafðist þeirra launahækkana sem það telur sig hafa í hendi?

Ítrekað reyna formaður og stjórn VFLA enn eina ferðina að koma ábyrgð á eigin afglöpum yfir á önnur stéttarfélög. En við öllum blasir sú staðreynd að VFLA treystir sér ekki sjálft til þess, ef svo væri hefðu þeir dregið samningsumboðið tilbaka.

Í félagslegu samstarfi er það meirihlutinn sem ákveður og maður verður einfaldlega að lúta þeirri niðurstöðu, það er að segja ef maður ætlar sér að vera áfram í félagslegu samstarfi.

Fjölmiðlar í eigu tiltekins hóps hagsmunaðila í samfélaginu og meðal atvinnurekenda, berjast af öllum krafti gegn því að tekið verði í alvöru á vandanum og vilja viðhalda möguleikanum til reglulegra gengisfellinga þegar vandanum er "blóðsúthellingalaust velt yfir á launamenn“ svo vitnað sé til helsta hugmyndasmiðs þessarar stefnu. Hégómagirnd nytsamra sakleysingja er nýtt til fullnustu.

Samtök atvinnurekenda verða því alltaf stikkfrí í þessari umræðu, í boði hinar VFLA, sem líklega er harðasti andstæðingur launamanna á Íslandi þessa dagana. Spjallþáttakonungar reyna hins vegar að telja okkur í trú um að þar fari baráttumenn.

Staðan í dag er nákvæmlega sú sama og hún var í nóvember og desember 1989, sem gat af sér Þjóðarsáttarsamningana, sem leiddi til mesta kaupmáttarauka sem dunið hefur á launamönnum hér á landi. Áratuginn eftir það var hins vega samið um 12% launahækkanir, en áratuginn á undan hafði verið samið um 2.700% launahækkanir með heimsmetum í verkföllum og flest fyrirtæki landinu voru kominn að fótum fram ásamt flestum heimilum þessa lands.

Það hefur komið fram að tiltekin fyrirtæki hafa enn einu sinni hafnað þeirri stefnu sem meirihluti stéttarfélaga ASÍ og ráðandi hóps innan SA ætla að fara og er að vinna sér svigrúm til þess að ná þangað. Gegn því er barist og fjölmiðlamönnum og spjallþáttakonungum beitt af öllu afli og þeir spila á hégómagirnd hinna nytsömu sakleysingja.

 

sunnudagur, 22. desember 2013

Lýðskrumarinn og fjölmiðlarnir


Ég hef komið að gerð kjarasamninga með einum eða öðrum hætti nánast allan minn starfsaldur. Fyrst sem áhugamaður á félagsfundum, síðan sem trúnaðarmaður og komst þá  í samninganefnd og svo sem forsvarsmaður landssambands frá 1993 - 2011.

Í hverjum einustu kjarasamningum upplifir maður upprisu einstaklinga sem lofa miklum launahækkunum og yfirbjóða óspart. Ekkert er auðveldara en að yfirbjóða í kjarasamningum, nema það væri kannski að deila út kosningaloforðum. Yfirboðsmenn ná oftast athygli fjölmiðla og á því þrífast þessir einstaklingar.

Ég er ekki gagnrýna þá sem hafa mismundandi skoðanir á hver áherslan eigi að vera. Éf er að gagnrýna þá sem eru við samningaborðið eins og aðrir, en þeir fara síðan alltaf í fjölmiðla og koma í bakið á félögum sínum. Ég þekki engan sem stendur sáttur upp frá samningaborði, en þegar meirihluti samninganefndar metur það svo ekki sé hægt að ná lengra þá verður maður að una því.   

Lýðskrumarinn veit að hann mun ekki geta staðið við innistæðulaus loforð sín og alltaf er fyrirséð hvernig hann muni bregðast við.

Lýðskrumarinn endar alltaf sína velþekktu vegferð með því að bera sakir á aðra félaga sína í verkalýðshreyfingunni, oftast blandað andstyggilegu persónulegi níði, þó svo hann viti, og fjölmiðlamenn ættu einnig að vita, við erum ekki að semja við önnur stéttarfélög um kaup og kjör. Kjarasamningar eru gerðir milli stéttarfélaga við samtök fyrirtækja og/eða sveitarfélaga. Stéttarfélög semja ekki hvert við annað, eins og skilja má í spjallþáttum og fréttum.

