fimmtudagur, 19. ágúst 2010

Undirbúningur komandi kjarasamninga

Nú er vinna við undirbúning kjarasamninga að hefjast, en eins og flestir vafalaust vita þá renna nær allir kjarasamningar út í lok nóvember. Nýlega hafa komið fram óskir frá ríkisstjórn og SA um að aðilar setjist niður og vinni að sameiginlegum þríhliða kjarasamning til þriggja ára.

Í gærkvöldi var fjölmennur fundur í forystu hinna 10 aðildarfélaga Rafiðnaðarsambandsins með forseta ASÍ þar sem þessi mál voru rædd. Fram komu efasemdir meðal rafiðnaðarmanna um hvort þetta væri framkvæmanlegt þá ekki síst vegna þess að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við alla þætti Stöðugleikasamningsins. Bæði SA og ASÍ hafi margoft kvartað undan því. Fram kom að Stöðugleikasáttmálinn hefði tryggt að umsamdar hækkanir kjarasamninga náðust og sú leið sem farin hefði verið hafi verið skynsamleg. Ef sú leið hefði ekki verið farin hefðu umsamdar hækkanir á lágmarkstöxtum glatast.

En rætt var um vanefndir ríkisstjórnar hvað varðar framkvæmdaþátt Stöðugleikasáttmálans, þar sem hafi ríkt kyrrstaða mánuðum saman. Ríkisstjórnin ræðir þessa dagana um minnkandi atvinnuleysi, en í raun sé það ekki rétt störfum hafi ekki fjölgað. Þar var bent á félagsskrá Rafiðnaðarsambandsins, það er rétt að skráð atvinnuleysi hefur verið lágt meðal rafiðnaðarmanna eða um 3 – 3,5%, en líta verður á að félagsmönnum hefur fækkað frá Hruni um 1.000 eða um 20%, það skiptist um það bil í helminga að menn hafi flutt erlendis eða farið í nám.

Fjöldi atvinnutilboða til íslenskra rafiðnaðarmanna hefur reglulega borist hingað og m.a. verið birt á heimasíðu RSÍ og eins í atvinnuauglýsingum dagblaða. Íslenskir rafiðnaðarmenn eru eftirsóttir vegna víðtækrar þekkingar og reynslu. Fyrir liggur að mjög stórir hópar eru með uppsagnarbréf sem taka gildi í október. Undirstöðuþættir eins og virkjanir sem búið er að samþykkja að reisa og nauðsynlegt að fara út í sama hvort álver verði byggð eða ekki hafa ekki farið af stað. Gagnaver og fleiri verkefni sem ríkisstjórnin hefur haldið á lofti hafa heldur ekki farið af stað.

Einnig má minna á kostulega afstöðu ríkisstjórnarinnar til Starfsendurhæfingarsjóðs þar er hefur allt verð svikið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Eins margítrekuð inngrip ríkisstjórnar í stofnanir sem snerta vinnumarkað eins og Vinnueftirlit og Vinnumálastofnun. Síðan Starfsendurhæfingarsjóður var settur á laggirnar hefur hann skilað ótrúlegum árangri í að koma fólki til aðstoðar við að koma fótunum undir sig aftur og eins hefur skráningum öryrkja fækkað umtalsvert. Starfsmenn RSÍ hafa orðið varir við ákaflega mikla ánægju með hið öfluga starf sem Starfsendurhæfingarsjóður hefur þegar skilað.

Einnig er óleyst hin gríðarlega mismunum á lífeyrismálum launamanna á almennum markaði og tiltekins hóps launamanna hjá hinu opinbera. Fyrir liggja ályktanir frá rafiðnaðarmönnum og fleiri samtökum innan ASÍ að það mál verði að leysa í komandi kjarasamningum.

En fyrst og síðast er það vitanlega kaupmáttur launamanna sem menn ræddu á fundinum. Áberandi þáttur í því þríhliða samstarfi sem Stöðugleikasáttmáli átti að endurspegla var vinna við að undirbúa uppbyggingu hagkerfisins til framtíðar um leið að koma atvinnulífinu af stað. Þar hafa stjórnmálamenn algjörlega gleymt sér í sínum venjubundnu átakastjórnmálum og bófahasar á Alþingi.

Bófahasarinn hefur einnig orðið til þess að stjórnmálamönnum hefur ekki tekist að leiða skuldauppgjör lána heimilanna til lykta. Afleiðingar þess að Icesavemálinu var ekki leitt til lykta blasa við í takmörkuðu fjármagni til uppbyggingar atvinnulífs, nema þá á okurvöxtum. Stjórnmálamenn hafa komið Íslandi í ruslflokk með hátterni sínu.

Kanna átti möguleika til þess að fá stöðugan gjaldmiðil og vinna sig frá þeim ofboðslegu sveiflum sem launamenn hafa orðið að sætta sig og rýrnum kaupmáttar sem því hefur fylgt. Hluti af því er könnun á því hvað Íslendingum stæði til boða innan ESB, þessu hafa stjórnmálamenn klúðrað með því að snúa þeim málum upp í venjubundið Morfísþras.

Á meðan krónan er við lýði skiptir það ekki miklu þó launamenn berji fram launahækkanir, stjórnmálamenn hafa reglulega nýtt örgjaldmiðilinn til þess að leiðrétta hagstjórnarmistök með því að fella „blóðsúthellingalaust“ of góða kjarasamninga launamanna eins og er að gerast þessa dagana. Það var eitt af meginmarkmiðum þríhliða samstarfs við gerð Stöðugleikasáttmála var að tryggja endalok þessa ferlis og tryggja varanlegri stöðugleika.

