sunnudagur, 25. apríl 2010

Nýtt lýðveldi

Átta mig ekki á afstöðu allmargra samborgara minna, þá sérstaklega þeirra sem studdu þá flokka sem stóðu að baki þeirra ríkisstjórna sem mótuðu efnahagstefnuna og sveifluna til ofurhægri. Þar var stefnan tekin á að einkavæða fyrirtæki í eigu almennings. Selja fjölskyldusilfrið svo lækka mætti skatta, sem leiddi til þess að skerða varð tryggingakerfið, lækka skerðingarmörk (voru látinn standa kyrr í krónutölu) og auka tekjutengingu í bótakerfinu. Það leiddi augljóslega til þess að þegar silfrið væri uppurið og þenslan að baki, myndu skattar ekki duga til þess að reka ríkisbáknið. Þeir sem höfðu mikið umleikis myndu hafa það enn betra.

Verkalýðshreyfingin mótmælti þessu kröftuglega ásamt nokkrum hagfræðingum í Háskólanum. Lögð voru fram gögn sem sýndu svo ekki var um villst hvert stefndi, en meirihluti þjóðarinnar valdi frekar hægri leiðinu og endurkaus þessa stjórnarstefnu. Þannig virkar lýðræðið. Þingmenn og talsmenn þáverandi ríkisstjórna fóru hamförum gegn þessum gögnum, þrætubókarlistinni var beitt til hins ýtrasta.

Það er ríkisvaldið sem ákvarðar hvernig almenna tryggingakerfið er rekið og Alþingi sem staðfestir þær ákvarðanir. Ekki verkalýðshreyfingin, en hún mómælti árangurslaust ásamt nokkrum háskólaprófessorum og fékk heldur ekki stuðning, og þjóðin endurkaus þá flokka sem stóðu að þessari stefnu.

Á tímum mikillar þenslu og góðrar stöðu á vinnumarkaði náðist að hækka sérstaklega í hverjum kjarasamningum á fætur öðrum lægstu laun. Í þeim samtökum sem ég stjórna tókst að hækka lægstu taxta 46% umfram umsamdar almennar launahækkanir það sem af er þessari öld. Árin 2006 og 2007 voru meðallaun íslenskra rafiðnaðarmanna með þeim hæstu sem voru á norðurlöndum, hærri en í Svíþjóð og Finnlandi, en svipuð og þau voru í Danmörku og Noregi og kaupmáttur hafði hækkað um 4 - 5% árlega. Meðalheildarlaun hér heima voru þau hæstu á norðurlöndum, en við unnum 46 klst. vinnuviku, eða 6 klst. lengri en á hinum norðurlöndunum.

Verkalýðshreyfingin benti ítrekað á gengi krónunnar væri fallvalt og í mörgum pistlum, ályktunum og fleiru var því komið kyrfilega á framfæri að taka yrði það vald frá stjórnvöldum að geta leiðrétt „blóðsúthellingalaust of góða kjarasamninga með gengisfellingu krónunnar“ svo ég noti orðalag þingmanna hægrimanna og fulltrúa þeirra í stjórn Seðlabankans. Þeir sem stjórnuðu vildu ekki hlusta á andmæli snéru út úr og lögðu fram meðaltöl byggð á margra ára gömlum skýrslum. "Allir hafa það svo gott undir okkar stjórn. Þeir sem ekki skilja Íslenska efnahagsundrið sem við höfum skapað eiga að fara í endurhæfingu." Og þau voru endurkosin. Þannig virkar lýðræðið.

Það eru réttkjörinn stjórnvöld sem ákvarða peningastefnuna og meirihlutinn vildi ekki ræða breytingar á henni.

Undir þessari stefnu óx bankakerfið, öllum stóðu lán til boða, fólk var hvatt til þess að framkvæma og fjárfesta. Þeir sem bentu á að þetta myndi ekki standast til langframa og þessi velgegni væri fallvölt, voru hæddir og flokkaðir sem neikvæðir öfundarmenn. Meirihlutinn dásamaði Íslenska efnahagsundrið sem leiddi til að allir höfðu það svo „gott?!“. Þeir sem stóðu þar fremstir í flokki fyrir þessari stefnu fengu tugmilljóna kr. styrki til þess að kynna sig og flokka sína og voru endurkosnir.

Spilling mældist ekki vegna þess að það skortir lög og reglur til þess að marka hvað mátti og hvað ekki má. Engin áhugi var á að setja þannig reglur, það myndi skerða frelsið sem hægrið vildi. Þannig virkar íslensk samfélag og meirihlutinn endurkaus ítrekað þessa stefnu.

Á grundvelli framansagðs er harla einkennilegt að vera gert að sitja undir svívirðingum og ásökunum frá fólki sem ég veit að kaus og studdi þessa stefnu og sendi okkur ú forystu stéttarfélaga tóninni fyrir úrtölustefnu. Það er ekki hægt annað en að efast um að allir mótmælendur séu þess umkomnir að fella þá dóma sem fram eru settir. Það sakar verkalýðshreyfinguna um að bætur séu slakar.

Verkalýðshreyfingin mótmælti en ríkisvaldið hlustaði ekki og fékk til þess stuðning kjósenda, stuðning þeirra sem mótmæla nú og áfella verkalýðshreyfinguna. Menn verða að hafa dug í sér til þess að horfast í augu við eigin ákvarðanir og afleiðingar gjörða sinna, það er grundvöllur þess að hægt sé að ná sér upp úr þessum táradal.