Hér spilar fjölmiðlamaðurinn stórt hlutverk undir stjórn lýðskrumarans og við líðum fyrir það hversu slök íslensk fjölmiðlun er í sumum tilfellum, vegna þekkingarleysis fjölmiðlamanna og þess sjónarmiðs sem ræður : Það á að vera fjör í fréttunum og í spjallþáttunum. Lýðskrumaranum er hampað í viðtölum og spjallþáttum og gjarnan er hann nefndur "baráttumaður!!".

Það liggja fyrir samþykktir í öllum stéttarfélögum hvaða stefnu þau vilja fylgja. En lýðskrumarinn og fjölmiðlamenn virða þá stöðu vettugi og virðast oft ætlast til þess að forsvarsmenn stéttarfélaga gangi gegn samþykktum félagsmanna sinna.

Þó svo tillögur lýðskrumarans séu felldar með yfirgnæfandi fjölda atkvæða, heldur hann áfram og virðir vilja meirihlutans að vettugi og fær til þess góða aðstoð fjölmiðlanna. Það er sama hvað kemur upp ætíð ber hann sakir að félaga sína - ekki viðsemjendur stéttarfélaganna.

Í fjölmiðla og spjallþáttameðferð er ætíð gengið út frá því það sé lýðskrumarinn hafi rétt fyrir sér, en samþykktir allra annarra stéttarfélaga virtar vettugi.

Ætíð er það svo að það liggur fyrir að þeir aðilar sem lýðskrumarinn þarf að ná samningum við munu aldrei fallast á kröfur hans. Vitanlega er það lýðskrumarinn sem er að tapa ekki aðrir, en hann hefur ekki burði til þess að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna og þau vonbrigði sem felast í þeim væntingum sem hann er búinn að vekja hjá því fólki sem minnst má sín. Þar liggur er mesti fantaskapurinn sem er afleiðing gjörða lýðskrumarans. Meiri maður er hann nú ekki.

En vitanlega er það félagsmaðurinn sem hefur síðasta orðið, og þá ræður einfaldur meirihluti. Menn verða að hafa það í huga að ef félagsmenn samþykkja samninginn þá eru þeir búnir að losa samninganefndina undan ábyrgð.

mánudagur, 16. desember 2013

Verðtryggingin


Eitt af kosningaloforðum Framsóknar var afnám verðtryggingar. Einblínt á verðtrygginguna sem einhvern vanda og verði hún afnuminn sé búið að leysa þann vanda sem fólk lenti í þegar það fjárfesti í íbúðarhúsnæði.

Verðtryggingin er ekki vandinn, ef verðtrygging er felld niður koma einfaldlega breytilegir vextir í staðinn og fólk situr í enn verri stöðu, eða mjög háir meðalvextir.

Fólki hefur alltaf staðið til boða að velja óverðtryggð lán en hefur hafnað því og valið frekar verðtryggð. Hvers vegna? Vegna þess að fólki er þá gert greiða umtalsvert meira en það þarf þegar verðbólgan er í eðlilegum stærðum. Um þetta hafa verið skrifaðar margar góðar greinar, en skrumararnir hafa alltaf skautað hjá þeim.

Þetta sést t.d. mjög vel m.a. á myndinni hér að neðan. Það er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að bæta verðtryggingarkerfið eitthvað eða breyta útfærslum á því, en það leysir ekki þann vanda sem fólk lenti í.

Nokkrar staðreyndir :

• Verðtrygging er óvirk ef ekki eru verðlagsbreytingar. Ef við búum við stöðugleika þá er hún meinlaus.

• Ef verðgildi krónunnar breytist lagar verðtrygging fjárskuldbindingar að því ástandi, hvort sem um er að ræða rýrnun hans í verðbólgu eða hinu gagnstæða í verðhjöðnun, góður eiginleiki.

• Verðtrygging er ekki einungis til hér á landi hún er víða til, jafnvel í löndum sem búa við stöðugleika. þjóðverjar, Bretar, Svíar og mörg önnur ríki gefa út verðtryggð skuldabréf. Hollenskir lífeyrissjóðir veita verðtryggð lán.

Í dag er rætt er um þak á hækkun verðtryggingar umfram 4%. Ef lántakandi fengi lán á 4,35% vöxtum með 4% þaki ætti hann rétt á endurgreiðslu á þeirri upphæð sem færi upp fyrir þakið.