Öll fjölgun starfa meðal rafiðnaðarmanna á undanförnum tveim áratugum hefur átt sér stað hjá tæknifyrirtækjum, ekki í sjávarútvegi eða landbúnaði. Fram hefur komið hjá forsvarsmönnum þessara fyrirtækja að þeir sjái ekki framtíð með krónuna og utan ESB.

Að teknu tilliti til framantalins er ljóst að margt þarf að koma til ef rafiðnaðarmenn ganga til sameiginlegra þríhliða kjarasamninga. En það breytir ekki þeirri skoðun rafiðnaðarmanna að sameiginleg vinna stjórnmálamanna og aðila vinnumarkaðs sé raunsær möguleiki til þess að koma kaupmætti sem fyrst í svipað horf og hann var árið 2005. Allir viti í dag að það sem gerðist frá 2005 fram að Hruni hafi verið heimatilbúinn innistæðulaus froða og reikningurinn af henni hefur verið sendur til launamanna.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er um að gera að allir aðilar vinni saman. Enn mæli með að ein af kröfum ASÍ verða að samningur ESB um vinnustaði sem tekur á uppsögnum ofl verði samþykktur af rísstjórn svo að hann taki gildi
(man ekki hvað þessi samningur heitir). Svo væri gaman að vita hvernig hæðstiréttur dæmir í máli IAV og Álftanes, því að hérðasdómur dæmdi ÍAV í vil og sagði að um forsendu brestur væri í samningum um byggingu sundlaugar, þarmeð þarf Álftanes að greiða 112 miljónir í viðbót. Það ætti þá líka við um okkur sem tóku verðtryggðlán. Enn einsog staðan hjá okkur er í dag eru margir möguleikar og um að gera að fólk standi saman því án samstöðu verða engar framfarir. Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Það sem er brýnast er þó að láta verkalýðsleiðtoga fá lægstu launin hjá stéttunum sem þeir þykjast berjast fyrir, annars er ekkert að marka þá, enda nenna þeir ekkert að berjast fyrir launaþrælana ef þeir geta dúllað sér á ofurlaunum.

Guðmundur sagði...

Nafnlaus 15.14
Ég þekki nokkuð vel til í þessum bransa og þekki engan sem vinnur hjá stéttarfélgum sem er á ofurlaunum.

Ég er t.d. eins og margoft hefur komið fram hér með laun samkævmt einum kjarasamninga Rafiðnaðarsambandsins. Samkvæmt launkönnun er helmingur félgsmanna með hærri föst laun en ég og þriðjungur með hærri heildarlaun.

Einnig er það ekki ég sem ákvarða mín laun það gerir stjórn sambandsins.

Ef þú ert að vísa til launatímaritanna þá hef ég svarað þeirri endaleysu hér á síðunni.

Hvað varðar laun starfsmanna stéttarfélaga, þá er greinilegt að þú vilt lágmarka getu stéttarfélaga með því að bjóða upp á launakjör sem fáir myndu sætta sig við.

Og enn eitt það er ákaflega einkennilegt að bera saman strípaðan dagvinnutaxta sem engin hefur við heildarlaun

Reyndar bara ómerkilegt rugl sem þú ert að segja og þar má meðal annars vísa til þess sem fram kemur í texta þessa pistils.

Svo ég útskýri það þá fjallar þessi pistill um að verkalýðsfélögin hafa náð góðum kaupmætti með mikilli vinnu, en svo er það þurrkað út í einu vettvangi með gengisfellingu krónunnar.

T.d voru íslenskir rafiðnaðarmenn með næstmesta kaupmátt norrænna rafiðnaðamanna 2007, en eru í með þann lakasta. Það var ekki stéttarfélagið sem stóð að þeirri kauplækkun

Nafnlaus sagði...

Afar góð grein,

Forsenda endurreisnar er nýr gjaldmiðill. Mikilvægasta málið er því að hraða ESB ferlinu eins og kostur er og fá stuðning Seðlabanka Evrópu innan ERM2 þar til evra er tekin upp.

Þetta er grunnur að öllu öðru og að endurreisn sé möguleg. Að öðrum kosti eru frekari móðurharðindi af mannavöldum framundan.

Helstu burðarfyrirtæki Íslands geta heldur ekki fegnið lán á viðunandi kjörum erlendis nema með skýrri stefnu á nýjan gjaldmiðil. Þessi fyrirtæki eru í kapphlaupi við tímann, ella lenda þau í miklum vanda.

Nafnlaus sagði...

langar aðeins til að leggja orð í belg varðandi ofurlaun:

er ekki best í sem flestum greinum, þ.m.t. verkalýðsgeiranum að fá sem hæfast starfsfólk, og því að bjóða sem best launin????

ég segi alla veganna fyrir mína parta að ég vil ekki að sá sem berst fyrir mínum kjörum sé í því á lágmarkslaunum. Ég vil fá besta mögulega kandídatinn til að taka slaginn.

Kannski á kommentið frá 15:14 við um þá verkalýðsgaura sem gera ekki neitt, en þiggja samt há laun fyrir. Þar væri kannski ekki lausnin að lækka þá í lágmarkslaun, heldur að fá hæfa aðila til að sinna starfinu?

kv,
gunnar g