laugardagur, 7. desember 2013

Burt með ESB áróðurinn


Þingmenn sjálfstæðismanna virðast vera lippast undan kröfu LÍÚ og ráðherra Framsóknarflokksins um að koma í veg fyrir að landsmenn fái að segja álit sitt á hugsanlegum samningum við ESB og þá um leið samþykktir flokksþings Sjálfstæðismanna.

Þeim er að takast þessa dagana að koma í veg fyrir aðlögun að regluverki og stofnanakerfi ESB með milljarða fjáraustri frá Brussel. Slíkar mútur frá Evrópusambandinu geri að engu vonir um að hér fari fram lýðræðisleg og hlutlæg umræða um kosti og galla aðildar. Áframhaldandi aðlögunarferli sé gróf ögrun við lýðræði í landinu.

Aðlögunarferli Íslands að regluverki og stofnanakerfi ESB hófst árið 1994 með aðild okkar að EES samningunum og er talið um 70% af því sé lokið. Aðlögunin heldur nú samt sem áður fram vegna samninga sem Ísland hefur gert um samstarf milli Evrópulanda.

Þetta er samstarf við þjóðir sem kaupa um 80% af útflutning okkar telja núverandi ráðamenn þjóðarinnar vera grófa ögrun við lýðræði í landinu. Ráðamenn virðast ætla að fórna þessum viðskiptum í baráttu sinni að halda þeim tökum á íslensku samfélagi sem þeir hafa náð.

Þessir milljarðarnir hafa streymt hingað frá Brussel. Íslensk sveitarfélög, félagasamtök, bændur, nýsköpunarfyrirtæki, opinberar stofnanir og óteljandi vísindamenn og listamenn hafa verið að taka við peningum frá ESB án þess að roðna eða blána. 7. rannsóknaáætlun ESB, Almannavarnaáætlun, Daphne III - gegn ofbeldi á konum og börnum, Evrópa unga fólksins, eTwinning - rafrænt skólasamstarf, Progress - jafnréttis- og vinnumálaáætlun, MEDIA Kvikmynda-, sjónvarps- og margmiðlunaráætlun ESB, Menningaráætlun ESB og Menntaáætlun ESB eru dæmi um þau nöfn sem ESB gefur lítt dulbúnum mútugreiðslum sínum.

Þá má ekki má gleyma öllum þeim þúsundum ungmenna sem hafa verið að fara til lengri eða skemmri dvalar í Evrópusambandslöndum í gegnum ERASMUS námsmannaskiptin.


Í þingræðu 24. janúar í fyrra sagði Gunnar Bragi Sveinsson sem nú er utanríkisráðherra : „Þeir styrkir sem um er að ræða eru vitanlega ætlaðir til þess að byggja hér upp og auka trú á að Evrópusambandið sé komið til að vera og komið til þess að laga hér allt sem hægt er að laga á þessu blessaða landi okkar. Það er ekki eðlilegt. Það getur ekki verið eðlilegt að við tökum við fjármunum frá ríki sem við erum að semja við. Við erum væntanlega að semja við þessi ríkjasambönd eða hvað á eiginlega að kalla þetta fyrirbæri. Og þau koma með peninga til okkar. Það er miklu eðlilegra að allar breytingar sem þurfa að verða ef af samningi verður komi eftir á og þá peningarnir. Þetta eru ekkert annað en glerperlur og eldvatn sem er verið að bera hérna fram.“

 Og í þinginu 18. júní í fyrra sagði hann: „Ég er algjörlega á móti því að Ísland þiggi þessa styrki frá Evrópusambandinu. Ég tel að Ísland eigi að vera í vegferð sinni á eigin forsendum, ekki upp á einhverja bitlinga frá Evrópusambandinu sem rekur hér harðan og ósvífinn áróður að mínu viti sem er ekki sannur og réttur og hefur til þess tæki eins og Evrópustofu.“

Textinn talar sínu máli. Utanríkisráðherrann var harður andstæðingur þess að IPA-styrkirnir yrðu greiddir, en íslenskar stofnanir fara á mis við milljarða króna vegna ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar.

Í yfirlýsingu sem Gunnar Bragi, nú orðinn utanríkisráðherra, sendi frá sér í vikunni segir m.a: „Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar kemur Íslendingum í opna skjöldu.“

„Utanríkisráðuneytið hefur komið óánægju íslenskra stjórnvalda með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar á framfæri og telur utanríkisráðherra að með henni bregðist ESB þeim fjölmörgu samstarfsaðilum sem það hefur gert samninga við.
„...Er þessi ákvörðun  framkvæmdastjórnarinnar mjög óheppileg.“

 

Núverandi stjórnvöld óttast ekkert meir en að almenningur hér gæti séð hag sínum betur borgið í baráttunni við að koma í veg fyrir reglubundnar gengisfellingar með ofurvöxtum og verðtryggingu og eignaupptöku útflutningsfyrirtækjanna og um leið að komast undan ofríki þeirra sem hafa öll tök á landinu hinna.

Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill fá að sjá aðildarsamning sýnir vitanlega hversu vel ESB hefur orðið ágengt í áróðursstarfi sínu. Þjóðin er að mati valdhafanna engan vegin fær um það lengur að ræða þetta mál á hlutlægan hátt, hvað þá að greiða um það atkvæði.

Lýðræðinu er þannig að mati valdhafanna best borgið með því að koma í veg fyrir að lýðurinn fái að ráða.

Það gerðu valdhafarnir við vilja afgerandi meirihluta þjóðarinnar þegar hún vildi nýja stjórnaskrá sem reyndar skerti verulega völd þeirra sem telja sig vera sjálfkjörna handhafa allra hlutabréfanna í lýðveldinu Íslandi.

 

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvers vegna höldum við bara ekki atkvæðagreiðslu um þetta. Ríkisstjórnin þarf ekkert að koma nálægt henni. Hún getur verið netkosning sem ábyrgðarfullir menn halda.
Fólk hefur gefið vinnu sína í ýmislegt.

Benni sagði...

Því miður er ég hræddur um að okkur verði þröngvað í ESB með mútum eða hótunum.
Þrátt fyrir hundruðir miljóna eða jafnvel nokkra miljarða sem ESB hefur lagt undir, er meirihluti þjóðarinnar á móti aðild. Hvað segir það okkur?
Eitt til umhugsunar. Trúir nokkur því að landsbyggðarfólk samþykkti að allt ákvarðanavald yrði fært til Reykjavíkur?

Guðmundur sagði...

Í fyrsta lagi þá skil ég ekki hvernig þú færð það út að það sé verið að færa valdið til Reykjavíkur, það er einkennileg fullyrðinng svo ekki sé meira sagt.

ESB hefur ekki lagt nokkurn skapaðan hlut undir til þess að koma Íslandi inn í ESB.

ESB tók á móti umsókn okkar og fer síðan eftir settum reglum.

Þú ert að rugla saman EES samkomulaginu og aðlögun okkar að efnahagsvæðinu, en 80% viðskipta okkar fara þangað og landsbyggðin græðir þar mikið meir en Reykjavík.

80% þjóðarinnar vill sjá drög að samning áður en hún tekur afstöðu.

Það að ætlast til að þjóðin taki afstöðu áður en samningsdrög liggja fyrir, er sambærilegt og verkalýðsforystan leggi fyrir félagsmenn í dag hvort þeir vilji samþykkja væntanlegan kjarasamning, sem hugsanlega verður gerður eftir 2 - 3 mánuði, en engin veit hvað muni standa í honum.