Hér er mynd af 12 mánaða verðbólgu og svo meðaltalsverðbólgu. Byggt á upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

 
 
Það er eitt að tala um verðbólguálag en ekki er komist hjá því að bæta við verðbólguáhættu sem felst í áhættu á tímabundnum toppum eins og m.f. mynd sýnir.


Áhættulausir 20 ára verðtryggðir jafngreiðsluvextir eru í dag um 2,8%. Sjóðsfélagalán lífeyrissjóða bera í dag um 0,5 – 1,5% álag á áhættulausa vexti og boðið er upp á um 4% vexti ásamt verðtryggingu svipuð kjör og Íbúðalánasjóður býður.


Verði þakinu komið á þýðir það aukið álag á grunnvexti og húsnæðislán í dag yrðu þá um 6,4 - 7%. Líttu á myndina aftur og sjáðu lesandi góður hvernig þetta hefði verið ef meðaltalslínan lægi við 7% í töflunni hér ofar. Er það það sem verið er að biðja um, það er að segja að sætta sig við að greiða okurvexti, í stað þess að tekið verði á vandanum og komið á stöðugleika til framtíðar.

Með því kerfi sem verið hefur þá færist vaxtatalan niður þegar verðbólgan fer niður.

laugardagur, 7. desember 2013

Burt með ESB áróðurinn


Þingmenn sjálfstæðismanna virðast vera lippast undan kröfu LÍÚ og ráðherra Framsóknarflokksins um að koma í veg fyrir að landsmenn fái að segja álit sitt á hugsanlegum samningum við ESB og þá um leið samþykktir flokksþings Sjálfstæðismanna.

Þeim er að takast þessa dagana að koma í veg fyrir aðlögun að regluverki og stofnanakerfi ESB með milljarða fjáraustri frá Brussel. Slíkar mútur frá Evrópusambandinu geri að engu vonir um að hér fari fram lýðræðisleg og hlutlæg umræða um kosti og galla aðildar. Áframhaldandi aðlögunarferli sé gróf ögrun við lýðræði í landinu.

Aðlögunarferli Íslands að regluverki og stofnanakerfi ESB hófst árið 1994 með aðild okkar að EES samningunum og er talið um 70% af því sé lokið. Aðlögunin heldur nú samt sem áður fram vegna samninga sem Ísland hefur gert um samstarf milli Evrópulanda.

Þetta er samstarf við þjóðir sem kaupa um 80% af útflutning okkar telja núverandi ráðamenn þjóðarinnar vera grófa ögrun við lýðræði í landinu. Ráðamenn virðast ætla að fórna þessum viðskiptum í baráttu sinni að halda þeim tökum á íslensku samfélagi sem þeir hafa náð.

Þessir milljarðarnir hafa streymt hingað frá Brussel. Íslensk sveitarfélög, félagasamtök, bændur, nýsköpunarfyrirtæki, opinberar stofnanir og óteljandi vísindamenn og listamenn hafa verið að taka við peningum frá ESB án þess að roðna eða blána. 7. rannsóknaáætlun ESB, Almannavarnaáætlun, Daphne III - gegn ofbeldi á konum og börnum, Evrópa unga fólksins, eTwinning - rafrænt skólasamstarf, Progress - jafnréttis- og vinnumálaáætlun, MEDIA Kvikmynda-, sjónvarps- og margmiðlunaráætlun ESB, Menningaráætlun ESB og Menntaáætlun ESB eru dæmi um þau nöfn sem ESB gefur lítt dulbúnum mútugreiðslum sínum.

Þá má ekki má gleyma öllum þeim þúsundum ungmenna sem hafa verið að fara til lengri eða skemmri dvalar í Evrópusambandslöndum í gegnum ERASMUS námsmannaskiptin.


