sunnudagur, 22. desember 2013

Lýðskrumarinn og fjölmiðlarnir


Ég hef komið að gerð kjarasamninga með einum eða öðrum hætti nánast allan minn starfsaldur. Fyrst sem áhugamaður á félagsfundum, síðan sem trúnaðarmaður og komst þá  í samninganefnd og svo sem forsvarsmaður landssambands frá 1993 - 2011.

Í hverjum einustu kjarasamningum upplifir maður upprisu einstaklinga sem lofa miklum launahækkunum og yfirbjóða óspart. Ekkert er auðveldara en að yfirbjóða í kjarasamningum, nema það væri kannski að deila út kosningaloforðum. Yfirboðsmenn ná oftast athygli fjölmiðla og á því þrífast þessir einstaklingar.

Ég er ekki gagnrýna þá sem hafa mismundandi skoðanir á hver áherslan eigi að vera. Éf er að gagnrýna þá sem eru við samningaborðið eins og aðrir, en þeir fara síðan alltaf í fjölmiðla og koma í bakið á félögum sínum. Ég þekki engan sem stendur sáttur upp frá samningaborði, en þegar meirihluti samninganefndar metur það svo ekki sé hægt að ná lengra þá verður maður að una því.   

Lýðskrumarinn veit að hann mun ekki geta staðið við innistæðulaus loforð sín og alltaf er fyrirséð hvernig hann muni bregðast við.

Lýðskrumarinn endar alltaf sína velþekktu vegferð með því að bera sakir á aðra félaga sína í verkalýðshreyfingunni, oftast blandað andstyggilegu persónulegi níði, þó svo hann viti, og fjölmiðlamenn ættu einnig að vita, við erum ekki að semja við önnur stéttarfélög um kaup og kjör. Kjarasamningar eru gerðir milli stéttarfélaga við samtök fyrirtækja og/eða sveitarfélaga. Stéttarfélög semja ekki hvert við annað, eins og skilja má í spjallþáttum og fréttum.

Hér spilar fjölmiðlamaðurinn stórt hlutverk undir stjórn lýðskrumarans og við líðum fyrir það hversu slök íslensk fjölmiðlun er í sumum tilfellum, vegna þekkingarleysis fjölmiðlamanna og þess sjónarmiðs sem ræður : Það á að vera fjör í fréttunum og í spjallþáttunum. Lýðskrumaranum er hampað í viðtölum og spjallþáttum og gjarnan er hann nefndur "baráttumaður!!".

Það liggja fyrir samþykktir í öllum stéttarfélögum hvaða stefnu þau vilja fylgja. En lýðskrumarinn og fjölmiðlamenn virða þá stöðu vettugi og virðast oft ætlast til þess að forsvarsmenn stéttarfélaga gangi gegn samþykktum félagsmanna sinna.

Þó svo tillögur lýðskrumarans séu felldar með yfirgnæfandi fjölda atkvæða, heldur hann áfram og virðir vilja meirihlutans að vettugi og fær til þess góða aðstoð fjölmiðlanna. Það er sama hvað kemur upp ætíð ber hann sakir að félaga sína - ekki viðsemjendur stéttarfélaganna.

Í fjölmiðla og spjallþáttameðferð er ætíð gengið út frá því það sé lýðskrumarinn hafi rétt fyrir sér, en samþykktir allra annarra stéttarfélaga virtar vettugi.

Ætíð er það svo að það liggur fyrir að þeir aðilar sem lýðskrumarinn þarf að ná samningum við munu aldrei fallast á kröfur hans. Vitanlega er það lýðskrumarinn sem er að tapa ekki aðrir, en hann hefur ekki burði til þess að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna og þau vonbrigði sem felast í þeim væntingum sem hann er búinn að vekja hjá því fólki sem minnst má sín. Þar liggur er mesti fantaskapurinn sem er afleiðing gjörða lýðskrumarans. Meiri maður er hann nú ekki.