Nú er kvartað undan því að laun séu lág. Það er gengisfall krónunnar sem veldur því og á meðan við höfum hana erum við dæmd til þess að vera láglaunasvæði, á meðan stjórnmálamenn eru að leiðrétta slaka efnahagstjórn sýna og timburmenn eftir ofsafengnar framkvæmdir byggðum á kosningaloforðum. Á þetta hef ég bent pistil eftir pistil á undanförnum árum.

Forsenda þess að við komumst upp úr þessum dal að sökudólgarnir svari til saka og fjárglæframennirnir sæti refsingu, ásamt því að stjórnmálamenn og valdamiklir embættismenn sem stóðu ekki undir ábyrgð segi af sér. En umræðan og ákvarðanatakan verður að vera yfirveguð. Lýðskrumið hefur verið við völd á Alþingi og það verður að stoppa.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis staðfestir að spillingin hefur verið yfirgengileg og þjóðin treystir ekki stjórnmálamönnum, Alþingi, ríkisstjórn og eftirlitstofnunum hins opinbera. Það var ríkið sem brást almenning. Það verður ekki haldið lengra á sömu braut. Það hefur orðið siðrof og það verður að leggja nýjan grunn. Brýnt er að kjósa stjórnlagaþing sem allra fyrst og semja nýja stjórnarskrá. Eins fram kemur hér framar vildu ráðherrar það ekki, því þá myndu þeir missa völd. Koma verður brennuvörgunum af staðnum og stofna nýtt lýðveldi með nýrri stjórnarskrá.

4 ummæli:

Blár sagði...

Sæll Guðmundur.
Á miðstjórnarfundi framsóknar árið 2004 sem haldin var um fjölmiðlafrumvarpið gagnrýndi ég harkalega tekjuskattslækkun, vsk lækkun, afnám hátekjuskatts og fleiri arfavitlausar ráðstafanir. Ég er hagfræðingur og fannst þetta út í hött í þennslu. Í stuttu máli þá hvarf ég hægt og hægt úr flokknum.
En - ég er líka mjög hugsi eins og þú hvort Þráin Bertelsson hafi í raun rétt fyrir sér um þetta hlutfall fábjána í samfélaginu þegar fólk er að kyssa á vöndinn og kjósa þessa flokka aftur.
kv
Björn

Sigurður Hr. Sigurðsson sagði...

Það var danakonungur sem afhenti Alþingi stjórnarskrá árið 1874. Í þá daga var konungurinn stjórnarskrárgjafinn. Nú höfum við engan konung til að "passa" okkur og þess vegna er þjóðin sjálf nú stjórnarskrárgjafinn.

Forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi um ráðgefandi stjórnlagaþing 12. nóvember 2009 þar sem gert er ráð fyrir að 25-31 fulltrúar verði kjörnir persónukjöri til að taka sæti á þinginu. Tilgreindir eru valdir þættir stjórnarskrárinnar sem stjórnlagaþinginu eru ætlaðir sem viðfangsefni, en Alþingi hyggst að því loknu sjálft taka niðurstöður þingsins til hefðbundinnar meðferðar (sic.) Að vísu situr frumvarpið enn í frosti hjá allsherjarnefnd ásamt 2 frumvörpum um persónukjör og 2 frumvörpum um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Margir hafa gagnrýnt þessa nálgun harðlega og óttast að útkoman verði vart nema til málamynda. Um er að ræða eins konar „mini-Alþingi“ sem starfi á svipuðum nótum með nefndarfyrirkomulagi. Lítið sé lagt upp úr aðkomu almennings að þinginu en því meiri hætta á að stjórnmálaflokkar og hagsmunasamtök ráði þar mestu.

Þess vegna hefur hópur áhugamanna og sérfræðinga hafist handa við undirbúning stjórnlagaþings á gjörólíkum forsendum. Þar er um að ræða „Sjálfsprottið stjórnlagaþing“ þar sem gengið er út frá því að vilji þjóðarinnar endurspeglist í nýrri stjórnarskrá. Þrjú meginmarkmið eru lögð til grundvallar:

* Að samin verði ný stjórnarskrá frá grunni fremur en að gera endurbætur á þeirri gömlu
* Á stjórnlagaþingi sé að finna þverskurð Íslendinga, eða því sem næst
* Tillögur að nýrri stjórnarskrá verði bornar undir þjóðaratkvæði að lokinni kynningu

Ekkert af þessum skilyrðum er að finna í frumvarpinu um hið ráðgefandi stjórnlagaþing hæstvirts forsætisráðherra og ríkisstjórnar. Þess vegna verður fólk sjálft að bretta upp ermar og taka þátt í stjórhreingerningu á sviði stjórnkerfis og siðferðis líkt og á hamfarasvæðinu við Eyjafjallajökul.

Unknown sagði...

Er ekki rétt að segja að stjórnarskrá sé einhveskonar hugmyndafræðilegur grunvöllur (jafnvel forsenda) þess samfélags sem byggir viðkomandi þjóðríki? Íslendinga hefur vantað nýja stjórnarskrá frá 1944. Ef að hrunið fær okkur ekki til að taka til í stjórnskipuninni þá gerir það ekkert.

Nafnlaus sagði...

Þú ert að berja þér á brjóst fyrir að hafa knúið fram gríðarlegar launahækkanir í mestu þennslunni.

Það var varla sniðugt? Þú hefur þá náð að ýta verulega undir verðbólguna!