Í þingræðu 24. janúar í fyrra sagði Gunnar Bragi Sveinsson sem nú er utanríkisráðherra : „Þeir styrkir sem um er að ræða eru vitanlega ætlaðir til þess að byggja hér upp og auka trú á að Evrópusambandið sé komið til að vera og komið til þess að laga hér allt sem hægt er að laga á þessu blessaða landi okkar. Það er ekki eðlilegt. Það getur ekki verið eðlilegt að við tökum við fjármunum frá ríki sem við erum að semja við. Við erum væntanlega að semja við þessi ríkjasambönd eða hvað á eiginlega að kalla þetta fyrirbæri. Og þau koma með peninga til okkar. Það er miklu eðlilegra að allar breytingar sem þurfa að verða ef af samningi verður komi eftir á og þá peningarnir. Þetta eru ekkert annað en glerperlur og eldvatn sem er verið að bera hérna fram.“

 Og í þinginu 18. júní í fyrra sagði hann: „Ég er algjörlega á móti því að Ísland þiggi þessa styrki frá Evrópusambandinu. Ég tel að Ísland eigi að vera í vegferð sinni á eigin forsendum, ekki upp á einhverja bitlinga frá Evrópusambandinu sem rekur hér harðan og ósvífinn áróður að mínu viti sem er ekki sannur og réttur og hefur til þess tæki eins og Evrópustofu.“

Textinn talar sínu máli. Utanríkisráðherrann var harður andstæðingur þess að IPA-styrkirnir yrðu greiddir, en íslenskar stofnanir fara á mis við milljarða króna vegna ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar.

Í yfirlýsingu sem Gunnar Bragi, nú orðinn utanríkisráðherra, sendi frá sér í vikunni segir m.a: „Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar kemur Íslendingum í opna skjöldu.“

„Utanríkisráðuneytið hefur komið óánægju íslenskra stjórnvalda með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar á framfæri og telur utanríkisráðherra að með henni bregðist ESB þeim fjölmörgu samstarfsaðilum sem það hefur gert samninga við.
„...Er þessi ákvörðun  framkvæmdastjórnarinnar mjög óheppileg.“

 

Núverandi stjórnvöld óttast ekkert meir en að almenningur hér gæti séð hag sínum betur borgið í baráttunni við að koma í veg fyrir reglubundnar gengisfellingar með ofurvöxtum og verðtryggingu og eignaupptöku útflutningsfyrirtækjanna og um leið að komast undan ofríki þeirra sem hafa öll tök á landinu hinna.

Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill fá að sjá aðildarsamning sýnir vitanlega hversu vel ESB hefur orðið ágengt í áróðursstarfi sínu. Þjóðin er að mati valdhafanna engan vegin fær um það lengur að ræða þetta mál á hlutlægan hátt, hvað þá að greiða um það atkvæði.

Lýðræðinu er þannig að mati valdhafanna best borgið með því að koma í veg fyrir að lýðurinn fái að ráða.

Það gerðu valdhafarnir við vilja afgerandi meirihluta þjóðarinnar þegar hún vildi nýja stjórnaskrá sem reyndar skerti verulega völd þeirra sem telja sig vera sjálfkjörna handhafa allra hlutabréfanna í lýðveldinu Íslandi.

 

þriðjudagur, 3. desember 2013

Stórsigur Framsóknarflokksins


Formaður Framsóknarflokksins lofaði skuldaniðurfellingu upp á 240 milljarða króna, sem átti að jafngilda 20% flatri niðurfærslu og svo átti leiðréttingin að koma fram strax!
 
Hann segir reyndar núna að það sé lygi óvina sinna, (loftárás), þrátt fyrir að þetta sé nú skjalfest í hverju viðtalinu á fætur öðru síðasta vetur.  

Niðurstaðan er að leiðrétting verður um 5% að verðtryggðum skuldum heimilanna.

Fjármögnun tillagnanna er ótryggð og umtalsverða líkur á að hún lendi á okkur skattborgunum.
 
Ríkið á að standa straum af kostnaðinum ekki hrægammasjóðirnir.

Eða með öðrum orðum allt það sem gagnrýnendur málflutnings Framsóknarflokksins bentu á er komið fram, þeir höfðu rétt fyrir sér. (sjá m.a. pistla á þessari síðu) 

En það er kynnt sem stórsigur Framsóknarmanna??!!

Og ritstjórn Eyjunnar ræður sér ekki fyrir fögnuði, þvílíkt skrum

mánudagur, 2. desember 2013

Loks niðurstaða


Það er mjög gott að það er kominn niðurstaða í það hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í sambandi við niðurfellingu skulda. Þessi staða hefur skapað óvissu og á vissan hátt dregið það að vinna við endurnýjun kjarasamninga komist í gang.

Málflutningur forsætisráðherra er núna um helgina, eins og oft áður harla einkennilegur, þar sem hann heldur því fram að það sé ósatt að hann hafi nefnt töluna 230 – 300 milljarða. Það eru eins og allir vita til fjölmargar tilvísanir í fjölmiðla hér á netinu sem sýna fram að hann fer hér enn einu sinni í sitt venjubundna far.

