fimmtudagur, 26. desember 2013

Nytsamir sakleysingjar á Akranesi


Hún er einkennileg ritstjórn Eyjunnar, alla jóladagana er á forsíðu unnið að því að kynda undir deilum innan verkalýðshreyfingarinnar. Tilgangurinn blasir við, það hefur allt frá stofnun stéttarfélaganna í byrjun síðustu aldar verið markmið valdhafanna að ala á sundurlyndi meðal launamanna.

Formaður og stjórn Verkalýðsfélagsins á Akranesi er þar óspart nýttur og honum hampað.

Allar athafnir VLFA endurspeglast afskaplega vel í því í því félagið dró ekki tilbaka það samningsumboð sem félagið framseldi í upphafi viðræðna til Starfsgreinasambandsins. Fulltrúar VFLA hlupu hins vegar enn einu sinni á dyr þegar komið er að úrslitastundu, og sýna sig í því að hafa ekki dug og getu til þess að takast á við vandann.

Formaður og stjórn VFLA krefst þess að venju að allir fari að hans vilja, en svo vill til að 95% Alþýðusambandsins er ekki á sömu skoðun, en það virðist ekki skipta fjölmiðlamenn.

Ef litið er til ummæla stjórnar VFLA, sem fjölmiðlamenn og spjallþáttakonungar spila ítrekað, þá er ekki hægt að skilja þau á annan hátt en svo að það hafi verið forseti ASÍ og samningamenn allra annarra stéttarfélaga innan ASÍ, stéttarfélaga sem eru með yfir 95% félagsmanna aðildarfélaga ASÍ, sem hafi sagt í Karphúsinu, „Nú er nóg komið af þessum launahækkunartilboðum, alls ekki meira. Takk fyrir og réttið okkur pennana til þess að undirrita.“

Það liggur fyrir að samningamenn allra aðildarfélaga ASÍ hafa allt frá því í september haldið fjölmarga félagsfundi, auk þess að standa fyrir skoðanakönnunum meðal sinna félagsmanna, þannig að samningamenn þessara stéttarfélaga hafa haft fullt umboð til þess að ganga þá leið sem farinn var, og það er síðan félagsmannanna að taka afstöðu til niðurstöðunnar.

En svo kemur stjórn VFLA enn eina ferðina og segist vita betur hvað félagsmenn allra hinna stéttarfélaganna í landinu vilji og krefst þess að samningamenn viðkomandi stéttarfélaga gangi gegn samþykktri eigin stefnu!!

Hvernig stendur á því að stjórn VFLA dró ekki samningsumboð sitt til baka og snéri síðan spjótum sínum að Samtökum atvinnurekenda og krafðist þeirra launahækkana sem það telur sig hafa í hendi?

Ítrekað reyna formaður og stjórn VFLA enn eina ferðina að koma ábyrgð á eigin afglöpum yfir á önnur stéttarfélög. En við öllum blasir sú staðreynd að VFLA treystir sér ekki sjálft til þess, ef svo væri hefðu þeir dregið samningsumboðið tilbaka.

Í félagslegu samstarfi er það meirihlutinn sem ákveður og maður verður einfaldlega að lúta þeirri niðurstöðu, það er að segja ef maður ætlar sér að vera áfram í félagslegu samstarfi.

Fjölmiðlar í eigu tiltekins hóps hagsmunaðila í samfélaginu og meðal atvinnurekenda, berjast af öllum krafti gegn því að tekið verði í alvöru á vandanum og vilja viðhalda möguleikanum til reglulegra gengisfellinga þegar vandanum er "blóðsúthellingalaust velt yfir á launamenn“ svo vitnað sé til helsta hugmyndasmiðs þessarar stefnu. Hégómagirnd nytsamra sakleysingja er nýtt til fullnustu.

Samtök atvinnurekenda verða því alltaf stikkfrí í þessari umræðu, í boði hinar VFLA, sem líklega er harðasti andstæðingur launamanna á Íslandi þessa dagana. Spjallþáttakonungar reyna hins vegar að telja okkur í trú um að þar fari baráttumenn.

Staðan í dag er nákvæmlega sú sama og hún var í nóvember og desember 1989, sem gat af sér Þjóðarsáttarsamningana, sem leiddi til mesta kaupmáttarauka sem dunið hefur á launamönnum hér á landi. Áratuginn eftir það var hins vega samið um 12% launahækkanir, en áratuginn á undan hafði verið samið um 2.700% launahækkanir með heimsmetum í verkföllum og flest fyrirtæki landinu voru kominn að fótum fram ásamt flestum heimilum þessa lands.

Það hefur komið fram að tiltekin fyrirtæki hafa enn einu sinni hafnað þeirri stefnu sem meirihluti stéttarfélaga ASÍ og ráðandi hóps innan SA ætla að fara og er að vinna sér svigrúm til þess að ná þangað. Gegn því er barist og fjölmiðlamönnum og spjallþáttakonungum beitt af öllu afli og þeir spila á hégómagirnd hinna nytsömu sakleysingja.

 

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Aldeilis frábær greining - að venju.

Kristinn Þór

Nafnlaus sagði...

Lýðskrumið felst í að fara aldrei sjálfur fram og leiða samningana til lykta á sínu samningssvæði. Að fela sig á bakvið aðra og bera sök á samstarfsmenn en þora ekki að taka slaginn er ekki lengur trúverðugt. Mjög góð greining