sunnudagur, 11. apríl 2010

Jákvæðar lausnir

Nú erum við búinn að eyða heilu ári í að rífast um Icesave og tafið með því nauðsynlegar aðgerðir til þess að koma atvinnulífinu í gang. Það liggur fyrir að allir halda að sér höndum í ákvarðanatöku um framkvæmdir og lántökur til fjárfestinga á meðan óvissan er til staðar. Fram hjá þessari staðreynd verður ekki litið, sama hversu harkalega stjórnarandstöðumenn og Ögmundur berja hausnum við steininn og ástunda þrætubókalistina.

Skýrslan verður birt á morgun og ástæða til þess að óttast að enn lendi umræðan í gryfju þrætubókarinnar og ekkert miði áfram. Það er nauðsynlegt að ljúka uppgjöri meðal þjóðarinnar við það sem gerðist og koma böndum á þá sem áttu þátt í ólöglegum athöfnum. Allt uppgjörið getur ekki farið alfarið fram í dómsölunum, þá er ég að tala um uppgjörið við þá stjórnmálamenn sem skópu það umhverfi sem fjárglæframennirnir þurftu til sinna athafna og reyndar undir miklum fagnaðarlátum þáverandi stjórnarþingamanna og forseta landsins. Það siðrof sem varð til í skjóli þeirra hugmyndafræði sem hér var við völd.

Það eru jákvæðar lausnir til, en við þurfum að skapa umhverfi til þess að komast af stað. Íslendingar geta byggt upp enn öflugri hátækniiðnað. Iðnað sem flytur lítið inn en mikið út. Verðmætasköpun hins velmenntaða íslenska vinnumarkaðar og hæfilegrar nýtingar orkunnar. Til lengri tíma verður að fá gjaldmiðil sem bíður upp á stöðugleika. Verðbólga verði það lág að vextir verði innan við 4,5% og verðtrygging afnuminn. Það þarf að skapa 20 þús. störf á næstu fjórum árum svo meðalatvinnuleysi íslensks vinnumarkaðar fari niður fyrir 5%. Ef það tekst munum við á árinu 2013 hafa endurheimt þau lífskjör sem við bjuggum við á síðasta ári.

Krónan hefur reynst okkur ákaflega dýrkeypt. Hún hefur stuðlað að miklum sveiflum vegna agalausrar hagstjórnar. Sveiflurnar hafa kallað á að meðaltali 3,5% hærri vexti en þeir þyrftu að vera og verðtryggingu. Nærtækasti kosturinn er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og láta reyna á hvert við komumst í slíkum viðræðum um forræði í auðlindamálum. Það eru nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort við eigum kost á ásættanlegri lausn.

Gildismat hefur breyst á undangengnum áratugum. Hógværð hefur vikið fyrir öðrum gildum. Græðgi hefur markað för og krafan hefur verið endalaus velgengni. Alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands er skuldsetning hugarfarsins þar sem vantrú ríkir á öllu sem viðkemur einkaframtaki. Hugarfarsbreytingu þarf ef atvinnulífið á að skapa 20 þúsund störf fyrir árið 2013. Það gerist ekki með því að fjölga störfum hjá ríkinu, það gerist í atvinnulífinu. Við eigum að leggja áherslu á að laða fram jákvæðni, áræðni og frumkvæði.

Þýðingarmesta verkefni okkar er að stuðla að víðtækri sátt um stöðugleika. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Helsti styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfari; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi. Við megum ekki missa þennan styrkleika niður.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð grein og greining
stefán benediktsson

Nafnlaus sagði...

Að venju góður og talað á skiljanlegu mannamáli.
KÞG

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur!

Ég kannski ekki sammála þér um Icesave, en ég þér sammála meira og minna allan tímann. Við þurfum að tala saman.

Með mjög góðri kveðju,

Guðbjörn Guðbjörnsson

(891 97 52)