En vitanlega er það félagsmaðurinn sem hefur síðasta orðið, og þá ræður einfaldur meirihluti. Menn verða að hafa það í huga að ef félagsmenn samþykkja samninginn þá eru þeir búnir að losa samninganefndina undan ábyrgð.

7 ummæli:

Sigfús sagði...

Ágæti Guðmundur.
Þú leiddir lengi það samband sem ég tilheyri og búinn að tilheyra í um 20 ár.
Ég held að menn eins og þú verði að geta unað því að það eru menn og konur með aðrar skoðanir en þú og fleiri góðir menn og konur sem hafa leitt samningamá síðustu ár.
Nú er ég ekki endilega að taka undir með þeim aðila sem þú kýst að nefna "lýðskrumara" hér en þykist vita um hvern þú hafðir í huga þegar þú skrifaðir þinn pistill. Hitt er svo annað að ég sjálfur er langt,langt frá því að var sáttur með þar sem var samið um. Finnst til að mynda óeðliegt að semja um lægri prósntutölu en verðbólguspár SÍ benda til, það þýðir í mínu veski kaupmáttarrýrnun en um það þurfum við ekki að vera sammála. Svo finnst mér aðkoma ríkis ansi þunn, meira svona almennt orðað, orð eins og "stefnir að", "mun skoða" er ekki fast í hendi ef þú værir að bjóða í verk er það ?

Mér finnst til að mynda það sem SA þarf að reiða fram ansi ódýrt. Mun til dæmir Björgólfur eða Steini Víglunds skamma allar litlu og meðalstóru fyrirtækin þegar 2,8 % vcrað sett beint í verðlagið ? Nei, held ekki. Guðmundur, ég er búinn að fylgjast með kjarabaráttu síðan ég hafði vit til, ávallt hefur þetta lent á okkur skófluliðinu. Kannski Guðmundur komast góðir menn eins og Gylfi ekki lengra með sinn málflutning, kannski eru persónuleg tengls að flækjast fyrir, hvað veit ég. Eina sem ég veit að mínum dómi var þetta vindhögg og það stórt. Þess vegna, þökk sé netinu og bloggsíðu eins og þessara, þá gefst skólfumanni eins og mér aðstaða og ástæaða til að tjá sig. Vonandi kallar þú það ekki "lýðskrum".
Gleðilega hátíð.

Guðmundur sagði...

Hér er nú eitthvað verið að miskilja.

Vitanlega geta menn haft allar sínar skoðanir á kjarasamningum, með og á móti og er eðlilegt. Ég hef t.d. ekkert sagt um innihald þessa samnings og ekkert sagt hvort ég muni greiða atkvæði gegn honum eða á móti.

Þessi pistill fjallar nákvæmlega ekkert um það.

Það sem hann snýst um eru vinnubrögð skrumaranna, endurtekið fara þeir í fjölmiðla og níða niður samstarfsmenn sína og upphefja sjálfan sig á kostnað annarra.

Ég er sannfærður um að engin hafi staðið upp frá samningaborðinu fullkomlega sáttur, ég gerði það t.d. aldrei. Stundum var ég algjörlega á móti niðurstöðunni, en það var hins vegar mitt hlutverk að lúta að vilja meirihlutans.

Það var mitt hlutverk að kynna niðurstöðuna, hlutlaust, þar skipti skoðun mín engu máli.

Þegar maður sest nefnilega í forystusæti afsalar maður sér ákveðnum rettindum.

En þeir sem vinna að sameiginlegum kjarasamningum meta stöðuna saman og ákveða hvenæ þeir telja að ekki verið lengra komist nema þá að fara í átök.

Lög um kjaradeilur setja mönnum leikreglur, þegar ekki er lengra komist í Karphúsinu verður að bera það undir þá félagsmenn sem vinna eftir viðkomandi kjarasamning.

Það eru þeir og engir aðrir sem geta tekið ákvörðun hvort menn fari í átök. Ef meirihluti þeirr aem kjósa um samning samþykkja hann þá er málið dautt. Ef menn hinsvegar fella hann þá er kominn upp sú staða að hægt er að fara að undirbúa átök. Flóknara er það nú ekki.

