Við hjónin erum búinn að vera í fríi síðustu viku hér suður á Spáni. Löngu fyrirfram ákveðið vegna sérstakrar uppákomu og fjölskyldur okkar sameinuðust um að láta einn draum okkar verða að veruleika. Hef því fylgst með umræðunni heima í ákveðinni fjarlægð, nettenging ekki upp á það besta og reyndar upptekinn við annað. En óneitanlega hefur gosið og svo eftirköst birtingar Skýrslunnar valdið því að maður hefur fylgst með þróun mála með allnokkurri forvitni. Við erum hér um 60 íslendingar og málin rædd ítarlega.
Það hefur tíðkast í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, að pólitískt kjörnir fulltrúar og ekki síst ráðherrum er gert að axla ábyrgð gjörðum sínum. Hér á landi þvertaka ráðherrar fyrir að bera ábyrgð á nokkrum hlut. Beita fyrir sig þrætubókarlist, alloft barnalegri svo ekki sé nú meira sagt. Verður þó aldrei dæmt annað en fullkomið ábyrðgarleysi af hálfu formanns Sjálfstæðismanna að lýsa því yfir að hann sé harðákveðinn í því að sitja áfram.
Í sjálfu sér má telja þetta eðlilega ákvörðun, þar sem ábyrgð (-arleysi) virðist ekki hafa nein áhrif á kjörfylgi, alla vega í þeim stjórnmálaflokki sem hefur verið leiðandi í stefnumótun undanfarna áratugi. Hvers vegna ættu ráðherrar og þingmenn þessa flokks að velta slíku fyrir sér? En nú liggur fyrir ítarleg skýrsla, þar sem glögglega kemur fram að það samfélag sem þessir menn hafa búið okkur er gerspillt og gegnumrotið. Það sem meira er að það var þingheimur sem bað um þessa skýrslu og hann getur ekki vikið sér undan henni og hlýtur að verða að taka afleiðingum hennar.
Efnahagslíf landsins er í rústum, atvinnulausir einstaklingar nálgast tuttugu þúsund, tugþúsundir heimila gjaldþrota og atvinnulífið að verslast upp. Landinu hefur verið stjórnað af getulausum tækifærissinnum, sem hafa látið stjórnast af græðgi og blindri valdabaráttu. Samt neita þeir að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna. Undir stjórn þessa fólks og reyndar einnig eftir að þeir komust í stjórnarandstöðu er búið að mála Ísland út í horn meðal nágrannalanda okkar. Fáir vilja eiga fjármálaleg samskipti við landið nema í gegnum AGS og þá með mjög háum vöxtum sem atvinnulífið ræður ekki við og tefur alla uppbyggingu.
Forsvarsmenn þessarar þróunar hafa á undanförnum árum þvertekið fyrir alla umræðu og þá gagnrýni sem sett var fram. Þeir hafa beitt fyrir sig hæðni og þrætum, jafnvel þó þær hafi verið ítarlega rökstuddar með skýrslum og könnunum. Alkunn eru þau vinnubrögð sjálfstæðismanna að bera fyrir sig allskonar meðaltöl, og skýrslur sem jafnvel voru allmargra ára gamlar.
Hér má t.d. vísa til viðbragða sjálfstæðismanna við ábendingum um hvernig þróun bóta- og skattkerfisins og stjórnsýslunnar var í þeirra höndum. Eða svo maður tali nú ekki um viðbrögð þeirra við Hruninu. Þar sem því var og hefur verið haldið fram að það hafi verið erlendum aðilum að kenna og göllum í regluverki EES. Þessi viðbrögð upplýstu okkur um fávisku þeirra í peninga- og hagstjórn, en samt voru þeir ítrekað endurkjörnir.
Nú virðist stjórn Sjálfstæðisflokksins vilja halda áfram á þessari braut og þrætubókarlistinni beitt. Í sjálfu sér er ekkert um það að segja, flokksstjórnin ræður vitanlega því hvernig tekið er á innri málum. En það er verra að þetta virðist ekki hafa áhrif á fylgi hans og völd. Ég hef oft bent á hversu einkennilegt það sé, að stjórn flokksins og þingmenn hans eru í allt annarri vegferð en t.d. forsvarsmenn helstu fyrirtækja og samtaka launamanna á almennum markaði. Það rímar í raun alls ekki við það sem flokkurinn gefur sig út fyrir að vera.
Ég hef einnig margoft fjallað um hversu einkennilegt það sé þegar þingmenn og ráðherrar senda forsvarsmönnum atvinnulífsins tóninn, svo maður tali nú ekki um þann þóttafulla hroka þegar þingmenn og ráðherrar segjast þekkja betur vilja félagsmanna en starfsmenn stéttarfélaganna, og þvertaka á grundvelli þess að ræða nokkrar umbætur. Stjórnmálamenn lokaðir inn í þröngri veröld Já-manna, heimóttalegir, þjakaðir af ofsóknarsýki og einagnraðir frá samfélaginu. Forsvarsmenn atvinnulífsins settu fram á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins gagnmerka framtíðarsýn ásamt punktum um samskipti við önnur lönd. Þessu var hent út í horn án umræðu og hlustað frekar á ræðu fyrrverandi formanns og þáverandi Seðlabankastjóra. Það var sök annarra að hann hafði klúðrað málum og pólitískar ofsóknir almennings að krefjast þess að hann axlaði ábyrgð.