Það eru einmitt þessar yfirlýsingar sem hafa valdið mestum vandræðunum, því ef sú leið hefði veirð farinn sem hann boðaði í kosningabarátunni og eins fram eftir sumri, hefu reinmitt skapað alla þessa óvissu. Sigmundur Davíð er ekki sá bógur að hann treysti sér til þess að axla þá ábyrgð.

Það er ljóst að þessar aðgerðir muni ekki valda sama usla í efnahagslífun, en það er útilokað að leggja mat á þessu stigi hvernig þetta fer, hverjir borgi þegar upp er staðið og fleira íþeim dúr, þannig að ég ætla að geyma mér umfjöllun um þessar aðgerðir.

En það eru margir sem bíða eftir því að ríkisstjórnin afgreiði samþykktir Alþingis og lífeyrissjóðanna frá því í vor um lausn á 110% leiðinni gagnvart lánsveðum.

Margir vöruðu við því í vor að Sigmundi Davíð myndi ekki takast að ná þessum 300 milljörðum af erlendum hrægömmunum og reyndar margir sem spurðu hverjir það væru í raun og hvort það myndi verða til þess að skapa enn verri stöðu Íslands gagnvart elendum fjármálamörkuðum.

Það er ástæðulaust að rifja upp allar þær gildihlöðnu yfirlýsingar sem frá honum komu þær eru á flugi á netinu og víðar, að venju vill hann ekki kannast við neitt núna. En það breytir því ekki að ljós er komið að sú gagnrýni reyndist rétt

Margir bentu á að ef ríkisstjórnin myndi demba 300 milljörðum út í hagkerfið þá myndi það framkalla enn eina kollsteypuna, þar á meðal voru margir núverandi og fyrrverandi Sjálfstæðismenn og þar á meðal undirritaður. Þannig að niðurstaðan er að því leiti fagnaðarefni, en það er samt ekki útséð hvaða afleiðingar þessi aðgerð muni hafa. Það á eftir að koma í ljós.

En málflutningur Egils Helgasonar og nokkurra annarra Framsóknarmanna þessa stundina er hreint út sagt kostulegur, þessi venjubundna barnalega nálgun, þar sem reynt er að búa til einhvern spuna og varpa fram reyksprengjum til þess að afvegaleiða umræðuna frá því öngstræti sem Sigmundur Davíð og hans stuðningsmenn eru í eftir allar hinar gildishlöðnu yfirlýsingar.

Það er hins vegar rétt hjá Sigmundi Davíð að þessi tala hefur verið í umræðunni lengi eða frá því að fyrrv. stjórnarflokkar ætluðu árið 2010 að sækja 236 milljarða í lífeyrissjóði landsins og nota þá fjármuni til þess að greiða niður skuldir.

Allmargir sjóðsfélagar, þar á meðal undirritaður, mótmæltu því harðlega og hótuðu málsókn ef sú leið yrði farinn, þetta væri brot á stjórnskrá og myndi einnig mismuna sjóðsfélögum gríðarlega, þar sem þetta myndi einvörðungu bitna á sjóðsfélögum í almennu lífeyrissjóðunum.

Einhverra hluta vegna voru þessi mótmæli persónugerð í forseta ASÍ, og bornar þungar sakir á hann, hann væri versti óvinur heimila landsins!!?? Ekki samdi hann Stjórnarskránna 1944, og enn einu sinni ; Mótmælin komu frá sjóðsfélögum almennu sjóðanna.

Í þessari gagnrýni fóru fremstir nokkrir af efnahagsráðgjöfum Framsóknar.

ASÍ lagði til að farið yrði í þessa aðgerð með almennum aðgerðum. T.d. hækkun söluskatts í takmarkaðan tíma, það hefði komið mun betur út fyrir alla, og öllm fjármunum beint þangað sem veruleg þörf væri á þeim. T.d. í gegnum vaxtabætur og barnabætur. Það hefði ekki kostað 236 milljarða en hefði komið þeim til hjálpar sem þurftu á því að halda.

En stjórnmálamenn voru svo uppteknir í skítkastinu, að þeir hlustuðu ekki á þessar tillögur.

Við værum í annarri stöðu í dag ef á tillögur ASÍ hefði verið hlustað og það framkvæmt á árinu 2010.