Það er svo óendanlega einkennilegt að heyra menn persónugera niðurstöðu kjaraviðræðna, Gylfi ákvað þetta eða hitt. Forseti ASÍ ákveður ekkert einn, það er meirihluti samninganefndar sem gerir það.

Það er klárlega einhverjir sem vildu gera eitthvað annað, en þeir fara ekki og stinga félaga sína í bakið. Það eru síðan félagsmenn sem eiga síðasta orðið.

Ómerkilegast af öllu er að fara í fjölmiðla og upphefja sjálfan sig á kostnað samstarfsmanna sinna.

Stinga þá í bakið

Nafnlaus sagði...

Sælir.
Félagsmenn eiga loka orðið en félagsmenn átta sig ekki alltaf á að þeir ákveða stríðið ekki stjórnin, enda mæta þeir varla á fundi eða taka þátt.

Menn eiga það líka til þegar þeir hafa verið í innsta kjarna að sjá þetta ekki útfrá einfaldasta einstaklingnum, heldur gefa sér að allir séu jafn vel að sér í málum og hann.

Allir eru þetta bestu menn sem reyna semja um kaup og kjör og gera þetta eftir sinni bestu getu.

En útskýringar frá þeim sem semja eru rosalega illa útfærðar í almenning.

Fólk er reitt, og þegar fólk er reitt er einfallt að nýta sér æsifréttamensku.

með bestu kveðju.
Gleðileg Jól.

Nafnlaus sagði...

Það er hægt að taka undir þessi skrif um lýðskrum og fjölmiðla.Fjölmiðlar teikna upp einfalda mynd þar sem einstakir foringjar ákveða eitt og annað. Þeir semja eða semja ekki.Það eru fáir á leiksviðinu. Ég hef fylgst með verkalýðsbaráttu í meir en 40 ár og eftir nánat alla samninga koma einhverjir og tala um svik, veika eða dauða verkalýðshreyfingu og svo framvegis. Lýðskrumarar eru að sjálfsögðu til og þeir reyna alltaf að ná athygli fjölmiðla.persónulegur rógburður hefur líklega verið með meira móti á síðustu árum.

Nafnlaus sagði...

Verkalýðshreyfingin hefur staðið sig afburða vel og til að mynda hefur kauptrygging hækkað úr 104 þúsund kr. árið 2005 í 214 þús í dag. Það er ekkert smáræði. Ekki skamma verkalýðshreyfinguna fyrir íslenska krónu, hún vill ekki sjá hana.
Tryggvi

Nafnlaus sagði...

Mikið gæfi ég fyrir betri fjölmiðla og fjölmiðlamenn. Formenn þeirra félaga sem ekki skrifuðu undir kjarasamninginn á laugardag skömmuðust útí það að þeir sem hefðu milljón mundu hækka um 28.000 kr. og kenndu öllum um nema sjálfum sér. Sérstaklega fór Skagamaðurinn mikinn eins og fyrri daginn.Samkvæmt þeirra kröfum átti þessi með milljónina að hækka um 65.000 kr. enda krafan um 6,5 % hækkun upp allann stigann. Þetta áttu fjölmiðlamenn að reka framan í þá. En það er eins í verkalýðshreyfingunni og á Alþingi. Sá sem gasprar mest og hæst er talinn bestur

Guðmundur sagði...

Það er ákaflega algengt í íslenskri umræðuhefði að svara gagnrýni með því að benda á einhvern og segja eitthvað í þá veru ég veit um annan sem er mikið verri og þar með er málið afgreitt í hugum nokkurra. Engin rök. Þegar ég fæ fæ sendar inn athugasemdir sem eru í þessa veru og um leið er reynt að nýta aths.kerfið hér hjá mér til þess að ausa drullu yfir einhverja einstaklinga í skjóli nafnleysis, þá er það ekki birt. Það er fínt ef menn gagnrýna og færa rök fyrir sínu máli.