Lykillinn að endurreisninni er að gengist verði við ábyrgð á mistökum, þannig að hægt sé að endurbyggja nýtt samfélag. Menn verða að hafa dug og getu til þess að horfast í augu við eigin mistök. Í aðdraganda Hrunsins bentu aðilar vinnumarkaðsins ítrekað á að ekki verði gengið lengra á þessari braut, skipta yrði um gjaldmiðil og peningastjórn.
Launamönnum hefur undir þessari efnahagsstjórn ítrekað verið gert að taka á sig lækkun launa og kaupmáttar eftir mistök. Forsvarsmenn efnahagsþróunarinnar hafa án þess að roðna réttlætt mistök sín með blóðsúthellingalausri gengislækkun, og enn ótrúlegra að 32% þjóðarinnar endurkjósi þann flokk sem finnst kinnroðalaust sjálfsögð eignaupptaka hjá almennum launamönnum til fárra eignamanna.
Þó svo forsvarsmenn flokksins og allnokkur hluti þingmanna hans séu rúnir trausti og bendlaðir við alvarlegar fjármálabrellur þá á að halda óbreyttri stefnu og nú á að beita fyrir sig lagakrókum og brellum til þess að komast hjá umræðu. Það er við almenning í landinu að sakast að þessir menn verði að víkja, ekki þeirra eigin gjörðum.
Hvar í veruleikanum eru íslendingar staddir?
5 ummæli:
Skeleggur að vanda, frábær pistill
Árni
"Hvar í veruleikanum eru íslendingar staddir?"
Við erum ekki í veruleikanum, við erum í draumalandinu og draumurinn er martröð.....vonandi vöknum við bráðum.
En ef þetta er ekki draumur þá eigum við að styðja hreyfinguna í kröfum þeirra um afsagnir stjórnmálamanna og við eigum nú þegarað hætta að versla við græðgisrónana.
Vonandi fórst þú ekki utan með Iceland Express.
Getur þú upplýst okkur um það.
Verslar þí í Bónus eða ertu með síma frá Símanum eða Nova? Kaupir þú vörur sem fluttar eru inn af Samskipum.
Þetta eru spurningarnar.
Svörin eru að styðja Hreyfinguna og boycotta misyndismennina.
Góð grein.
Hvar er Ísland statt??
Einfalt svar.
Eins og skip sem er strandað í ofsaveðri og áhöfn og farþegar eru enn að þrasa hverjum þetta er að kenna. Aðilar halda að þetta sé botninn - en gera sér ekki grein fyrir því að skipið er að liðast í sundur - og björgun er í raun mikið kapphlaup við tímann,,,
Helstu leiðtogar ættbálka innan skipsins - ættu að vita hvert raunverulegt ástand skipsins er - en gera ekkert - þar sem það gæti skaðað skammtímafylgið - kjarkur þeirra er ekki meiri en það,,, eru þetta raunverulegu leiðtogar Íslands????
Það er hinsvegar leið til björgunar - sem er aukið samstarf við alþjóðasamfélagið og ESB til bjargar gjaldmiðlinum og traustinu. Þá leið má hinsvegar ekki ræða,, frekar en fyrir hrun,,, í þeim málum hefur ekkert breyst,,,
Hvað væri gert við þá forsvarsmenn slysavarnarfélaga - í stórslysi - ef þeir neituðu að ræða öruggustu og fljóstustu leiðina til björgunar? Svari hver fyrir sig.
Hvaða dóm fá slíkir aðilar síðar, ef í ljós kemur að þetta háttalang kann að kosa enn meiri hörmungar,,,,
Hvernig geta menn sem eru algerlega blindir í sinni trú á "flokkinn" og "foringjann" viðurkennt eitthvað annað en að þetta hafi bara verið óheppni, eða öðrum að kenna.
Það sem verst er Guðmundur eins og þú réttilega bendir á, þessi asnar eru alltaf kosnir aftur.
Vegna þess að við erum þjóð fábjána.
Við fáum nákvæmlega það sem við eigum skilið.
Bestu kveðjur
Einn atvinnulaus síðan fyrir hrun (er ekki í klíkunni)
Ég átta mig ekki á samhengi þess hvernig stjórnmálamenn standa sig og innkaup okkar Helenu eða með hvaða flugfélagi við fljúgum. Það er svo oft sem menn geta ekki haldið sig við umræðuefnið og þurfa að beina því annað.
En svona til upplýsinga þá verzlar mitt heimili dagvöru að langmestu leiti í Nettó og Krónunni og ég hef einu sinni stigið upp í Express flugvél það var fyrir um 4 - 5 árum síðan.
Annað vegna pósta um Rafiðnaðarskólann, þá var ekki stolið frá honum, það var stolið úr Eftirmenntunarsjóði rafeindavirkja og viðkamndi fékk dóm fyrir það, ég var ekki í stjórn þar, enda rafvirki.
Að minni kröfu vegna þjófnaðarásökunnar í minn garð var hver einasta færsla tengd mér skoðuð og ekkert athugavert fannst.
Enda er klárt mál að það hefði ekki verið liðið í Rafiðnaðarsambandinu.
En það er svo annað ef svo væri nú staðan að einn sé staðin að misferli, þá virðist það í huga sumra jafngilda sakaruppgjöf hjá öðrum sé litið til kostulegs málfutnings tiltekinna.
Skrifa ummæli